Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Þriðjudagsbíó

Skandinavísk dáleiðsla

Mig dreymdi einkennilegan draum þar sem Ruben Östlund-legur leikstjóri var á einhvern dularfullan hátt að leikstýra húsi – já, húsi – og þessi gjörningur hafði ansi óþægileg áhrif á alla sem ólust upp í húsinu, sem fannst ansi hart að fokkast upp af því að þurfa að búa í fokkdöpp listaverki. Gott ef það stefndi ekki í góð menningarátök þegar ég vaknaði.

Það var ekki flókið að ráða orsakir draumsins, kvöldið áður hafi ég séð afskaplega Östlundíska mynd eftir samlanda hans Ernst de Greer, Dáleiðslan (Hypnosen). Myndin fjallar um Veru og André, sænskt-norskt par sem eru líka viðskiptafélagar. Þau eru í nýsköpunarbransanum, eru að hanna app fyrir heilsu kvenna og eru að gera sig klár fyrir mikla söluráðstefnu, Shake Up, sem byrjar á hálfgerðum þjálfunarbúðum undir handleiðslu gúrúsins Julien.

André er pottþétta týpan, sem virðist vera með allt sitt á hreinu, og Vera er frekar hæglát kærasta. Hún er að reyna að hætta að reykja, sem hefur gengið bölvanlega – og ákveður af rælni að prófa dáleiðslu. En í tímanum þá sammælast hún og dáleiðarinn að reykingarnar séu ekki stóra vandamálið og í staðinn sannfærir dáleiðarinn Veru um að hún þurfi að kasta af sér bælingu æskunnar og finna sjálfa sig.

Sem byrjar ágætlega – til að byrja með birtist okkur opnari, líflegri og skemmtilegri Vera – þótt André sé skiljanlega hugsi yfir óvæntri persónuleikabreytingunni. En hægt og rólega fer hún að verða sífellt óútreiknanlegri – og um leið fer maður að hugsa, hversu æskilegt er manns sanna sjálf ef maður er óttalegur hálfviti innst inni?

Þessi fáláta stelpa fer nefnilega þegar á líður að sýna ákveðna búllítendensa – og maður hugsar: er þetta mögulega hluti af vopnabúri hrekkjusvínana, að skeyta engu um þau skráðu og óskráðu lög sem allir aðrir hegða sér eftir? Idið sem terróríserar öll súperegóin á skólalóðinni?

Ég veit það ekki, en einhvern veginn varð þessi angi myndarinnar miklu óþægilegri heldur en flestar óþægilegu uppákomurnar sem myndin gengur að vissu leyti út á.

Framan af hafði maður á tilfinningunni að þetta yrði öðrum þræði satíra á nýsköpunariðnaðinn og kapítalismann – en þótt köld myndatakan vinni með slík þemu og mann gruni að sú hugmynd hafi verið undirliggjandi, þá eru gúrúarnir og nýsköpunarfræðingarnir sem hér birtast í manneskjulegri kantinum – og gúrúinn Julien raunar á sinn hátt mesti prinsippmaðurinn í myndinni. Það situr þó eftir að þetta er heimur þar sem sannfærandi tilfinningar eru skiptimynt, þar sem miklu fleiri en listamenn þurfa að bera sál sína í nafni starfsframans – eða þykjast bera sál sína. Heimur þar sem allir eru annað hvort leikarar eða rosalega mikið þeir sjálfir.

Og það er heimur sem André kann ekki alveg nógu vel á, hann er passlega ferkantaður að eðlisfari – hefði mögulega náð langt í lífinu þegar þeir mannkostir voru meira metnir – en nýstárleg nálgun á viðskipti er honum í raun afskaplega framandi, þótt hann reyni að leika sitt hlutverk er hann afskaplega klaufalegur að lesa í allar félagslegar aðstæður, nánast eins og norskur Ricky Gervais. Það er líka einhver sögn undirliggjandi í myndinni um samskipti Norðurlandaþjóðanna. Leikstjórinn og margir í tökuliðinu lærðu sín kvikmyndafræði í Noregi og maður upplifir André oft sem norskan afdalastrák að fóta sig meðal frjálslyndu aristókratana í Svíþjóð, enda Norðmenn, rétt eins og Íslendingar og Finnar, nýrík þjóð sem er enn að venjast ríkidæminu sem gömlu herraveldin í Skandinavíu, Danmörk og Svíþjóð, taka sem sjálfsögðum hlut. Við það bætist að aðalleikkonan Asta Kamma August er úr einni mestu kúltúrfjölslyldu Norðurlanda – dóttir Pernillu og Bille og systir Ölbu (sem var frábær sem Unga Astrid). Aðalleikarinn Herbert Nordrum er líka kunnuglegur, hann var þriðja hjólið í ástarþríhyrningum í Versta manneskja í heimi, og það er sannarlega mynd sem kemur stundum upp í hugann líka – ástarævintýri skandínavískra ungmenna með silfurskeið í munni – og þótt það dragi myndina ekki jafn mikið niður og Verstu manneskjuna þá kemur það kannski engu að síður aðeins í veg fyrir alvöru samkennd með parinu, sem munu alltaf eiga þægilega fallhlíf á leiðinni niður, ef þarf.

Enda er það held ég ekki erindi myndarinnar. Erindið er að flækja mörkin á milli hins góða og vonda sanna sjálfs og kasta fram ótal óvæntum og um margt óþægilegum spurningum um hvaða sjálf við ættum að rækta.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson