Fyrst dó Paul Newman, svo hrundi hagkerfið. Og þótt um aðskilda atburði væri að ræða þá værum við öll betur sett núna ef Paul Newman hefði stjórnað bönkunum okkar, því Paul Newman stóð fyrir einmitt það sem bankana skorti, skort sem varð þeim að lokum að falli. En til þess að átta okkur betur á þessu er rétt að byrja á því að skilgreina Paul Newman. Byrjum á byrjuninni.

Ég gleymi því aldrei þegar ég sá Paul Newman fæðast. Leikarann, goðsögnina, manninn. Það var undir lokin á The Hustler, þar sem Newman leikur billjarðspilarann “Fast” Eddie Felson. Hann er ungur og hæfileikaríkur, prins reykmettaðra billjardstofa, en hann hefur skorað sjálfann kónginn á hólm, Minnesota Fats. En þegar þarna er komið sögu þá er miklu meira undir heldur en féð sem lagt var undir.

Höfuðandstæðingur Eddie er nefnilega í raun ekki feiti maðurinn frá Minnesota heldur Bert (George C. Scott), umbinn þeirra beggja, vafasamur karakter sem hagnast á hæfileikum annarra og spilar sína eigin leiki sem eiga lítið skilt við heiðvirðan billjardleik. Stúlkan hans Eddie er dáin, peð sem var fórnað í hótelherbergi í Louisville, og Eddie dansar í kringum billjardborðið í minningu hennar og lýsir sjálfan sig ósigrandi. “Hvernig get ég tapað? Þú hafðir rétt fyrir þér, Bert, það er ekki nóg að hafa hæfileika, þú þarft að sýna karakter líka. Ég hef svo sannarlega karakter núna, fann hann í hótelherbergi í Louisville.”

Leiklistin hefur sjaldan verið jafn mikill galdur og í þessu lokaatriði, því um leið og Eddie brotnar niður þá vinnur hann, það er stál í þessari brotnu rödd. Hann er hættur að spila öruggt, því þeir öruggu deyja blankir líka. Og þegar hann er búinn að vinna leikinn hefst sjálf orustan. Hún hefst þegar hann ætlar að ganga út og Bert kallar ógnandi: “Hvert þykist þú vera að fara? Þú skuldar mér PENINGA.” Sú tilfinning sem George C. Scott leggur í þetta eina orð er ekki ósvipuð þeirri tilfinningu sem íslenskir auðmenn hafa gegnsýrt íslenskt þjóðfélag með undanfarin ár. Peningunum hefur verið breytt í frumkraft, rafguð í netbönkum, tímasprengju sem okkur dreymdi um að myndi aldrei springa.

En Eddie veit sem er að þetta eru blóðpeningar og þá vill hann ekki borga, hann vinnur þegar hann berst við allt það sem er rotið í veröldinni, peningana sem öllu spilla og öllu skipta, hann vinnur þegar hann gengur út. Einmitt þetta gerðum við aldrei. Við gengum aldrei út, við sögðum aldrei nei. Enda ekkert hús lengur til þess að ganga út úr, höfuðstöðvar banka heimsækjum við ekki lengur þegar við getum geymt yfirdráttinn í heimilstölvunni. Og peningarnir máski ekki blóðpeningar, frekar gervipeningar, blekkingin um Ísland sem nafla alheimsins.

En sigur Eddie liggur í uppgjöfinni. Játningunni, syndaaflausninni. Þetta er allt önnur manneskja sem gengur út. Ekki bláeygi, saklausi og passlega tækifærissinnaði höstlerinn (sem gæti verið lýsing á öðrum hverjum Íslending góðærisáranna) sem við hittum fyrir fyrst heldur maður sem er tilbúinn til þess að standa upp í hárinu á spillingu, maður sem er tilbúinn til þess að standa með því sem hann trúir á og maður sem er búinn að lifa nóg til þess að láta ekki ógna sér. Þarna varð Fast Eddie að Paul Newman. Þessum mesta töffara allra leikara en um leið þeim heiðvirðasta. Hann var ekki lengur bláeygur og saklaus stráklingur, þótt hann ætti frægustu bláu augu Hollywood, heldur var þetta augnaráð þrungið merkingu, merkingu sem við sitjum eftir með nú þegar hann er genginn. Hvað það þýðir að vera almennileg manneskja, hvað sem það kostar.

Og það kostar, því fáum við sannarlega að finna fyrir núna. Svo er bara að sjá hvort við höfum efni á því. Og vonandi deyr ekkert nema krónan áður en við förum að sýna þann karakter sem þarf til að geta unnið þessa rimmu.

Og nú er Paul Newman genginn út, beinn í baki. Hann skuldaði engum krónu þegar hann fór.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson