Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

RIFF, Þriðjudagsbíó

RIFF: Genetískt tráma og flóttamenn í Istanbúl, Ásbrú og París

RIFF er að bresta á – og smyglari er búinn að komast á nokkrar myndir nú þegar á útlenskum hátíðum er rétt að koma með nokkur meðmæli – og mun kinnroðalaust vitna í gamla pistla eftir sjálfan mig!

Í fyrsta lagi, þá er opnunarmyndin Elskling sannarlega frábær:

„Ég man ég aldrei eftir jafn löngu uppklappi eftir neina mynd í öll þau ellefu ár sem ég hef sótt þessa hátíð heim. Þúsund áhorfendur héldu endalaust áfram að klappa yfir norsku skilnaðardrama eftir norsk-íslenska leikstýru.

Það er erfitt að koma beint orðum að því hvað gerir myndina svona magnaða. Hún er létt og leikandi í byrjun. Við fáum rómantíkina þegar þau Maria og Sigmund eru að draga sig saman. Það er hún sem á frumkvæðið. Maria er óörugg og frökk um leið, einhver einkennileg blanda sem Helga Guren lætur ganga upp.

Síðan spólum við sjö ár og nokkur börn fram í tímann. Hamingjan virðist enn til staðar, en það er eitthvað farið að falla á hana. Við sjáum litlu hlutina hægt og rólega verða stóra, óyfirstíganlega. En við skynjum líka að það eru ákveðnir hlutir sem við sjáum ekki – af því Maria vill ekki sjá þá sjálf. Þetta er fyrst og fremst hennar saga, hennar ferðalag – og þegar á líður fer hún að átta sig betur á hversu djúpt þetta ristir allt saman. Þetta snýst um miklu meira en bara sambandið.

Hún reynist svo heppin að lenda á virkilega færum sálfræðingi sem virðist vita hvað hún er að gera, en hún hefði vissulega betur leitað til hennar miklu fyrr. Upp úr því kemur eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar; uppgjör hennar við móður sína. Þá áttar maður sig á því að trámað nær langt aftur. Þetta er tráma sem erfist og María veit að hún þarf að slíta keðjuna – keðju áfalla sem konur í ættinni hafa erft hver frá annarri.

En er einhverjum um að kenna? Myndin nær að dansa listilega eftir því þrönga einstigi. Bæði virðast eiga sinn þátt í hjónabandserfiðleikunum, en ekki síður bara lífið. Þetta virðist einfaldlega vera ómögulegt púsluspil, sérstaklega fyrir tvo listamenn sem bæði eru verktakar. Á meðan annar makinn hefur eitthvað að gera er hinn dæmdur til að vera heima og sjá um börn og buru – og það reynist vera hún, hún sem fær aldrei tækifæri til að elta sína eigin drauma, fær aldrei tíma – er fyrst og fremst alltaf þreytt. Síþreytt yfir heimi sem hefur logið að manni möguleikanum á ást og öðrum draumum – en um leið búið til kerfi sem virðist gera nánast ómögulegt að láta bæði rætast. Til þess eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum.

Það sem lætur myndina svo ganga upp er hárfín og athugul myndatakan, fínofinn textinn, prýðilegur leikur gervalls leikhópsins – og aðalleikkonan Helga Guren. Helga er stærsta tromp myndarinnar, algjör náttúrukrafur sem tekst auðveldlega að halda manni föngnum allan tímann, með andlit sem gerbreytist reglulega, jafnvel í sömu senu, eftir því sem tilfinningarnar flökta.“

(úr pistli í Tengivagninum)

Sagan um Souleymane er sömuleiðis mögnuð mynd, um óréttlætið sem við hummum fram af okkur:

„Ljúkum þessu svo á að franskri matargerð. Nánar tiltekið þeim anga matvælabransans sem stækkaði mest í kófinu í flestum borgum Evrópu; sendlafyrirtækin sem eru nú stundum með lengri raðir á veitingastöðum en venjulegir kúnnar og borga þessum sömu sendlum oft skelfilega lág laun.

Sagan um Souleymane (L’histoire de Souleymane) fjallar einfaldlega um einn slíkan sendil. Abou Sangare leikur Souleymane og var valinn besti leikarinn í Un Certain Regard flokknum í Cannes, en Souleymane er hælisleitanda frá Gíneu. Hann má ekki vinna og fær því sendlaleyfið í gegnum kunningja, sem tekur auðvitað sínar prósentur.

Þetta er í grunninn einföld saga en um leið hrá og sterk. Hún fjallar fyrst og fremst um hversdag Souleymane sem snýst einfaldlega um að lifa af, standast oft fjarstæðukenndar kröfur matsölustaðanna og kúnnana og ná síðustu rútunni í það fjarlæga úthverfi þar sem hann fær að halla höfði sínu það kvöldið, en hann þarf á hverjum einasta degi að hringja og panta þar bedda.

