ég hugsa um vini mína sem svartþresti
skrækjandi á húsþökum
myrtir af hækkandi leigu
Exarchia Kreuzberg Hackney
Breska ljóðskáldið Sean Bonney dó um daginn. Í síðustu viku. Úr hárri leigu? Ég veit það ekki, ég veit bara að síðasti Facebook-statusinn hans fjallað um háa leigu og blankheit:

Ég endurtek: ég veit ekki hvernig hann dó. Ég veit bara að það fer hrollur um mann þegar mann sér svona svart á hvítu að fólk bókstaflega deyji úr uppavæðingu (e. gentrification). Sem er auðvitað svo meira en bara hreyfingar á húsnæðismarkaði, það er ein lykilskekkjan í kapítalismanum: þegar hann áttar sig á að skapandi og frjótt fólk hefur búið til alvöru verðmæti, verðmæti sem hingað til hafa ekki verið metin til fjár – þá rúllar hann inn á glæsikerrunum og reynir að koma þessum verðmætum í verð; sem tekst venjulega – um leið og þessi sömu verðmætum er tortímt. Það tekur tíma, staðir hafa sál, þeir hafa íbúa sem vilja ekki flytja, íbúa sem berjast á móti, sem berjast fyrir alvöru verðmætum. Fólk eins og Sean.
Exarchia er eitt trylltasta torgið í Aþenu, sjálfur hitti ég Sean einu sinni í stórkostlega skítugum viskýbar í Kreuzberg þar sem ég drakk alltof mikið Ozu og við lásum báðir upp ásamt fleira góðu fólki, og Hackney er úr hans gömlu heimaborg, London.

Gríska ljóðskáldið og leikkonan Katerina Gogou fæddist einmitt í Exarchia, í miðri heimstyrjöld, og framdi sjálfsmorð rúmlega hálfri öld seinna. Bonney talaði um að hafa verið andsetinn af henni þegar hann skrifaði / þýddi Cancer: Poems After Katerina Gogou. Sem myndi á íslensku beinþýðast sem ljóð eftir Katerinu, en í þessu tilfelli eru báðar merkingar orðsins „eftir“ viðeigandi – þetta eru þýðingarímix. Ljóðin eru eftir þau bæði, Bonney andsetinn af Katerinu, þessi ljóð eru skrifuð eftir hana. Eftir hennar tíð, eftir að þau geta ekki gleymst, eftir að þau hafa verið lesin, eftir að þau hafa greypst í vitundina.
Það eru til ótal útgáfur af ljóðinu eftir Bonney, ég held ég hafi að minnsta kosti fundið fjórar á netrápi mínu – sumar nær þýðingum en aðrar meira eins og rímix. Alþjóðavæðingin breytir ljóðinu, Exarchia er í báðum ljóðum en í ljóði Gogou bætast við Patisia, Metaxurgio og Metz og svo seinna Victoria, Kookaki og Geazy – allt hverfi í Aþenu. Þetta var meira lókal heimur, minna glóbal. Og þótt það sé álíka fátækt í hennar ljóðum er eitthvað annað en hækkandi leiguverð að sliga alla, uppavæðingin beið enn handan við hornið.
við lifum af
tilviljunakennt
augafullir í söngvum
á hústökubörum
Þetta var einmitt í hálfgerðum hústökubar sem við fórum báðir með ljóð. Ekki bókstaflegum hústökubar, en andlegum. Núna er barþjónninn fluttur til Exarchia. Við erum hluti af þessum flökkukindahópi, ljóðskáld sem hvergi þrífast en finna sér samt sína staði í sæmilega ódýrum heimsborgum, á torgum þar sem enn er líf.
Því fólk þarf borgir, það er kannski kjarninn í þessu öllu. Það væri auðvelt að flytja út í sveit, en fólk þarf fólk, jafnvel margt fólk, suðupott. Hér er kannski einkennilegasta þversögnin – þau þverustu og einrænustu og félagsfælnustu þurfa oft borgir, þau þrífast sjaldnast í sveitum og smábæjum til lengdar. Af því þar er nógu mikið af fólki úr að velja til að finna örlítin hóp sálna sem ríma. Þótt það taki tíma. Og sé vissulega mögulegt í minni plássum, ef þú ert einstaklega heppinn með pláss.
þeir eru vírar sem liggja borg úr borg
í lánuðum fötum og mígrenisköstum
túlkar, kommar, þjófar
þeir lifa í þögn,
þeir mála með svörtu
þeir skapa sitt tungumál
þitt er aðeins til að hrækja
Ljóðskáld heimsins, vírar á milli borga, neðanjarðarsamskiptamiðlar í þögninni, frá bar í Kreuzberg til torgsins í Exarchia. Fólk sem þorir að vaða í illsku heimsins, kalla hana sínum réttu nöfnum. Og Bonney talaði enga tæpitungu, hann var rammpólitískt skáld og mælti með aftöku Tony Blair í einu ljóði, drap Boris Johnson áður en hann komst til valda í öðru og hataði lögregluna reglulega í ljóðum sínum – þetta erkitákn valdsins í hans huga.
Svartþrestirnir vinir hans hins vegar, þeir eru sprengingin, í þeim er byltingin falin; í ljóðunum, handsprengjuorðunum.
línur og sprengjur og vírar
þröngt í kringum hendurnar á ykkur, hálsinn,
þið kapítalísku svín, hálsinn á ykkur
vinir mínir eru vírar eru svartþrestir!
P.S.: Sean skildi eftir sig blogg, bloggið um yfirgefnar byggingar er nú orðið yfirgefið blogg. En þarna er hellingur af fínum kveðskap til að lesa, fyrir utan auðvitað bækurnar ef þið komist í þær.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Forsíðumynd: af Facebook-síðu Sean Bonney