Neró lék á fiðlu á meðan Róm brann. Ég veit ekki meira, veit ekki hvaða lag hann lék, veit ekki hvernig kviknaði í borginni, hverjar afleiðingarnar urðu, hvernig slökkvistarfið gekk. Nei, eina sem lifði af í heimsvitundinni var að hann spilaði á fiðlu. Restina þurfum við flest að gúgla.

Og þegar fall ameríska heimsveldisins verður gert upp verður þetta sjálfsagt það sem stendur eftir í stóradómi mannkynssögunnar: maður í vísundafeld með vísundahorn réðst inn í þinghúsið. Kannski verður sagan jafnvel meira skapandi en svo, kannski verður hann orðinn bókstaflega hálfmennskur og hálfur vísundur, Mínótáros eins og það kallast í goðsögunum – hefnd dýranna sem áttu slétturnar áður en hvíti maðurinn kom.

Því þrátt fyrir alla doðranta sem hafa verið skrifaðir og munu verða skrifaðir þá er mannkynssagan okkur flestum samansafn af örstuttum leiftrum; sum skiljum við vel, sum skiljum við án þess að vita neitt um atburðina, annað skynjum við en skiljum ekki, flest misskiljum við sjálfsagt.

Maðurinn sem réðst inn í þinghúsið íklæddur vísundahræi heitir Jake Angeli. Business Insider kallar hann áhrifavald og sjamanista Q-ara. Sjamanista kúgaranna.

Hér eru nokkur atriði til að staldra við. QAnon hreyfingin sem hann er kenndur við er hreyfing án sýnilegs leiðtoga, Q er nafnlaust tröll í afkimum internetsins sem hefur tekist að búa til költ. En á endanum þurfa költ andlit og ímynd. Þá vantaði ekki hugmyndafræðing, hann var þegar kominn til sögunnar – þá vantaði bara leikara. Sem Jake Angeli er. Leikarinn sem tók að sér að leika Galdrakarlinn í Oz, svo galdrakarlinn geti verið áfram í felum.

Angeli er vel að merkja ekki frægur leikari, ég finn fátt um leikferil hans annað en það sem kemur fram í tengslum við vafasama pólitíska baráttu hans – en hann hefur einmitt fundið hið fullkomna hlutverk. Hann er tímanna tákn, tákn þeirra tíma þar sem fólk með alls konar bakgrunn, þar á meðal listamenn, eru samt fyrst og fremst áhrifavaldar. Þessi nýja og eitraða listgrein sem sameinar ófyrirleitni og óheilindi kapítalismans því að geta stolið athyglinni, fengið alla til að smella, náð að selja hugmyndir, óljósa tilfinningu, en helst engar alvöru hugsanir eða alvöru list.

Maður fékk raunar einhverja óljósa tilfinningu um að þeir pössuðu ekki almennilega þarna inn, hann og nokkrir félagar hans. Þeir voru ekki með púkalegar rauðar derhúfur, voru ekki appelsínugulir í framan, með öðrum orðum: þeir virtust frekar vera frá Brooklyn heldur en Biblíubeltinu.

Stoltur strákur misskilur Disney-lag

En í húsi Trumps eru margar vistarverur og í einni þeirra eru samtök Stoltra stráka, Proud Boys, ofbeldisfull karlrembusamtök sem eru byggð á Disney-lagi úr Aladdin, „Proud of Your Boy.“ Það var vel að merkja klippt út úr teiknimyndinni – en rataði inn í söngleikinn áratugum síðar, þar sem stofnandi Proud Boys heyrði það. Lagið fjallar um hvernig Aladdin biður móður sína afsökunar á að hafa verið vandræðagemsi og lofar að bæta ráð sitt og gera hana mömmu sína stolta í framtíðinni. Nema hvað, hann Gavin McInnes heyrði lagið og túlkaði þetta sem svo að Aladdin hafi þurft að biðjast afsökunar á þvi að vera strákur, nú hefði þessir femínistar nú gengið of langt!

Virðing er í hans heimi sem sagt ekki eitthvað sem þú ávinnur þér með gjörðum, nei; það er eitthvað sem þú ávinnur þér með því að vera hvítur karlmaður í Ameríku – þá eru það sjálfsögð ásköpuð réttindi. Aladdin er auðvitað múslimi – en Disney-útgáfan var byggð á Tom Cruise – og hvítir rasistar hafa hingað til ekki hikað við að stunda afkastamikið menningarnám. Þannig má ekki á milli sjá hvort öfgahægrið hafi verið duglegra að stela myndmáli úr norrænni goðafræði eða frá indjánunum og vísundunum sem þeir drápu til þess að hertaka Ameríku. Einn þeirra mætti meira að segja með íslenska fánann.

En aftur að Gavin McInnes. Eftir að hann varð trámatíseraður af saklausu lagi í Disney-söngleik stofnaði hann samtökin Proud Boys, fasísk ofbeldissamtök sem snúast aðallega um rétt karlmanna til að ráða öllu. Eins og gjarnt er með slík amerísk samtök þarf fyrst að ganga í gegnum ofbeldisfulla innsetningarathöfn – og hún byrjar á því að fara með þessa yfirlýsingu: „Ég er stolt vestræn karlremba, ég neita því að skammast mín fyrir að hafa skapað heim nútímans.“ (I’m a proud Western chauvinist, I refuse to apologize for creating the modern world).

Þetta er nánast trúarlegt, yfirlýsing um sjálfa sig sem Guði, sem skapara heimsins – en samt, fjölgyðistrú – það eru ansi margir hvítir karlmenn sem þarf að deila guðdómnum með, þeim finnst því alls ekki pláss fyrir fleiri í þessu partíi.

En þótt þetta hljómi vissulega almennt er staðreyndin hins vegar sú að Gavin McInnes átti ansi stóran þátt í því að skapa nútímann. Í fyrra lífi var hann nefnilega allt öðru vísi uppreisnarseggur, einn þriggja stofnenda pönkaðs götublaðs að nefni Vice.

Blaðið byrjaði með því að fá styrk frá ríkisstjórninni, þetta var atvinnubótavinna og nýsköpunarverkefni, líklega áður en það orð varð til – þetta var jú árið 1994. Leiðir hans og Vice skyldu árið 2008, en hann átti stóran þátt í að móta rödd miðilsins og áherslur áður en að því kom.

Allan þennan tíma, fyrir og eftir brotthvarf McInnes, hefur Vice vaxið og dafnað og orðið fjölmiðlastórveldi – þrátt fyrir eða kannski einmitt út af því hvernig því hefur tekist að innihalda flestar helstu mótsagnir 21. aldarinnar.

Vice er stundum afskaplega lélegt, en líka stundum mjög gott, þeir hafa líka staðið á bak við frábæra fréttamennsku inn á milli. Þeir eru afturhaldssamir frumkvöðlar. Þeir eru sjarmerandi kjaftaskar; æskufélaga McInnes, Shane Smith, er höfuðpaurinn þar. Hann byggði Vice á sandi, seldi ítrekað skýjaborgir og bjó þær svo (stundum) til í alvörunni þegar hann var kominn með fjármagnið. Hann er pókerspilari sem er góður í að blöffa, samanber þessa löngu grein hér um sögu fyrirtækisins, þar sem Smith er aðalpersónan og ítrekað lýst sem bullshit artista, öðru fremur.

Vice er auðvitað ekkert einstakt að þessu leyti, svona virkar kapítalismi á hlutabréfamarkaði: þetta snýst ekkert síður um að blekkja en að framleiða, jafnvel frekar – sá sem er bestur að þykjast vinnur.

