DSCF3990„Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af því að menn taki eitthvað sem er hefðbundið eða hversdagslegt, það hversdagslegt að það verður nánast ósýnilegt – og bendi á að það hafi sína sögu og opni þá sögu svo yfir í eitthvað annað. Mér finnst miklu skemmtilegra að segjast ætla að skrifa sögu bókstafs en vera svo farinn að skrifa um þróun þjóðernishyggju og stjórnmálakerfa í heilu löndunum, frekar en að fara í hina áttina og segjast ætla að skrifa bók um heimstyrjöldina síðari og enda svo á að fjalla um hvort það hafi verið þrír braggar þarna eða fjórir,“ segir sagnfræðingurinn Stefán Pálsson mér, en hann hefur er einn af fjórum höfundum bókarinnar ð ævisaga.

Við byrjuðum á að tala um snertifletina við samfélagslega vinklaðar fótboltabókmenntir en Stefán man eftir miklu hversdagslegra dæmi. Eftir að hafa lesið skemmtilegan reyfara eftir Kate Atkinson þá sló hann bókinni upp á Amazon, en bókin hét One Good Turn. „Þá uppgötvaði ég bók með sama titli, sem var ennþá skemmtilegri, og það var saga skrúfjárnisns sem opnaði svo á sögur um Leonardo Da Vinci og fleiri hluti. Þetta finnst mér vera skemmtilegt. BA-ritgerðin mín var um gasstöðina í Reykjavík. Fyrstu viðbrögðin hjá mörgum voru að þetta efni gæti ekki borið ritgerð. En niðurstaðan var sú að maður var að skrifa um þróunarsögu Reykjavíkur, orkumál Íslands í stærra samhengi og þar fram eftir götunum,“ segir Stefán sem væri alveg til í að halda áfram með þau skrif. “Það er kannski bók í því ef ég get fengið einhvern til að kaupa hana.“

Stefán var þó síðastur höfundanna til að koma að verkinu. Meðhöfundar hans eru þeir Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Ingi Farestveit (Stefán játar að ég sé ekki fyrstur til að hnýta í það að enginn beri ð í nafninu) og eru allir grafískir hönnuðir. „Það eru tvö ár síðan það var talað við mig um þetta, en  aðdragandinn er miklu lengri. Þeir Anton, Steinar og Gunnar hafa allir skrifað skólaritgerðir um þessa íslensku stafi og í þessum grafíska geira hérlendis þá er mjög mikill áhugi á letri, leturfræði og ýmsum vandamálum sem því fylgja. En þeir voru farnir af stað með rannsóknarverkefni með frekar óljósan lokapunkt. Þeir fengu góðan styrk frá Hönnunarsjóðnum Áróru og svo held ég að þeir hafi reiknað með að útkoman yrði kannski bæklingur á ensku fyrir útlenska hönnuði, vefsíða eða eitthvað slíkt. En svo kveikja menn á því hve þarna sé mikil saga til að miðla og þá var sagnfræðingurinn kallaður til.“ En var hann viss um að sagnfræðin ein dyggði til þegar kæmi að leturhönnun og prentverki, málvísindum og tölvustöðlum? „Ég var smeikastur við 20. aldar tæknihlutina. En þótt ég hefði ekki sérstakan málvísindabakgrunn þá hjálpaði mér að á 19. öldinni, þegar menn eru að takast á um þetta ð, þá eru málfræðin og málvísindin svo mainstream. Þetta mun aldrei gerast aftur, að helstu áhrifamenn samfélaga séu á fullu að deila um stafsetingu og annað slíkt. Stafsetning og stafsetningarreglur er drjúgur hluti fyrstu blaðanna af Fjölni, tímaritsins sem allir lásu. Í dag geta málfræðingarnir skrifað og skrifað og talað á einhverjum ráðstefnum um að sleppa y eða eitthvað slíkt, en það er enginn að hlusta á þá nema aðrir málfræðingar.“

