Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna síðasta haust í kjölfar kosningabaráttu sem mörgum þótti einkennast af rasisma. En samhliða uppgangi Trump náðu ýmsar jaðarhreyfingar að brjótast fram í sviðsljósið. Ein þeirra var alt-right hreyfingin, sem er stytting fyrir alternative-right (óháða hægrið) og átti uppruna sinn á spjallsvæðum ungra róttækra hægri manna. Maður að nafni Richard Spencer tók þetta svo lengra og kom alt-right hreyfingunni í heimsfréttirnar strax eftir kjör Trump, þegar ræða sem hann flutti fór eins og eldur í sinu um netheima, en þar vísaði hann í nasisma þriðja ríkisins með orðunum „Hail Trump! Hail our people! Hail victory!“ Daginn sem Trump var vígður í embætti fór svo annað myndband á flug – en þar var Spencer kýldur í miðju viðtali og úr varð internet æði, þar sem myndbandinu var dreift með orðum á borð við: „Svona á að lemja nasista.“

Spencer er hins vegar ágætlega menntaður rasisti, með mastersgráðu í heimspeki. Það er rithöfundurinn Valur Brynjar Antonsson líka – og fyrir rúmum sex árum síðan sátu þeir saman á knæpu á Manhattan að ræða heimspeki og pólitík. Eftir á hugsaði Valur svo með sér: „Guð minn góður, ef svo ólíklega vill til að það verði alvöru fasistahreyfing í Bandaríkjunum á þessari öld, þá verður Richard Spencer í fararbroddi þeirrar hreyfingar.“
Trump hefur afneitað tengslum við hreyfinguna og sjálfir hafa þeir neitað því að vera nasistar, en þeir nýtast ótvírætt málstað Trump og þegar orðræða þeirra er skoðuð er erfitt að neita því að þeir séu nasistar, en í áðurnefndri ræðu Spencers kallaði hann vinstri menn sálarlausa gólema (gólem er fræg goðsagnavera úr gyðingdómi) sem endurtaka bara það sem John Oliver sagði síðast í sjónvarpinu. En mest talaði hann um „okkur“ – og þegar Richard Spencer segir „við“ þá meinar hann „hvítu við.“ „Að vera hvítur er að vera baráttumaður, krossfari og sigurvegari,“ sagði hann, kallaði hvíta Bandaríkjamenn börn sólarinnar og sagði að Ameríka hafi fram að þessari kynslóð verið hvítt land. „Hún er okkar sköpunarverk, okkar arfleifð og tilheyrir okkur.“
En hvernig var að drekka bjór með honum?
Öðruvísi hægrimennska
„Ég bjó í Kínahverfinu fyrir ofan Manhattan-brúna og aðeins ofar var sprúðlandi skemmtilegt hverfi. Ég sótti nokkra bari þarna og kynntist ýmsu skrautlegu fólki,“ segir Valur Brynjar mér í upphafi þegar hann rifjar upp þessa tíma. Vinstrimaðurinn Valur hafði gaman af að kynnast þarlendum hægrimönnum. „Það eru dálítið sérstakar aðstæður í New York – þótt menn séu einhvers staðar í pólitíkinni þá er svo margt hægt að læra af einhverjum sem er annarar pólitískrar skoðunar en maður sjálfur. Í gegnum þetta kynntist ég dálítið stefnum og straumum í Bandarískri hægrimennsku.“

En hægrið í New York var dálítið utangátta á landsvísu. „Í New York finnurðu Repúblikana sem eru ekki með þessar félagslegu áherslur kristninnar, eins og víðast annars staðar í Bandaríkjunum,“ segir Valur og segir að úr þessum hópi misskilinna hægrimanna hafi sprottið ansi ögrandi málfundarfélag. „Þetta endurspeglar ekki hið venjulega hægri, en á þessum málfundum mættu ótrúlegustu útgáfur af hægri mönnum. Þetta var sérlundað fólk sem passaði hvorki inní hina frjálslyndu New York né inní Repúblikanaflokkinn. Þar af leiðandi eru þeir vanir að vera í andstreymi – og taka upp á því að vera með umdeild mál á dagskrá sem Repúblikanaflokkurinn myndi annars ekki vilja takast á við.“
Þarna hitti hann Richard Spencer eitt kvöldið. Það voru kappræður og umræðuefnið var „Er kristindómurinn fyrir aumingja?“ Richard Spencer var meðmælandi og fullyrti að kristindómurinn væri letjandi hugmyndafræði fyrir hægrimenn.
„Honum fannst mjög áhugavert að tala við mig, út af því ég er marxisti og sósíalisti, og ég enda á að tala við hann allt kvöldið. Þá var hann ekki búinn að koma sér neitt áfram og var algjör jaðarfígúra. Var kannski fenginn á þetta kvöld af því hann var ögrandi.“

Hann var þá þegar komin í fulla vinnu við að vera rasisti. „Hann fær sem sagt styrki frá ríkum mönnum sem eru á móti því, eins og hann orðar það; „að brúnt fólk ráðist inn í landið okkar,“ og þegar ég talaði við hann þá var hann ekkert að draga úr þessum rasisma sínum. En þetta var líka í fyrsta sinn sem ég talaði við Bandaríkjamann sem tók stjórnarskrána ekkert sérstaklega alvarlega,“ segir Valur.
Valur og Spencer eru báðir með meistaragráðu í heimspeki. Þar af leiðandi barst talið vitaskuld að heimspeki og segir Valur að Spencer hafi greinilega verið vel lesin í Nietzsche og Heidegger. „En hann les líka Slavoj Žižek og fylgist mjög grannt með róttæka vinstrinu. Ekki til að finna veikan flöt á því heldur til að læra af þeim. Hann lítur ekki á róttæka vinstrið sem sinn helsta óvin, heldur þennan klassíska Repúblikanaflokk, þannig að áður en Trump var kominn í framboð var hann byrjaður að hugsa þetta – að það þyrfti að bylta Repúblikanaflokknum.
Hann lítur til þess hvernig róttæka vinstrið hefur haft áhrif á Demókrataflokkinn. Það sem hann heillast fyrst og fremst að er geta róttækra vinstrimanna til að hafa áhrif á menninguna. Róttæka vinstrið hefur engin pólitík eða fjárhagsleg völd, en hefur gríðarleg áhrif á orðræðuna í samfélaginu og þannig mikil langtímaáhrif á hvert samfélagið stefnir.“
And-kapítalískur fasisti
En af hverju sá hann þetta leiðtogaefni í honum?
„Vegna þess að hann er að ganga þvert á nokkur heilög gildi. Í fyrsta lagi þá vogar hann sér að efast um ágæti hugsunarinnar sem liggur að baki Bandarísku stjórnarskránni. Það er eins og að efast um kónginn í Tælandi, þetta er svo heilagt í Bandaríkjunum að það skiptir engu máli hvar þú ert á hinu pólitíska litrófi. Þetta er eitthvað sem þú lítur á sem þinn útgangspunkt sem hugsandi mannvera, þú gagnrýnir ekki stjórnarskrána heldur setur þig inní hana til að túlka hana. En Spencer hafnar algjörlega frelsishugtakinu, eitthvað sem er mjög sérstakt í Bandaríkjunum. Hann lítur á frelsið sem algjöra gervihugsjón og kemur þar með gagnrýni sem maður heyrir frekar á vinstri kantinum. Eins og hann orðar það; „Einhvern tímann var ég að koma niður af fjöllum og kem niður að götunni og sé Wal-Mart og Tex-Mex og sé birtingarmyndir neyslumenningarinnar og fyllist fyrirlitningu.““
Hann er sem sagt and-kapítalisti? Valur játar og heldur áfram: „Gamli fasisminn forgangsraðar merkingu, forlögum eða örlögum, fram yfir frelsið. Það skiptir ekki máli að vera frjáls, heldur skiptir máli að uppgötva hvert hlutverk manns er í lífinu. Þetta er eitthvað sem þú fannst hvergi á hægri væng stjórnmálanna í Bandaríkjunum. Hugmyndin er: Þinn staður í lífinu er að uppfylla einhvers konar örlög. Örlög þjóðar, örlög fólks. Hann er líka mjög vel að sér í gyðinglegri hugsun, hann er ekki opinberlega antí-semítisti – en ég held að hann sé það. Hann lítur á gyðingdóminn og kapítalismann og hið frjálslynda kapítalíska þjóðfélag sem ógn, af sömu ástæðum og nasistarnir litu á það sem ógn. Vegna þess að kapítal leysir fólk úr böndum við sinn bakgrunn, það flytur fólk á milli landa. Hann er á móti kapítali út af því hann lítur á það sem eitthvað sem eyðir merkingu.“
Þannig er Spencer í upp að vissu marki sósíalisti þegar kemur að velferðarkerfinu. „Pólitísk séð vill hann ríkisrekna heilsugæslu fyrir alla, svo lengi sem þú ert hvítur. Hann lítur á það sem ákveðna skyldu að hugsa um sitt fólk. Hans fólk er af evrópsku ætterni. Hann orðar alveg skýrt ákveðna hugsun sem ýmsir eru að hugsa í Bandaríkjunum en þora kannski ekki að orða. En þegar talað er um að velferðarkerfið í Vestur-Evrópu og spurt: af hverju sé þetta ekki hægt í Bandaríkjunum líka er svarið oft; þið eruð með einsleitt þjóðfélag í Evrópu.“

Sem gæti útskýrt vanda velferðarkerfisins í Evrópu samtímans. „Við erum að sjá þetta í Evrópu; umburðarlyndið fyrir velferðarkerfinu minnkar þegar fólkið sem er að taka við gjöfum velferðarkerfisins lítur ekki út eins og þú. Það er það sem hefur verið að gerast í Evrópu og hefur alltaf verið til staðar í Bandaríkjunum. Það er áhugavert að velta þessu fyrir sér, hvort að velferðarkerfið í Vestur-Evrópu hefði kannski ekki getað orðið til ef þetta hefði bara sprottið af löngun til að hjálpa náunganum. Í Svíþjóð er talað um Folkhemmet, heimili fólksins. Fólkið gat hugsað um aðra Svía sem hluta af stórfjölskyldunni. Maður yfirfærir fórnfýsi sína gagnvart fjölskyldu sinni yfir á fólkið. En það fer að verða erfiðara fyrir marga að gera það þegar fólkið er ekki lengur hluti af þessu sama fólki,“ segir Valur og ég rifja upp öll skiptin þegar Íslendingar fárast yfir því þegar björgunarsveitin þarf að bjarga útlendingum í vanda.
Hinn sterki leiðtogi

En aftur að Spencer. „Þú hittir venjulega ekki neinn í Bandaríkjunum sem gerir eftirfarandi; í fyrsta lagi að gagnrýna frelsið og vera með úthugsaða heimspeki hvers vegna, í öðru lagi að gagnrýna stjórnarskránna og sjá hana bara sem plagg sem er breytanlegt; í þriðja lagi að hafa fylgst mjög vel með róttæka vinstrinu og taktík þeirra og vilja tileikna sér aðferðir þeirra til að hafa áhrif á meginstrauminn; og í fjórða lagi að vera með þessa neysluhyggjugagnrýni – og gagnrýna kapítalið á þeim forsendum.
