Margir eru uggandi yfir úrslitum tékknesku þingkosninganna og óttast jafnvel að Tékkland kunni að sigla í sömu alræðisátt og nágrannaríkin Pólland og Ungverjaland. Flokkur næstríkasta manns landsins vann stórsigur á meðan hinir hefðbundnu valdaflokkar biðu afhroð.

Auðjöfurinn og fjölmiðlamógúllinn Andrej Babiš var ótvíræður sigurvegari tékknesku þingkosninganna þann 22. október síðastliðinn, þrátt fyrir að rannsókn á spillingarmálum honum tengdum standi enn yfir. Flokkur hans, ANO, sem þýðir „JÁ“ á tékknesku, hlaut tæp 30 prósent atkvæða og 78 þingsæti af 200 og er því langstærsti flokkur landsins. Hinir átta flokkarnir sem náðu kjöri eru með á bilinu 6–25 þingsæti.

Babiš hefur verið kallaður popúlisti og hefur í heimspressunni verið líkt við stjórnmálamenn á borð við Donald Trump og Silvio Berlusconi, hann hefur jafnvel verið uppnefndur Babišconi. Það er þó um margt erfitt að festa fingur á stefnumál hans – og áherslur hans gætu litast töluvert af því með hverjum hann myndar á endanum ríkisstjórn.

Ég hitti Jan Martinek, þingfréttaritara dagblaðsins Právo, við þinghúsið í Prag og ræddi við hann um stöðuna, stjórnarkreppuna sem virðist líkleg, innflytjendamálin, japansk-tékkneska rasistaleiðtogann og tékkneska pírata.

Stjórnarkreppa yfirvofandi?

„Ég held það sé ekkert að ganga,“ segir Martinek mér þegar ég spyr hann um hvernig stjórnarmyndunarviðræðurnar gangi.

Flokkur Babiš náði ekki hreinum meirihluta og margir telja langa stjórnarkreppu væntanlega. Það stendur enn yfir rannsókn á meintri misnotkun Babiš á styrkjum frá Evrópusambandinu og sökum þeirrar rannsóknar hafa flestir hinna flokkanna gefið það út að þeir vilji ekki vinna með honum. Þannig að þótt það sé í raun pólitískur ómöguleiki að mynda meirihluta án Babiš er enginn hinna flokkanna áfjáður í að mynda meirihluta með honum.

Martinek
Blaðamaðurinn Jan Martinek er þingfréttaritari dagblaðsins Právo. Mynd/ÁsgeirH

En hverjir eru hinir flokkarnir? Fyrsta skal nefna gömlu valdaflokkana, Sósíaldemókrataflokkinn og Íhaldsflokkinn ODS, auk gamla Kommúnistaflokksins, en þeir tveir fyrrnefndu hafa verið lykilflokkar í öllum ríkisstjórnum Tékklands síðasta aldarfjórðunginn. Þá unnu bæði þjóðernisöfgamennirnir í SPD og tékknesku Píratarnir góða kosningasigra, auk þess sem þrír smáflokkar ná á þing, flokkur sem leggur áherslu á sveitarstjórnarmál og tveir kristilegir flokkar.

Martinek segir að honum sýnist hinir flokkarnir ætla að standa við þetta loforð. „Eina undantekningin er þjóðernisflokkurinn SPD – en hann er samt skeptískur, segist ekki mynda meirihlutastjórn með Babiš nema þetta spillingarmál sé leyst. Á móti kemur að Babiš vill ekki – opinberlega – mynda meirihlutastjórn með þeim.“

En hvað er það sem gerir þennan spillta stjórnmálamann svona vinsælan? „Hann háði mjög góða kosningabaráttu, hann er með mjög gott teymi með sér og þeir unnu til dæmis mjög vel með samfélagsmiðla,“ segir Martinek en kemur svo að aðalástæðunni, fjölmiðlaveldinu. Babiš á tvö stór dagblöð, Lidové noviny, elsta dagblað  landsins, og Mladá Fronta DNES, það stærsta ef gula pressan er undanskilin.

„Í gamla daga var Mladá Fronta eina dagblaðið sem varð til þess að stjórnmálamenn sögðu af sér. Ekkert annað dagblað gerði það, þannig að þetta var öflugasta dagblaðið. En það hafa orðið miklar breytingar síðan Babiš keypti það fyrir fjórum árum. Þetta var mjög klókt pólitískt, hann keypti blaðið svo sannarlega ekki til að græða, því dagblaðið var ekki að skila hagnaði. Hann var að kaupa blaðið til að kaupa sér áhrif. Ef hann væri ekki eigandi dagblaða væri hann líklega ekki lengur í pólitík.“

Þrátt fyrir að vera næstríkasti maður landsins og hafa þegar setið sem fjármálaráðherra um skeið hefur Babiš tekist að skapa sér ímynd manns sem stendur gegn stjórnmálaelítunni. „Hann er að reyna að láta eins og hann sé ekki í alvörunni pólitíkus, að hann sé bara venjulegur gaur og ekki úr þessum pólitíska heimi sem fólk skilur ekki. Hann hefur verið mjög góður í að sannfæra fólk um að hann sé ekki hluti af kerfinu og þrátt fyrir skandalana þá sér hann sjálfan sig sem baráttumann gegn spillingunni. Og svo á hann auðvitað nógan pening í kosningabaráttu.“

Hann spilar þannig inn á djúpgróið vantraust Tékka á stjórnmálamönnum, sem rekja má aftur til ára kommúnismans og er rót takmarkaðs áhuga almennings á stjórnmálum. „Almennt treystir fólk hér stjórnmálamönnum ekki, lítur á þá sem geimverur sem komu til að ræna peningunum þeirra. Einn af lykilþáttunum í sigri Babiš var að honum tókst að sannfæra fólk um að hann væri ekki slík geimvera,“ segir Martinek.

Vandi kerfisflokkanna

Eftir flauelsbyltinguna 1989 hafa Sósíaldemókratarnir og íhaldsflokkurinn ODS verið leiðandi í tékkneskum stjórnmálum. En báðir flokkarnir eru í djúpstæðri krísu. Sósíaldemókratarnir voru stærsti flokkurinn fyrir þessar kosningar en hrundu svo hressilega núna og er flokkurinn aðeins sá sjötti stærsti eftir nýafstaðnar kosningar. Hann var með 50 þingmenn, nú standa aðeins 15 eftir.

„Vinstrið hefur brugðist. Ekki bara sósíal-demókratarnir heldur líka Kommúnistaflokkurinn. Kjósendur Sósíaldemókrataflokksins yfirgáfu flokkinn og margir þeirra kusu Babiš,“ útskýrir Martinek. Hann ítrekar þó að Babiš sé ekki vinstri maður heldur maður hentistefnunnar. „Andrej Babiš er ekki raunverulega hægri og hann er ekki raunverulega vinstri, en í þessum kosningum var hann frekar að tala til vinstri kjósenda, tala um velferðarmál. Hann var því frekar vinstra megin í þessum kosningum en var sannarlega hægra megin í þeim síðustu. En aðrir flokkar hafa eignað sér málefni Sósíaldemókratanna. Okamura og SPD náðu íhaldsömu vinstrimönnunum og Píratarnir náðu frjálslyndu vinstrimönnunum. Og þá er lítið eftir fyrir sósíaldemókratana. Þá voru þeir ekki með sterkan leiðtoga, Sobotka var meira eins og embættismaður, hann er enginn leiðtogi. Mögulega munu þeir rísa úr öskunni næst, en til þess þurfa þeir alvöru leiðtoga.“

Bataferli íhaldsflokksins ODS er hins vegar mögulega þegar hafið. Þeir voru stærsti flokkurinn á tíunda áratugnum, á valdatíð Václav Klaus, sem seinna varð forseti.  Þá tók við langt hnignunarskeið og eftir að hafa fengið 81 þingmann í kosningunum 2006 fækkaði þeim niður í 53 og loks sextán. Nú ná þeir að klifra upp í 25, sem er samt sögulega vond kosning fyrir þá. „Þeir voru í skýjunum,“ segir Martinek kíminn. „Mér fannst þetta ekki mikill sigur – en þeir gætu haldið áfram að bæta sig.“

En myndu þeir bæta sig ef þeir fara í stjórn? „Það gæti orðið sjálfsmorð, sannarlega. En þeir hafa sagt að þeir vilji það ekki. En ég veit að sumir í flokknum vilja fara í stjórn með ANO. Þar á meðal Václav Klaus yngri – sem gæti orðið framtíðarleiðtogi flokksins.“

Spútnikar á þingi úr öllum áttum

ANO og Íhaldsflokkurinn eru stærstu flokkarnir á þinginu – en tveir næstu koma mörgum á óvart. Annars vegar eru það þjóðernisflokkurinn SPD og hins vegar Pírataflokkurinn, sem hafði boðið fram tvisvar áður án þess að vera nálægt því að fá menn inn, en fékk núna meira en tíu prósent atkvæða (það er svipaður fimm prósenta þröskuldur inn á tékkneska þingið og það íslenska). Meðal evrópskra Pírataflokka hefur aðeins sá íslenski hlotið betri kosningu.

Ivan Bartoš pírati „Leiðtogi þeirra er með dredda, hann er eins og anarkista-pönkarinn af barnum sem drekkur bjór og reykir gras.“

„Píratarnir stóðu sig vel,“ segir Martinek. „Þeir voru með kraftmikla baráttu og töluðu við fólk úti á götu, sem þeir gerðu ekki áður. Svo eru þeir nýja fólkið, hreina fólkið. Menn líta ekki á þá sem stjórnmálamenn, leiðtogi þeirra er með dredda, hann er eins og anarkista-pönkarinn af barnum sem drekkur bjór og reykir gras. En þrátt fyrir að flokkurinn höfði sérstaklega til yngra fólks þá var samt mikill stuðningur frá eldra fólki – sem vildi ferska vinda, nýjan og óspilltan flokk.“

En hann er hæfilega bjartsýnn um framtíð þeirra. „Það að vera nýi flokkurinn hefur sína styrkleika en líka marga veikleika. Þau þekkja það ekki að synda í þessu grugguga vatni og ég veit ekki hvort þau vita fyrir víst hvað þau vilja gera núna. Það er alls konar fólk þarna, mjög hægri sinnað og aðrir vinstrisinnaðri en kommúnistarnir. Það er hætta á að þau muni splundrast, það hefur oft gerst með nýja flokka á þingi – og gömlu hákarlarnir bíða eftir því.“

Japansk-kóresk-tékkneski þjóðernissinninn

Tommy Okamura er fæddur í Tókíó árið 1972, sonur tékkneskrar móður og japansk-kóresks föður. Hann kom fyrst til Tékkóslóvakíu þegar hann var sex ára gamall. Þar var hann um tíma vistaður á barnaheimili þar sem hann lenti í slæmu einelti, sem olli því að hann stamaði fram til tvítugs. Seinna fór hann aftur til Japans og vann þar fyrir sér sem götusópari og poppkornssölumaður í bíó. Hann hefur talað um að upplifa sig alls staðar sem útlending, bæði í Tékklandi og Japan. Á fullorðinsárum fór hann hins vegar að starfa í ferðamannaiðnaðinum og efnaðist þar ágætlega – og endaði svo á að fara í pólitík þar sem hann varð formaður SPD, flokks sem hann segir berjast gegn Evrópusambandinu, íslam og fjölmenningu. „Við viljum varðveita Tékkland æsku okkar, hvað er að því?“ sagði hann í viðtali fyrr á árinu þar sem hann útskýrði stefnu flokksins.

Tommy Okamura „Við viljum varðveita Tékkland æsku okkar, hvað er að því?“

Þetta hljómar eins og lygasaga – og Martinek grunar að hún sé það jafnvel á sinn hátt. „Ég held að þetta sé ekki hans eigin skoðanir – en honum tókst þetta. Ég held hann hafi náð þeim sem höfðu lítinn áhuga á pólitík, þeim sem eru hræddir og ómenntaðir, hann sagði þeim að það væri hætta á ferðum og að hann myndi bjarga þeim. Hann tók einfaldlega þennan kjósendahóp og gerði þá að sínum. Þetta virkar hreinlega á mig eins og viðskiptaáætlun.“

En þótt SPD sé eini flokkurinn sem lýsir sig sérstaklega á móti fjölmenningu er ekki eins og hinir flokkarnir séu mjög hliðhollir flóttamönnum eða innflytjendum. „Flóttamannakrísan hefur nær ekkert snert Tékkland – en samt var þetta stórmál og var mikið rætt,“ segir Martinek. „En ég held að ef einhver flokkur myndi segjast opinberlega vera hlyntur því að taka á móti flóttamönnum, þá væri það dauðadómur. Græningjarnir voru með – en voru neyddir til að gleyma því. Allir flokkar á þingi eru á móti hugmyndum ESB um flóttamannakvóta. En þetta var eitthvað sem allir flokkar þurftu að svara fyrir, sem var skrítið – því það eru engir flóttamenn hérna.“

Nýja Austur-Evrópa

Lýðræðisþróun í gömlu kommúnistalöndunum hefur verið uggvænleg undanfarin misseri. Á meðan Vladimir Pútín hefur hert tökin í Rússlandi og upplausnarástand ríkir ennþá í Úkraínu hafa Evrópusambandslönd á borð við Ungverjaland og Pólland kosið yfir sig yfirvöld sem daðra við fasisma og hafa beitt ýmsum meðulum til að ná til sín meiri völdum, eins og að skerða frelsi dómstóla og breyta stjórnarskrám til þess að tryggja sér meiri völd. Tékkland þótti lengi ólíklegt til að feta sömu slóð – landið hefur frekar talið sig til Mið-Evrópu heldur en Austur-Evrópu sögulega og landfræðilega, er ekki jafn mikið bændasamfélag og sumir nágrannar þeirra í austri og státar auk þess af langri lýðræðishefð. En það bjargaði þeim ekki frá kommúnismanum og það er ekkert víst að það bjargi þeim frá þjóðernisbylgjunni sem ríður nú yfir gamla austrið. Og ef það gerist aukast líkurnar enn á að nýtt járntjald gæti risið í Evrópu, þótt það verði undir öðrum formerkjum en áður.

En er það líklegt? „Þetta hefur verið að gerast úti um allt,“ segir Martinek. „Og ég held að Babiš geti tekið slíkt upp á arma sína. Hann gæti orðið hinn tékkneski Viktor Orbán. En það fer líka eftir því hvernig næstu mánuðir þróast. Hann er í sterkri stöðu en samt ekki svo sterkri. Hinir flokkarnir, frjálslyndu flokkarnir, eru ennþá nokkuð öflugir og ráða ennþá ýmsu. Það er alls ekki eins og hann sé einráður. En ég held að hann muni reyna að spila út þessu spili með hjálp Okamura og forsetans. En ég held þeir hafi ekki styrkinn til þess að fara alla leið í þá átt,“ bætir hann við, en samtals eru ANO og SPD með 100 þingmenn, eða sléttan helming þingsæta, og þyrftu einn mann til viðbótar til að ná meirihluta.

„En sumir meðlimir SPD hafa hagað sér mjög einkennilega á samfélagsmiðlum, suma þeirra mætti kalla samsæriskenninganöttera. Skoðanirnar þeirra á erlendum stjórnmálum eru mjög einkennilegar – Okamura hefur sagt að kannski vilji þeir loka utanríkisráðuneytinu. Það gæti ýmislegt einkennilegt gerst ef skoðanir þessa fólks á utanríkisstefnu verður opinber stefna Tékklands.“

Stuðningur úr kastalanum

Hingað til hefur afturhaldið í tékkneskum stjórnmálum átt lögheimili í kastalanum, þar sem forsetinn hefur aðsetur. Eftir að frjálslyndi byltingarleiðtoginn Václav Havel lét af völdum hafa arftakar hans, báðir fyrrum leiðtogar stóru flokkanna tveggja, ekki alltaf verið besta landkynningin. Václav Klaus afneitaði loftslagsbreytingum og varði spillingu og núverandi forseti, Miloš Zeman, hefur komist í fréttirnar fyrir andúð sína á flóttamönnum sem og samkynhneigðum. En embætti forseta Tékklands er ekki ólíkt því íslenska, því fylgja takmörkuð pólitísk völd. En það getur þó einmitt breyst í stjórnarkreppu.

Miloš Zeman var á sínum tíma leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins. „Hann kom þeim á kortið,“ segir Martinek. „Zeman var leiðtogi, fáeinum árum eftir byltinguna voru sósíaldemókratar lítill flokkur. En hann tók þá yfir og gerði þá að stærsta flokknum. Ég var samt alltaf skeptískur á að hann væri raunverulega vinstri sinnaður, en hann sá gat á markaðnum. Hann var forsætisráðherra í nokkur ár, svo steig hann út  úr stjórnmálum um hríð og yfirgaf flokkinn. Og þessa dagana eru samskipti hans og flokksins stirð, ég myndi jafnvel segja að hann hafi lýst yfir stríði gegn þeim. Honum er mjög illa við núverandi leiðtoga sósíaldemókratanna. Hann og Sobotka [fráfarandi formaður flokksins] hötuðu hvor annan, það var augljóst. Og núna er sýn hans á heiminn mjög afturhaldssöm og þjóðerniskennd.“

En er hann í liði með Babiš? „Ég myndi segja að Zeman og Babiš séu helstu bandamennirnir í tékkneskri pólitík. Þeir þurfa á hvor öðrum að halda. En það getur breyst mjög hratt.“

Naflastrengurinn við byltinguna rofinn

En hvernig sér Martinek þróunina frá flauelsbyltingunni árið 1989, þegar Tékkar steyptu gömlu kommúnistastjórninni? „Ef þú lítur á tékknesku forsetana þrjá; Havel, Klaus og Zeman, þá eru þeir allir 1989-menn,“ segir hann og á þá við að þeir eigi sér allir rætur í byltingunni, hver á sinn hátt. Þótt þeir yrðu seint kallaðir bandamenn tengir þá ákveðin taug. Havel var byltingarleiðtoginn en bæði Klaus og Zeman tengjast henni sterkum böndum.

„En arftaki Zemans gæti orðið sá fyrsti sem slítur naflastrenginn sem tengir nútímann við 1989.“ Það er raunar ekkert ómögulegt að það yrði á endanum Babiš. „Babiš var afsprengi tíunda áratugsins. Hann kom úr viðskiptaheiminum, þegar það myndaðist þetta einkennilega svið þar sem viðskipti og stjórnmál sköruðust hressilega. Hann átti góð samskipti við sósíaldemókratana í kringum aldamótin, sem hjálpaði viðskiptahagsmunum hans. En fyrir 1989, þá var hann kommúnisti.“

En ef hann neyðist til að spá, hvernig mun stjórnarmyndunin enda? „Líklegast verður þetta Babiš í minnihlutastjórn með stuðningi Okamura og kommúnistanna. En það yrði mjög erfitt fyrir hann – og aðra. Það gætu líka orðið kosningar aftur – eftir 1–2 ár. Og líttu á Holland, það tók þá 200 daga að mynda ríkisstjórn í fyrra,“ segir Martinek og manni heyrist á honum að tékkneska stjórnarkreppan gæti vel orðið jafn löng.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Stundinni 9. nóvember 2017.