Fyrsta myndin á Vary þetta árið var eftir Sergei Losnitza og fyrir mína parta var staðan 1-1 þegar kom að myndum Losnitza. Ég hafði heillast af hinni frábæru Blokada, þar sem hann klippti saman gamlar filmur úr umsátrinu um Stalíngrad. En ég hataði Maidan, sem hann gerði um samnefnt torg í Kiev og mótmælin þar. Því miður reyndist Sigurdagur (Den‘ Pobedy) vera á svipuðum slóðum og sú fyrrnefnda. Myndin byrjaði samt ágætlega, kannski sérstalega af því hvað það var fallegt lag spilað undir – ég held þetta hafi verið sami söngvari og syngur fyrir krókódílinn Gena í uppáhalds afmælissöngunum mínum.
En vandinn er einfaldlega þessi: Sergei Losnitza gerir skelfilega leiðinlegar heimildamyndir – og með óþægilegu dassi af þjóðrembu í þokkabót. Blokada var þar kannski undanskilin af því þar var hann að klippa saman annarra manna myndir, hver veit?
Hans aðferð til þess að gera heimildamynd er einfaldlega þessi: sýnum lífið á götunni. En það er hægt að gera það á marga vegu – og í hans tilfelli er myndavélin fjarlæg, við kynnumst aldrei neinum persónum náið – hann er bara vitni af hátíðarhöldum en gerir lítið til þess að setja þau í samhengi. Ímyndaðu þér einhvern sem fer niðrí bæ á 17 júní með myndavélina og filmar helling af efni – en mjög tilviljanakennt – og klippingin er jafn tilviljanakennd. Þetta er eins og að horfa á götuna frá næsta kaffihúsi í tvo tíma, heimildarmyndir eiga að snúast um eitthvað meira en það. Nema – það er kannski ekki alveg sanngjarnt. Það væri nefnilega betri mynd. Losnitza leitar hins vegar ítrekað uppi þann mest banal þjóðernisrembing sem hann finnur.
Bíófélagi minn var sammála – en fullyrti að leiknu myndirnar hans Losnitza væru jafn góðar og heimildamyndirnar væru vondar. Þannig að kannski afskrifa ég hann ekki alveg strax, kannski fær hann tækifæri á að breyta þessu í 2-2 einn daginn.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson