Hér heyrðum við byrjunina á kvikmyndinni Sans Soleil, þar sem sögumaður segir okkur af stúlkum á Íslandi sem bréfritari sagði vera táknmynd hamingjunnar. Þessar stúlkur voru í Vestmannaeyjum – nú fyrir fáeinum misserum voru þær leitaðar uppi í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2, en það er önnur saga. Ég ætla að segja ykkur aðeins betur af myndinni sjálfri, sem er líklega frægasta mynd Chris Marker, fransks leikstjóra sem er líkast til þekktasti leikstjóri svokallaðra esseyju-mynda í kvikmyndasögunni. Esseyju-myndir getur verið snúið að skilgreina, en til einföldunar þá eru þær oftast heimildamyndir þar sem hugleiðingar sögumanns spila saman með myndefni – og bæði orðin og myndirnar eru ákveðin hugleiðing frekar en að til staðar sé nokkur ákveðinn söguþráður.
Í San Soleil les leikkona bréf frá ljósmyndara á meðan myndavélin þvælist frá Íslandi til Japans og Gínea-Bissá með viðkomu í París, Grænhöfðaeyjum og San Fransisco. Já, esseyjumyndir eru nefnilega ósjaldan ferðasögur. Ljósmyndarinn er líkast til Marker sjálfur – en hann fær leikkonu til að lesa fyrir sig bréf sín, sem gerir sögumannsröddina framandi og seiðandi. Það er Alexandra Stewart sem les í ensku útgáfunni, en þær Florence Delay, Riyoko Ikeda og Charlotte Kerr í frönsku, japönsku og þýsku útgáfunni.
Og það vildi svo til að dag einn á nýliðinni kvikmyndahátíð í Karlovy Vary sá ég tvær myndir sem voru báðar óskilgetin afkvæmi Markers. Sú fyrri sérstaklega, hún hét Untitled og það má segja að þar verði skáldskapur Markers að veruleika. Austurríski leikstjórinn Michael Glawogger fór út í heim með það markmið að þvælast um í heilt ár og taka upp myndefni. Hann orðaði þetta svo: „Ég vil gefa sýn á heiminn sem getur aðeins komið í ljós ef maður er ekki að eltast við neitt ákveðið þema, án þess að dæma, með því einu að halda áfram stefnulaust. Að þvælast með ekkert plan annað en að fylgja eigin forvitni og innsæi.“
Hann þvældist um Balkanskagann, Ítalíu og Afríku – en eftir fjóra mánuði komst hann ekki lengra, hann dó nefnilega úr malaríu í Líberíu árið 2014. Klipparinn hans, hún Monika Willi, gafst þó ekki upp og kláraði myndina með því að klippa það efni sem Glawogger hafði tekið upp á þessum fjórum mánuðum – og sem texta notaði hún dagbókarfærslur og bloggfærslur sem leikstjórinn hafði skilið eftir.
Úr verður dáleiðandi og brotakennd bíómynd, stefnulaus vissulega, við þvælumst ítrekað á milli Evrópu og Afríku, sjáum stráka sparka bolta í Bosníu og sjáum svo krakka, stöku fullorðin og helling af kindum berjast um ruslið þegar því er sturtað á haugana einhvers staðar í Afríku. Þetta eru svipmyndir af lífi á hnettinum okkar í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar, svipmyndir sem eru í senn kunnuglegar og framandlegar. Manneskjan er kannski alls staðar svipuð en aðstæðurnar eru það svo sannarlega ekki.
Það er öllu meiri þráður hins vegar í nýjustu mynd Mark Cousins, Stockholm, My Love, sem við heyrðum hér brot úr. Cousins er þekktur kvikmyndasagnfræðingur – var með þætti um sögu kvikmyndanna á RÚV fyrir einum fjórum arum síðan – en hér er hann mættur með esseyjumynd sem er í raun leikin. Það er að segja, hér er ein leikkona, söngkonan Neneh Cherry í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki. Hennar hluti er skáldaður – allar tökurnar af Stokkhólmi eru hins vegar raunverulegar, og myndin að því leytinu til á mörkum skáldskapar og veruleika,
Þetta er ástarbréf til Stokkhólms, þar sem arkitektadóttirin talar til verkfræðingsins föður sins – og merkilegt nokk var pabbi Neneh Cherry einmitt verkfræðingur sem og tónlistarmaður. Hún þvælist um úthverfi rétt eins og miðbæinn, veltir fyrir sér hvernig hafi tekist til og hvernig líf hafi orðið til þarna, þetta er arkítektinn sem ljóðskáld. En svo kemur skáldskapurinn til sögunnar í formi fortíðar sem þarf að gera upp – enda fortíðin öll nátengd borginni sem ól hana. Borginni sem ól Neneh Cherry sjálfa líka.
En þótt öll eigum við okkur rætur getum við samt flest farið. Jafnvel þótt við eigum ekki efni á flugmiða getum við farið úr húsi. Nema auðvitað ef við erum draugar.
Þið munið kannski eftir vinsælustu mynd ársins 1990, Ghost, þar sem Patrick Swayze heitinn reyndi að ná sambandi við gömlu kærustuna eftir að hann kvaddi þetta jarðlíf. Þar var plottið að hann þurfti að finna eigin morðingja – og til þess naut hann aðstoðar miðilsins sem Whoopi Goldberg lék. Þetta var sumsé Hollywood-útgáfan af draugasögunni.
