Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Af öðrum vettvangi, Bókmenntir, Kritík - Helgarblað

Sigraði lágkúran Ísland?

SMS: Af hverju eru stöndugustu blöðin í dag Séð og Heyrt, Vikan og Gestgjafinn
ÞH: „Af því að lágkúran sigraði Ísland í góðærinu.“

Þetta brot úr Mannlífsviðtali síðasta vor segir ansi merkilega sögu um þróun íslenskrar blaðamennsku. Ekki bara út af því að viðmælandinn ÞH er Þröstur Helgason, fyrrverandi umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins, heldur líka vegna þess að spyrjandinn, SMS, er Svanur Már Snorrason, þáverandi blaðamaður Séð og heyrt og núverandi ritstjóri þess.

Þetta er nefnilega hið prýðilegasta viðtal og bendir til þess að hinn ágætasti menningarblaðamaður blundi í Svani. En samt er hans aðalstarf að skrifa örfréttir um hverjir voru að byrja saman og hverjir voru að hætta saman. Þetta litla dæmi segir okkur það að þótt það sé alltof mikið af vondum blaðamönnum liggur rót vandans miklu dýpra, vandinn er kerfislægur og kerfið virkar þannig að vondir blaðamenn fljúga ósjaldan í góða vinnu svo framarlega sem þeir fylla hratt og örugglega upp í auða dálksentimetra – og ekki er verra ef þeir búa að rétta flokkskírteininu eða rétta tengslanetinu. Þetta kerfi útilokar vissulega ekki góða blaðamenn en það gerir þeim sífellt erfiðara að standa undir nafni, þeirra hlutverk er venjulega að moka ofan í sömu fyrirfram skilgreindu skurðina dag eftir dag og vondu blaðamennirnir. Allir eru blaðamennirnir iðulega hvattir til þess að ganga lágkúrunni á hönd, þótt hún sé kölluð nöfnum eins og afköst, hagræðing og hraði – og enn sem komið er bendir fátt til þess að hún gefi neitt eftir í kreppunni.

Kerfið er vissulega drifið áfram af alls kyns einkennilegri pólitík í boði manna á borð við Óskar Magnússon, Ara Edwald og Pál Magnússon. En líka þessari einföldu hagfræði: Hversu margir smella, hversu margir hausar lesa. Það þarf ekki einu sinni að kaupa lengur, ekkert frekar. Þú þarft ekki einu sinni að lesa, bara skima. Þitt hlutverk er að verða hluti af tölfræðinni sem býr til rök fyrir auknum auglýsingatekjum.

Gillzismi: Egill og Paris

Ég starfaði sem menningarblaðamaður á Morgunblaðinu í rúm tvö ár (bæði á ritstjórn og lausráðinn) frá vori 2007 til hausts 2009. Ég kvaddi með grein um ráðningu Davíðs Oddssonar sem ritstjóra (þótt einn pistill hafi birst eftir það) en ég heilsaði með grein um Paris Hilton – og tvö stærstu vandamál íslenskrar blaðamennsku krystallast ágætlega í þessum tveimur einstaklingum, pólitíkin og lágkúran. Það síðarnefnda er skilgreind svo:

„Hiltonisminn felst í því að afskrifa sjálfsvirðinguna á kostnað gleðinnar, gufa upp andlega. Hiltonismi er dóp þar sem víman er endalaus, svo framarlega sem þú getur haldið áfram að ljúga að sjálfum þér endalaust. Hiltonismi er ástand þar sem skrifað er upp á lyf gegn minnstu depurð, lífið verður að vera skemmtilegt hvað sem það kostar og frægðin er takmark í sjálfu sér.“

En núna höfum við fundið okkar íslensku Paris. Egill Einarsson, betur þekktur sem Gilzenegger, var þegar orðinn þjóðþekktur árið 2007 en líklega er hápunktinum náð þegar hann fær að hanna bók sem fjallar um nánast alla Íslendinga og er til á flestöllum heimilum landsins. Þessu hefur vissulega verið mótmælt harðlega en mótmælin beinast þó helst að Símanum, fyrirtækinu sem stendur að þessari nútíma Eglu. Eðlilega kannski, en Síminn er fyrst og fremst að elta fjölmiðlana og hugmyndir þeirra um hvað fólk vilji. Frétt um nýjustu ævintýri Gilzenegger væri erkitýpísk frétt á tveimur öftustu síðum víðlesanasta dagblaðs landsins, síðum sem eru helgaðar einhverjum einkennilegum bræðingi af slúðurfréttum og menningu. Þá fékk líkast til enginn karlhöfundur undir fertugu jafn lofsamlega umfjöllun í Kiljunni síðasta vetur og Egill. Þannig eru fjölmiðlar búnir að taka hressa, ljóshærða, grunnhyggna og orðheppna karlrembu og gera að stjörnu, því Gilzenegger er allt sem þá dreymir um. Það má svo vel vera að inn við beinið sé hann kvennelskandi mömmustrákur sem lætur sér annt um heilsu ungra barna, en þeim manni hefur enginn áhuga á.

Menningarhrunið

En nú rís almenningur upp og segir: þetta viljum við ekki! Sem er gott að vita. En hvað viljum við? Sú spurning var lögð fyrir Kristínu Steinsdóttur, þá nýkjörin formann Rithöfundasambandsins, í Fréttablaðinu þann 13. maí síðastliðinn:

„Þá finnst mér of lítil virðing borin fyrir höfundarverkum af hálfu gagnrýnenda og oftar en ekki kastað til þess höndunum þegar rithöfundar hafa setið við skriftir í kannski tvö ár en fá svo hraðafgreiðslu gagnrýnenda þar sem hent er í þá stjörnum eins og beini fyrir hund,“

segir Kristín í viðtalinu og bætir seinna við:

„[…] auðvitað taka rithöfundar slæma gagnrýni nærri sér þegar þeir hafa unnið eins vel og þeir geta en eru svo hálshöggnir og fá kannski hálfa stjörnu fyrir afraksturinn. Slíkt er mjög niðurlægjandi og því vil ég sjá meiri aðgát í nærveru sálar. […] Verst var þó þegar ritverkum var slátrað með hauskúpum, en svona virðingarleysi finnst mér óþarfi í siðmenntuðu samfélagi.“

Ég endurtek: þarna talar formaður Rithöfundasambands Íslands. Gagnrýnendur mega svo sannarlega taka sér betri tíma og vanda sig betur og ég deili áhyggjum Kristínar af íslenskri menningarumfjöllun. En með þessum orðum sýnir talsmaður rithöfunda gagnrýnendum sem stétt fáheyrt virðingarleysi í sömu andrá og hún biður þá um að sýna rithöfundastéttinni meiri virðingu. Það er nefnilega til marks um litla virðingu fyrir trúnaðarsambandi gagnrýnanda og lesanda þegar gagnrýnendum er nánast bannað að fjalla illa um bækur, hversu vondar sem þær kunna að vera. Þessi tilhneiging til innistæðulausrar jákvæðni er raunar alltof algeng í íslenskri menningarumræðu, eftir því sem umfjöllunin verður yfirborðskenndari þá verða jákvæðar fréttatilkynningar útgefenda og dreifingaraðila oftar og oftar að lauslega kópí-peistaðri frétt á síðum blaðanna, enda kynningarfulltrúar jafnmargir blaðamönnum á Íslandi – og þeir hafa oftast mun rýmri tíma til að vinna vinnuna sína. Kristín er alls ekki ein um þetta viðhorf meðal listamanna, í hátíðargusu sinni fyrir kvikmyndahátíð árið 2008 benti Silja Hauksdóttir leikstjóri kollegum sínum á að ef þeir hefðu ekkert jákvætt um verk kollega sinna að segja þá væri betra að þegja.

Þetta viðhorf, að blaðamenn og gagnrýnendur eigi helst að vera klappstýrur listamannana, minnir óþægilega mikið á góðærið, þegar viðskiptafréttirnar voru ósjaldan illa dulbúinn klappstýrusýning fyrir útrásarvíkingana. Þetta er sama gagnrýnisleysi og olli fjármálakreppunni, nú er bara spurning hvort það sé of seint að afstýra menningarkreppunni?

Það eru þó ekki allir rithöfundar á sama máli. Jón Kalman Stefánsson kvartaði til dæmis yfir því í viðtali við undirritaðan að honum fyndist grunsamlegt að á Íslandi væru skrifaðir tugir ódauðlegra meistaraverka á ári hverju ef marka mætti ritdóma, þar sem verðbólga lýsingarorðanna væri komin út fyrir öll velsæmismörk.

Og það er líka eðlilegt að slæm gagnrýni svíði þegar hún einkennist af sleggjudómum eða jafnvel persónulegum fordómum gagnvart einstaka listamönnum. En það er til marks um afar óþroskaða menningarumræðu þegar gæðum gagnrýni er ruglað saman við hversu gott gagnrýnanda þykir verkið og minnstu virðist skipta hvort það takist að setja verkið í eitthvað forvitnilegt samfélagslegt, sögulegt, pólitískt eða menningarfræðilegt samhengi.

Menningarelítan og frjálshyggjumennirnir

Skömmu eftir að Davíð Oddsson tók við sem ritstjóri Morgunblaðsins var Lesbókin slegin af sem sjálfstætt sérblað. Gauti Kristmannsson kvaddi Lesbókina með þessum orðum í Lesbókarlíkinu sem var arftaki hennar: „Lesbókin birti einkum greinar eftir menningarvita þá sem undanfarin ár hafa verið kallaðir menningarelítan í fyrirlitningartón frjálshyggjumanna, kannski af því að hún hefur að geyma flestar og sterkustu gagnrýnisraddir sem þjóðin hefur fengið að heyra. “

Gauti heldur áfram og segir elíturnar fleiri, þar megi helst nefna stjórnmála- og viðskiptaelítuna. Við getum sjálfsagt flest verið sammála Gauta um að þessar elítur hafi brugðist þjóðinni öðrum fremur undanfarin ár. En þótt við séum orðin gagnrýnni á þessar elítur þá leyfum við þeim eftir sem áður að stjórna lífi okkar sem fyrr. Það er ennþá stór hópur blaðamanna sem bíður eftir ráðherrunum eftir hvern einasta ríkisstjórnarfund og uppgjörið við bankahrunið virðist stundum helst snúast um að greina frá öllum þeim smáatriðum sem finnast um líf og störf hrunkónganna.

Við stjórnumst enn af sömu umræðu þótt sjónarhorn hennar sé lítillega breytt, núna er okkar helsta von stjórnlagaþing – þing þar sem við getum haft áhrif á örlög stjórnmálaelítunnar. Sem er gott og blessað, en þótt það sé nauðsynlegt að bæta leikreglur bæði fjármálaelítunnar og stjórnmálaelítunnar þá er enn nauðsynlegra að hætta að láta þessar elítur stjórna lífi okkar. Það er okkar að skapa nýtt Ísland, þótt þessar elítur vilji ekkert frekar en að gera það fyrir okkur.

Í þeirri vegferð getur skáldskapurinn verið ómetanlegur lærdómur. Tökum dæmi af T.G. Masaryk, bláfátækum sveitastrák úr Móravíu sem síðar varð heimspekiprófessor og lenti í útlegð í fyrri heimstyrjöldinni þar sem hann með þrotlausum viðtölum og bréfaskriftum við helstu ráðamenn bandamanna átti stærstan þátt í að gerbreyta landakorti Mið-Evrópu eftir stríð. Hvernig sannfærði hann þessa ráðamenn – hvaða undirbúningur lá þar að baki?

„Aðeins lífið – og skáldsögur. Ég hef nú lesið skáldsögur daglega í sjötíu ár … Ég lifi í bókmenntum, ég gæti ekki verið án þeirra: þær innihalda svo mikla reynslu, þvílíka þekkingu á mannsandanum.“

Athugum að Masaryk var ekki rithöfundur (þó ýmislegt eftir þennan fyrsta forseta Tékkóslóvakíu hafi ratað á prent) heldur maður sem lifði jafnt í heimi sagna og raunheimum – og sú reynsla gerði honum unnt að gjörbreyta þeim raunveruleika sem hann lifði í.

Að hverfa heiminum

Áðurnefndur Þröstur Helgason gaf nýlega út bók um Birgi Andrésson listamann. Og skv. áðurnefndu viðtali er bókin líka um þetta: „Hún fjallar um það hvernig þetta er allt að hverfa, íslensk menning, listin, ef ekki maðurinn sjálfur.“

Hrunið var atburður, kreppan er ástand. Ástand þar sem hætt er við að við missum hægt og rólega vonina, þar sem allt er skorið niður, þar sem við þreyjum þorrann, ástand þar sem við hverfum ef við pössum okkur ekki. Það eru ennþá bankamenn og pólitíkusar sem halda um pennann í þessari Íslandssögu og iðrun þeirra ristir seint djúpt og persónusköpun er öll afskaplega yfirborðskennd, framtíðarsýnin skammsýn. Enda var þetta allt öðrum að kenna.

Eilífur niðurskurður þýðir eilíf vörn. Að verja það sem fyrir er, koma í veg fyrir að alltof mikið verði skorið niður. Og sumt þarf að verja en öðru ber að fleygja –og á meðan gleymum við að skapa. Láta okkur dreyma um hvað við ætlum að gera í framtíðinni. Það er ágætt að lifa í núinu, en kannski ekki ef það snýst bara um að lifa núið af.

En það er vissulega eitthvað skapað ennþá. Maður heyrir bara svo lítið um það. Í góðærinu voru risastór göt í íslenskri menningarumfjöllun. En þessi risastóru göt eru á góðri leið að breytast í svarthol. Listamenn yrkja í tómarúm, tómarúm þar sem ekkert pláss virðist vera fyrir nema afskaplega yfirborðslega umfjöllun um verk þeirra – með fáeinum heiðarlegum undantekningum, vitaskuld. Fræðin eru svo jafnvel enn stærra svarthol, þótt þúsundir Íslendinga stundi nú háskólanám þá fer ósköp fáum sögum um það hvað þeir séu að læra, sú viska fær alltof sjaldan að rata út undir bert loft.

Að læra að lesa

„Vandamál heimsins er að kjánar og öfgamenn eru ætíð svo öruggir með sig en þeir vitru eru fullir af efasemdum.“
– Bertrand Russell

Alvöru list er í sífelldri andspyrnu, hún klórar undir yfirborðið og spyr spurninga. En hún gerir það sjaldnast berum orðum, hún lætur venjulega lesanda, áhorfanda og hlustanda það eftir. Kerfið byrjar raunar strax í grunnskóla að draga úr áhrifamætti listarinnar, því þar er okkur sjaldnast kennt að lesa nema í allra þröngasta skilningi orðsins. Bóklestur er hvað skást kenndur, en það að lesa í myndmál, tónlist og leiklist er nær ekkert kennt nema hugsanlega í sérstökum valkúrsum. Og listin þarf svörun og alvörulestur, þar skiptir hinn almenni lesandi/áhorfandi/hlustandi vissulega mestu, en menningarblaðamenn og gagnrýnendur eru milliliðir í samskiptum lesanda og listamanns, án þeirra fer bæði sköpun og lestur, áhorf og hlustun fram í hálfgerðu tómarúmi, sem gagnast lítið þjóðfélagi sem þarf að skapa sjálft sig upp á nýtt.