Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson
Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson

„Ríflega tvö þúsund manns létust við gerð þessarar bókar. Tvö hundruð þúsund manns. Sex milljón gyðingar. 17 milljónir karlmanna, kvenna og barna. Tæplega áttatíu milljón manns. Veröldin verður aldrei söm.

Nei, djók!“

Svona byrjar Illska, 540 síðna bók Eiríks Arnar Norðdahls um það hvernig íslenskur nútímaástarþríhyrningur blandast saman við helför nasista í litháíska smábænum Jurbarkas. Þessi bók spannar vítt svið og fjallar um alvarlega hluti, en byrjar þó pínulítið eins og Facebook-status um helförina.

„Hún er óðamála, sérstaklega í fyrsta hlutanum. Þessir bútar um helförina, Hitler og popúlisma, þeir eru líka portrett af þessari áráttu sem Agnes og Arnór deila. Í upphafi er bókin óðamála og tekur sig  ekki mjög hátíðlega. Ég vildi stýra skáldsögunni frá því að vera Schindler’s List. Þetta er líka svívirðilegur staður til að byrja á, Íslendingur að skrifa skáldsögu sem fjallar þetta mikið um helförina. Það er mjög auðvelt að spyrja hvað í andskotanum mér kemur þetta við, mér Eiríki Erni Norðdahl?“ segir Eiríkur Örn Norðdahl mér og bætir við: „Þá þarf ég að byrja á værukærari stað og vinna mig nær alvörunni.“

Hér er kannski rétt að kynna betur til sögunnar helstu persónurnar. Agnes er úr Kópavoginum en foreldrar hennar eru frá Litháen. Einn langafi hennar drap annan langafa hennar í heimsstyrjöldinni og nú er hún heltekin af helförinni, nógu heltekin til þess að halda fram hjá kærastanum Ómari með nýnasistanum Arnóri. Sem á það sameiginlegt með höfundinum Eiríki að vera frá Ísafirði. Eiríkur er nýfluttur aftur til Ísafjarðar þegar ég heyri í honum, eftir fimm ára dvöl í Finnlandi og Svíþjóð, með viðkomu í Stykkishólmi.

„Ég lagði mig eftir því að lesa pólitískar skáldsögur fyrir fimm árum og síðan þá hef ég nánast eingöngu lesið pólitískar skáldsögur. Það sem fór strax að trufla mig við þær er þessi einvíða sýn á þá sem maður er ósammála. Ef þú skrifar skáldsögu og það er einhver í henni sem er af einhverjum þjóðflokki eða skoðanaflokki manna sem þér er illa við – það er mjög erfitt að skrifa þannig fólk. Maður ber ekki virðingu fyrir öllum skoðunum. En þú getur ekki sett þannig manneskju í forgrunn skáldsögu án þess að nálgast hana af jafnmikillli virðingu og hvern annan. Ein af ástæðunum fyrir því að ég plantaði Arnóri niður á Ísafirði var að ég vildi skapa persónleg tengsl á milli mín og hans. Á einhverjum tímapunkti hugsaði ég: ef ég væri nýnasisti, hvernig nýnasisti væri ég? Til þess að reyna að minnka þetta bil  á milli okkar, svo maður færi ekki að presentera klisjuna sem hefði enga aðra merkingu en að segja í tíuþúsundasta skipti: nýnasistar eru vont fólk. Og ég held það sé í raun voðalega lítil þörf á því.“

Randískar andhetjur?

Fyrir utan þessar 540 síður má raunar segja að það sé hellingur af aukaefni á netinu um Illsku. Eiríkur bloggaði í tæpt ár um tilurð bókarinnar og þar á undan bloggaði hann sömuleiðis í tæpt ár um þær pólitísku bókmenntir sem hann var að lesa. Ein þeirra bóka er óvæntur keppinautur Illsku í þessu jólabókaflóði. Undirstaðan, ný þýðing á Atlas Shrugged eftir Ayn Rand. „Bókin er náttúrulega skelfileg. Hún gerir enga tilraun til að nálgast neinn annan sjónarhól en sinn eigin. Ayn Rand leggur upp með eina grundvallarhugsun, sem er ekkert sérstaklega flókin: Fólk á í öllum tilfellum að standa á eigin fótum, allir sem gera það ekki geta sjálfum sér um kennt og allir sem svipta aðra möguleikann til þess að standa á eigin fótum ­– til dæmis í gegnum svokallaða aumingjagæsku – þeir eru eiginlega að fremja einhvers konar svik við lífið sjálft,“ segir hann um hugmyndafræði Rand. „En þessi kenning kemur fram á fyrstu tíu blaðsíðunum – og bókin er rúmlega 1100 síður. Restin er bara að endurtaka þetta þangað til manni fer að blæða út um augun.“

IllskaEn þótt honum þyki heimspekin vafasöm telur hann að Rand meini samt vel. „Hún vill bæta heiminn, hún vill meina að ef við gerum þetta svona þá fari einhver náttúrulegur gangur lífsins af stað, fólk fari að uppfylla drauma sína í staðinn fyrir að sitja einhvers staðar og vola. Þannig að afleiðingar heimspeki hennar eru ekkert endilega einfaldar, það er bara hvernig hún skrifar þær – hún nær mjög sjaldan að dýpka þær. Það er ekkert ómögulegt að það væri hægt að skrifa góða Rand-íska skáldsögu sem myndi kanna þetta. En hún er bara svo hryllilega vondur rithöfundur. Hún skrifar ömurlegar setningar og hryllilegar senur. Ég held það hafi komið vel í ljós þegar það átti að kvikmynda bókina. Hún er skrifuð eins og sjoppureyfari sem ætti að vera auðvelt að kvikmynda án þess að breyta miklu, en hún verður bara svo vandræðaleg um leið og þú ferð að lesa hana upphátt.“

En getur verið að aðalkarlpersónurnar tvær séu þá í einhverjum skilningi Randískar andstæður?  Eiríkur hummar, játar bæði og neitar og tekur svo að einhverju leyti undir það. „Arnór er síníker eins og Rand, fyrirlítur heiminn svolítið mikið. Er svolítið valdmannslegur. Og Ómar er náttúrulega aumingi, í hinum randíska skilningi er hann fullkomlega týndur. Það má líka alveg til sanns vegar færa, hann á dálítið erfitt að takast á við tilveruna,“ segir Eiríkur og tilvistarkreppa Ómars hljómar óneitanlega kunnuglega þegar Eiríkur lýsir henni. „Það er þetta vandamál sæmilega vel meinandi sæmilega vinstri sinnaðs menntamanns á Vesturlöndum, þessi skylda að láta gott af sér leiða og láta ekki slæmt af sér leiða – en vera samt staddur í veröld þar sem að 90 prósent af öllu sem grípur þig er fánýti – og vera stöðugt meðvitaður um það. Þú situr uppi í rúmi með Macintosh tölvuna í fanginu og þú veist að kerfið sem framleiddi hana er ekkert sérstaklega gott. Þú ert laus við að verða reiður yfir því, vegna þess að ef þú ætlaðir að verða reiður yfir slíkum hlutum færi allt líf þitt í reiði. Við tekur bara einhvers konar vonleysi. Þú klárar háskólanámið, situr svo og dæsir. Af því þú hefur ekkert um þessa veröld að segja í raun og veru. Þú ert í einhverjum skilningi valdamanneskja: hvítur karlmaður á Vesturlöndum. En hefur í raun ekkert vald, og þaðan sprettur hálfgerður gufuháttur, þar sem þú getur ekki existerað af því þú finnur ekki fyrir valdinu sem þér er eignað.“

Fyrirframskoðanirnar

„Það sem helst sameinaði popúlistana – snertipunkturinn þar sem þeir mættust allir, frá vinstri til hægri, frjálslyndra til íhalds, frá alþjóðasinnum til stækustu rasista, og skáru sig frá öðrum stjórnmálaöflum – var að þeir stunduðu samræðu með ipponi. Þeim var svo mikið niðri fyrir að ekkert fékk að standa í vegi fyrir réttlæti þeirra, sem valtaði yfir andstæðinga, raunverulega og ímyndaða, pólitíska og demógrafíska. Allt sem fram gat komið í samræðu varð einungis til þess að sanna að þeir hefðu rétt fyrir sér og að aðrir væru í senn vitlausir, ranglátir og vondri.“ (bsl. 390)

Þessi klausa um popúlisma í bókinni er lengri og það eru fáir sem eru skyldir þar útundan, maður fær helst á tilfinninguna að popúlismi sé helsti sjúkdómur nútímans?

„Ég vildi vekja athygli á því hvað við erum öll miklir popúlistar og það fer rosalega mikið vaxandi. Það er hluti af þessari netvæðingu sem gefur okkur kleyft að standa í mikilli baráttu mjög hratt. Við skrifum undir einn undirskriftalistann í dag og annan á morgun, með hverju læki og hverri deilingu er eins og við séum að greiða atkvæði um hversu hátt einhver grein eða hugmynd fær að fljúga í dag, við erum í einhvers konar keppni og það eru allir ofboðslega meðvitaðir um það. Og með þessu búum við til heim þar sem álit kemur alltaf á undan,“ segir Eiríkur og rifjar svo upp fjölmiðlaneyslu fortíðarinnar.

„Maður las kjallarann og hafði alveg dagspart í að velta honum fyrir sér, fyrir næstu kaffipásu, þegar þú spjallar um hann við vinnufélagann sem var máski líka búinn að lesa hann. Nú kemstu aldrei að leiðaranum án þess  að vita hverjir aðrir eru búnir að lesa hann og hvað þeim þótti um hann. Maður vaknar á morgnana og það er grein í Fréttablaðinu, þú sérð að einhverjir tíu vinir þínir eru búnir að segja „þetta er skyldulesning dagsins“ eða „þetta er nú meiri djöfulsins fábjáninn.“ Það er ekki nóg með að maður hafi ekki lengur tíma til að melta greinarnar í einrúmi með sjálfum sér, án samfélagsins, án hinnar popúlísku þáttöku – maður veit hvort greinin er góð eða vond áður en maður les hana. Þarna er búið að svipta mann andrýminu, og þegar enginn gefur sér tíma til að hugsa þá er það popúlisminn sem flýtur upp á yfirborðið. “

Blóðið í vaskinum

En helförin, erum við ekki að gleyma henni í öllu þessu tali um nútímann? Framan af bók eru ýmsar, oft tilviljunakenndar, upplýsingar um helförina og heimsstyrjöldina síðari. En svo koma kaflar frá helförinni í Jurbarkas, litháíska smábænum sem forfeður Agnesar koma frá. Þar þurftu nasistarnir sjálfir sáralítið að gera, annar helmingur bæjarins tók bara að sér að útrýma hinum. En hvar fann Eiríkur þær sögur allar?

„Gyðingar taka oft saman bækur um staði sem fóru illa út í helförinni, svokallaðar yizkor-bækur. Stærstur hluti yizkor-bókarinnar um Jurbarkas var skrifaður af fólki sem var flutt burt, til Ísrael eða Ameríku eða eitthvert annað, og líka af fólki sem lifði af þessar hörmungar. Stór hluti af bókinni er bara vitnisburðir. En yfirleitt eru þessar bækur bara skrifaðar á hebresku. Það vildi mér hins vegar til happs að Bandaríkjamaður að nafni Joel Alpert kemst að því sem fullorðinn maður að hann átti ættingja sem voru drepnir þarna. Hann fer í kjölfarið í gegnum svona hobbígrúsk og lætur þýða þessa bók fyrir sig, því hann talar ekki hebresku, og lætur prenta hana.“

Þessari sögu er hins vegar lítið haldið á lofti í bænum sjálfum. „Þegar ég kom til Jurbarkas lenti ég í stökustu vandræðum því fólkið þar er mjög lítið meðvitað um þessa fortíð. Það stóð þarna mikil og fræg sýnagóga, sem var rifin í tætlur og brennd. Ég var að reyna að finna hvar hún hefði staðið en það var enginn í bænum sem gat sagt mér það. En þá hafði ég samband við áðurnefndan Joel Alpert og hann fann fyrir mig staðinn, sendi mér kort og alls konar bréfasöfn og var mér dálítið innan handar. Ég er náttúrulega ekki sagnfræðingur og kunni þetta ekki, ég kann ekkert að skrifa sögulegar skáldsögur, þannig að ég gerði þetta bara eftir eyranu.“

En hvers vegna er þessi saga svona gleymd? „Sovétið var náttúrulega kúgun sem tók yfir miklu lengra tímabil, hún var ekki jafn blóðug, en tók úr meginstofni þjóðarinnar, etnískum litháum. Á meðan Sovétmenn drápu einhver 50 þúsund manns, bæði skæruliða og friðsama borgara, þá drápu nasistar 200 þúsund gyðinga – en ástæðan fyrir að nasistar komust upp með þetta í stríðinu var að þeir tóku gyðinga alla sem þjóðflokk og þá var enginn eftir til að kvarta. Og nú eru engin barnabörn gyðinga til að halda þessari minningu við, nema eitthvað af fólki sem býr í útlöndum. Nema kannski helst í Vilnius, Vilnius var Jerúsalem norðursins, og þar er haldið upp á ýmsa hluti.“

Framan á Illsku má sjá smábæ málaðan á baðherbergisvegg. Þessa mynd litháans Algis Griskevicius fann Eiríkur í veislu í norður-Finnlandi, í bókinni Baltic Paintings. „Þessi bær minnir svolítið á Jurbarkas, hann er minni en þeir eru báðir svona gisnir. Við hliðina á Jurbarkas rennur þetta mikla fljót, Nemunas. Vaskurinn á myndinni … blóðið í vaskinum. Myndin heitir Líf í gleymdu rými. Ég veit ekkert hvort hún fjallar um helförina eða baráttuna við Sovétmenn eða eitthvað annað, ég veit ekkert hvert maðurinn er að fara. En myndin vísar til gleymds ofbeldis sem hverfur inní hversdagsleikann, tannburstinn og glasið og þessi fallega hversdagslega mynd, ég sá bara fyrir mér Ómar og Agnesi í hússkriflinu að bursta tennurnar.“

Hrun heimsmyndar

Þegar við kynnumst Agnesi er hún að skrifa MA-ritgerð. En hún er stopp, hrunið stoppaði ritgerðina og hún getur ekki einbeitt sér að henni lengur. En olli hrunið mögulega fleiri slíkum ritteppum?

„Það gæti vel verið. Það greip marga ákveðið tilgangsleysi. Hinar skrifandi stéttir, sem líta á sig sem ákveðinn varnarmúr … ég held þeim hafi fundist þær hafa brugðist, miklu frekar en stjórnmálamönnum eða hagfræðingum eða bjúrókrötum, vegna þess að til þess er ætlast af rithöfundum og blaðamönnum og álitsgjöfum að þeir séu krítískir, að þeir komi auga á götin í samfélaginu. Og þegar samfélagið hrundi þá fannst jafnvel þeim sem voru hvað krítískastir eins og þeir hefðu ekki verið nógu krítískir, út af því þeir sögðu ekki nákvæmlega að það væri allt að fara til andskotans 6. október 2008. Eins og allt sem þeir hefðu verið að gera hefði verið fánýti. En svo var líka bara þessi tilhneiging til þess að setjast á hliðarlínuna og fylgjast með hvað var að gerast og reyna að átta sig á því. Það voru miklar breytingar á fjárhag þjóðarinnar en stærstu breytingarnar voru á orðræðunni og því til hvers við vorum að ætlast af samfélaginu í kringum okkur. Þar sem við fórum frá þessari yfirgengilegu kröfu um velmegun yfir í þessa yfirdrifnu kröfu um réttlæti. Þetta var algerlega nýr kúrs. Þetta er fólk sem hefur annars vegar atvinnu sína af því að búa til þennan tíðaranda, búa til orðin sem skapa heiminn, og hins vegar að krítísera orðin sem skapa heiminn og hugsa um þau og halda einhverjar reiður á þeim. Það var búið að kippa undan þeim fótunum. Það er örugglega ekki mörg haust sem jafn margar bækur voru lagðar í salt, verk sem voru lögð til hliðar út af því menn þurftu að fara að díla við núið.“

Talandi um samtímann þá eru eftirfarandi orð Björns Þór Vilhjálmssonar, gagnrýnanda TMM, aftan á Illsku: „ … með þessari skáldsögu eygjum við útlínur þess uppgjörs sem skáldskapurinn er fær um að veita í stríðinu við samtímann.“ Þarna er Björn að tala um Gæsku, næstu skáldsögu á undan. Er Illska þá uppgjörið?

„Já, þetta er lokaorustan í stríðinu um samtímann,“ segir Eiríkur og glottir í gegnum símann. „Ég hef náttúrulega sjálfur breyst ótrúlega mikið í gegnum það ferli að skrifa þessa bók, þannig að hún er í einhverjum skilningi uppgjör við sjálfan mig, en því uppgjöri er aldrei lokið, maðurinn hefur náttúrulega aldrei fundið sjálfan sig, en leitin heldur áfram.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson

Birtist upphaflega á Smugunni í nóvember 2012.