Og svo dönsuðum við. And Then We Danced. Og fundum ástina og týndum henni og var hent út úr danshópnum og fórum að vinna á markaði eða lögðumst í drykkju og smáglæpi, en alltaf var amman okkar, babúskan okkar, til staðar með sitt hlýja bros þótt heimurinn væri harður og jafnvel á heljarþröm og stundum alls ekki svo hlýr.
Byrjum aftur: And Then We Danced er sænsk-georgísk kvikmynd um dans, samkynhneigð og kynslóðabilið. Leikstjórinn Levad Akin er sænskur en ættaður frá Georgíu, eða nánar tiltekið frá georgísku þjóðarbroti í Tyrklandi. En myndin er öll tekin í Georgíu, þar sem íhaldsmenn og þjóðernissinnar mótmæltu sýningunni.
Þetta eru samt bara staðreyndir. Byrjum aftur: And Then We Danced er einfaldlega einhver fallegasta, mjúkasta, harðasta, orkumesta og yndislegasta bíómynd sem ég hef séð í langan, langan tíma. Ef þið finnið hana ekki á netinu skuluð þið skrifa bréf til lókal bíóhússins ykkar og grátbiðja þá um að taka hana til sýninga þegar bíóhús veraldarinnar opna á ný.
Myndin fjallar um dansarana Merab og Irakli sem eru keppinautar á borði en elskendur í laumi, Mary, dansfélaga Merab sem virðist óviss um hvort samband hennar og Merabs sé bara vinasamband eða verðandi ástarsamband, og bróður Merabs, David, sem stöku sinnum dansar en er þó uppteknari við drykkjuskap og smáglæpi. Hún fjallar líka um mömmur og ömmur og stöku pabba og íhaldssaman og strangan danskennara.
Þetta er saga þar sem engum virðist skapað að eigast og íhaldssamt þjóðfélag bannar heilbrigðar ástir og draumarnir gufa upp, samanber bróðurinn og foreldrana sem lifa núna í sárri fátækt, en öll voru þau eitt sinn upprennandi dansarar. Með öðrum orðum, þetta hljómar skelfing þunglyndislegt á pappír.

Ekkert gæti samt verið fjær sanni. Þetta er mynd sem ólgandi af lífsorku og gleði og nautn og kraftmiklum dansi og guðdómlegri tónlist.
Danskennarinn er harður og vill að nemendur hans séu það líka, áður en maður veit að Merab sé hommi þá er alveg ljóst að hann er mjúkur dansari – krafa danskennarans um að vera harður sem nagli og hreyfa sig eins og myndastytta er algjörlega absúrd í hans tilfelli. Og þeirra flestra raunar, þetta eru mest ungir krakkar sem, líkt og flestir dansarar heimsins, eru einmitt stimamjúk og kunna fátt betur en að hreyfa sig mjúklega. Þau eru ekki enn komin í aðal þjóðdanshóp Georgíu – og þangað komast þau varla nema þau leyfi kennaranum að berja alla mýktina úr sér. Kennaranum sem þylur yfir þeim að georgískur dans sé karlmannlegur og þar sé ekkert pláss fyrir kynlíf – yfir nemandahópi sem ólgar af kynorku. Á göngunum er svo hvíslað um frægan dansara sem hætti nýlega – að sögn var honum sparkað eftir að fréttir bárust af honum með karlmanni í sýningarferð í Tyrklandi.

Þannig birtist okkur ólgandi æska Georgíu, tiltölulega vestræn og frjálslynd í háttum að mestu, og íhaldssöm eldri kynslóð sem elskar ekkert meira en úreltar hefðir. Eða svo virðist í fyrstu. En svo áttum við á okkur að eldri kynslóðin er ekki síður frjálslynd, babúsku-ömmurnar og pabbinn sem vinnur á basarnum eru glaðlynt og frjálslynt fólk – það eru fyrst og fremst eldri kynslóðin sem hefur völd sem eru harðlínu-íhaldsseggir, fátækur pöpullinn vill bara reyna að vera hamingjusamur í friði, hvernig sem það er hægt.

Þau vandræði sem skaða samband þeirra reynast heldur ekki hommafóbían, heldur blankheit og veikindi aldraðra foreldra. Með öðrum orðum, vandræði hinna fátæku sem geta ekki alltaf ráðið lífi sínu á sama hátt og þeir betur stæðu, hver sem gildi þjóðfélagsins kunna að vera.
En það sem er smitandi er orkan og gleðin í kvikmyndagerðinni, sem og ástin á landinu, hefðunum og fólkinu (þótt ákveðnar fornaldarhefðir séu gagnrýndar). Þetta er engin helvítis Georgía, þvert á móti er þetta yndislega, fallega, gleðiríka og litríka Georgía sem mann langar helst að heimsækja um leið og heimurinn opnar aftur.

Öll kvikmyndagerðin er líka hreint út sagt stórkostleg. Hér er ekkert shaky cam, enda shaky cam venjulega bara til marks um að hendur skjálfa og hristast, ólíkt mannsauganu sem nær að vera stöðugt við ótrúlegustu aðstæður.
Nei, þetta er dancecam, myndavélin svífur einhvern veginn um, í kringum leikarana – það er ekki nóg með að leikararnir séu flestir vanir dansarar – það er eins og allt starfsliðið hafi einfaldlega verið léttfættir og dýnamískir dansarar sem svífa um gólfið, myndatökumenn og klipparar og allir aðrir, rétt eins og leikararnir. Þannig skapast einhver magnaðasti galdur sem maður hefur séð lengi í bíó, þar sem myndavélin fangar liti og sól og náttúru og gömul en ægifögur georgísk hús, en ekki síður andlit full af löngun og þrá.

Þetta er mynd um allt sem sóttkvíin og félagslega fjarlægðin bannar okkur, um dans og snertingu og að anda sama loftinu og hrífast af sama sólarlaginu saman.
Leikhópurinn er sömuleiðis frábær. Bachi Valishvili er óvenjulegur en sannfærandi sem ástmögurinn veraldarvani Irakli, Ana Javakishvili yndisleg sem Ana, sem þarf að gleyma eigin vonbrigðum og vera Merab góð vinkona á erfiðum tímum, og eftir að hafa eytt megninu af myndinni í bakgrunninum þá fær Giorgi Tsereteli eina fallegustu senu myndarinnar sem huggandi ólansbróðirinn David.
En þetta er engu að síður myndin hans Levan Gelbakhiani, sem leikur Merab. Mann langar helst að sjá hann sem georgískan Köngulóarmann, hann hefur andlitið, karakterinn og fimina í það – en fyrst og fremst er þetta einfaldlega frábær leikari, þótt hann sé aðeins lærður sem dansari. Þetta opna andlit, fullt af forvitni, og maður sér alltaf nákvæmlega hvernig honum líður. Maður er með honum allan tímann, í gegnum allan tilfinningaskalann, líka þegar hann er hálfviti. Þegar hann rembist við að dansa með meiddan ökkla og þegar hann stígur slíkan hetjudans í lykilatriði myndarinnar að það slær auðveldlega út allar Rocky-bardagasenur kvikmyndanna, þær verða flestar bara hlægilegar í samanburðinum.

Loks er hér að finna eitthvað besta tónlistarval í bíómynd í langan, langan tíma. Georgísk þjóðlagatónlist, georgískt popp og alþjóðlegt popp blandast hér listilega vel saman þar sem hver nóta smellpassar. Að lokum ætla ég að skilja ykkur eftir með þetta magnaða myndband; lagið er í myndinni en að mestu leyti eru leikararnir þarna í sínum eigin hversdagsfötum á tökustað – og stöku sinnum í búning án þess þó að vera að leika, að bíða eftir næsta atriði. Horfið og dansið, þetta er formlega ráðlagður dansskammtur í samkomubanninu!
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson