Gömul vofa kynþáttahatursins gekk aftur í breskum bókabúðum nýlega. Nánar tiltekið Tinni í Kongó sem hefur margoft verið sögð rasísk. Talskona samtaka gegn kynþáttahatri hafði þetta að segja: „Þessi bók inniheldur myndir og orð sem lýsa gamaldags viðhorfi til litaðra kynþátta. Innfæddir eru látnir líta út eins og apar og tala eins og fávitar. Hvers vegna halda bókabúðir að það sé allt í lagi að selja slíkt efni, sem er fullt af kynþáttahatri? Þetta er afar móðgandi fyrir stóran hóp fólks.“ Hún bætir svo við að bókin ætti aðeins heima í safni með skiltinu „Gamaldags kynþáttakjaftæði.“ Sem er að vissu leyti rétt – en á líka við um einfalda sýn samtakanna sjálfra.Það er engum vafa undirorpið að Tinni í Kongó er rasísk og barnaleg að mörgu leyti – og raunar er forveri hennar,Tinni í Sovétríkjunum (fyrsta Tinnabókin og sú eina sem aldrei hefur komið út á íslensku), ennþá barnalegri. Þessum fortíðararfi deilir hún með fleiri ritverkum þessara síðustu ára heimsvaldastefnunnar, Agatha Christie skrifaði Ten Little Niggers (seinna endurskírð Ten Little Indians) og Enid Blyton fyllti barnabækur sínar af illgjörnum sígaunum og negrum. En Hergé sker sig úr í því að hann tók gagnrýni á bækurnar alvarlega og bætti ráð sitt verulega. Hann var einn af örfáum rasistum mannkynssögunnar sem fóru í meðferð.
Kynni hans af kínverskum stúdent í Belgíu, Tsjang, hjálpuðu þar mikið til og nefndi hann lykilpersónu í Bláa lótusnum ogTinna í Tíbet eftir þessum vini sínum. En eftir fyrstu bækurnar lagði hann ávallt mikla áherslu á að öll smáatriði í sambandi við aðrar þjóðir og kynþætti væru sem nákvæmust. Þá er pólitísk vegferð Tinna og höfundar hans í gegnum bækurnar einnig forvitnileg. Tinni er nánast fasísk hetja í Tinni í Sovétríkjunum en vaxandi svartsýni Hergés á samtíma sinn eftir því sem árin liðu urðu til þess að í síðustu bókinni, Tinni og Pikkarónarnir, er Tinni nánast kominn í hlutverk Che Guevara þar sem hann hjálpar Castró-gervingnum Alkasar hershöfðingja með byltinguna.
En á meðan Che er fastagestur á bolum byltingarsinna er Tinni oftar á bolum ferðalanga (sem vissulega eru margir hallir undir byltingu). Enda er líklega gjöfulast að rannsaka Tinnabækurnar sem ferðasögur hins hvíta Vesturlandabúa. Hann er í upphafi fullur af ranghugmyndum og þjóðrembu, sannfærður um ágæti eigin þjóðar. En uppgötvar sjálfa veröldina á leiðinni. Þannig er serían í heild örugglega heilbrigðara barnaefni en flestar hvítþvegnar barnabækur nútímans því í gegnum þær geta ungir lesendur uppgötvað að veröldin er ekki svart-hvít, ekki í gegnum föðurlegan umvöndunartón hins fullorðna heldur með því að ferðast með höfundi sem er að uppgötva margbreytileika veraldarinnar sjálfur um leið og hann segir söguna. Tinnabækurnar eru í raun uppgjör hinnar hvítu Evrópu við heimsvaldastefnuna – eða öllu heldur; þess hluta hinnar hvítu Evrópu sem kunni að skammast sín.
Þetta uppgjör gerði Hergé sífellt svartsýnni. Í næstsíðasta ramma Tinna og Pikkarónanna sjáum við lögreglumenn ganga fram hjá skilti sem á stendur „Viva Alcazar“. Handan skiltisins er fátækrahverfi. Lokaramminn sýnir okkur skuggamynd af bakhluta flugvélar, Evrópa hefur yfirgefið þriðja heiminn og skilið slömmin eftir.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 21. júlí 2007.