Formáli:
Kris Kristofferson dó síðustu helgi. Um það leyti sem ég var að undirbúa fyrirlestur fyrir ritlistarnám þar sem ég prófa sum meðulin á sjálfum mér. Og eitt af þeim var að semja upp úr lagi – og auðvitað varð þá Kris fyrir laginu – en lagið átti að vera óvænt, eitthvað sem ég þekkti ekki fyrir – og því tók ég einfaldlega fyrsta lagið eftir Kris sem ég fann á Youtube sem ég þekkti ekki, hlustaði á fyrsta erindið og skrifaði framhald.
Ég fór niður og keypti sígarettur hjá þeim gamla í sjoppunni. Hann er tvöfalt eldri en ég en á dögum sem þessum ímynda ég mér alltaf að hann hugsi að ég eigi eftir að kveðja á undan honum.
En ég skal sko sýna honum, ég er með plan … það er verst að á svona dögum man ég ekki alveg hvernig þetta plan er, set það í hólf í hausnum sem verður ekki opnað fyrr en á morgun. Eða hinn.
Skyrtan sem ég keypti í Sovétinu heldur á mér hita, þótt bráðum þurfi stakkur bróðir og trefill frændi að koma út úr skápnum. Hún hét Aino, stelpan í fatabúðinni í Tallinn. Hún talaði ekki mikla ensku en kenndi mér eistneskt þjóðlag á gítarinn og söng með, djókaði með að ég væri þarna í boði CIA, hippafötin hið fullkomna dulargervi. Ég ímynda mér alltaf að pabbi hennar eða afi hafi átt skyrtuna, hafi jafnvel notað hana í stríðinu. Ég er sovéskur hermaður á óvinalandi, gagnnjósnari að kaupa sígarettur í þynnkunni.
(og einhvern veginn varð svo annað óbeint framhald af þessu, ort inní nútímann og njósnarinn bara rússneskur)
Kæri Vladimir, Tékkarnir eru undarlegur þjóðflokkur. Þeir eru duglegri að fara á barinn eftir vinnu en við – já, fyrir utan Klaustursliða kannski, hó hó hó, en þurrari um helgar. Því þá fara þeir allir í bústað með krökkunum. Arfleifð frá kommúnismanum, þar sem menn máttu ekki sanka að sér auð, en máttu eiga hóflegt húsnæði – og þar með töldust sumarbústaðir, þannig að auðvitað eiga allir og amma þeirra sumarbústað.
Sem þýðir að við þurfum að meta þetta, annað hvort gera árás á fimmtudagskvöldi, þegar þeir eru þreyttir og slompaðir, eða um helgi, þegar það eru mest bara grandalausir túristar og útlendingar í bænum. Og Úkraínumenn, sem halda hjólum atvinnulífsins gangandi … afsakið, kæri Vladimír, úkraínsku afæturnar og föðurlandssvikararnir. Við vitum að þeir geta verið erfiðir. Þeir kunna líka oftast rússnesku, og eru hættulegir gagnnjósnarar.
Ég hef komist að því að Úkraínubúar séu ansi fjölmennir í láglaunastörfum. Nánast allir ríkisbubbarnir sem ég þekki hérna eru með úkraínska skúringakonu. Líklega er þetta besti undirbúningurinn fyrir innrásina. Skref 1: Ég held partí á hverju kvöldi, svo ég geti pantað úkraínska skúringakonu á hverjum degi. Reyni að komast að öllum þeirra leyndarmálum. Og leyndarmálum Tékkana, sem þær þrífa skítinn upp eftir. Það er svo góður undirbúningur fyrir skref 2: Senda inn herdeild af rússneskum skúringakonum sem kunna úkraínsku og tékknesku. Þær verða fljótar að komast að öllum þeim leyndarmálum sem við þurfum að vita fyrir innrásina.
þinn,
Andreii
Ég loka umslaginu, titra þegar ég man hvað ég sagði Vladimír ekki, frá úkraínsku stelpunni sem ég lenti á trúnó með á barnum og sagði mér allt um það að þessi klisja með úkraínumenn og láglaunastörf væri blekkjandi, þetta fólk kæmi einfaldlega frá hálfgerðu Biblíubelti Úkraínu, svæði þar sem menntun var lítil og þetta fólk endaði oftast í láglaunastörfum, hvort sem var í Kænugarði eða Prag. En með stríðinu kæmi menntafólkið, áhrifafólkið, fólkið sem kunni að koma sér áfram í lífinu. Þegar ég rifja þetta upp þá sé ég af hverju við náðum svona vel saman – hún er augljóslega gagnnjósnari, hvern þremilinn ætli ég hafi misst út úr mér við hana á áttunda vodkasnafsinum okkar?
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson