Ég var löngu búinn að missa trúna á íslensku þjóðina áður en kreppan skall á. En það hafa komið þær stundir að trú manns á íslensku þjóðinni vaknaði á ný. Á þjóðfundum á Austurvelli, þegar aðsendar greinar og pistlar í dagblöðum verða skyndilega miklu innblásnari og þegar það glitti í einhvern hugsjónaneista í áður kulnuðum augum þjóðarsálarinnar.
En svo koma líka þær stundir sem minna mann á að endurhæfingin sé rétt að byrja. Eins og til dæmis þegar íslenskum bókaútgefanda þótti þetta rétti tíminn til að gefa Pollýönnu út – sem og sú staðreynd að jafnt lesendur sem fjölmiðlamenn virðast taka undir það einum rómi að þetta sé akkúrat sú bók sem hafi þurft í kreppunni.
Fyrir þá örfáu sem ekki vita þá er Pollýanna ung stúlka sem sér jákvæðu hliðarnar á bókstaflega öllu, og við lifum vissulega tíma þar sem góðu hliðarnar virðast ansi fjarri okkur. En skoðum samt aðeins betur hvað boðskapur Pollýönnu snýst um:
Að vera jákvæð.
Að tala hlutina upp.
Að vera gagnrýnislaus.
Að gleyma því að við höfum hjálpað til við að drepa fólk í Írak.
Að gleyma því að við höfum setið hjá.
Að gleyma öllu sem var að á Íslandi af því við vorum svo hamingjusöm, rík og óspillt (samkvæmt öllum könnunum sem rötuðu í hérlenda fjölmiðla).
Við höfum verið í Pollýönnuleik í öll þessi ár og það er kominn tími til að hætta, það er kominn tími til þess að drepa Pollýönnu.
En eins og allir almennilegir morðingjar þykir mér þó rétt að eiga nokkur orð við fórnarlambið fyrst, útskýra mig og gefa henni gálgafrest:
Elsku Pollýanna. Þetta var ekki þér að kenna. Þú ert bara saklaus munaðarleysingi frá Vermont sem meinar vel og vilt engum illt. En það er búið að eitra sálina í þér, það er búið að líma á þig horn og hófa, þetta er aðeins spurning um líknardráp. Og þegar það er búið þá getum við kannski farið að skilja þig betur, þá getum við kannski skrifað þig upp á nýtt.
Ásgeir H Ingólfsson
Birtist upphaflega á Smugunni.