Jókerinn. Hún er Bohemian Rhapsody þessa árs, myndin sem áhorfendur elska og gagnrýnendur hata (sem er raunverulega mjög sjaldgæft, það kemst bara í fréttirnar þegar það gerist). Og vissulega er ofsögum sagt að gagnrýnendur hati hana, en hún er svakalega umdeild – eins og þetta byrjaði allt vel. Sigur í Feneyjum – og svo, löngu áður en hún varð frumsýnd fyrir almenning voru sumir farnir að kalla hana óábyrgan óð um incel-hryðjuverkamann. Er eitthvað til í því – og á hún allt þetta lof skilið, eða jafnvel allt þetta last? Skoðum málið aðeins betur. Og já, hér kemur Höskuldarviðvörun, hér verður nefnilega ekki þverfótað fyrir spilliefni.
Er Jókerinn incel-hetja?
Byrjum þetta á smá útúrdúr.
Einu sinni fyrir langa löngu, fyrir heilum aldarfjórðung, þegar internetið var í algjörri frumbernsku, þá var ung stúlka sem hét Alana. Ung og einmana stúlka, sem fann ekki ástina, og stofnaði heimasíðu í kringum það. Yfirskriftin var Alana’s Involuntary Celibacy Project. Óviljandi skírlífi – fyrir fólk sem var skírlíft af því það fann engan rekkjunaut, þetta var einfaldlega staður þar sem einmana sálir gátu létt af sér, fyrir fólk sem var utanveltu og hafði ýmist aldrei stundað kynlíf, ekki verið í sambandi lengi eða var einfaldlega einmana. Fljótlega varð styttingin incel til – um þá sem stunduðu óviljandi skírlífi.
Þetta var fallegt sjálfshjálpar-verkefni, þar sem fólk gat deilt harmi sínum í öruggu umhverfi. Svo fann Alana sjálf ástina, stuttu eftir að hún fann betur út úr eigin kynhneigð, og lét öðrum eftir að sinna síðunni.
Fimmtán árum seinna drap 22 ára piltur, Elliot Rodger, sex manns í Kaliforníu og drap svo sjálfan sig, en skildi eftir langt kveðjubréf þar sem hann útlistaði kvenhatur sitt og það að hann væri hreinn sveinn. Á einhvern einkennilegan og truflaðan hátt hafði vanstilltasta öfgahægrið rænt hugtakinu og gert að einkennilegu regnhlífarhugtaki fyrir eitrað kvenhatur, ósjaldan blandað öðru hatri – á útlendingum, pólitískum andstæðingum og ýmsum minnihlutahópum.
En hvernig tengist þetta Jókernum? Jú, í myndinni er aðalpersónan, Arthur Fleck, bálskotinn í nágrannakonunni Sophie. Eðlilega, þar sem hún er leikin af Zazie Beetz. Og þrátt fyrir að hann sé lúðalegasti maðurinn í bænum þá fellur hún fyrir honum og þau byrja að deita. Já, það er von fyrir alla, líka lúða eins og Arthur! Nema hvað, auðvitað var þetta allt í hausnum á honum. En það er ekki bannað að eiga sér dagdrauma, þá eigum við flest, og ég held að flestir myndu kinka kolli og taka undir með því að það sé bara hollt að láta sig dreyma við og við, svo framarlega sem maður heldur eðlilegri tengingu við raunveruleikann. Það á vissulega ekki við um Arthur – en það er þó fátt sem bendir til annars en að akkúrat þessi dagdraumur hafi verið sauðmeinlaus.