Það sem fyllti mig meiri og meiri ótta þegar ég var að tala við hann var að það var eins og ég væri að tala við manneskju í bók eftir Thomas Mann. Eitthvað sem var að gerast við upphaf tuttugustu aldarinnar í Evrópu; gagnrýnin á lýðræðið og átrúnaðurinn á hinn sterka leiðtoga, ekki út af því hann sé gæddur einhverjum sérstökum gáfum heldur vegna þess að hann er táknmynd byltingarinnar, hann endurspeglar líkamlega eitthvað element sem er of abstrakt til að birtast í einhverju hugtaki, heldur verður að birtast konkret í einhverri manneskju.“

Manneskjunni Trump hugsa ég og Valur heldur áfram: „Svo er líka í hugsun hans þessi fyrirlitning á öllu sem er abstrakt, hugtökum eins og jafnrétti og frelsi, þetta skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er hver þú ert, og hver þú ert ert fyrst og fremst hvers kynþáttar þú ert, af hvaða fólki þú ert kominn. Þarna ertu komin með mann sem er að sækja hugsun bæði til hægri og vinstri, rétt eins og fasískir hugsuðir gerðu. Hann er ekki með nein prinsipp hægri manns eða vinstri manns, hann er með sína eigin fasísku hugsjón sem er fasísk í þeim skilningi að það er ríki þar sem allt er í röð og reglu, misskipting gæða endurspeglar styrkleika hvers og eins, en fyrst og fremst er samfélagið að verja hagsmuni kynþáttar, sem á sér einhvers konar örlög.“
En hann lætur ekki þar við sitja. „Hann hefur tekið þetta skrefinu lengra og reynt að sjá hvar hann getur komið þessu áfram. Hann veit að hann á engan séns að komast með þessar hugsanir inn í meginstrauminn frá vinstri. En það merkilega er er að hann fyrirlítur frjálslynda. Þess vegna var hann að tala við mig, þótt hann sjái okkur ekki sem bandamenn þá er hann á vissan hátt haldinn ákveðinni aðdáun á róttækri vinstrimennsku. Um leið er hann mjög fasískur í klæðaburði og fullur af fyrirlitningu, finnst róttækir vinstrimenn skítugir, illa klæddir og illa lyktandi, þannig að það er fyrirlitning en líka aðdáun. Sem fær hann til að lesa Žižek. En það sem hann hatar mest eru kristnir íhaldsmenn og kallar þá cucks, kokkálaða. Honum finnst þeir alltaf tíu til fimmtán árum á eftir vinstri mönnum í menningunni. Þeir eru alltaf á að túlka stjórnarskránna samkvæmt forskrift vinstri manna að hans mati. Hann fyrirlítur þá fyrir að skilja ekki með hvaða hætti vinstri menn móta meginstrauminn.“

Hann fyrirlítur líka þversagnirnar. „Þetta er svo mótsagnakennt, þeir aðhyllast kristni og eru kapítalistar og trúa á frelsið og fjölbreytnina, honum finnst þetta allt bara einhver grautur. Í þessum mönnum endurspeglar Repúblikanaflokkurinn stéttarhagsmuni, hann er ekki að endurspegla hugmyndafræði. Spencer er hugmyndafræðingur.“
En hvað gerir jarðveginn svona frjóan núna? „Rasisminn í Bandaríkjunum botnar klassískt séð í sektarkennd, fyrirlitningu og forréttindatogstreitu í garð Bandarískra blökkumanna. Þetta er svo stór þáttur af sögunni, þú elst upp við þetta, þarft að kunna þetta utan að, borgarastyrjöldina og alla þá sögu. Þetta er mjög bælt umfjöllunarefni hjá flestum hvítum Bandaríkjamönnum í millistétt. Þannig að þegar Obama varð forseti veit ég að margir hvítir Bandaríkjamenn voru að vonast til að þetta yrði post-racial society, voru að vonast til þess að hugmyndin um kynþátt myndi bara hverfa. Út af því þeir vilja ekki takast á við vandamálin. En svo leysast þessi vandamál ekki sjálfkrafa, af því þau eru af efnahagslegum toga og samruna þeirra erfiðleika sem fylgja því að vera svartur og fátækur. Þau leysast ekki, þau eru þarna áfram.“
En hvernig á að takast á við þannig rasisma? „Þetta er það sem svartir Bandaríkjamenn þurfa að glíma við daglega. Ég held að þetta sé bara 30-30-30. 30 prósent fólks er frekar opið gagnvart öðru fólki, 30 prósent er mjög lokað gagnvart öðru fólki og svo ertu með þessa í miðjunni, baráttan snýst alltaf um miðjuna. Svartir Bandaríkjamenn eru alltaf að kljást við þessar manneskjur sem myndu aldrei viðurkenna að þeir séu rasistar en eru það á margan hátt. En maður eins og Richard Spencer er annað og meira en þetta. Hann er að taka gamla Evrópska rasíska hugsun inní þetta munstur, án þess að bandaríski rasistinn átti sig á því.“
Rasismi nýrrar kynslóðar
Hann sækir meðal annars stuðning sinn til yngri kynslóðarinnar. „Hann hefur legið í spjallsíðum síðan hann var unglingur, á svona politically incorrect síðum, sem er heimur unglingsstráka þar sem er til skiptis verið að koma með punkta um ríðingar og svo einhvern svona politically incorrect húmor – og þar koma öll þessi meme.
Hann getur haft áhrif af því millenials-kynslóðin í Bandaríkjunum er svo mótanleg. Hún er að missa tengslin við þennan sameiginlega kjarna sem einkennir Bandarískt þjóðfélag, hún fær sína menningarlegu mótun ekki við að horfa á Hollywood-bíómyndir eða sjónvarpsþætti, þar sem stöðugt er verið að halda uppi gildum bandarísks þjóðfélags. Hún fær hún hana frekar í gegnum tölvuleiki, þar sem er kannski miðaldaþema, þannig að hjá þessum millenial hægrimönnum ertu að sjá hreyfingar eins og neo-reactionary, fólk sem vill fá konung aftur. Eða tryggð við hið gamla lénsskipulag Evrópu. Í þann jarðveg sækir hann líka fylgi.“

Spencer sá tækifæri í að höfða til yngra fólks, fólks sem annars hefði margt leitað til vinstri. Þar lærir hann af vinstrinu og „sér að hægri flokkarnir verða að geta höfðað til svipaðs róttæks ungs fólks. Að gera það ögrandi og róttækt að vera hægri. Nú ertu með helling af ungu fólki sem fær kikk út úr því að vera með hugmyndir sem eru ekki stofuvænar, en þessar ófínu hugmyndir eru ekki frá vinstrinu heldur hægrinu. Hann er meðvitaður um þetta. Sem gerir hann hættulegan; það er hugmyndafræði þarna, það er ásetningur og það er markmið og það er taktík.“
Við endum þetta þó á jákvæðari nótum: „Það getur vel verið að þetta hafi verið hápunkturinn, mjög líklega, að í þessu tómi sem myndast strax eftir sigur Trumps þegar menn vita ekkert hvað er að fara að gerast, þá fer ímyndunaraflið af stað með fólk og það fer að sjá fyrir sér hvað sem er. Þar kemur Richard Spencer mjög strategískt inn og sagði: þetta er það sem er að fara að gerast. En þó að hann muni aldrei ná neinum áhrifum umfram þetta þá hefur hann samt gert alveg ótrúlega mikinn skaða, því hann er búinn að gera eitthvað sem er rosalega erfitt í Bandaríkjunum, sem er að fá fólk til að tala um eitthvað, að taka eitthvað frá barnum og upp í stofuna. Það gerir það alltaf að verkum að þótt flestir séu á móti einhverri hugmynd, bara það eitt að fólk sé að tala um hana færir allt sviðið, gerir það allt í einu ásættanlegt að tala á ákveðinn hátt – og í skjóli þess sækja aðrir lengra.“
Ásgeir H Ingólfsson
greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 28. janúar 2017.