En blöffið sem Vice seldi var æskan: þeir vildu vera hið nýja MTV – og tókst það alveg að sumu leyti, að svo miklu leyti sem það var hægt í nýjum og brotakenndari heimi. Þeir seldu hugmyndir, tísku, lífsmáta. Þeir réttlættu það inn á milli með blaðamennsku, stundum góðri blaðamennsku, en peningarnir komu frá fyrirtækjunum sem þeim tókst að selja æskuna, að þeir væru leið þessara stórfyrirtækja að æsku heimsins.

Gavin McInnes lýsir því í viðtali hvernig Jim Goad sé uppáhalds skríbentinn hans og sá sem hafi haft mest áhrif á stíl Vice: „Hann gerði það fyndið að vera andstyggilegur.“ Goad þessi skrifaði meðal annars bókina The Redneck Manifesto og sat í tvö og hálft ár í fangelsi fyrir að hafa gengið í skrokk á Anne Ryan, þáverandi kærustu sinni, og skilið hana eftir alblóðuga við vegarkantinn. Þegar hann var spurður hvort hann sæi eftir barsmíðunum svaraði hann: „Svo sannarlega ekki, ég naut þess.“ Hann gerði það fyndið að vera andstyggilegur.

Í sama viðtali talar McInnes um það hvernig vinstrið hafi yfirgefið hann. Það er erfitt að staðsetja hann pólitíkst í þessu viðtali – jú, hann er algjör dólgur og karlremba, en hefur ákveðna samúð með meðlimum Occupy Wall Street. En telur aftur á móti ástandið þá hafi verið mest Obama að kenna.

Hann stofnaði Vice með félögum sínum í Montreal í Kanada. En þeir fluttu fljótlega til Williamsburg í Brooklyn. Hverfis sem seinna hefur verið þekkt sem mekka hipsterismans – og McInnes, með sitt vel snyrta skegg, hefur verið kallaður bæði guðfaðir hipsteranna og arkítekt hipsterismans.

Einmitt þarna verður maður örlítið ringlaður. Eru hipsterarnir ekki vinstri? Trjáfaðmandi grænmetisætur að kaupa lífrænt? Jú, það líka. En galdur McInnes og annarra sem hafa selt þá snákaolíu að vera rödd heillar kynslóðar (og jú, flestar kynslóðir og hreyfingar eiga sér margar raddir) þá var galdurinn að sætta þverstæður, finna þeim öllum stað í heimi óraunveruleikans, þar sem pótempkin-tjöld ímyndarveruleikans urðu raunveruleg þegar búið var að plata fjárfesta.

En þeir skilja líka að skiptimyntin sem þeir eru að vinna með eru töffheit, óöryggi, einmanaleiki og þráin fyrir að fá að vera með. Sjáið bara fólkið sem lögreglan hleypti óvænt inn í þinghúsið. Flest ráfaði það um og datt fátt betra í hug en að smella af sjálfu. Staðfesta að þau hafi verið þarna. Að þau séu hluti af sögunni. Þetta er ekki bara fimmtán sekúndna frægð, þau eru líka neðanmálsgreinar í mannkynssögunni, jafn ómerkileg og þau eru.

Hvað fengu þau mörg læk? Hvað komast þau á mörg Tinder-deit út á heitu nýju prófíl-myndina á þinginu? Eru þetta skyndilega orðnir heitustu bitarnir á kjötmarkaði Biblíubeltisins?

Sum þeirra. En mörg þeirra eru líka bara reiðir lúðar. Sem nota tákn. Til að tilheyra. Til að vera með. Svo að vinsælu krakkarnir vilji leyfa þeim að vera með. Eins og stoltu strákarnir. Eins og bláu strákarnir. Einu lífin sem skipta máli, þessi bláu. Löggurnar sem áttu að stoppa þau.

En bláu strákarnir skilja kits, þeir skilja menningarnám – og þeir skilja að hvítt fólk er meinlaust. Ekki bara af því þau eru hvít, heldur nota þau sömu merkjasendingar – klæðaburðurinn, er þetta ekki Joe frændi, Uncle Sam jafnvel? Jake gamli, alltaf flippaður í buffaló-tískunni. Nei, þarna er einhver með íslenska fánann! Ætli hann hafi býttað á honum í netspjalli við íslenskar löggur? Það er jú svo helvíti erfitt að fá góð nasistatákn í íslenskum búðum.

En það er rétt að taka fram að þessi pistill er ekki skrifaður til höfuðs hipsterum. Þeir eru margir ágætir. Það er erfitt að skilgreina þá, eitt helsta einkenni þeirra er að enginn gengst við að vera hipster og mestu hipsterarnir eru ósjaldan þeir sem amast mest við hipsterisma – en á því eru undantekningar, og sumir hipsterar eru alveg alvöru líka, er full alvara með umhverfisvernd, listsköpun og alls kyns mannréttindabaráttu sem er óendanlega mikið göfugri en rembingurinn í McInnes.

En einmitt núna, þegar pistlahöfundar hafa mörg orð um hversu djúp gjáin á milli fólks er orðin, bæði í Bandaríkjunum og á heimsvísu, þá er rétt að staldra við og muna að við komum ekki bara upp úr sömu genasúpunni í forneskju, heldur erum við líka afsprengi sama kúltúrsins, fræ sem var sáð fyrir aldarfjórðungi gerði einn leikara að umhverfisaktívista og annan að vísundamanni Trumps.

Þetta eru fræ heims þar sem allt snýst um sjálfuna, þar sem raunveruleikinn fer á flot og eina leiðin til að staðfesta hann er að gera eitthvað nógu raunverulegt til að rata í alvöru sögubækur, en þó ekki síður – að taka mynd af sjálfum sér með mannkynssögunni. Sýna að maður er til, að maður er hluti af sögunni, gerandi jafnvel.

Þegar allar okkar gjörðir svífa um í skýjum og gjaldmiðillinn er læk þá verður heimurinn einkennilega óraunverulegur á köflum, leiksvið fyrir loddara þegar verst lætur. En líka gróðrarstía heimskapítalisma sem hefur gefist upp á að framleiða raunverulega hluti til að réttlæta gróðann og lætur sér duga að framleiða ótal ský í buxum, sem gefa Zuckerberg og félögum svo myndir af sjálfum sér sem þeir selja þér til baka.

Það er eitthvað innantómt og andstyggilegt við einmitt þá sölumennsku – og kannski var einhver að mótmæla því í gær. Við skulum ekki útiloka það, hugmyndastríð nútímans snúast oft um hver getur innihaldið flestar þverstæður, hver getur útilokað raunveruleikann á mest sannfærandi hátt.

Og við erum öll að spila þennan leik, það er ekkert hægt að þrífast öðruvísi. Ef nógu margir lesa þennan pistill er hann smitandi líka, þá hef ég lært nóg af heimi Vice til að smita örfá hjörtu með öllum þessum orðum.

Stallone í Löggulandi

Þetta kunna fleiri, þetta kann Hollywood til dæmis flestum betur. Ég get nefnt ófáar Hollywood-stjörnur sem tístu ört um óöld næturinnar, en flestir voru mest að endurtísta – það athyglisverðasta var kannski það sem James Mangold sagði. Mangold er leikstjóri – mögulega einn mest gamaldags leikstjóri Hollywood. Og ég meina það sem hrós; hann og James Gray eru af gamla skólanum að því leitinu að þeir gera alvarlegar myndir fyrir fjöldann – þessar millivigtarmyndir sem fara eftir handritinu en reyna samt að segja eitthvað af viti. Og hann er eldskarpur og þolir ekki fávita – en dissar þá mjög kurteislega (treystið mér, ég hef mætt á blaðamannafund með honum).

Myndirnar hans eru samt oft um eitthvað allt annað en þær virðast vera. Logan var ofurhetjumynd um Trumpisma og Ford v Ferrari var ekki bílaklámið sem ég bjóst við heldur sýndi okkur hvernig kappakstur hjálpaði bílafyrirtækjum að markaðssetja skrjóðana sem tákn velsældar og töffheita 20 aldarinnar. Rétt eins og Vice seldu þeir töffheitin og létu sér afleiðingarnar litlu varða.

Myndin sem kom honum á kortið var hins vegar Cop Land, þar sem Sylvester Stallone á óvenju lágstemmdan leik sem lögga að berjast við spillingu. En myndin er samt að hans sögn aðallega um demógrafíu. Hann er sjálfur sonur listamanna – en ólst upp í úthverfi þar sem flestir skólafélagar hans voru synir lögreglumanna og slökkviliðsmanna sem unnu í miðborginni. Seinna kenndi hann í miðborginni og fór reglulega á milli heimilis og kvikmyndaskóla í New York – og áttaði sig á andstæðunum; löggurnar fara í eitthvað sem þær upplifa sem stríðsástand götunnar á daginn og snúa til baka í úthverfahimnaríki með grillpartíum á kvöldin. En þeir upplifa götuna sem stríð af því hún verður aldrei þeirra heimur, þeir vita ekki hvert markmiðið er, fyrir utan það að halda ólgunni niðri. Sem svo aftur skapar ólguna á milli beggja hópa, þetta erum við og þeir, íbúarnir fá geimverur frá úthverfum að segja þeim hvað þeir eiga að gera – og löggurnar snúa aftur til baka í grillpartíin og tala um geimverurnar í miðborginni.

Og þess vegna hleypti löggan þessu fólki inn. Hún þekkti það, hún hafði farið í sömu grillpartíunum.

En núna er Mangold líka að leita inn á við, kenna sjálfum sér um – óbeint.

Hann beinir spjótum sýnum að Fox News og Rupert Murdoch, eiganda stöðvarinnar; það séu fleiri fjölmiðlamógúlar en fyrrum Vice-stofnendur sem bera ábyrgð á ástandinu – Vice bjó til hipsterana sem réðust inn, Fox News bjó til múginn sem fylgdi, lúðana sem trúa öllum samsæriskenningum – eða vilja bara fá að vera með í partíinu. Mangold segir hina sönnu skúrkar sögunnar þá sem græða á falsfréttum og áróðri, þeir sem plotta í reykfylltum bakherbergjum á meðan þeir láta hirðfíflið leika skúrkinn.

But if this were a movie, Trump wouldn’t be the villain, but rather a pathetic boob character, fronting for the real (and believable) villainy of the Murdochs, Putin and other cynical folk who should know better, making $$ and getting power as they support this unreality show.“

Nema hvað, flestar myndir Mangolds voru framleiddar af Fox kvikmyndaverinu. Þær, rétt eins og ótal menningarafurðir þess kvikmyndavers, ganga þvert á áróður kvikmyndaversins. En peningarnir enda samt í sama vasa. Sem er eitthvað sem Mangold iðrast núna, með þessum orðum: „Ég sé eftir því að myndir sem ég hef leikstýrt hafa búið til fjármagn fyrir Murdochana.“ Murdocha heimsins eða Murdoch-fjölskylduna, ég er ekki viss hver rétta þýðingin er hér – en þessi saga, ekki síður en sagan um Vice, sýna ágætlega hversu flóknar víglínur og þræðir menningarstríðanna sem nú geysa í raun eru, jafnvel þegar okkur er sagt að sundrungin hafi aldrei verið meiri. Sem er kannski satt líka, þetta snýst jú um að gangast til liðs við mótsögnina – og hunsa hana svo alveg, þú ert ekki að fara að græða neitt á að láta röksemdir eða raunveruleikann stoppa þig í að kveikja næsta bál.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson