Ég er nýkominn til Split þegar við keyrum á gamlan mann. Það heyrist hár smellur þegar risastór hliðarspegillinn rekst utan í hann en þegar bílstjórinn reynir að biðjast afsökunar þá yppir sá gamli öxlum kæruleysislega, brosir og segir að þetta sé allt í lagi, öxlin er komin aftur í liðin án nokkurrar Mel Gibson-dramatíkur og ég reyni að reikna út hversu mörgum styrjöldum sá gamli er líklegur til að hafa tekið þátt í.

En ég er kominn til Split til þess að fara á kvikmyndahátíð. Miðbær þessarar höfuðborgar Dalmatíu, fjölmennustu borgar Króatíu á eftir Zagreb, er undirlagður af hinni ævafornu höll Díókletesar en höllin er í raun miðbærinn og miðbærinn byggist út frá höllinni. Maður veit varla hvort maður er úti eða inni, þröngar göturnar eyða öllum slíkum hugmyndum og maður hreinlega labbar óvart inn á næsta bar á röltinu á kvöldin eftir bíó.

Díókletes var rómverskur keisari sem hafði sérstaklega gaman af því að ofsækja kristna menn – kaldhæðni örlaganna hagaði því svo að við innganginn að höllinni stendur þekktasta kennileiti borgarinnar, risastytta af biskupnum Gregorins frá Nin sem á tíundu öld barðist fyrir því að nota króatísku í guðþjónustum í stað latínu. Og mitt í þessari höll er heilmikið líf, það eru veitingahús, barir og verslanir – til dæmis Grgur þar sem ég borðaði ófáar pítsur með hinni ljúffengu dalmatíuskinku og velti fyrir mér hvort kjötið væri nokkuð fengið af Dalmatíuhundunum eftir að Grímhildur grimma hafði hirt feldina. Og fjöldi fólks býr þarna líka eins og allar þvottasnúrurnar eru vitni um.

Hinir hátíðargestirnir sem ég hitti virðast flestir úr öðrum heimi en ég, ég er bíónördinn en þau virðast flest rata betur um ranghala innsetninga og videólistaverka. En mörkin eru hægt og rólega að hverfa. Eins og á öðrum bíóhátíðum eru bæði ömurlegar myndir og frábærar á hátíðinni. Forðist til dæmis með öllum ráðum að horfa á dómadagsleiðindin Lá-Bas en reynið allt sem þið getið til þess að sjá hina dýrðlegu Fido, þar sem uppvakningar eru komnir í hlutverk heimilishundsins og húshjálparinnar í bandarískum úthverfum með drepfyndnum afleiðingum. En um leið segir myndin þó ískyggilega sannferðuga sögu um bandarískt samfélag – og svo var ég farinn að sakna Carrie-Ann Moss og alltaf gott að vita að maður á ennþá séns í hana þótt maður sé orðinn steindauður zombí. Engin mynd situr þó jafn fast í manni og tálminn rússneski, Blokada .

Blokada. Vatn fiskað í fötur, frosin lík. Hermenn sem í alvörunni voru að bjarga heiminum. Stytturnar hljóðlát vitni. Það verður kaldara og kaldara. Gamall maður með staf – lykilorðið: áfram! (ekki frjósa í hel) Hver tekur myndina? Hvað fékk fólk til að gera eitthvað sem ekki var bráðnauðsynlegt? Hvað fékk tökumanninn til að hugsa um eilífðina, okkur, þessar fáeinu hræður sem sátum í kvikmyndasal í Dalmatíu og eignuðumst örlitla hlutdeild í eilífðinni?

Við erum stödd í Leníngrad (nú St. Pétursborg) í seinni heimsstyrjöldinni. Blokada er það sem Rússarnir kalla umsátrið um Leníngrad og þótt flestir telji sig hafa séð einhverjar myndir frá umsátrinu eru það nær örugglega sviðsetningar. Í þessari tæplega klukkutíma mynd safnar Sergey Loznitsa hins vegar saman öllu því myndefni sem til er í rússneskum söfnum og skilar því óklipptu til áhorfenda. Hann bætir þó við hljóði, hljóðvinnslan er svo mögnuð að það er ekki fyrr en eftir á að maður kemst að því að þetta voru ekki raunveruleg umhverfishljóð.

Þau ganga framhjá líki. Einn sparkar í það, kannski sofnaði hann bara, en hér er svefninn sjálfur dauðinn. Kannski fékk hann sér aðeins einu vodkastaupi of mikið, en hér sér enginn muninn lengur, hann er orðinn tölfræði og það skiptir minnstu máli hvernig hann dó. Loks: Flugeldar, snjókorn eða sprengjuregn? Það rennur saman í eitt og myndirnar ljúga misvísandi sögum að manni á meðan maður sér loks bros og það er dansað.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 9. október 2007.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson