En frá frönskum ástarferhyrningum yfir í norska ástarþríhyrninga, eins og þeir birtast í Verstu manneskju í heimi, Verdens verste menneske. Joachim Trier leikstýrir og skrifar handritið að venju með Eskil Vogt, sem er magnaður leikstjóri sjálfur, og fyrri myndir þeirra félaga hafa oftast borið með sér þyngri og dramatískari átök en þessi, rétt eins og Audiard eru þeir á átakaminni slóðum en þeir eru vanir.
Renate Reinsve var valin besta leikkonan á Cannes fyrir hlutverk Júlíu, sem er eldklár og sjálfsörugg en með valkvíða á efsta stigi, fer úr læknisfræði í sálfræði og í ljósmyndun og millilendir svo loks í bókabúð, sem reynist ágætis millilending á meðan hún ákveður hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór.
Valkvíðinn er ekki alveg jafn mikill þegar kemur að samböndum, en er þó til staðar og hún sveiflast á milli Aksels og Eivindar, sem endurspegla kannski hvor sína hlið persónuleika hennar. Menntunarmunur hennar og myndasöguhöfundarins Aksels skýrist fyrst og fremst með aldursmuninum, það er rúmur áratugur á milli þeirra, hann er búinn að finna sína hillu og sanna sig þar, hún er enn að reyna að finna hilluna. En maður efast eiginlega ekki um að á endanum verði hún jafnoki Aksels í þessum efnum og rúmlega það. Eivind er hins vegar jafn stefnulaus og jafn áhugalaus um framtíðarskuldbindingar og hún en er vissulega engan veginn andlegur jafnoki hennar.
Titill myndarinnar er þó dálítið gallaður. Það er aukapersóna sem segir þessa setningu um sjálfa sig; versta manneskja í heimi; en þótt Júlía sé vissulega sjálfselsk á köflum þá á það sama við um aðrar persónur og þessi sjálfselska verður aldrei neitt skelfileg, hún kæmist ekki einu sinni á lista yfir verstu manneskjurnar í sínu póstnúmeri.
Nema að titillinn ætti að vera í fleirtölu og eiga við þetta sívælandi millistéttarpakk sem maður upplifir þau stundum sem. Það er nefnilega veikleiki myndarinnar, hún virkar á köflum dálítið hol að innan, eins og þeir Trier og Vogt hafi ekki alveg náð að gifta léttleikann sínum hefðbunda alvarleika.
Myndin er leikandi fyndin oft og kvikmyndagerðin tilraunakennd á eftirminnilegan hátt; í einu löngu atriði frýs tíminn, bókstaflega, og Júlía getur loksins notið sín án þess að það sé verið að reka á eftir henni, og í annarri senu sést eitt eftirmminnilegasta sveppatripp sem maður hefur séð í bíó. Það er bravör og áhugaverðir loftfimleikar í kvikmyndagerðinni sem vantar kannski aðeins í söguna sjálfa.
Myndin er kannski ekkert ógurlega löng en hún er kaflaskipt, mjög bókstaflega. Kaflarnir eru tólf, eða í raun fjórtán þegar formáli og eftirmáli bætast við, sem á ágætlega vel við aðalpersónu sem veður úr einu í annað.
En þótt manni leiðist aldrei þá er það á lokakaflanum sem myndin virklega nær flugi, í 11. og 12. kafla, þegar harmurinn brestur á og lífið verður ekki umflúið mikið lengur. Í þeirri lægð nær myndin sínum hæstu hæðum. Og þá fær Aksel líka sínar bestu línur en það er Anders Danielsen Lie sem leikur Aksel. Hann er samverkamaður Triers til margra ára og hljómar jafnvel eins og hann tali í orðastað leikstjórans þegar hann rifjar upp hvernig hann „ólst upp þegar listin var eitthvað haldfast, gekk manna á milli sem hlutir, og við gátum búið innan um listina.“
Þessi fortíðarþrá er kannski líka ádeila á eigin mynd, minning um þá tíma þegar tveggja tíma sögum þurfti ekki að skipta upp í fjórtán auðmelta búta, áður en athyglisbresturinn margfaldaðist í okkur öllum og við skiptum meðallöngum bloggfærslum okkar upp í framhaldssögu fyrir Twitter. Þannig er kannski ekki tilviljun að brasilískur slagari, Waters of March, í flutningi Arts Garfunkel, sé hálfgert einkennislag myndarinnar, lag sem er ein löng upptalning, um heim kommunnar, þar sem stokkið er úr einu í annað.
Dómurinn var upphaflega hluti af pistli í Lestinni sem hlusta má á hér.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson