Árið 1997 var fyrrum barnastjarnan Christian Bale að byrja að fóta sig í fullorðinshlutverkum og lék þá í Metroland – þar sem hann lék raunar hálfa myndina upp fyrir sig í aldri. Myndin gerist nefnilega á tveimur tímasviðum – þegar hann er ungur uppreisnarseggur í París 1968 og svo sem ráðsettur fjölskyldufaðir í Bretlandi 1977, í úthverfinu sem myndin er skýrð eftir. Þannig að líklega er persónan 20 og 30 ára eða svo, eftir tímaskeiðum.
Þetta er ofboðslega breskt íhaldsstef; að hlaupa af sér hornin í frjálslyndu Evrópu, vitkast svo og þroskast og koma heim með skottið á milli lappana. Fara beint í pakkann, fara að skaffa, kaupa sér íbúð í úthverfi og kjósa sinn andlega Íhaldsflokk. Það er ennþá breskara að finna svo einhverja tylliástæðu til að réttlæta þessi svik gagnvart þínu gamla uppreisnarsjálfi – í þessu tilfelli með því að gera gamla félagann (sem kveikti aðeins gamla neistann aftur) að siðlausum bjálfa. Það breskasta af öllu er svo að vera ungur og uppreisnargjarn leikstjóri í kringum aldamótin sem virðist líklegur til að gjörbylta forminu – og fara svo að leikstýra Bond og álíka íhaldsdrasli (Sam Mendes, Danny Boyle og Christopher Nolan, ég er að horfa á ykkur).
Ég er vissulega alltof harður við Mendes, Boyle og Nolan núna, þeir kunna þetta alveg ennþá og þetta eru sjaldnast vondar myndir – en það er bara svo grátlegt að sjá mestu hæfileikamenn sinnar kynslóðar verða þægindunum og meðalmennskunni að bráð.
Og tilfinningar mínar gagnvart þessum leikstjórum er einmitt dálítið eins og gagnvart Metroland – ég elska myndina og hata til jafns. Elska hana fyrir stemmninguna sem hún byggir upp og hata hana fyrir ódýra og íhaldssama lausnina. Og það er nógu mikil einlægni í stemmningunni til að maður sannfærist um að þarna séu listamennirnir að meina þetta og jafnvel að reyna að réttlæta eigið sellout fyrir sjálfum sér, sína eigin andlausu úthverfatilveru. Þar sem Mark Knopfler er á fóninum flesta daga.
Það er einmitt Knopfler sem sér um tónlistina – en hún er þó ekki nema að litlu leyti eftir hann sjálfan – frumsamið titillagið og nokkrir Dire Straits slagarar. En svo notar hann klassíkera til að tákna hina frjálslyndu og siðspilltu París. Nánar tiltekið Django Reinhardt og svo elsku bestu Françoise Hardy. Auðvitað hafði ég heyrt í henni áður – en það var einhvern veginn þarna sem ég féll fyrir henni. Plottið í myndinni er að hann skilur franska kærustu eftir í París þegar hann kynnist breskri stelpu þar – en innst inni fannst mér sú huldumey sem hann var að svíkja frekar vera Hardy. Mark Knopfler er ágætur, en auðvitað vill maður frekar vera í veröld þar sem Françoise Hardy er spiluð í partíum. Breska kærastan er líka áhugaverðari en sú franska – en veröldin sem hún stendur fyrir er það ekki.
Lagið í myndinni var stærsti hittarinn hennar, Tous les garçons et les filles, lag sem Hardy hataði – sagði það einhvern tímann hafa verið samið á þremur klukkutímum með fjórum verstu tónlistarmönnum Parísar, en við Françoise verðum bara að vera ósammála um þetta. En það sem skiptir kannski mestu máli er að það er fátt franskara en þessar tvær raddir, hennar og Edith Piaf. Klisja máski, en fallegustu klisjur í heimi.
Einhvern veginn tafðist það samt að ég myndi sökkva mér í Hardy – en nokkrum árum seinna var ég staddur í plötubúð í Edinborg. Ég hafði heyrt eitthvað með Françoise Hardy nýlega, sem minnti mig á að ég þyrfti að finna plötu með henni – en svo var verið að spila Suzanne Vega í búðinni og þessi tónlist, sem hafði ekki gert neitt fyrir þrettán ára mig, heillaði 27 ára mig upp úr skónum. Þannig urðu Françoise og Suzanne hljóðrás sumarsins 2004. Þær renna saman, ég man ekki hvora þeirra ég var að hlusta á í lestinni til Dublin þegar pabbi hringdi og sagði að ég þyrfti að koma heim, því amma væri dáin. Amma fæddist í upphafi frostavetursins mikla, Françoise fæddist í loftárás við lok heimstyrjaldarinnar. Og núna eru þær amma bara að djamma saman einhvers staðar í Ísafjarðar-París handanheimanna.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd: Joost Evers / Anefo