Kæri Ásgeir, hvernig minnist maður eiginlega góðs vinar? Hvað getur maður skrifað um þann sem reyndist manni alltaf sem klettur? Hvernig má maður reyna að kjarna slíka vináttu án þess að fara út af sporinu?
Ósjálfráð viðbrögð kalla á að senda þér slíkar spurningar áður en hausinn bendir vinsamlega á að þú sért ekki lengur hér. Þú varst á meðal þeirra sem lásu það mikilvægasta yfir fyrir mig, kenndir mér að slípa eigin rödd og hjálpaðir mér að finna rétta tóninn. Nú ertu farinn og skarðið sem eftir stendur er hyldjúpt. Minningarnar streyma þó fram af sama frumkrafti og vinátta okkar gerði allt frá fyrstu kynnum.
Dreifarar á mölinni
Árið er 2009 og ég er 25 ára, þú 33. Við erum staddir í ljóðakúrsi hjá Sigurði Pálssyni heitnum þegar við komumst að því að við eigum ýmislegt sameiginlegt þrátt fyrir nokkurn aldursmun. Við erum dreifarar á mölinni sem elskum fátt meira en að flakka um heiminn, óþægir blaðamenn sem hafa nýlega eldað grátt silfur við ritstjóra sína á DV og Morgunblaðinu. Nú á ljóðið hug okkar allan og það er auðvitað bene, bene. Við tökum okkar fyrstu skref í ljóðaupplestrum á ljóðakvöldum Nýhil á Næsta bar, Bakkusi og öðrum búllum. Samræðurnar sem fylgja eru fullar af ástríðu fyrir flakkinu, listinni, mennskunni og öllu því sem máli skiptir.

Eitt það fyrsta sem ég tek eftir í fari þínu er hvernig þú hlustar af meiri áfergju en nokkur annar; þú hlustar með augunum sem glitra af svo einlægri forvitni að það væri vonlaust að gera sér hana upp. Við sitjum tímunum saman og ræðum ferðalögin sem höfðu snert okkur svo djúpt, Asíu, Balkanskagann og Austur-Evrópu. Litlu einstöku atvikin, galdrana í hversdeginum, hversdagslegan harminn og ekki síður fegurðina sem er alltumlykjandi ef maður leyfir sér bara að fylgjast með. Og hvernig best sé að fanga þetta allt saman í ljóði, skáldsögu eða stuttmynd og hvort okkur sé það yfirleitt gerlegt? Mér verður hugsað til einnar fyrstu ljóðlínunnar í Grimmum ævintýrum í þessu samhengi og finnst sem þú gætir allt eins hafa þulið hana upp fyrir mig á Næsta bar rétt fyrir lokun:
Við þurfum að yrkja heiminn upp á nýtt. Gera hið ljóta fallegt, hið klunnalega og kuldalega ljóðrænt, finna takt okkar tíma og búa til okkar eigin músík.
Lauflétt sambúð
Árið er 2010 og ég er í leit að nýjum samastað þegar þú opnar dyrnar fyrir „litla kalli“ á Laufásveginum, hvar þú hefur komið þér fyrir í lítilli kjallaraíbúð. Enn einni vaktinni á Bóksölunni lokið og þú hlammar þér niður í hægindastólinn umvafinn troðfullum bókaskápum og DVD-rekkum. Vinnudeginum þó hvergi nærri lokið, því nú fyrst má hefjast handa við að sinna öllu því sem mestu máli skiptir. Þú gluggar í nýútkomna bók með diet kók í hönd á milli þess sem þú leggur nokkur vitur orð í belg misviturra spjallþráða. Því næst hristir þú menningarpistil fram úr erminni sem er kominn inn á Kistuna rétt fyrir miðnætti. Þá gefst loks tími til að hripa niður nokkrar ljóðlínur eða prósatexta. Jón, viltu rétta mér aðra diet kók, takk?
Hér er gott að vera, það er værð yfir heimilinu. Við erum örlítið fálmandi, í leit að rétta tóninum, og lesum oftar en ekki yfir ljóð hvors annars. Þú varar mig stundum við stælunum, og þó ég kunni að meta heiðarleikann frá mér reyndari penna, hlusta ég varla nema til hálfs líkt og ungum manni sæmir. Stundum, þegar mikið liggur við, köllumst við á. Ég heyri þig hrópa „bjútífúl“ úr næsta herbergi og hoppa yfir til þess eins að heyra nýjustu fregnir af uppreisnarhundinum í Aþenu eða annað í þeim dúr. Það kemur fyrir að við skömmumst yfir menningu og pólitík, rökræðum jafnvel dálítið, áður en léttleikinn tekur aftur yfir. Það er nefnilega yfirleitt lauflétt að vera nærri þér, Ásgeir, og það þó að þú sért svo mikið alvöru að manni finnist á stundum sem maður eigi vart roð í þig.
Svartþrestir á meginlandi
Tíminn líður og leiðir okkar sem meðleigjendur skilja einhvern tíma á milli útgáfu fyrstu ljóðabóka okkar, Grimmra ævintýra (Des 2010) og Lamba í Kambódíu (Nóv 2011). Ekkert fær hins vegar stöðvað samtalið sem heldur takti sínum í tölvupóstum, skilaboðum og vídjósamtölum á milli hittinga. Og þegar við svo hittumst á reykvískum miðbæjarbúllum þá lifnar yfir öllu. Vinir þínir eru vinir mínir og það fjölgar sífellt í hópnum. Samræðurnar á Ölstofunni herðast um stundarkorn eða þar til þú bendir á sjónarhorn sem öðrum hefur yfirsést með þitt einstaka og glaðhlakkalega glott á vör. Bene, bene og allt verður sem ljóð að nýju.

Árið er 2012 og þú ert Stóri Björn sem tekur utan um mig þegar mest liggur við. Árið er 2013 og ég finn að þú ert klettur sem haggast ekki, sama hvað á bjátar. En þetta er líka tíminn sem harkið er farið að taka sinn toll. Þú hættir á Bóksölunni til að taka að þér kennslustarf við Menntaskólann á Laugarvatni. Fjárhagslegt öryggi daglaunamanns kærkomið um stund en einangrunin er mikil og lítill sem enginn tími til þess að sinna eigin hugðarefnum. Framhaldsnám í ritlist við Southampton-háskóla opnar síðar leið til þess að ljúka við næsta ljóðahandrit sem þú svo gerir með útgáfu Framtíðarinnar árið 2015. Þarna erum við báðir komnir á meginlandið, þú til Tékklands og ég til Berlínar, og við hittumst í hópi vina og skálda á ljóðakvöldi á viskí-bar Pawlows í Kreuzberg-hverfinu í Berlín. Þú átt síðar eftir að lýsa barnum sem andlegum hústökubar í pistli sem þú ritar um breska ljóðskáldið Sean Bonney, en hann er á meðal þeirra sem les upp með okkur þetta kraftmikla kvöld. Andspyrnuskáld sem gustar af og eftirfarandi línur sitja lengi með þér:
ég hugsa um vini mína sem svartþresti
skrækjandi á húsþökum
myrtir af hækkandi leigu
Exarchia Kreuzberg Hackney
Himininn yfir Berlín
Tíminn líður hraðar. Árið er 2016 og þú dvelur hjá okkur Hlín í Wedding á meðan þú sækir Berlinale-kvikmyndahátíðina heim. Árið er 2017 og komur þínar á hátíðina eru farnar að boða vorkomu í okkar huga. Við eigum raunar síðar eftir að kalla þig vorboðann ljúfa í því samhengi, sem er sérstakt í ljósi þess að hátíðin fer jafnan fram í febrúar, en það getur vorað snemma í Berlín og svo er bara svo bjart yfir þér. Árið er 2018 og við Haukur Már Helgason erum farnir að fylgja þér eftir með myndavél. Það jafnast enda fátt við að fylgjast með smyglaranum í flauelsjakkanum á Berlinale. Þú ert í essinu þínu þegar þú færð passann og það geislar af þér þegar þú nikkar til gagnrýnenda sem þú kannast við. Alltaf á leiðinni á næstu sýningu, ef þú ert ekki þá þegar á leiðinni að taka annað viðtal, og svo er tekið á því á bíóbarnum eða í hátíðarpartíum með öðrum gagnrýnendum eftir það. Útvarpspistlar á RÚV og vandaðar umfjallanir á Menningarsmyglinu og í Stundinni fylgja á eftir og veita einstaka innsýn í margt af því mikilvægasta sem er að gerast í evrópskri kvikmyndagerð.
Og hér á ég einhverja eftirminnilegustu bíóupplifun lífs míns. Það er viðhafnarsýning á Himininn yfir Berlín eftir Wim Wenders í Kino International í gömlu Austur-Berlín og leikstjórinn er á svæðinu. Þetta er uppáhalds bíómyndin þín og galdrarnir smitast einhvernveginn þannig yfir í salinn að minningin af kvöldinu öllu og okkur sjálfum verður svarthvít eins og myndin sjálf. Þú spyrð (svarthvítan) Wenders hvað gamli maðurinn sem leitar í sífellu að Potzdamer Platz í myndinni myndi eiginlega segja um Potzdamer Platz núna og hann svarar á þá leið að „hann væri örugglega bara ennþá að leita.“ Stuttu síðar, rekumst við meira að segja nánast í flasið á (svarthvítum) Nick Cave á leiðinni út. Þvílíkir töfrar. Ógleymanleg stund!
Gastarbeiter í eigin landi
Þó að þú elskir að fara á kvikmyndahátíðir, og náir um leið að snapa þér einhverja smáaura fyrir pistla og greinar, þá ertu ekkert feiminn við að viðurkenna að þetta sé bölvað hark. Peningurinn dugar vart fyrir öðru en ferðalögum og uppihaldi, svo nauðsynlegt getur verið að þýða ryksugubæklinga eða eitthvað þaðan af verra þegar í harðbakkann slær. Það er sterk sögn í þessu óþrjótandi menningarsmygli þínu, eitthvað sem maður vildi helst sagt hafa um íslenska menningu og stöðu íslenskrar menningarblaðamennsku, en það getur verið erfitt fyrir að koma orðum að því án þess að verða eintóna.

Sem er eftilvill á meðal ástæðna þess að við Haukur Már byrjuðum að mynda þig þegar þú ákvaðst að gerast næturvörður á jarðböðunum á Mývatni sumarið 2017—einskonar gastarbeiter í eigin heimalandi. Markmiðið að búa þér mögulega til smá rými til þess að geta sinnt skáldskap og menningarblaðamennsku. Safna svolitlum vetrarforða í leiðinni. Til þess eins að uppgötva að það er búið að besta næturvarðastarfið þannig að þér endist vart nóttinn til að komast í gegnum þrifin. En þú barmar þér ekkert sérstaklega frekar en fyrri daginn, finnur alltaf taktinn í grámanum, og á stundum það sem virðist einhvers konar fjársjóður ofan í grútskítugum svelgjum. Hér verða líka til einhver af þínum sterkustu og beittustu ljóðum til þessa, eins og ljóðið um það hvernig „Þeir skjóta þig alltaf í bakið“, sem varð til á göngu þinni af næturvakt einn morguninn, og fær síðar sérstaka viðurkenningu ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör 2018.

Akureyrarvæb
Tíminn líður alltaf hraðar og hraðar. Áramót í Berlín og þú ert hrókur alls fagnaðar með bekku að heiman sem þú útdeilir bróðurlega. Vorferð til Prag þar sem þú sýnir okkur borgina sem þú hefur gert að þinni. Sólin skín skært, ljóðaglymskrattinn heillar sem fyrr, og það er ljóst að hér elskar þú að vera. Ég hef stundum spurt þig hvers vegna þú flytur ekki bara til Berlínar þar sem svo mörg okkar halda til, og svarið er eitthvað á þá leið að á meðan Berlín sé eins og Reykjavík, þá sé Prag meira eins og Akureyri. Þó ég eigi í fyrstu erfitt með að skilja samlíkinguna til fulls, átta ég mig betur á henni síðar.

Spólum aðeins áfram, yfir kófið með allri sinni einangrun, og við erum stödd á upplestra og gjörningakvöldi á vegum ljóðakollektívsins OBJECT:PARADISE. Þetta er í byrjun árs 2022, heimurinn er að opnast á ný og salurinn er stappfullur af fólki. Það er tilraunakennd en tilgerðarlaus stemning í loftinu. Hljómsveit á sviðinu sem spilar óreiðukennt undir hjá þeim skáldum sem fram koma. Kollektív orka sem er eitthvað svo umfaðmandi og ólík ofurkúlinu í Berlín. Ætli það megi ekki líkja þessu við einhverskonar Akureyrarvæb? Og þar sem þú stígur á stokk af miklum tilþrifum, og flytur ljóðið um það „þegar skúringakonurnar taka völdin“ við mikinn fögnuð viðstaddra, rennur upp fyrir mér að hérna hefur þú fundið þitt træb.
Tíminn þýtur bókstaflega hjá. Vorboðinn ljúfi droppar við í Friedrichshain á milli bíósýninga og flytur ljóð við impróvíseraða píanótóna á hverfispöbbnum Drittes Ohr. Skjaldborg 2023, þar sem þú flytur lengsta kattaljóð allra tíma í heimahúsi, eins og gerst hafi í gær. Og rúmu ári síðar, kvöldið sem við ætlum að hittast á happy í miðbæ Reykjavíkur, en þú stefnir mér þess í stað heim til vina þinna sem þú ert sannfærður um að séu vinir mínir. Og sú reynist auðvitað raunin. Við sitjum öll og spjöllum langt frameftir kvöldi eins og aldagamlir vinir, áður en við höldum á Veður þar sem við sameinumst enn fleira góðu fólki sem við höfum hóað saman. Allt verður eins og það hefur áður verið, og mér finnst eins og ég geti gengið að því vísu að þannig hljóti það alltaf að verða. Við tveir alltaf að röfla eitthvað á messenger eða í vídjóspjalli, að leysa lífsgátuna í Vinohrady, Friedrichshain, eða 101 Reykjavík. En þannig er það auðvitað ekki. Mánuði síðar koma vondu fréttirnar.

Gata sólarinnar
Tíminn hægir á sér. Við hittumst stuttlega í annarri miðju Reykjavíkur, Mjóddinni, í byrjun janúar. Þú ert vígreifur og á leiðinni norður þar sem þú ætlar sko heldur betur að sigrast á þessum helvítis krabba. En svo kemur stóri dómur, meinið hefur dreift sér svo víða að það er ekkert hægt að gera, vikur eða mánuðir eftir. Þú mætir slíkum fregnum með því að hóa í ljóðakvöld, og áður en við vitum af er lífskviðan þín komin á dagskrá, einskonar óður til lífsins, með ljóðaupplestrum, tölum og gjörningum, þar sem vinum úr ólíkum áttum er stefnt saman á Götu sólarinnar. Fjölmargir verða við kallinu og streyma norður í Kjarnaskóginn sem var þér svo kær, í þeim tilgangi að hitta þig og fagna öllu því sem þú stendur fyrir. Og þó þér endist ekki lífsorkan til þess að vera með okkur á þessu magnþrungna grand finale, þá sveimar andi þinn yfir og allt um kring og tengir okkur saman um allt það sem mestu máli skiptir; sköpunina, mennskuna og sanna vináttu.
Kæri Ásgeir, ég sakna þín alveg óheyrilega mikið. Þú varst mennskan holdi klædd, skapandi, hrifnæmur og hjartahreinn, en fyrst og fremst alvöru inn að beini. Það var sannkallað ríkidæmi að eiga þig fyrir vin. Eftir lifir minning um mann sem gerði heiminn betri. Takk fyrir ljóðið flakkarabróðir, fyrir að leyfa öðrum svartþresti að flögra með, og flögraðu áfram vinur, flögraðu nú sem aldrei fyrr.

Þegar skúringakonurnar taka völdin
Þegar skúringakonurnar taka völdin þurfa allir að fara úr skónum
Þegar skúringakonurnar taka völdin verða þeir sem afstóla of snemma fyrstir upp að veggnum
Þegar skúringakonurnar taka völdin verður heimurinn tandurhreinnNei!
Þegar skúringakonurnar taka völdin verður aldrei skúrað framar og heimurinn verður skítugur og heiðarlegurÞað er ekki eining um þetta, þetta gæti valdið stjórnarslitum
Við erum ekki allar eins, þótt þið haldið það
Sumar okkar hata að skúra, aðrar okkar elska það
Sumar okkar hata þá sem láta okkur skúra svo mikið að þær vilja láta þá skúra,
Sumar hata skúringarnar sjálfar og vilja að enginn þurfi að skúra framar
Sumar elska að skúra og vilja láta alla aðra skúra líkaÞegar skúringakonurnar taka völdin munu allir forstjórar heimsins þurfa að vinna launalausa yfirvinnu við að nudda á þeim bakið, axlirnar og ökklana
Þegar skúringakonurnar taka völdin verður heimurinn tandurhreinn
– Ásgeir H Ingólfsson