Um leið er hann að vinna í umsókn um dvalarleyfi – og fær margar misvísandi útgáfur af því hvernig er best að komast í gegnum það nálarauga kerfisins. Og það eru kannski helst tvær senur sem skera öðrum fremur í hjartað. Annars vegar þegar hann er svo heppinn að konan sem tekur viðtalið við hann hjá hinni frönsku útlendingastofnun virðist hjálpleg og skilningsrík – en maður veit samt nóg til þess að vita að þessi saga hans er aldrei að fara að sleppa í gegn, neyð hans er ekki nógu mikil.

Hitt er þegar hann talar í myndsíma við kærustuna sem varð eftir í Gíneu og er nú komin með nýjan vonbiðil, arkitekt nokkurn. Souleymane elskar hana enn þá, en hann veit einfaldlega að flestallir vonbiðlar geta boðið henni betra líf en hann, svo vonlausa skynjar hann eigin stöðu. Stöðu sem við á Vesturlöndum höfum búið til, stöðu þar sem við setjum sífellt fleiri í fullkomlega ómögulega stöðu og börmum okkur svo yfir að þau taki allar vinnurnar sem við viljum alls ekki vinna sjálf.“

(úr pistli í Tengivagninum)

Loks ber að nefna Crossing, sænska en þó aðallega georgíska og tyrkneska mynd – leikstjórinn Levan Akin er sænskur, en af georgískum ættum og að einhverju leyti með rætur í Tyrklandi líka. Myndin hefst í Georgíu en gerist svo að mestu leyti í Istanbúl. Levan Akin gerði áður And Then We Danced, um georgískan dansflokk, sem er einfaldlega einhver besta mynd síðustu ára – og þótt þessi sé ekki alveg jafn mögnuð er hún samt djöfull góð. Það er eitthvað ofboðslega fallegt og mannlegt við kvikmyndagerð Akin og Mzia Arabuli er stórkostleg sem miðaldra frænkan, sem leitar af frænku sinni með stefnulausan unglingspilt með í för, Achi, sem hálfgert platar hana til að taka sig með.

Þau koma inní heim kynskiptinga og hinsegin fólks í Istanbúl í leit að týndri frænku – og þessi mynd snýst eiginlega um dans kynslóðanna, já, og það hvað Istanbúl er göldrótt borg, mig langar bara þangað aftur eftir að ég kom út úr salnum.

Svo er vitaskuld eitthvað af eldri myndum sem maður hefur séð þarna, auðvitað engin betri en Paris, Texas, sú göldróttu mynd, með einhverri eftirminnilegustu játningarsenu kvikmyndanna – en líka bara þessum göldróttu hægu eyðimerkurtökum. Svo verður fágætt tækifæri til að sjá Draugasögu og Tilbury eftir Viðar Víkingsson í bílabíó.

Blue Boy er eina stuttmyndin sem ég hef séð, prýðileg mynd um strák í bláum vinnugalla, en það að fá nasaþefinn af næstu kynslóð í gegnum stuttmyndirnar er alltaf einn af hápunktum RIFF. Svo er mynd þarna sem ég sá brot úr á Skjaldborg, þar var hún sýnd sem verk í vinnslu – og ég held það hafi verið nokkuð óumdeilt að af mörgum lofandi verkum þar virkaði hún langmest spennandi. Þetta var Tímabundið skjól eftir Anastasiia Bortuali, mynd um lífið hjá úkraínskum flóttamönnum á Ásbrú, sem var svo frumsýnd nýlega á kvikmyndahátíðinni í Toronto.

Svo er auðvitað hellingur af myndum sem maður er spenntur fyrir, sérstaklega sigurmyndin frá Feneyjum, The Room Next Door, frumraun Pedro Almodóvars á ensku, með þeim Julianne Moore og Tildu Swinton, sem virka samt eitthvað svo ótrúlega Almodóvarlegar leikkonur. Já, og Tilsammans 99 eftir Lukas Moodyson, enda var fyrri myndin æði.

En það er auðvitað ekki bara góðar myndir á kvikmyndahátíðum. Dahomey, sigurmyndin á Berlinale, er þarna líka, og það var einfaldlega skandall að hún skyldi vinna nokkurn skapaðan hlut – í raun bara eins og hraðsoðin sjónvarpsheimildamynd, og Trans Memoria var forvitnilegt upplegg fyrir heimildamynd, sem vissi ekki alveg hvað hún átti að vera.

En svo hvet ég ykkur auðvitað öll til að sjá The Substance – sem ég hataði mjög mikið, samanber þennan pistil – en mig hlakkar til að hafa fleiri til að rífast um hana við.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson