It’s coming through a hole in the air,
from those nights in Tiananmen Square.
It’s coming from the feel
that this ain’t exactly real,
or it’s real, but it ain’t exactly there.
Er lýðæðið í loftinu? Laglínurnar hér að ofan eru úr átján ára gömlu lagi Leonard Cohens sem nefnist „Democracy“ og er af breiðskífunni The Future. Þar dreymir Cohen um að lýðræðið sé loksins að koma til Bandaríkjanna, eitthvað sem má deila um að hafi ræst eftir átján ár af skertu persónufrelsi í nafni hryðjuverkastríðs.
Það merkilega er þó hvernig Cohen staðsetur lýðræðið í framtíðinni – það stjórnarfar sem við höfum tekið þátt í hingað til er eitthvað allt annað, eða að minnsta kosti „raunverulegt – en samt ekki alveg.“
Lýðræði í lauslegri námundun
Þegar þetta er skrifað þá veit enginn hverjir voru kosnir til stjórnlagaþings á laugardaginn. Samt eru menn strax farnir að afskrifa kosninguna sem mistök, fyrst og fremst út af dræmri kjörsókn. En það er eitt sem ber að hafa í huga áður en lengra er haldið, kosningarnir á laugardaginn voru tilraun. Tilraun við lýðræði.
Það lýðræði sem við höfum búið við hérlendis er í raun flokksræði – oftast á bilinu 4-6 flokkar sem við höfum getað valið úr. Kosturinn var sá að þetta voru nógu fáir flokkar til að við gætum kynnt okkur þá alla nokkuð vel án mikillar fyrirhafnar. Gallinn var hins vegar sá að enginn þeirra náði að vera nema í besta falli lausleg námundun við okkar eigin hugsjónir og skoðanir. Líkurnar á því eru ólíkt meiri með 523 valmöguleika, en þá er líka ólíkt erfiðara að velja úr.
En ruglaði ég ekki saman kostum og göllum þarna? Var stærsti gallinn við kosningar fortíðarinnar ekki einmitt hvað þetta var fyrirhafnarlítið – þetta var lýðræði með lágmarks fyrirhöfn. Eitthvað sem truflaði ekki grillveislur, hvorki hjá vinstri né hægri mönnum. Bara það að kynna sér alla frambjóðendurna þokkalega tók mig sem nam heilum vinnudegi, þeir hefðu helst þurft að vera tveir eða þrír svo ég hefði getað rýnt betur í heimasíður frambjóðanda og hlustað á útvarpsupptökur þeirra efnilegustu.
Valdið sem við lútum
Þannig var mikilvægasta lexían sem við lærðum af þessum kosningum ósköp einföld: Alvöru lýðræði er vinna. Já, bara helvítis puð og maður fær ekkert borgað. Þetta snýst vel að merkja ekki um flokkakosningar eða einstaklingskosningar, bæði formin geta verið meingölluð og bæði hafa ýmsa kosti – en bæði kerfin geta virkað prýðilega ef þau eru rétt útfærð (og það má vel blanda þeim saman á einhvern hátt) og lýðurinn er tilbúinn að taka þátt. En það er ekki mikið lýðræði þegar flestir kjósendur kjósa sama flokk kosningar eftir kosningar, stundum jafnvel kynslóð eftir kynslóð – það er lýðræði fyrir róbóta og hefur sáralítið með manneskjur að gera.
Hver stjórnarskrá í heimi er gerð úr gylltum hlekkjum.
Við göngum undir okið – það er frelsið, sem við þekkjum.
Sú ríkisstjórn, sem drottnar með ranglæti og mútum
og reiddu lagsverði, – hún er valdið, sem við lútum.
Að kvalir okkar linni, ef við krjúpum, ef við grátum
í kirkjum hinna ríku – það er trúin, sem við játum.
Þetta erindi orti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi þegar Ísland var ennþá undir yfirráðum Dana – en í ljóðasafni hans árið 1952 var erindið horfið úr ljóðinu „Vodka“, sem var að öðru leyti óbreytt. Ég hef hvergi fundið neitt um ástæður þessa en þykir einna líklegast að Davíð hafi ekki viljað tala illa um stjórnarskrár svona stuttu eftir að danska stjórnarskráin varð formlega íslensk – enda var hún alltaf til bráðabirgða, lýðveldiskynslóðina hefur varla rennt í grun hversu duglausar komandi kynslóðir yrðu þegar kom að því verkefni að semja íslenska stjórnarskrá, en slíkt plagg höfum við í raun aldrei átt – bara þýðingu á þeirri dönsku.
Erindið lýsir djúpstæðri vantrú á hinu svokallaða lýðræði, sannfæringu um að kerfið kæfi allt raunverulegt vald borgaranna. En svo virðist sem Davíð hafi árið 1952 verið vongóður, líkt og Leonard Cohen árið 1992 – kannski er þetta allt að koma? 1952 var lýðræðið ungt og 1992 var Clinton að hefja forsetatíð sína – það voru tækifæri til staðar. Rétt eins og nú. Núna eigum við stórkostlegt tækifæri til þess að gera grundvallarbreytingar á því kerfi sem brást okkur jafn illa og raun bar vitni í hruninu – en sagan kennir okkur líka að slíkum tækifærum er alltof oft kastað á glæ.
Helvítis puð
Því lýðræðið er helvítis puð og flest puðum við alveg nógu mikið fyrir. Ég get líka alveg tekið undir það að margt í framkvæmd stjórnlagaþingsins var meingallað. Ég hef heyrt sögur af því að það var óvenju flókið, í sumum tilfellum ómögulegt, fyrir bæði sjómenn og kjósendur búsetta erlendis að kjósa, öll kynning á kosningunni var í molum og tímaramminn alltof stuttur. Margir hafa einfaldlega ekki haft tíma til að setja sig inn í málið sökum tímaskorts, þrátt fyrir góðan vilja. Svo fengu auðvitað einhverjir afhenta lyfseðla, hvort sem þeir komu frá almættinu eða Valhöll – en þeir sem fylgdu slíkum listum í blindni hafa varla vandað sig neitt minna í þessum kosningum en öðrum. Þá hefði mátt einfalda verkefnið, gera það gerlegra – til dæmis með því að skipta bæði frambjóðendum og kjósendum upp í 25 kjördæmi eftir slembiúrtaki, þannig að hver og einn kjósandi hefði ekki þurft að kynna sér nema um 20 frambjóðendur.
What we need is awareness, we can’t get careless
– Public Enemy
Gallarnir voru þó ekki stærstir í framkvæmdinni, heldur í orðræðunni –á meðan sumir virtust alltof hugfangnir af þessum sögulegu kosningum til að taka gagnrýnisraddir til greina reyndu aðrir að nota galla á framkvæmdinni sem sönnun á því að einstaklingskosningar væru meingallaðar í eðli sínu.
Raunar var ein fullyrðing sérstaklega algeng, að eingöngu frægt fólk kæmist að, fólk kysi ýmist celeb eða vini sína. Ég skal alveg viðurkenna að ég bjóst ekki við öðru en að ég myndi gera annað hvort, bæði átti ég nokkra vini og kunningja í framboði sem ég treysti alveg prýðilega og sömuleiðis voru þar nokkrir þjóðþekktir Íslendingar sem ég tel fullsæmda af frægðinni. Og þótt málefnin skipti máli skiptir ekki síður máli að geta treyst fólki – og það er oft erfiðara að treysta ókunnugum. Því kom mér skemmtilega á óvart þegar ég arkaði á kjörstað og var ekki í neinum vafa um fyrsta sætið – en þar endaði manneskja sem ég þekki ekki persónulega og getur ekki með nokkru móti flokkast sem celeb. Bara frambjóðandi sem náði að kynna sig og sín málefni sköruglega og af sannfæringu, án þess þó að komast að í fjölmiðlum fyrir kosningar mér vitandi og án þess að borga fyrir auglýsingar.
Mun meiri þáttaka
Og þótt þátttakan hafi ekki mælst mikil grunar mig að hún hafi í raun verið miklu meiri en í undanförnum kosningum. Bæði þurftu þeir sem kusu að hafa miklu meira fyrir hlutunum en áður – í raun upplifði ég mig í fyrsta skipti sem raunverulegan þátttakanda í kosningum, ekki bara lýðræðisþreyttur kjósandi sem merkti x við skásta kostinn. Þá fengu heilir 523 frambjóðendur, sem fæstir hafa tekið þátt í hefðbundnu stjórnmálastarfi áður, dýrmæta reynslu af því að standa í eldlínunni og þótt fæstir muni komast að þá grunar mig að þetta reynist dýrmæt reynsla sem geri marga þeirra að mun virkari þátttakendum í lýðræði en áður. Og það sem kom skemmtilegast á óvart var einmitt hversu mikið mannval var í þessum frambjóðendahópi. Eftir fyrstu yfirferð hafði ég merkt við meira en hundrað nöfn – og þeir sem ég sá ástæðu til þess að merkja sérstakan mínus við voru miklu færri en ég óttaðist.
En fjöldinn lét sig vanta, sbr. Facebook-færslu kunningja míns á kjördag: „50 manns á röð á KFC en enginn á kjörstað – Íslendingar í hnotskurn.“ Við erum nefnilega alin upp á skyndibitalýðræði með einföldum og auðskiljanlegum matseðli, sem breytist oft nánast ekkert á milli ára. Það er auðvelt og þægilegt lýðræði, en við vitum öll að það er ekki hollt til lengdar.