Hélt ég. En ekki David Ehrlich hjá Indiewire, David Edelstein hjá Vulture og Stephanie Zacharek hjá Time Magazine – örfá dæmi um virta gagnrýendur sem kölluðu myndina einhvers konar incel-áróðursmynd. Zacharek orðaði þetta svona:
„Arthur has a crush on her, and though he does her no harm, there’s still something creepily entitled about his attentiveness to her. He could easily be adopted as the patron saint of incels.“
Skoðum þessa setningu aftur – hann gerir henni ekkert mein, en það að dagdreyma er svo krípí að hann er orðinn leiðtogi incel-brjálæðinga heimsins. Og ég ætla ekkert að fara að afsaka hann Arthur hérna, hann er sannarlega bullandi andhetja, eða öllu heldur, hreinlega bara illmenni, og það er ljótt að drepa fólk, jafnvel þegar þeir eru krípí kapítalistar eða mannhatandi spjallþáttastjórnendur. En hann er alveg nógu mikið illmenni til þess að það þurfi ekki að klína kvenhatri á hann. Hann er nefnilega mest í því að drepa karla, með fáeinum undantekningum – og þótt hann sé ekki ávallt fullkominn séntilmaður í samskiptum við kvenfólk þá kemur hann fram við þær af ólíkt meiri virðingu en karla – og fyrstu morðin? Þau koma í kjölfar þess að hann bjargaði einmana konu í lest frá áreiti nokkurra hvítflibbadurga.

Þeir eru nefnilega ekkert síður sekir um kvenhatur en skírlífislúðarnir. Menn geta talið sig eiga skilið meira af einhverju sem þeir fá lítið af, jafnvel ekkert, og þeir geta talið sig eiga skilið meira af einhverju sem þeir fá meira en nóg af. Þú finnur góða menn og vonda, karlrembur og femínista, í báðum hópum. En satt best að segja grunar mig að mestu karlremburnar séu oftar í fyrri hópnum. Og það er hópurinn sem Jókerinn hefur, að stórum hluta óviljandi, vissulega, stríð gegn.
Hvernig tengist þetta allt Batman?
Það er ekki ein einasta leðurblaka í myndinni, en bæði Bruce Wayne og pabbi hans Thomas Wayne koma við sögu – og allir sem hafa sín myndasögufræði á hreinu vita hvað verður um þá feðga.

Nú hefur verið tekið fram að Jókerinn sé ekki hluti af hinum heildstæða kvikmyndasagnaheimi DC og þetta sé bara stök mynd. En það er óþarfi að taka það of alvarlega, þeir gætu vel skipt um skoðun hvað það varðar ef það hentar. Og það hversu dúndrandi vel Jókerinn gengur í miðasölunni gæti vel ýtt undir það.
Það virtist hins vegar á tímabili stefna í óvæntusta skúbb Batman-heimsins í langan tíma, „Luke, I‘m your father“ augnablik myndasöguheimsins – þar sem myndin býr til jarðveg fyrir atriðið þar sem Jókerinn segir „Batman, I‘m your brother“ í einhverri framtíðarmynd. Nema hvað, rétt eins og sambandið við nágrannastúlkuna reyndust það órar einir, í þetta skiptið ranghugmyndir vanstilltrar móður Arthurs, sem ímyndaði sér ástarævintýri með auðjöfurnum Thomas Wayne.
En samt … ég veit um marga sem eru sannfærðir um þessar skýringar, þær standa jú í sjúkrasögunni sem hann fær á Arkham-spítalanum. En eftir að hafa hitt Thomas Wayne skömmu áður, durg sem greinilega svífst einskis ef það hjálpar honum að klífa metorðastigann, þá trúir maður honum svo sannarlega til þess að kippa í spotta og múta réttum mönnum til þess að falsa nokkrar sjúkraskýrslur og fela fyrir sig gömul hliðarspor.
Þannig heldur myndin öllum möguleikum opnum – og mögulega er mikilvægast í þessu samhengi að Jókerinn sjálfur trúi sögunni. Og hvaða áhrif myndi slíkt hafa á Batman-myndir framtíðarinnar?
Jú, skilin á milli hvort Blaki eða Jókerinn sé illmenni sögunnar verða skyndilega óskýrari. Blaki er ríki strákurinn sem hann hefur alltaf verið – en nú mætir hann óréttlæti misskiptingarinnar í hvert skipti sem hann berst við Jókerinn. Trúðurinn verður verkalýðshetjan í þeim slag, Blaki andlitslaust yfirvaldið sem vill halda óbreyttu ástandi, eðlilega, hver myndi ekki vilja halda óbreyttu ástandi þegar maður á ógeðslega töff leðurblökuhelli?
Fyrir utan að þetta þýðir að þegar fram líða stundir verður nausterkur og þrautþjálfaður 35 ára Batman að berja líftóruna úr ellilífeyrisþega. Þú ert augljóslega ekki mikil hetja ef þín helstu afrek er að lumbra á gamalmennum.
Svo talar þetta allt saman inní þrána til að tilheyra. Tilheyra samfélagi, tilheyra þeim sem hafa það gott, vera broddborgari. Þrá lágstéttana til að tilheyra aðlinum, vera konungsborin, allt sárfátæka fólkið sem les greinar um kóngafólkið í slúðurblöðunum og lætur sig dreyma um að dag einn komi í ljós að þau hafi erft þetta konungsríki líka. Það er þrá hinna undirokuðu, og já, mögulega hinna vondu í heimi Wayne-fjölskyldunnar.
Saga Arthurs og mömmunar og samskipti þeirra við Arkham geðsjúkrahúsið kastar samt enn lúmskara ljósi á Batman-sögurnar. Jafnvel í raunsönnustu Batman-sögunum hefur Arkham verið rækilega ýkt geðveikrahæli sem eru svo órafjarri geðveikrahælum nútímans að maður tengir þau ekki einu sinni saman í hausnum.
En í þessari sögu er Arkham ósköp venjulegt geðsjúkrahús – sem eins og flestar heilbrigðisstofnanir á dögum nýfrjálshyggju mega þola endalausan niðurskurð, örþreytta starfsmenn sem vinna alltof mikið og sjúklinga sem ekki er sinnt sem skyldi.
Slíkt endar alltaf á ósköpum. Mögulega á andlátum, heilsubresti eða harmleikjum sem vel hefði mátt koma í veg fyrir – og stundum endar það á því að Arthur Phillips fær ekki lyfin sín og verður snarbilaður trúður og byltingarhetja, í samfélagi þar sem allir eru búnir að fá nóg af einmitt þessum niðurskurði og ómanneskjulegheitum yfirvalda og peningaafla.
Hver er Jókerinn?
En hver er þessi Jóker? Svarið virðist kannski augljóst – en í lykilsenu undir lokin liggur andhetjan okkar á bílhúddi á meðan óeirðir geysa í kringum hann – og langt, langt í burtu yfirgefa foreldrar Leðurblökumannsins verðandi kvikmyndahús. Þar sem maður með grímu verður þeim að bana, fyrir framan augun á barnungum Bruce Wayne. Æskuminningar geta breyst með árunum, líklega mun Brúsi bara muna trúðsgrímuna og kenna Jókernum um.

En þetta ýjar líka að því að Jókerarnir geti orðið fleiri, þeir geti margfaldast, skipt með sér verkum. Það hefur löngum verið eitt höfuðeinkenni Jókersins að baksaga hans er ein í dag og önnur á morgun, hann býr sér til nýja fortíð á hverjum degi.
Einmitt þess vegna voru margir heittrúaðir myndasögunirðir skeptískir á þá hugmynd að gera upprunasögu Jókersins – það stríddi gegn einhverju forvitnilegasta eðli Jókersins. En Jókerinn hefur breyst heilmikið í gegnum árin og bíó-Jókerarnir eru allir gjörólíkir, það er sárafátt líkt með Jókerum Jack Nicholson, Heath Ledger, Jared Leto og Joaquin Phoenix í raun, og því ekkert svo galið að Jókerarnir séu margir. Það myndi líka útskýra fyrir Blaka greyinu af hverju morðingi foreldra hans sé ennþá að hreyfa sig eins og ungur maður og geti mætt í bardaga án göngugrindar.
Eftir hvern er Jókerinn?
Svarið er einfalt á yfirborðinu; handritið er eftir Scott Silver og leikstjórann Todd Phillips, byggt á persónu sem þeir Bob Kane og Bill Finger sköpuðu, merkilega forvitnileg upprunasaga sem er rakin betur hér.

En hún er líka eftir Martin Scorsese, Lynne Ramsey, Joaquin Phoenix og Hildi Guðnadóttur. Hvernig kemur það eiginlega allt heim og saman?
Joaquin Phoenix hefur náttúrulega gert þessa mynd áður. Hún hét You Were Never Really Here – og af því hún var dimm og drungaleg og kom ofurhetjum ekkert við sáu hana sárafáir – og misstu því af þessu yndislega atriði hér. Þessi mynd Lynne Ramsey fjallar um einfara sem á erfitt með mannleg samskipti og býr með aldraðri móður, sem er hans helsti lífsförunautur. Rétt eins og Jókerinn er hann duglegur að drepa fólk, þótt hann geri það að vísu fyrir peninga – hann er launmorðingi, sem að minnsta kosti í myndinni drepur aðallega illmenni, ennþá verra fólk en Jókerinn drepur.
Þetta er alvöru martraðarför niður í innstu myrkur, Jókerinn er algjör barnamynd í samanburðinum – og Judith Roberts er algjörlega stórkostleg sem mamman, ennþá betri en Frances Conroy í Jókernum. Phoenix er þó ekki sá eini sem leikur í báðum myndum, Dante Pereira-Olson leikur hann ungan og í Jókernum leikur hann sjálfan Bruce Wayne – og hver veit, kannski er það enn önnur vísbending um skyldleika þeirra? Þar áður lék Phoenix svo í mun hressilegri mynd, Don‘t Worry, He Wont Get Far on Foot, sem fjallaði um mann í hjólastól sem teiknaði meinfyndnar skrípamyndir í blöðin. Hún er nánast eins og speglaður Jóker, maður sem lendir í mótlæti en fer í meðferð og tekst á við mótlætið með húmorinn að vopni, altso húmor þar sem brandararnir enda ekki alltaf með ofbeldi.
Þannig er Jókerinn dálítið eins og lokamyndin í persónulegum þríleik hjá Phoenix – og eins góður og hann er í Jókernum er hann ennþá betri í hinum tveimur.
Svo er það Scorsese kallinn. Löngu áður en hann fór að úthúða myndasögubíómyndum þá var hann framleiðandi af Jókernum. Hann hvarf fljótlega, sagði sig frá verkefninu – en fingraförin hans eru yfir alla myndina. Það eru líkindi við Taxi Driver, en hún sækir samt miklu meira í The King of Comedy (sem var fjallað um hér) – eiginlega mætti steypa henni saman við You Were Never Really Here og þá ertu kominn með Jókerinn. King of Comedy fjallar um Robert De Niro í hlutverki Arthurs, hann er misheppnaði grínistinn sem dreymir um að komast á sviðið hjá Jerry Lewis. Núna er De Niro vel haldni sjónvarpsgrínarinn – og fær að kenna á eigin meðulum. Einhver stakk líka upp á því að hann væri að leika Jay Leno – og ef það er tilfellið skil ég Jókerinn miklu betur. Þessi viðsnúningur kallast svo á við aðra Scorsese-mynd, The Color of Money, þar sem Scorsese sjálfur gerði framhald af gamallri klassík, The Hustler (mögulega besta mynd Newmans – og tilefni þessarar minningargreinar), og fékk aðalleikarann þar, Paul Newman, til þess að leika mentorinn í þetta skiptið.
Svo skulum við nú ekki gleyma Todd Phillips, sem fram að Jókernum var frægastur fyrir Hangover-þríleikinn. Og ef maður rifjar Hangover upp – voru aðalpersónurnar í henni ekki fyrstu fórnarlömb Jókersins? Þessir þrír hvítflibbagaurar í neðanjarðarlestinni sem níddust á Arthur en fengu kúlu í sig að launum? Gæti jafnvel verið að Todd sjálfur tengi betur við þá en Jókerinn – og einmitt það gefi myndinni ákveðna spennu og ófyrirsjáanleika?
Talandi um Hangover – handritshöfundur annarar og þriðju myndarinnar – og ótal fleiri skelfilegra bíómynda, tók sig skyndilega til í sumar og gerði Chernobyl, einhverja vönduðustu sjónvarpsseríu undanfarinna ára.
Þetta gefur öllum iðnaðarleikstjórum heimsins von – og hver veit, kannski er galdurinn það sem sameinar bæði Chernobyl og Jókerinn, tónlist Hildar Guðnadóttur, sem virðist geta breytt mestu iðnaðarmönnum Hollywood tímabundið í alvöru listamenn.
Hver er hetjan?
Við skulum gefa skáldinu og útvarpsmanninum Eiríki Guðmundssyni orðið, þetta verður nefnilega ekkert betur sagt:
„Stutt sagt: myndin fjallar um mann sem á engan möguleika. Aldrei. Hefur aldrei litið glaðan dag. Aldrei. Og það er af félagslegum aðstæðum. Heimurinn lemur hann í rot strax í upphafi myndar. Hann rís aldrei aftur. Getur það ekki. Og myndin lýsir þessu snilldarlega. Færir okkur inn í veruleika manns sem hefur orðið undir. Og hún gerir það svo snilldarlega að maður skilur svo fullkomlega vel hvers vegna hann skýtur 3 Wall Street gaura í neðanjarðarlest. Ég hefði gert nákvæmlega það sama. Það er afrek, að fylgja slíkum manni eftir, svo vel gert að ég leiðist út í karaktera í Rússlandi frá 19. öld. Vísanir í Clockwork Orange Kubricks, þar sem einn dillandi dans og ofbeldi renna saman, hjá Beethoven hjá Kubrick, en hjá Hildi í hreint stórkostlegri tónlist. Myndin hvetur okkur til að setja upp trúðsgrímur, stíga fram, og rústa öllu þessu fjárans kerfi, þar sem þeir verst settu verða alltaf undir, í mínum huga er þessi mynd ákall um byltingu.
Komandi frá Hollywood, já, það er eru tíðindi, það er merkilegt. Bottomlæn, Hollywood fjármagnar svona helvíti, því það er ekkert nema helvíti í þessari mynd, engir ljósir púnktar, það er í raun og veru mjög gott, og mjög umhugsanarvert. Við glímum daglega við það persónulega og hið félagslega. Þessi mynd tekst svo sannarlega á við það félagslega, en er svo vel gerð að hún hleypir okkur alla leið, inn í persónulegt líf einstaklings sem hefur öllu tapað og á ekki neitt og hefur ekkert að stefna að, og á enga möguleika. Hún fjallar um fólkið sem við steingleymum hugsandi loftslagsbreytingar því það er svo töff að hugsa um þær. Fólk sem á ekkert hér og nú. Það er ekkert töff að hugsa um það. Þetta er mynd. Héðan í frá, og þangað til næst, ég er trúður, Joker.“
Er hún góð?
Já. Hún er samt ekki jafn góð og margar myndir sem hún stelur af. Æstustu aðdáendurnir eru aðeins að ýkja snilldina á köflum, sérstaklega þegar hún nær aldrei einmitt þeim listrænu hæðum sem myndirnar sem hún skuldar mest, The King of Comedy og You Were Never Really Here, voru bara svo miklu betri. Þetta er þegar allt kemur til alls mynd eftir leikstjóra The Hangover – og það sést alveg stundum. Phoenix er svo sannarlega magnaður – en Heath Ledger er samt áfram besti Jókerinn. En Phoenix nær blessunarlega að losa mann við óbragðið sem Jóker Jared Leto skildi eftir sig.

Og jafn ósammála og ég var áðurnefndum dómi David Ehrlich á Indiewire um myndina þá er ég dálítið sammála pistli sem hann skrifaði seinna um Jókerinn og Fight Club. Nei, ég er að vísu ekki sammála því að Jókerinn segi eitthvað sérstakt um karlmennsku eins og Fight Club vissulega gerir (en hún gerir samt svo miklu, miklu meira), en þar kemur kannski vel á vondan – þegar ólíklegustu myndir um hvíta karla eru orðnar fyrst og fremst myndir um bleiknefja, rétt eins og myndir með blökkumönnum og konum í aðalhlverki hafa lengi mátt þola að vera fyrst blökkumannamyndir eða kvennamyndir, áður en þær fengu að vera hasarmyndir eða gamanmyndir eða eitthvað annað. En Jókerinn fölnar við hliðina á Fight Club þegar kemur að því að greina og birta undirliggjandi reiði í samfélaginu og birta okkur mynd af klofnum persónuleika að missa tökin á raunveruleikanum. Jókerinn er mynd sem allir eru að tala um núna, Fight Club er mynd sem allir verða að tala um alltaf á meðan fólk hefur ennþá vit á að horfa á almennilegar bíómyndir.
Skiptir hún máli?
Það er talað um hana, rifist um hana. Það segir okkur eittthvað. Hún er góð en ekki slíkt meistaraverk að hún ætti að skipta máli – en hún skiptir máli af því hún bæði lagar og ýkir vanda Hollywood akkúrat núna. Ef maður skoðar lista yfir 20 vinsælustu myndir ársins í Bandaríkjunum sér maður að Hollywood er nánast hætt að gera myndir fyrir fullorðna – eða fullorðnir eru hættir að fara í bíó. Jú, þriðja John Wick-myndin, hryllingsmyndirnar Us og It 2, blautur táningsdraumur Tarantino og eitt stykki bílahasarmynd eru þarna á listanum, en restin eru teiknimyndir, ofurhetjumyndir og endurgerðir á teiknimyndum. Sumar þeirra eru vissulega passlega fullorðins, sérstaklega Jókerinn – en samt – það virðist nánast ómögulegt að fá alvöru pening fyrir fullorðinsdrama ef það er ekki búið að teikna það áður. Nema Ad Astra, og þá vita áhorfendur ekki hvað þeir eiga að gera, þeir tímar virðast liðnir þar sem súperstjarna gat selt erfiða mynd.

Ekki misskilja mig, ég er hjartanlega ósammála öllu þvaðri um að bíómyndir séu verri í dag en fyrir tíu eða tuttugu eða þrjátíu árum. Þessar góðu eru bara annars staðar, Evrópubíóið og Asíubíóið og Suður-Ameríku-bíóið og Afríkubíóið og ameríska indí-bíóið er við góða heilsu. En þessar myndir fá ekki það pláss sem þær þurfa, í minni heimaborg get ég komið á síðustu stundu á hvaða Hollywood-mynd sem er án þess að hafa áhyggjur af því að panta miða – á meðan það er oft uppselt löngu fyrir sýningu í listrænni bíóhúsum borgarinnar. Það er einhver skekkja þarna, fólk vill betra og þroskaðra stöff en er í boði. Jókerinn gæti bæði haft góð og slæm áhrif á það bíó-mataræði – og það fer mest eftir því hvort misvitrir Hollywood-mógúlar læra réttu lexíurnar af henni eður ei.
En er hún að fara að valda byltingu? Varla, en hver veit. Byltingar geta byrjað á ólíklegustu stöðum og óðir trúðar geta stundum verið betri trójuhestar en æstir trotskíistar.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson