Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Föstudagslagið

Ást og heimsendir í fjallakofa

Það er sumarnótt í Bæheimi og við erum að melta Elskling. Það eru allir yfir sig hrifnir – og Øystein er sérstaklega glaður að það sé lag með Susanne Sundfør í einni dramatískustu senu myndarinnar (ekki Øystein Mamen, kvikmyndatökumaður myndarinnar. En það heitir auðvitað annar hver Norðmaður Øystein). Ég þarf auðvitað að semja útvarpspistil og gríp glaður öll tækifæri til hljóðskreytinga, finn lagið – og enda svo á að hlusta á plötuna alla. Music for People in Trouble. Tónlist fyrir fólk í vandræðum. Og erum við ekki öll iðullega í einhverjum bölvuðum vandræðum?

Platan byrjar fallega – en kannski aðeins of rólega. „Mantra“ hverfist um línur á borð við að vera jafn heppinn og tunglið, klók eins og kráka og stór eins og hákarl. Hún hækkar svo aðeins raustina í „Reincarnation,“ sem fjallar um endurholdgun, heimsendi og ást.

En svo nær hún mér í þriðja laginu, „Good Luck, Bad Luck.“ Bæði með þessari frábæru línu: „Freeloader wisdom from the books he never read,“ en það er líka eins og hún finni röddina þarna almennilega, styrkinn, kraftinn, ákveðnina. Og svo kemur stríðið.

„The Sound of War“ er í raun mjög tvískipt lag, jafnvel þrískipt. Gaza er helsti innblásturinn, en þetta gætu samt verið um nánast öll stríð:

Leave all the silverware

‘Cause you won’t need it where

You are going tonight

Þetta er ægifagurt helgikvæði, og rödd Sundfør nánast yfirnáttúruleg.

En svo breytist lagið. Röddin hverfur, þetta verður eins og mannlaus veröld með óræðum hljóðum – eða þögul veröld, þar sem manneskjurnar halda allar niðrí sér andanum. Það er einhver stríðsvél á leiðinni, einhver vá, einhver skepna, einhver sprengja. Og svo, annars konar þögn, minning um allt sem er farið.

En skyndilega heyrist rödd – og við erum komin í annað lag. Titillagið. Í fjallaskála í Pýreneafjöllunum spjölluðu Susan og Andres Roberts saman – og hún tók upp textabút af honum að tala sem hún nýtir á alveg mergjaðan hátt í þessu lagi. Hún blandar náttúruhljóðum við orðin, mixar þetta saman – og svo breytist þetta í instrumental náttúruhljóðasúpu og einu orðin koma frá Andres.

„Bedtime Story“ er ekki ólíkt fyrstu lögunum, nema hér er hljóðheimurinn orðinn þroskaðri og fyllri – náttúruhljóðin eru ennþá til staðar og þetta eru elskendur og heimsendir, maður veit ekki alveg hvort hún er að syngja um helst, líklega bara bæði?

Loks kemur svo hittarinn, „Undercover,“ sem var fyrsta smáskífan, enda langmest grípandi lagið á plötunni. Og þótt þetta sé ekki lagið úr Elskling þá gæti þetta vel átt við aðalpersónuna:

Don’t love the ones who trust you

It’s just not in your heart

Og það er eitthvað ómótstæðileg húkk í þessu lagi, sem fær mann til að hlusta aftur og aftur. Og ef ykkur grunar að þetta endi illa, þá er næsta lag staðfesting á því.

„No One Believes in Love Anymore“ er bæði titillinn og fyrsta línan og bara hvernig Susan syngur þetta, umtalsvert dýpri röddu, þá finnur maður að stemmarinn hefur súrnað.

Næstsiðasta lagið er svo „The Golden Age,“ og það má kannski segja að þar komi flestir helstu styrkleikar plötunnar saman í sama laginu. Hér er aftur karlmannsrödd að tala, en á meðan í fyrra skiptið virtist það meira eins og ljóðrænn bútur úr andríkum samræðum virkar þetta meira eins og ljóð, ljóð um bjöllur, öldur og kletta og klukkur, um hvali sem hrjóta og drauma um steina.

Aftur þróast þetta yfir í náttúruhljóð – en núna ásamt rödd Susan, sem er samt nánast eins og enn eitt náttúruhljóðið.

Loks er svo komið að laginu sem ég var að bíða eftir, „Mountaineers,“ lokalaginu sem var í myndinni – og er meira að segja með hinum íslenska John Grant. Grant syngur fyrsta versið, það er dálítið timbrað – og þetta er mikið verk um loftslagshamfarir, um júmbóþotur og malbik og milljónir bíla.

Svo kemur annað erindið, það er dúett – þetta er flott, textinn er mergjaður – en þetta er samt allt aðeins of timbrað fyrir minn smekk. En þá, þá gerist það. Það er eitthvað stórkostlegt kaþarsis sem tekur við, bylting, útrás – einfaldur texti, en þrælvirkar – þetta er galdraseiður til að ljúka magnaðri plötu með alvöru útrás.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson