„Hvað er að frétta af hinni þjóðinni?“ Þessi skilaboð fékk ég stöku sinnum í símann frá vini úti á landi þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. Þar var valdið fjarlægt og engin hentug skotmörk fyrir eggjakast og skyrslettur. Þar var góðærið líka miklu minna áberandi gestur og því varð fallið ekki alveg jafn hátt. Þó fannst mér aðgreiningin fullskörp hjá félaga mínum, ýkjur úr fjarska.

Svo hnaut ég um aðsenda grein Skúla Thoroddsen í Fréttablaðinu á miðvikudag, „Hugleiðingar um Draumalandið“. Þar finnur hann að því að umrædd kvikmynd bregði upp ósanngjarnri mynd af Austfirðingum og öðru landsbyggðarfólki. Hann getur sér til að það sem plagi aðstandendur myndarinnar sé svokölluð tóftarmiga, „…en það orð er haft um fólk sem kemur heim í bernskudalinn til að hlusta á bæjarlækinn hjala við mosató, fólkið sem mígur í tóftarvegginn og rifjar upp bernskuna þegar alltaf skein sól. Fólkið sem flutti burt og getur ekki hugsað sér að búa í sveitinni heima, en lifir í þeirri undarlegu paradox að vita ekkert fegurra, eiga ekkert dýrmætara en einmitt þennan heimahaga í huganum.“

Ég get raunar alveg tekið undir það með Skúla að líklega var myndin sem dregin var upp af Austfirðingum, sem og raunar Húsvíkingum, fullbilleg. En að vísu nokkurn veginn sú sama og fréttatímar rissuðu upp fyrir okkur, þannig að sem dokúment um einkennilegan tíma í íslenskri fréttamennsku er myndin giska góð heimild þótt hún hefði að ósekju mátt kafa dýpra í austfirskar og húsfirskar bæjarsálir en fréttatímarnir gerðu. En hins vegar er afgreiðsla Skúla á borgarbúum alveg jafn ódýr. Hér bráðvantar einhverja samræðu, þessi ódýru og marklausu skot hafa gengið á milli höfuðborgar og landsbyggðar svo lengi sem ég man eftir mér og aldrei hefst nein alvöru samræða.

Og við erum ófá sem erum í skotlínunni miðri og vitum ekki hvert á að skjóta til baka. Við þessi brottfluttu, sem mann grunar stundum að sé stærstur hluti Reykvíkinga og nærsveitarmanna. Við lendum á milli þessara tveggja þjóða, missum kosningaréttinn í heimabyggð og verðum samt aldrei almennilega heima hjá okkur í borginni. En í allri umræðunni um landsbyggðarflótta erum við sjaldnast spurð: „Af hverju fóruð þið?“ og ennþá sjaldnar: „Af hverju komið þið ekki aftur?“ Og það eru vissulega fjölmargar og mismunandi ástæður en þó langoftast þessi; fábreytt atvinnulíf og takmarkaðir framtíðarmöguleikar.

Það er nefnilega engin tilviljun að þegar ákvarðanir eru teknar um hvort bæjarfélag ætli að halda áfram að veðja á fiskiðnað eða stóriðju eða einhverja aðra allsherjarlausn þá er auðvelt að afla þessari stóru lausn fylgis – þeir sem langar ekki að vinna í frystihúsi eða álveri eru flestir fluttir eða rétt ófarnir. Ungt fólk sem stendur frammi fyrir því að velja sér framtíð eftir framhaldsskóla hefur máski einar kosningar í heimabyggð þar sem atkvæði þeirra telst, svo er það annaðhvort stóra verksmiðjan á staðnum eða skóli fyrir sunnan – eða jafnvel ennþá lengra í burtu. Ekki bætir úr skák þegar jafn stórum og miklum karlavinnustað og álveri er skellt í litla byggð, þá er kvenfólkið fljótt að flýja – og karlarnir fljótir að elta.

En auðvitað er þetta líka heilmikil einföldun. Bæirnir á landsbyggðinni eru fjölmargir og misstórir og hefur gengið afskaplega misvel að byggja upp blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf, sumum hefur tekist það alveg hreint prýðilega á meðan aðrir eru fastir í fortíðinni og leyfa heimahögunum að breytast í hreinræktuð krummaskuð. Landsbyggðin er fráleitt einhver ein eining og til dæmis á minn gamli heimabær, Akureyri, aldrei almennilega heima í þessari orðræðu höfuðborgarsvæðis gegn landsbyggð. Bærinn er nefnilega svo miklu fámennari en höfuðborgarsvæðið en þó svo miklu fjölmennari en allir aðrir bæir á landsbyggðinni, millistærð sem mætti draga betur inn í umræðuna svo hún byggist ekki alltaf einungis á þessum tveimur tilbúnu andstæðupörum.

Það er raunar ekki síst fjölmiðlum að kenna hve þessi orðræða hefur orðið óþroskuð hérlendis. Þegar skorið hefur verið niður hjá fjölmiðlum undanfarin ár hafa fréttaritarar á landsbyggðinni iðulega verið fyrstir til að fara, það er að segja ef fjölmiðillinn bjó svo vel að hafa þar fréttaritara til að byrja með. Og jafnvel þegar fréttaritarastéttin var hvað fjölmennust þá var ákveðin tilhneiging til aðgreiningar, fréttir utan af landi voru staðbundnar á meðan fréttir að sunnan voru bara fréttir. Það sem gerðist úti á landi gerðist einmitt þar og miðaðist öll umfjöllun við þá staðsetningu á meðan það sem gerðist fyrir sunnan bara gerðist, staðsetningin var sjálfgefin. Og verður bara sjálfgefnari og sjálfgefnari.

Ég tek samt fram að það er óþarfi að sameina þessar tvær þjóðir. Frekar að fjölga þeim, dýpka umræðuna. Enda búa fleiri þjóðir en bara ein innra með okkur flestum. En þessar þjóðir þurfa að byrja að tala saman af einhverju viti, þá fyrst verður hægt að tala um raunverulegt Draumaland.

Birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 9. maí 2009.