„Við hugsum um óendanleika stjarnanna en skeytum engu um óendanleikann sem er fólginn í feðrum okkar.“ Ég man alltaf að ég hugsaði með mér að það væri heil bók í þessum orðum Milans Kundera úr Bókinni um hlátur og gleymsku. En mig grunaði ekki að þar gæti verið vísir að heilli bókmenntagrein.
Þessi setning á vissulega ekkert síður við um mæður okkar, og hún átti ágætlega við um Farandskugga, bókina sem Úlfar Þormóðsson skrifaði um móður sína fyrir ári síðan. Móðurina sem dó á meðan bókin var í prentsmiðjunni. En hún á kannski enn betur við Boxarann, bókina um föður Úlfars sem kom út núna í haust. Það er tæpur aldarfjórðungur síðan hann yfirgaf þennan heim og þar liggur að einhverju leyti munurinn á bókunum, við þá fyrri blandast lokaorustan við að spyrja þeirra spurninga sem sonurinn hefði máski átt að spyrja fyrir löngu, en í tilfelli föðursins koma allar spurningar of seint. Sú fyrri er öllu ljóðrænni og persónulegri, í Boxaranum reynir hins vegar Úlfar að rissa upp mynd úr fölnuðum minningum og fátæklegum heimildum, og við það gengur hann enn lengur í þeirri frásagnaraðferð ávarpsins, annarar persónu eintölu, sem hann notaði að einhverju leyti í Farandskuggum. Aðalpersónan í Boxaranum er þú, og þessi þú er löngu dáinn faðir.
„Ég er að tala við myndir, hugarmyndir. Þannig að mér fannst ég komast nær myndunum og jafnvel inní þær með þessari aðferð,“ segir Úlfar mér í stofunni á Skólavörðustígnum. Hann er oft stuttorður í svörum, glottir jafnvel og tekur fram að ég fái ekki lengra svar. En hvernig var að rifja upp látinn föður? „Það var gagnlegt og ekki alveg átakalaust. En býsna ánægjulegt.“
Ættartré án nafna
En hvað eru minningar og hvað eru heimildir? „Þegar mig rak í vörðurnar hafði ég samband við fólk, sló upp í Íslendingabók og í gömlum fréttum. Fann gamlar greinar sem kallinn skrifaði þegar hann var kominn á efri ár. Svo hafði ég samband við hans fólk til að ná áttum. En þetta er þó að uppistöðu til mínar minningar og mínar myndir af honum.“
En þó ekki bara honum. Fjölskylda karls föður hans kemur heilmikið við sögu og þar á meðal bræður hans tveir. Og þótt faðir Úlfars hafi stundað reglulegt framhjáhald þá virðist hann þó hafa verið bræðranna bestur sem eiginmaður, því hann einn barði þó aldrei konur. Hikaði hann aldrei við að segja þær sögur? Ættingjar annars bróðursins staðfesta allir söguna, með hinn er enginn lengur til frásagnar. „Og þar sem enginn var til frásagnar ber ég fyrir mig þjóðsögunni, sem ekki er hægt að kveða niður. Sumar þjóðsögur eru þess eðlis að maður fær aldrei botninn í þær, þær halda áfram að vera til. Það er dálítið af sögum sem ekki er hægt að negla niður og festa, það er það sem ég leyfi mér að kalla þjóðsögur, því þær eru sagðar ennþá og sumar hverjar af miklu fleirum en bara mínu fólki.“
Fæstir þessir ættingjar Úlfars eru nokkru sinni nafngreindir í bókunum. Það er talað um systurnar og bræðurna og svo framvegis, og úr þessu verður til ættartré nafnlausrar fjölskyldu. „Það er bæði af tillitssemi við þá sem koma við sögu og aðra ættingja – og svo erum við líka svo mikil forvitnis- og rannsóknarþjóð að þeir sem vilja vita eitthvað um nöfnin verða bara að hafa fyrir því að fylla upp í ættartréð,“ segir Úlfar með stríðnisglotti.
Boxið og sjálfskoðunarkynslóðirnar
Faðirinn sinnti ýmsum störfum um ævina, en hvers vegna valdi Úlfar Boxarann sem titilpersónu lífs hans? „Það er til orðatiltæki um að taka á hlutunum með silkihönskum. En þegar ég horfi á líf karls föður míns þá er eins og hann hafi tekið á mörgum hlutum með boxhönskum. Auk þess sem hann lærði og stundaði box og ákveðnar stórar væntingar í lífi hans eiga sér stað á þessu boxaratímabili og þar verða ákveðin hvörf. Auk þess set ég fram þá hugmynd um að box losi mann undan ofbeldi, veiti manni ákveðna útrás. Þetta er uppástunga frekar en nokkuð annað,“ segir hann og vísar þar í að hann hafi einn bræðranna ekki tekið boxhanskana með sér heim.
„Með fullan munninn af ósögðum orðum.“ Þessi yrðing Farandskugga á ágætlega við flestar ef ekki allar persónur bókanna tveggja. „Sum orðin komast út, önnur ekki, þau sitja föst. Stöku sinnum hrökkva út orð sem eru ekki í beinu samhengi og maður þarf dálítið að ráða í,“ segir Úlfar. Og eru báðir foreldrarnir ekki gjarnir á að segja minna? „Sérstaklega móðir mín. Kallinn faðir minn fór dálítið aðra leið, hann talaði sig frá hlutum. En þau voru bæði með munninn fullan af orðum, án þess að hleypa þeim á skeið.“
En komst hann að einhverju nýju um foreldra sína í gegnum skrifin? „Ég á miklu auðveldara með að skilja þau og atferli þeirra, og að átta mig á lífshlaupi þeirra. Frumhvötin að því að skrifa svona bætur er þessi sjálfsleit sem maður kemst ekki undan.“ En á köflum eru persónurnar bókarinnar þó svo sannarlega að forðast sjálfsleitina. „Já, það er einkenni margra genginna kynslóða að þær ræða ekki það sem kemur mjög nærri þeim sjálfum. Ég hugsa að sjálfsskoðunarkynslóðir séu ansi nýlegar.“
Ég minnist glottandi á sjálfhverfu kynslóðina Sighvats. „Já, en þetta er kannski leið til að losna undan sjálfhverfunni, að líta pínulítið á sjálfan sig án þess að vera á flótta undan sjálfum sér. En foreldrar mínir eru náttúrulega aldeilis örlagavaldar í mínu lífi og ef ég ætla að átta mig á því þarf ég að vita hvernig þetta líf gekk fyrir sig fram að mér.“
En talandi um sjálfið, það er ekki óalgengt að aðalpersóna stórra skáldsagna fæðist ekki fyrr en eftir nokkur hundrað síður – getur verið að þriðja bókin verði saga Úlfars sjálfs? „Ég hef bara ekki hugmynd um það. Er ég ekki kominn nógu andskoti mikið í gegn?“ segir hann og ég get tekið undir að vissulega sé hann ansi áberandi skuggi í bókunum.
Bækurnar eru á köflum ekki síður heimild um veröld sem var en foreldra sem voru. „Það er ekkert langur tími síðan við stukkum út úr miðöldunum. Ég sem er svona bráðungur maður var tvö sumur í sveit á rafmagnslausum burstabæjum og það var ekki kominn sími eða rafmagn í öll hús í Skagafirðinum þegar ég var að alast upp,“ segir Úlfar og rifjar upp þegar þau fluttu í nýtt hús á Hofsósi um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. „Það var olíukynding og kolavél, eða koxvél. Ég held að við höfum ekki verið með síma þarna, það er ekki lengra síðan.“
Framhaldslífið
Úlfar er dæmdur guðlastari, einn núlifandi Íslendinga, og næsta bók hans á undan þessum tveimur var uppgjör við sjálfa Biblíuna. En í þriðja kafla Boxarans ræðir hann handanlífið við föður sinn:
„Ef eitthvert framhaldslíf er eftir jarðvistina, ef þaðan er hægt að horfa á og hlusta eftir því sem hér gerist, gæti ég alveg trúað þér til að þess að beina sjónum hingað upp eða niður og leggja við hlustir. Þá hneggjarðu líklega inn í þig þegar þú heyrir að ég ávarpa þig eins og þú sitjir heima hjá mér því að þú vissir það áður en þú lést að ég hef enga trú á handanlífi. Hitt má vera ljóst að þú ert innra með mér. Það eru myndirnar af þér. Ég er að tala við þær.
Sé málum hins vegar svo háttað að ég hafi rangt fyrir mér um framhaldið skaltu hiklaust láta það eftir þér að hneggja. Ég glotti þá bara. Það hæfir afsprenginu.“
Ég spyr Úlfar hvort þessar bækur séu mögulega útgáfa trúleysingja á handanlífinu. „Ég veit það nú ekki. Þetta er nú bara mín yfirlýsing. Lengi vel hafði ég þá skoðun að það væri heppilegt að þegar maður hættir að draga andann þá væri mjög æskilegt að hver og einn fengi að deyja til þess sem hann langaði til. Hann var ekki mikill trúmaður en hann hafði samt einhverjar væntingar um framhald, og þótt ég hafi það ekki þá vona ég að hans draumar um það hafi ræst.“
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Birtist upphaflega á Smugunni í nóvember 2012.