En tökum þessa hugmynd og strípum hana niður, sleppum plottinu og veltum því bara fyrir okkur hvað það þýðir að vera draugur – og þá erum við komin með A Ghost Story, fyrstu mynd Casey Affleck eftir óskarsverðlaunin í vor. Hér leikur hann á móti Rooney Mara – þau eru ástfangið par, altso þangað til Affleck deyr. Við sjáum hann svo á sjúkrahúsinu, lík undir laki – og það virðist teygjast furðulengi úr senunni. Erum við ekki búin að horfa nógu lengi á þetta lík undir þessu laki?
En svo stígur líkið upp, gengur af stað heim til sín, íklætt lakinu – sem er götótt, með tvö göt þar sem augun ættu að vera. Þetta er lúmskt mögnuð myndgerving á draugnum undir hvíta lakinu, beint úr líkhúsinu – og hann fer heim til sín, í húsið sitt – og reynir þar að ná sambandi við kærustuna. En Whoopi Goldberg er hvergi nærri í þetta skiptið, draugurinn nær engu sambandi og getur engu breytt. Draugurinn verður því eiginlega staðgengill áhorfandans – hann getur horft og séð allt, en hann getur ekki farið inní bíómyndina og faðmað persónurnar eða varað þær við eða talað við þær, hversu sárt sem hann þráir það. Svo flytur kærastan – en draugurinn verður eftir.
Þessi sérkennilegu örlög drauga að vera bundin húsi verður þannig þemað, fjölskyldur koma og fara – stundum hræðir draugurinn þær, það er eina sem hann getur – ef hann verður nógu reiður þá verða stundum læti – en hann nær aldrei merkingarbæru sambandi. Handan gluggans, í næsta húsi, bíður svo annar draugur. Hann er búinn að bíða svo lengi að hann man ekki lengur eftir hverju hann er að bíða.
Sjálf erum við svo farin að gleyma. Ég er of ungur til að muna stríð sjöunda og áttunda áratugarins, tvítugir krakkar samtímans muna ekki endilega stríð þess tíunda, ef þau hafa þá nokkurn tímann heyrt um þau. Íraksstríðið kannski, því það virðist alltaf halda áfram – en það fennir yfir helstu hildarleiki tíunda áratugarins, borgarastyrjaldirnar í gömlu Júgóslavíu og í Rúanda, einhverja mestu hildarleiki tuttugustu aldarinnar eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk.
Nema auðvitað hjá þeim sem lifðu stríðið – fyrir þau líkur því aldrei. Það voru myndir um bæði þessi stríð á Karlovy Vary hátíðinni. En samt ekki, stríðið er löngu búið. Núna fjalla myndirnar um trámað, um fólkið sem er fast í stríði sem er löngu búið.
Myndin Fuglasöngur í Kigali fjallar um pólskan fuglafræðing og konu frá Rúanda sem náðu að flýja Rúanda eftir stríð, en þó aldrei alveg. Þær fara til Póllands þar sem sú rúandíska fær hæli – en þær eru markaðar stríðinu og öllum þeim hörmungum sem þær upplifðu þar. Við vitum aldrei nákvæmlega hvað þær upplifðu, þótt um það séu ýmsar vísbendingar, en við vitum hvernig stríð eru – við höfum heyrt sögurnar, við getum getið í eyðurnar – ef við þorum.
Það eina sem við vitum er að þótt þær séu fjarri stríðinu þá fúnkera þær ekki í pólska friðnum. Þær geta ekki talað saman, hvað þá að þær geti talað við aðra, sem aldrei munu skilja til fulls það sem þær gengu í gegnum.
Í afskekktu fjallahóteli í Bosníu hittum við svo fyrir tug gamalla hermanna af öllum mögulegum þjóðernum sem enn hafa ekki náð sér eftir tuttugu ára gamalt stríð. Þeir eru þarna staddir á sjálfshjálparnámskeiði, króatar, serbar, bosníumenn – og einn slóveni, sem er sálfræðingurinn sem stjórnar hópnum. Stríðið var nefnilega bara í tíu daga í Slóveníu – það er því eðlilegt að Slóveninn sjái um að hjúkra hinum þjóðunum.
Myndin heitir Karlar gráta ekki – en þeir rífast og slást og drekka alltof mikið rakía í staðinn. Jú, og kannski gráta þeir smávegis líka. Þetta eru brotnir menn og meðferðin ýtir þeim hættulega nálægt brúninni – hún snýst um að láta þá leika aftur atburði úr stríðinu, það sem þeir geta ekki gleymt, það sem þeir geta ekki fyrirgefið sjálfum sér fyrir. Með því að leika þetta, með aðstoð hinna, er ætlunin að hjálpa öllum að setja sig bæði í eigin spor og spor óvinanna, að ná sáttum við sjálfa sig og aðra menn.
Stundum virðist þetta vera að takast, stundum stefnir í aðra borgarastyrjöld á þessu litla fjallahóteli. Við erum aldrei alveg viss – og stundum virðist eina lausnin vera að bíða eftir að þessi kynslóð hverfi og sú næsta taki við, kynslóðin sem ekki er mörkuð stríðinu nema úr sögubókum og endurminningum forfeðranna.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á Rás 1 þann 25. júlí. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 28.55 mínútur).