KristínEiríksdóttir„Þetta er svona mitt Texas, það er fundið í sjónvarpsþáttum. Mér fannst það hæfa persónunni ofboðslega vel að skrifa kaflana um hennar líf í útlöndum um stað sem ég hef ekki komið á sjálf. Það er mikilvægt, því hún er sögumaðurinn og það eru ákveðnar gloppur í hennar frásögn, sem er óumflýjanlegt hjá lygara. Auk þess er hún að varpa fram myndum úr lífi og þetta líf er eitthvað sem er alveg eins hægt að sjá í sjónvarpi, það er jafn raunverulegt og Sopranos og Desperate Houswives,“ segir Kristín Eiríksdóttir mér á Bárugötunni, óravegu frá smábænum Live Oak í Texas. En þar hefst Hvítfeld – fjölskyldusaga, þar sem aðalpersónan Jenna Hvítfeld liggur í bakgarðinum í skugga eikartrés.

„Það er búið að troða Bandaríkjunum svo mikið upp á mína kynslóð að þegar ég kom þangað þá leið mér eins og ég hefði verið þar, í annarri vídd, alla ævi. Allt var kunnuglegt, það var ekkert sem kom á óvart. Og það er menningarlega áhugavert að maður sé með einhvern einn kúltúr þetta mikið í sálinni án þess að hafa lifað þar,“ segir Kristín og ég rifja upp á móti að eitt hafi þó komið mér á óvart, hversu ólík Bandaríkin eru innbyrðis. „Já, þetta eru ofboðslega margir kúltúrar. Þótt ég hafi komið til New York segir það nákvæmlega ekkert um Texas. Ég hef bara séð Texas í sjónvarpinu.“

Að drepa ísbjörn

Þótt bókin byrji í Texas færist hún  fljótlega til  Íslands, þótt Texas sé alltaf nærri og reglulega heimsótt. Ættarnafnið Hvítfeld má rekja aftur til forföður sem er sagður hafa drepið ísbjörn með berum höndum og þessi gamla grobbsaga umbreytist í erfðalygina sem markar þessa fjölskyldu alla tíð. Og þetta minnir óneitanlega á lygina um Ísland, erfðalygi heillar þjóðar sem sækir sjálfsmynd sína til mörghundruð ára gamalla hetjusagna.

„Ég plotta aldrei bækur fyrirfram, ég byrja bara að skrifa og sé hvert hugurinn fer með mig. En það varð fljótlega ljóst að ég var að fjalla um heiðarleika og óheiðarleika í fjölskyldu, og það sem ég legg áherslu á í sögum allra í fjölskyldunni var óheiðarleikinn. Ólíkar birtingarmyndir óheiðarleika og hvernig hún verpist kynslóða á milli. Það sem er erfitt með heiðarleikann er að það er hægt að telja sig ofboðslega heiðarlegan og vera það alls ekki. Það er líka hægt að vera í svo mikilli afneitun án þess að gera sér grein fyrir því. Eins er líka hægt að vera heiðarlegur lygari. Það er talað um að fólk sem lýgur ósjálfrátt sé alltaf á einhverju leveli meðvitað um að það er að ljúga, en þetta er samt kompúlsívt, fólk ræður ekki við sig. Á meðan er fullt af fólki sem álítur sig mjög heiðarlegar manneskjur en er það alls ekki.“

Lygin gengur í erfðir þótt hún umbreytist, sem kom svo  í ljós að er vísindalega sannað. „Það sem mér finnst svo spennandi í fjölskyldusögunni er að skoða orsök og afleiðingu, áhrifin sem fólk hefur hvort á annað í svona fjölskyldumynstrum. Eitthvað sem er ekki sagt og er ekki meðvitað hjá einni kynslóð getur brotist fram hjá þeirri næstu eða þarnæstu. Þegar ég var byrjuð á sögunni heyrði ég svo af nýjum rannsóknum á erfðum og þar kemur í ljós að áföll erfast – eða öllu heldur: viðbrögðin við áföllum erfast. Það er hægt að rekja það aftur til ömmu og afa, eitthvað sem kom fyrir ömmu mína hefur áhrif á mig. Þetta kemur fram í einhverri vísindalegri rannsókn en það meikar ótrúlega mikinn sens fyrir mér að við séum í svona mynstri. Og í þessari fjölskyldu er ég að skoða mynstur óheiðarleikans. Sögumaðurinn er lygari og systir hennar er þjófur, sem eru tvær birtingarmyndir óheiðarleika. En síðan þarf maður að rýna dálítið í bakgrunn þeirra til að skilja af hverju þær eru eins og þær eru.“

ImageErfiðleikar þessarar fjölskyldu eru margþættir, en margar hafa þurft að glíma við geðveiki, fíkn eða misnotkun – en Jenna virðist þó við fyrstu sýn sleppa við allt þetta, hennar viðbrögð eru að búa til af sér sögur, sem geta bæði náð hæstu hæðum og lægstu lægðum. Hún lýgur jafn glamúrnum sem ömurðinni. „Maður í sjálfu sér ekki hvað er satt með hana. Hennar viðbrögð eru að búa stöðugt til ímyndina af sjálfri sér, vegna þess að hún hefur enga sjálfsmynd. Það er eitthvað sem ég get líka notað til að lýsa íslensku samfélagi. Hún er líka ofboðslega mikill narsissisti, sem er náttúrulega gegndarlaus óhamingja. Hún er alltaf að búa til auglýsingu af sjálfri sér, en það er ekkert til að auglýsa. Sem er ekkert endilega rétt, það er bara hennar sjálfsmyndarskortur, hennar upplifun af sjálfri sér.“

En allt er þetta lygi sem Kristín skáldar. „Þegar maður sest niður og ákveður að skrifa skáldsögu um lygar og óáreiðanleika, þá er meðvitund höfundarins um það stöðug: hver er stigsmunurinn á milli þess að skálda og ljúga? Það var eitt af því sem mér fannst skemmtilegt við að skrifa þessa bók, fáránleikinn við það að sitja og skálda upp lygar fyrir aðra manneskju. Og mér finnst Jenna oft segja satt, mér finnst hún vera mjög heiðarleg – alveg eins og skáldskapur getur verið mjög sannur og heiðarlegur. Ég var líka bara áhugasöm um þetta með lygina, út af því það eru ákveðnir eiginlegar sem maður verður að hafa ef maður ætlar að skrifa skáldsögu sem eru ekkert ólíkir eiginleikum lygaranna. Ég hugsa stundum með mér að ég hafi verið heppinn að finna þessum eiginleika farveg. Þetta eitthvað sem byrjar þegar maður er barn og er alltaf að búa til einhverja ímyndaða heima, það gæti kannski alveg eins farið að lýsa sér þannig að maður sé ekki almennilega í tengslum við raunveruleikann. Og hefur þetta margfalda sjálf og enga sjálfsmynd og allt er í lausu lofti. En svo getur maður líka sest niður og farið að skrifa um fullt af persónum sem eru alls konar. Og þá er það bara viðurkennt af samfélaginu, rétt eins og ákveðnar lygar eru viðurkenndar í samfélaginu. Það er stigsmunur á því, allar persónurnar eru óheiðarlegar en óheiðarleiki sumra er í lagi, jafnvel eðlilegur. Það er eðlilegt að segjast alltaf líða vel þótt manni líði illa og eðlilegt að fara ekki til sálfræðings þótt maður hafi augljóslega þörf fyrir það. Eða eðlilegt að djúsa í einhverju bakherbergi og mæta svo í vinnna og standa sína pligt, vera fúnkerandi einstaklingur í samfélaginu en gera allt vitlaust heima hjá sér. En út af því enginn sér það er það allt í lagi.“

Britney og Gregory

Þegar á bókina líður fer Jenna að samsama sig meira og meira við ákveðna poppstjörnu. „Mér fannst þetta ríma vel við allar þessar ímyndir sem hún varpar fram. Britney er jafngömul mér og hluti af þessum kúltúr sem maður er stöðugt með, það er ótrúlegt hvað ég hef fylgst vel með henni án þess að leggja mig neitt fram við það. Sömuleiðis Jenna, nema hún hefur áhuga, hún leggur sig fram við það að fylgjast með henni,“ segir Kristín en gengst þó við að hafa stúderað Britney aukalega fyrir bókina. „Í Jennu tilfelli er hún líka ákveðin kvenfyrirmynd, hún er kvenfyrirmynd minnar kynslóðar og mjög áhugaverð í sjálfri sér. Ég las helling um Britney þegar ég var að skrifa þessa bók og mér finnst ævisaga hennar mjög áhugaverð. Sakleysið til að byrja með og svo salan á henni, hvernig hún er gerð út eins og vændiskona í þessum kúltúr. Og svo uppreisnin hennar. Núna er hún komin aftur á báðar fæturna og maður er alltaf að fylgjast með henni án þess að ætla það og mér fannst það eiga heima í bókinni. Ég held að Jenna hafi pínulítið minnt mig á hana, ég held ég hafi dálítið séð fyrir mér Britney.“

Poppkúltúrinn hafði ekki síður áhrif á fyrri kynslóðir fjölskyldunnar. „Hulda [móðir Jennu] er í huglægri þráhyggju og lifir í einhverjum rómantískum fantasíuheimi þar sem grískukennarinn hennar er Gregory Peck og það er ekkert ósvipað Jennu. En þetta er retro skot hjá henni, hún er fædd 1960 og er tvítug þarna.“ Þannig að þetta hefði átt að vera Burt Reynolds? „Eða Tom Selleck. En það var mjög gaman að skrifa um þetta tímabil á Íslandi. Þessi hluti gerist frá 1979 til 1982. Þetta er svo skrítið tímabil á Íslandi í tísku. Ég fór að skoða fjölskyldumyndir frá minni fjölskyldu á þessum tíma og þá eru allir í hippafötum, en síðan skyldist mér að það væri bara út af því fólkið sem kom í boð heim til minna foreldra var bara ekki í tísku. Þannig að ég fór að skoða þetta, pönkið var aðeins að koma, það var einn og einn í glænýjum svörtum leðurjakka, eins og til dæmis Einar Már. En síðan er ég líka að skrifa um bókmenntafræðideildina í HÍ og þar eru strákarnir auðvitað í brúnum flauelsjökkum. En þeir eru kannski ennþá allir í brúnum flauelsjökkum … En þetta var samt frekar brúnn tími, þarna þegar við Britney fæddumst.“

Glott að mennskunni

„Ef maður vill ekki upplifa sársauka er eins gott að aftengja sig öllu í umhverfinu. Sjá það eins og sketsa í sjónvarpi. […] Sitja lengst upp í stúku, borða poppkorn og glotta að mennskunni.“ (276)

Þessi orð persónugera í mörgu afstöðu Jennu til lífsins. En er bókin einhvers konar uppgjör við kaldhæðnina? „Það er einhver þráður í henni sem er það. Kaldhæðnina sem vörn. Ég er svo mikið að díla við afleiðingar og varnarmekanisma. Eins og afneitun er. Afneitun er ekkert nema sjálfsbjargarviðleitni og stundum er hún lífsnauðsynleg, mér finnst kaldhæðni stundum vera það líka, kaldhæðni er leið til að vera ekki berskjaldaður í lífinu.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Birtist upphaflega á Smugunni í nóvember 2012.