Travolta dansar ð

Það eru hök á þverstriki þess ð sem notað er í bókinni, meðal annars forsíðufyrirsætunnar sjálfrar. Slík ð hafa ekki alltaf verið vinsæl og voru á sínum tíma uppnefnd Travolta ð, eftir frægri dansstellingu diskókóngsins fyrrverandi. Og það hefur vakið hörð viðbrögð í hönnunargeiranum. „Mönnum stendur ekkert á sama um þetta forsíðu-ð. Þótt menn skilji það að í bók um ð verður maður að vera með mjög afgerandi ð, helst frekar ögrandi. Ð-in eru sérhönnuð í þessa bók. Það var haft samband við erlendu hönnuðina og þeir gera þetta eftir ákveðnum forskriftum. Hökin á þverstrikinu, þetta eru hlutir sem gömlu módernistarnir í leturhönnuninni, Gísli Björnsson og fleiri, voru að berjast gegn í áratugi við að uppræta. En svo kemur bara Travolta ð á forsíðuna.“

ÐKápaÚtlit ð-sins skýrist af þróun stafsins, sem lá í dvala um aldir, einmitt þegar prentbyltingin stóð sem hæst. „Þegar menn fara að prenta ð-in þá skoða menn miðaldartextana, þegar þeir eru skrifaðir myndast smá slettur, penninn skautar aðeins til og myndar smá raufar, og svo verður alltaf tilhneiging til að ýkja þær upp. Það tekur stundum á sig fáránlegar myndir, þetta getur orðið mikill hakakross. Þetta truflaði þó ekki Bretana sem voru að útbúa þessi letur þeir voru aldrei að nota þennan staf í annað en endurútgáfur á einhverjum engilsaxeneskum textum sem máttu hvort eð er líta dálítið fornir út og handritalegir.“ Íslenskir leturgerðarmenn og hönnuðir hafa hins vegar barist hatrammlega fyrir því að ð heimsins væru unnin í takt við nútíma textagerð. En Stefán segir ýmislegt benda til þess að þessi annars góða vinna hafi mögulega gengið pínulítið of langt og nefnir málþing þar sem samhöfundar hans þrír héltu fyrirlestur á. „Þar sýndu þeir bæði d og ð úr ýmsum nýlegum leturgerðum sem voru gríðarlega ólíkar innbyrðis. Það var himinn og haf á milli ólíkra d-a, en ð-in voru keimlík. Menn voru orðnir svo smeikir við ð-ið, þetta voru bara útlenskir hönnuðir sem taka bara einhverja hönnunarforskrift frá Gulla Briem, menn þora ekki að leika sér með stafinn, það er búið að berja það of mikið úr mönnum. En þegar Gísli B og félagar eru að fara af stað og berja ljótustu ð-in úr mönnum voru þeir líka að eiga við viðvaninga. Þá fengu menn bara inn letur og voru að drullumixa þetta á einhverri auglýsingastofu. En í dag eru þeir sem eru að hanna góð letur fagmenn og það á að vera hægt að treysta þeim aðeins til verka.“

Líklega eru fáir stafir íslenskunnar minna notaðir en stóra Ð-ið, enda engin íslensk orð sem byrja á því. En ð ævisaga hefði getað verið hið stóra tækifæri þessa afskipta stafs, sem loksins átti málfræðilega heimtingu á að komast á bókarkápu án þess að leturgerðin væri öll í hástöfum. Hafa talsmenn þess ekkert kvartað? „Stóra Ð-ið hefur enn aumari tilveru. Í Stafakörlum Bergljótar Arnalds þá eru allir stafirnir hástafir, nema litla ð-ið sem er lítill. Kynslóðin sem elst upp við þessar bækur finnst alltaf vænst um ð-ið. Hann var þessi litli krúttlegi sem var alltaf að skjóta upp kollinum. En út af Víetnamasamfélaginu á Íslandi erum við þó með menn sem byrja með Ð-i í símaskránni. Þannig að stóra Ð-ið er komið í símaskrána, þótt það hafi ekki komist á þessa forsíðu,“ segir Stefán en blaðamaður gat fundið tvo einstaklinga sem byrja á Ð í nýjustu símaskránni.

En hvernig upplifir Stefán persónuleika aðalpersónu sinnar? Í bókinni líkir Stefán ð-inu við jólasveininn Stúf, bæði séu minnst og krúttlegust. „En ef Íslendingar hefðu aldrei hætt að skrifa ð og ef stafurinn hefði bara haldist í tungunni alla tíð, þá eru allar líkur á því að það væri bara d með striki. Vegna þess í grunninn er þetta d með striki sem frýs á þeim tíma þegar d-ið er hallandi. Þetta er handskrifaður handritastafur sem er svo troðið með skóhorni inní prentletur mörgum öldum síðar, án þess að það sé hugsað eitthvað sérstaklega. Það er bara gert af málfræðingi sem er enginn leturhönnuður. Þannig verður hann þessi endalausi gallagripur sem fellur ekki inní þessi fáeinu auðveldu form. Það hvernig hallinn á strikinu á að vera er flókið mál og um leið og þú feitletrar hann eða skáletrar fokkast hann upp. Það er engin formúla fyrir að skrifa rétt ð en allir Íslendingar vita hvenær ð-ið er rangt. Þetta er nánast tæknileg viðskiptahindrun. En einmitt þessi vandræðagangur veldur því líka að Íslendingum þykir vænna um stafinn en aðra. Við fórum lítið í að skoða handskrift, en ég hef klárlega þá tilfinningu að menn dúlli meira við ð-ið. Sérstaklega ef menn eru með ð í nafninu sínu.“ Stefán tekur þó fram að þessar meintu vinsældir ð-sins séu fyrst og fremst hans tilfinning. „En það væri reyndar áhugavert að hafa skoðanakönnun um vinsældir bókstafa.“

Tungumáli Raskað

Áðurnefndur málfræðingur er þó í raun stærsta persóna verksins af holdi og blóði. „Niðurstaða þessarar bókar er að ef ekki hefði verið fyrir Rasmus Kristján Rask og hans prívatáhugamál værum við ekki að nota þennan staf í dag. Það þarf eitthvað mjög sérstakt til að þú getir tekið upp bókstaf í stafrófi, því allra heilagasta í ritmálinu. Það var enginn annar sem hefði getað komist í þá stöðu,“ segir Stefán um danska málfræðinginn Rask, sem var talinn mikill Íslandsvinur og talaði tungumálið reiprennandi. En Stefán segir þó að eftir á að hyggja hafi afstaða hans til Íslendinga verið um sumt vafasöm.

„Hann er ekki að gera þetta af praktískum ástæðum. Þetta er bara hluti af hans stóra plani, hans stóru sýn á að íslenskan væri móðurtungan, hún væri gríska norðursins, og hann er að reyna að draga fram tenginguna við engilsaxneskuna. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að nota ð-ið sama vetur og hann er að útbúa málfræðilega lýsingu á engilsaxnesku, þar sem þessir stafir eru. Þetta er bara til að árétta þessa tengingu. Hann sá sjálfur enga ástæðu til að troða þessu inní færeyskuna. Það sem er svo magnað með Rask kallinn er að þegar kemur að dönskunni þá hefur hann þessa hefðbundnu málvísindamannaafstöðu; að ritmál eigi bara að endurspegla lifandi talmál og menn eigi að hræra í því hægri vinstri. En svo setur hann bara allt aðra mælistiku á íslenskuna. Hlutverk Íslendinga í heiminum er að vera útungunarstöð fyrir ódýrt vinnuafl af stúdentum sem geti unnið á bókhlöðum í meginlandinu við að þýða handrit. Því skyldi bara viðhaldið. Þess vegna eigi að vera eitt og sama ritmál fyrir fornmálið og nútímamálið. Þetta vefst samt ekkert fyrir hvorki honum né öðrum. Þannig að þótt menn sjái hann sem þennan mikla vin Íslands og Íslendinga og bjargvætt okkar þá er þetta að mörgu leyti mjög patróníserandi viðhorf til tungunnar. Hann segir bókstaflega að hér eftir verði ekki skrifaðar neinar bækur á íslensku sem skipti neina aðra en Íslendinga máli. Þetta er bara okkar arfleifð og okkar hlutverk í hans augum.“

Áhrifa þessa viðhorfs gætir enn í málverndarstefnu Íslenskunnar. „Menn bregðast við með því að fyrna tungumálið markvisst, íslensk málverndunarstefna gengur mjög mikið út á það. Hann var kannski ekki upphafsmaðurinn að því en hann var mjög áhrifamikill. Við viljum trúa því að við getum bara labbað inná hvaða söfn sem er, fundið einhver norræn miðaldahandrit og lesið þau án erfiðleika. Veruleikinn er þó sá að við skiljum þau ekkert til fulls, og ef við getum lesið þau er það öðrum þræði út af því að okkur var kennt það í menntó. En við viljum trúa mýtunni. Rask heldur því fram, gegn betri vitund, að samtímaíslenska sé einfaldlega þessi fortunga Norðurlandana. Og ég held þetta sé tilfinning sem flestir Íslendingar hafi, þótt hún hafi verið skotin niður þegar á nítjándu öld, Með næstu kynslóð á eftir Rask. Hann og fleiri Íslendingar gerðu tilkall til að geta lesið rúnasteina í allri Norður-Evrópu,“ segir Stefán sem hefur þó skilning á afstöðu Rask.

„Hann er ungur fræðimaður sem býr að því að hann talar íslensku eins og innfæddur. Sem enginn annar útlendingur getur gert, og auðvitað mjólkar hann það sem mest hann má. Þetta er náttúrulega makalaus maður, það verður bara að koma út ævisaga hans á Íslensku. Það sem er óvenjulegt við Rask er hvernig hann lærir íslensku á þennan brjálæðislega hátt, með því að lesa saman þessi handrit, og áttar sig sjálfur á kerfinu, hann hefur greinilega mjög fullkominn skilning á kerfum. Út frá því brýtur hann í raun blað í samanburðarmálfræðirannsóknum með því að bera saman tungumál út frá málfræðikerfum. Það hafði enginn gert áður. Það var nýlega komið í tísku að teikna upp ættartré tungumála, sem var undir áhrifum frá líffræði og uppgötvunum Darwins. Þá höfðu menn bara nálgast þetta út frá því að skoða samheitin og líkindin. Hugmyndin var að þar sem orðin væru líkust væru þau skyldust. En Rask segir að það sé ekkert víst, þetta gætu bara verið tökuorð.“

Tíðindalaust úr Austurvegi

Frægð Rasks er helst bundin við Ísland en sjö ára Asíuferð hans gaf þó fyrirheit um meira. Þar dvaldi hann langdvölum í borgum Rússlands, Írans, Indlands og Ceylon (Sri Lanka nútímans), lá í handritum og lærði ný tungumál. Stefán segir bréfasafnið úr þessari ferð stórmerkilega heimild. „En annars er það eina sem þessi ferð skilur eftir er að hann slær lán til að kaupa einhverja ævagamla handritableðla. Þeir eru öndvegisgripir konunglega bókasafnsins í dag, mörgþúsund ára gamlir sanskríttextar. En ef Danir vita um hann á annað borð sjá þeir hann frekar sem tragíska persónu. Hann er maður hinna glötuðu tækifæra. Hann er sjálfum sér verstur og hann er ekki með öllum mjalla undir lokin. Það eru einhverjir andlegir erfiðleikar sem hrjá hann, hann upplifir mjög mikla höfnunartilfinningu og að hann sé ekki metinn að verðleikum. En þetta var stóri túrinn sem átti að gera hann ódauðlegan – tækifæri sem hann hendir frá sér. Málvísindaheimurinn situr og bíður eftir því að það komi bók sem er nútímaleg málfræðilýsing á sanskrít. Hann er í dauðafæri, er búinn að fara þangað og getur skrifað þetta út frá átoríteti – og kemur heim og fer að grauta í einhverju rugli. Það fyrsta sem hann sendir frá sér eftir ferðina er rit um spænska málfræði, sem engin þörf var á. Og þótt Íslendingum finnist störf hans á vegum Hins Íslenska bókmenntafélags voða merkileg þá bara skilja Danirnir ekki hvað hann er að spá.“ Það munaði þó fyrir nokkrum misserum ekki miklu að ævisaga Rasks kæmist á íslensku. „Ég veit að bókmenntafélagið var komið með þokkalega ævisögu um hann á dönsku sem þeir höfðu hug á að þýða, en þá fengu útgefendurnir úti einhverjar hugmyndir um að það lægi voðalega mikill peningur í þessu. Þá rann það út í sandinn.“

Z & Þ: framhaldsbækur?

Stefán hefur bloggað lengi og var um tíma þekktur sem bloggarinn # (eða Shift-3), tilbrigði við stæla söngvarans Prince sem vildi á tímabili láta kalla sig eftir tákni sem hvergi fannst á lyklaborðum. Prince fær einmitt aukahlutverk í bókinni og sjálfur er Stefán í litlu hlutverki í nýjasta riti Ísland í aldanna rás, sem sérlegur hatursmaður Moggabloggsins. Það kom því örugglega einhverjum í opna skjöldu þegar ð-lausi dagurinn var haldinn heilagur á mbl.is í tengslum við útgáfu bókarinnar. „Ég kem sem minnst nálægt markaðsmálunum í þessu. En þetta virkaði ágætlega, Mogginn hefur nú verið að reyna í netmálunum. Einhverjar vildu nú meina að ð-lausi stafurinn hafi í raun verið aðför að stafnum, því hann hafi sýnt hve munaði litlu um þetta.“

Morgunblaðið hefur þó lengi verið tengdara öðrum afskiptum bókstaf sterkari böndum, zetunni. „Þeir hanga í þessu á sérvisku, tilgerðarlegir menntaskólastrákar, Mogginn og Fréttablaðsritstjórinn. En þótt að einhver annar verði að skrifa það heldur en ég þá er efni í bækur um þ og z. Ég held að það séu ekki fleiri stafir sem stæðu undir bókum á íslensku um sig.“ Ég velti fyrir mér hvort saga þornsins yrði ekki svipuð þessari? „Þar myndi vanta endurreisnarsöguna, en það myndi teygja sig aftar, því þ er rúnaletursstafur og þá er engin hemja hvað maður getur rakið sig langt aftur. Ég fór aðeins að lesa mér til um rúnamál í tengslum við þessa rannsókn. Eitt af því fyrsta sem maður rak sig á var að þetta er eitt af þeim sviðum þar sem er ansi þunn lína á milli nöttera og alvöru rannsókna. Þannig að maður þarf að vera andskoti góður til að geta greint á milli.“

Saga Zetunnar yrði þó gjörólík – og raunar eru glefsur af þeirri sögu í þessari bók. „Zetan yrði tuttugustu aldar pólitíkin. Þar eru menn á 20. öldinni að þræta og harkan í þeim umræðum sýnir hvað ritmálið er óhagganlegt. Það er búið að loka því, þetta er steypa sem er búin að þorna, þú haggar því ekkert að ráði. Svigrúmið þegar nútíma ritmál verður til á íslensku er mjög lítill gluggi á fyrri hluta nítjándu aldar. Þá gátu menn gert hvað sem er, þá gátu menn búið til nýjan staf og leikið sér með hitt og þetta. En þegar þetta hefur verið standardíserað er bara meiriháttar átak að hreyfa við einhverju. Einu breytingarnar á íslenskri stafsetnigu á síðustu 150 árum er zetan, é-ið og svo hefur verið hróflað við einhverri greinamerkjasetningu. Það er ekkert sem bendir til þess að það breytist. Ef við verðum að tala íslensku ennþá eftir 200 ár þá geri ég ráð fyrir að það verði að mestu leyti eins.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Viðtalið birtist upphaflega á vefritinu Smugunni í desember 2012.