Á lokadeginum á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary voru verðlaun minni dómnefndanna tilkynnt – nánar tiltekið verðlaun gagnrýnendasamtakanna FIPRESCI, verðlaun Europa Cinemas Label og verðlaun kirkjudómnefndarinnar – og Elskling eftir Lilju Ingólfsdóttur sópar þessu upp, vinnur þrefalt. Um kvöldið eru svo aðalverðlaunin og Helga Guren er valin besta leikkonan. Myndin sjálf fær sérstök dómnefndarverðlaun, í raun silfurverðlaunin, og er fyrsta myndin í sögu hátíðarinnar til að vinna heil fimm verðlaun.
Þetta kom ekki á óvart. Það kom mest á óvart að hún skyldi ekki vinna aðalverðlaunin – enda man ég aldrei eftir jafn löngu uppklappi eftir neina mynd í öll þau ellefu ár sem ég hef sótt þessa hátíð heim. Þúsund áhorfendur héldu endalaust áfram að klappa yfir norsku skilnaðardrama eftir norsk-íslenska leikstýru.
Áður en lengra er haldið er kannski rétt að gera grein fyrir hverra manna Lilja er. Hún er dóttir Ingólfs heitins Margeirssonar, mannsins sem virtist skrifa allar ævisögur sem komu út þegar ég var lítill, og Tone Myklebost sem hefur þýtt yfir 50 íslenskar bækur á norsku eftir höfunda á borð við Sjón, Jón Kalman, Einar Kárason, Einar Má, Auði Övu, Gerði Kristnýju, Gyrði og Laxness – og fékk nýlega fálkaorðuna fyrir þýðingar sínar. Lilja eyddi fyrsta áratug ævinnar til skiptis í Noregi og á Íslandi, en hefur síðan verið búsett í Noregi að mestu og lært kvikmyndagerð í London og Prag. Og eftir meira en 20 stuttmyndir er þetta fyrsta myndin í fullri lengd.
En það er erfitt að koma beint orðum að því hvað gerir myndina svona magnaða. Hún er létt og leikandi í byrjun. Við fáum rómantíkina þegar þau Maria og Sigmund eru að draga sig saman. Það er hún sem á frumkvæðið. Maria er óörugg og frökk um leið, einhver einkennileg blanda sem Helga Guren lætur ganga upp.
Síðan spólum við sjö ár og nokkur börn fram í tímann. Hamingjan virðist enn til staðar, en það er eitthvað farið að falla á hana. Við sjáum litlu hlutina hægt og rólega verða stóra, óyfirstíganlega. En við skynjum líka að það eru ákveðnir hlutir sem við sjáum ekki – af því Maria vill ekki sjá þá sjálf. Þetta er fyrst og fremst hennar saga, hennar ferðalag – og þegar á líður fer hún að átta sig betur á hversu djúpt þetta ristir allt saman. Þetta snýst um miklu meira en bara sambandið.
Hún reynist svo heppin að lenda á virkilega færum sálfræðingi sem virðist vita hvað hún er að gera, en hún hefði vissulega betur leitað til hennar miklu fyrr. Upp úr því kemur eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar; uppgjör hennar við móður sína. Þá áttar maður sig á því að trámað nær langt aftur. Þetta er tráma sem erfist og María veit að hún þarf að slíta keðjuna – keðju áfalla sem konur í ættinni hafa erft hver frá annarri.
Ég veit ekki alveg hvernig væri rétt að snara titlinum á íslensku. Elskan væri rökrétt þýðing – en enski titillinn, Loveable, fangar líka einhvern kjarna – það að vera verðug ástar. Það er fyrst og fremst það sem María þarf að sannfæra sjálfa sig um að hún sé.
En er einhverjum um að kenna? Myndin nær að dansa listilega eftir því þrönga einstigi. Bæði virðast eiga sinn þátt í hjónabandserfiðleikunum, en ekki síður bara lífið. Þetta virðist einfaldlega vera ómögulegt púsluspil, sérstaklega fyrir tvo listamenn sem bæði eru verktakar. Á meðan annar makinn hefur eitthvað að gera er hinn dæmdur til að vera heima og sjá um börn og buru – og það reynist vera hún, hún sem fær aldrei tækifæri til að elta sína eigin drauma, fær aldrei tíma – er fyrst og fremst alltaf þreytt. Síþreytt yfir heimi sem hefur logið að manni möguleikanum á ást og öðrum draumum – en um leið búið til kerfi sem virðist gera nánast ómögulegt að láta bæði rætast. Til þess eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum.
Það sem lætur myndina svo ganga upp er hárfín og athugul myndatakan, fínofinn textinn, prýðilegur leikur gervalls leikhópsins – og aðalleikkonan Helga Guren. Helga er stærsta tromp myndarinnar, algjör náttúrukrafur sem tekst auðveldlega að halda manni föngnum allan tímann, með andlit sem gerbreytist reglulega, jafnvel í sömu senu, eftir því sem tilfinningarnar flökta. Hún er algjört náttúruafl í þessu hlutverki – og á ansi magnaða senu undir laginu Mountaineers sem hin norska Susanne Sundfør syngur með hinum íslenska John Grant.
Helga fékk sem fyrr segir verðskulduð verðlaun sem besta aðalleikkonan. En bestu aðalleikararnir voru tveir; hollensku leikararnir Ton Kas og Guido Pollemans fyrir leik í myndinni Þrír dagar af fiski (Drie dagen vis). Og ég skil dómnefndina vel, ég hafði sjálfur ímyndað mér fyrir fram að hún gæti fengið leikaraverðlaunin, ef maður gæti bara valið á milli þeirra – þannig að þá er bara best að sleppa því að velja á milli og gefa þeim bara báðum einn krystalshnött á mann. Þeir leika feðga í myndinni. Kas leikur pabbann sem er fluttur til Portúgal á eftirlaunum og Pollemans leikur miðaldra soninn sem er í mjög óræðu harki og virðist ansi týndur í lífinu.
Pabbinn er í sinni árlegu læknisheimsókn til Niðurlanda, en hann er að íhuga að flytja það allt saman til Portúgals líka – og maður skynjar að sonurinn á mjög erfitt með það. Hann rígheldur í það haldreipi að það sé alla vega tryggt að pabbinn kíki heim einu sinni á ári. Myndin snýr hefðbundnum feðgamyndum á hvolf að því leytinu til að hér er það pabbinn sem flýr hreiðrið og sonurinn sem verður eftir – og persónuleikar þeirra fylgja ekki heldur forskriftinni. Oft er það sonurinn sem er sá lokaði og duli, á meðan pabbinn er sá sem er frekar að reyna að tala um tilfinningar – en um leið skynjar maður að það hafi tekið hann drjúgan tíma að komast á þennan stað. Þetta eru seinþroska karldýr að þessu leyti. Enda orða þeir aldrei þennan söknuð og allar þessar undirliggjandi og óuppgerðu tilfinningar – en þær gætu ekki verið augljósari á andlitunum þeirra og í öllu þeirra látbragði. Myndin fjallar í raun bara um þessa þrjá daga sem þeir eyða saman, fara í heimsókn til systurinnar og frænda og bæði læknis og tannlæknis, þvælast á milli staða. Og maður skynjar að bara nærveran sjálf er báðum dýrmæt þótt báðir þrái innst inni eitthvað meira. Og um leið hugsar maður að það styttist í íslenska mynd af þessu taginu, frá kynslóðinni sem á foreldra sem flúðu til Kanarí til að drýgja ellilífeyrinn.
En loks er komið að sigurmyndinni sjálfri. Mark Cousins er fastagestur á hátíðinni. Ég tók á sínum tíma viðtal við hann um The Eyes of Orson Welles, þegar hann sjálfur var í dómnefnd, og hafði áður séð Stockholm, My Love á þessari hátíð. Og það verður bara að segjast að báðar þessar myndir voru miklu betri en sigurmyndin hans í ár, A Sudden Glimpse to Deeper Things. Og sjálfur var ég jákvæðari en flestir sem ég hitti – og óhætt er að segja að sigurinn hafi komið flestum á óvart.
Cousins gerir esseyjumyndir og finnur ýmis tilbrigði í því formi. Hér fjallar hann um bresku myndlistarkonuna Wilhelminu Barns-Graham, eða Willy eins og hún var kölluð, og byrjar á að velta fyrir sér þessari öldruðu konu á nokkrum myndum, hver hún sé. Hann hvetur okkur til að líta nær, horfa fram hjá eigin fordómum.
Seinna sjáum við hana á yngri árum. Við sjáum myndlistina hennar og samferðarmenn og við heyrum eitthvað aðeins í listfræðingum sem eru á lífi. Cousins er flinkur að skapa líf í stillimyndum. Langmest eru þetta hugleiðingar hans sjálfs og efnið kannski eðli málsins samkvæmt rýrt. Þetta er listakona sem Cousins telur lengi hafa verið afskipta, sérstaklega á seinni hluta ævinnar, en á seinni árum hafi hún þó verið enduruppgötvuð að nokkru.
Hann rekur það hvernig gönguferð á Grindelwald-jökulinn í Sviss hafi ollið kaflaskilum á ævi hennar. Hún hafi eytt því sem eftir var ævinnar í að fanga litina og formin sem hún fann í jöklinum, kjarna þessa jökuls sem núna minnkar og minnkar. Þegar allir aðrir horfðu upp horfði hún niður á kjarna jökulsins, á efnið sem hann var úr. En þótt við reynum að horfa nær þá nær Cousins aldrei almennilega að kjarna þessarar merkilegu konu. Það er eins og það vanti betra efni eða betri nálgun eða jafnvel bara meira myndefni – enda 20 ár síðan Wilhelmina dó.
Svo fórum við í lokapartíið þar sem við hittum Lilju, Helgu og Mark – og auðvitað dómnefndina sem byrjaði partíið á að taka nokkur dansspor – og nú er ég búinn að sjá Sjón dansa við Geoffrey Rush. Einmitt svona eiga allar almennilegar kvikmyndahátíðir að enda. Ég segi ykkur svo betur frá því hvernig hún byrjaði í næsta pistli.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum 9. júlí 2024.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson