Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Föstudagslagið

Takk fyrir dansinn, takk fyrir orðin

Af öllum tónlistarmönnum sem hafa dáið síðustu ár var erfiðast að missa Leonard. Hann hefur alltaf verið hjá mér, jafnvel áður en ég byrjaði að hlusta almennilega á hann. Þegar einsemdin greip mann á síðkvöldum þegar barnum er að loka og kvöldinu að ljúka og maður er ekki alveg viss um hvort þetta sé einhvers virði, allt þetta strit, þá heyrir maður í Leonard, hann er eins og vitinn manns í myrkrinu. Eins og allir góðir barþjónar og plötusnúðar vita.

Hann veit hvað verður um hjartað.

Það er fyrsta lagið eftir dauðann, og textinn er magnaður að venju – með línum á borð við:

I was always working steady

But I never called it art

I got my shit together

Meeting Jesus reading Marx

Þetta er samt óvenjulegt Cohen-lag, því viðlagið skiptir öllu. Hvað verður um hjartað? Klisjan væri „What happens to the soul,“ með þessari einföldu breytingu þá öðlast hún líf og merkingu á ný.

Myndbandið er svo frábært – bara þetta eina skot, strax í byrjun, þessi blekking – sjáiði bara. Dauðinn og barndómurinn haldast í hendur í ellinni.

Go tell the young messiah

What happens to the heart

Platan heitir Thanks for the Dance. Hún er ekki enn komin út, kemur seinna í mánuðinum. Takk fyrir dansinn. Leonard orti oft um dans, eins og þetta; Dance Me to the End of Love. Síðasta lagið sem mamma spilaði fyrir pabba. Og ég ímyndaði mér að þau hafi dansað við akkúrat þetta lag á árshátíðum og böllum æskunnar, í þessi örfáu skipti sem ég gat vakið þau morguninn eftir, en ekki öfugt.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson