Ég fékk mér göngutúr um æskuslóðir mínar á Akureyri fyrir skemmstu. Bærinn hefur vitaskuld breyst heilmikið á þessum sextán árum síðan ég flutti í burtu. Eitt sló mig þó sérstaklega: nú eru komnar girðingar í kringum bæði túnin sem ég stytti mér mörgþúsund sinnum leið yfir á leið minni í og úr skólanum. Annað túnið hafði þess utan verið bútað í sundur fyrir vanhugsaða akrein og skyndilega mætti mér rautt ljós í kvöldrökkrinu, þótt þarna væru bara ég og einn köttur.
En auðvitað voru líka einhverjar girðingar í bænum þegar ég var lítill. Við klifruðum endalaust yfir Lundaselsgirðinguna til að fara í eina krónu og KA-girðinguna til að fara í fótbolta. En sumar hindranir virtust þó nánast óyfirstíganlegar í þessum bernskubæ mínum á síðustu öld. Ein þeirra var sá draumur bíósjúks unglingsstráks að horfa á bíómyndir sem féllu utan þess þrönga mengis nýlegra og vinsælla Hollywood-mynda sem bíóstjórum og vídjóleigueigendum bæjarins þóknaðist að bjóða upp á. Ég las upp til agna bækur um klassískar bíómyndir – sem voru flestar algerlega ófáanlegar, lágmark 400 kílómetrar í nógu góða vídjóleigu og áratugir síðan þær voru í bíó. Þá var ekkert internet til að hlaða myndum niður, ekki einu sinni Amazon til þess að panta þær á. Einu sinni datt mér að vísu í hug að fá bróður minn í Ameríku til þess að senda mér ákveðna vídjóspólu í jólagjöf – en þá þurfti ég svo að borga formúu til þess að færa myndina yfir af bandarískri vídjóspólu yfir á íslenska svo vídjótæki fjölskyldunnar gæti spilað myndina. Og vitaskuld hugsaði maður hvaða blábjánar ákváðu að það væri hættulegt að amerískar vídjóspólur yrðu spilaðar í evrópskum tækjum.
Nú er aðgengið vissulega miklu auðveldara – en sömuleiðis allt gert til þess að byggja fleiri girðingar til þess að hindra þetta aðgengi. Amazon-kaup kalla á rándýran toll og Netflix og iTunes eru (tæknilega) ekki til á Íslandi. Vídjóleigan er hins vegar nánast útdauð (mér heyrist að það sé eitt örlítið horn eftir í einni sjoppu á Akureyri núorðið) og ef ég byggi ennþá á Akureyri væru fáir kostir eftir aðrir en að downloada – og það eru ótrúlega fáir staðir sem bjóða upp á að gera það löglega.
Lakkrísverksmiðjan
En það hlýtur að vera einhver rökrétt ástæða fyrir að þetta sé svona, ekki satt? Tja, einn uppáhaldsrithöfundur unglingsáranna útskýrir þetta svona í nýlegri blaðagrein:
„Þess háttar ránskap sem kenndur er við sjórán hefur af talsmönnum hans verið lýst sem „þjónustuvanda“ og reynt að láta líta svo út sem stórfelldur þjófnaður á mynd Baltasars, Djúpið, sé fyrst og fremst því að kenna að dreifingarfyrirtæki hans hafi ekki staðið sig í stykkinu við að gera myndina aðgengilega á netinu. Það má vera að eitthvað sé hæft í því og kannski er undarlegt að ekki sé til síða þar sem hægt er að gerast áskrifandi að íslenskum bíómyndum, en þetta eru líka falsrök og í raun réttlæting á þeirri iðju að stela því sem manni ber ekki.
Segjum sem svo að ég búi til afar eftirsóknarverðan lakkrís en sé latur við að koma honum á markað. Einhver neytandi er svo hrifinn af þessum lakkrís að honum finnst eins og hann sé jafnvel á sínum vegum og getur ekki á sér heilum tekið nema fá hann. En þegar hann kemur að tómum hillum stórmarkaðanna er ekki þar með sagt að hann geti bara vaðið inn á lager til mín og sótt sér lakkrís, jafnvel þótt ég geti kannski ekki komið í veg fyrir það og hafi ákaflega sérviskulegar og forneskjulegar hugmyndir um það hvernig lakkrísinn skuli markaðssettur. Þetta er minn varningur, ég bjó hann til, ég stjórna því hvernig hann er á boðstólum.“
Það er ýmislegt sem ég sé að þessari lakkrís-líkingu Guðmundar Andra. Lakkrísgerðarmaðurinn er til dæmis sjaldnast sá sami og dreifir. Þeir listamenn sem dreifa sjálfir eru venjulega ungir grasrótarlistamenn og veikleikar þess dreifikerfis snýst sjaldnast um leti og forneskju, heldur miklu frekar um almenn blankheit: þeir hafa ekki efni á að prenta öll þau eintök sem þeir vildu helst prenta eða þá að auglýsa vöruna svo gervöll heimsbyggðin viti af henni. Fæstir þeirra hafa nokkurn áhuga á að loka vöruna inní geymslu.
Þá er ekki verið að ræða um eina litla lakkrísverksmiðju heldur heilt kerfi menningarframleiðslu sem fyrst og fremst vill viðhalda sjálfu sér. Þar breytir oft furðu litlu að ófáir innan kerfisins vilji fyrst og fremst búa til list og njóta listar. Fyrir utan það að við höfum í sameiningu nú þegar borgað 75 milljónir í lakkrísnum hans Baltasars í gegnum kvikmyndasjóð. Það þýðir ekki að lakkrísinn eigi að vera ókeypis, en það gefur okkur hins vegar rétt til þess að krefjast þess að hann sé á boðstólnum fyrst hann er á annað borð til og ótvíræð eftirspurn eftir honum.
Síðan sem Guðmundi Andra finnst einkennilegt að sé ekki til er líka til, hún heitir http://icelandiccinemaonline.com/ og þótt ekki sé um beina áskrift að ræða þá er hægt að kaupa fjöldann allan af íslenskum myndum þar – og sjá sumar ókeypis, löglega.
Og jafnvel þótt DVD-diskurinn af Djúpinu komi alveg örugglega á endanum þá leysir það ekki allt. Í fyrsta lagi verðið: það kostar venjulega um tvöfalt meira að kaupa nýjan dvd-disk heldur en að kaupa bíómiða – í gamla daga var nærri helmingi ódýrara að leigja spólu en að fara í bíó. Og er það ennþá, ef svo ólíklega vill til að það sé ennþá vídjóleiga í næsta nágrenni. Þessi upphæð er vissulega alveg sanngjörn ef þú vilt horfa aftur og aftur á Djúpið, en ef þú ætlar bara að horfa einu sinni (eins og raunin er með langflestar myndir) þá er þetta alltof dýrt.
En það sem verra er að ólíkt nýjustu mynd Baltasars er Djúpið lítil íslensk bíómynd sem á alveg örugglega ekki eftir að fara í Hollywood-dreifingu þótt mögulega villist hún í stöku metnaðarfullar dvd-búðir utan landssteinanna. Ungan bíónörd sem býr í útlenskum smábæ á borð við Akureyri langar kannski mikið til að sjá Djúpið – en það er ómögulegt að sjá hana í litla smábænum, hann verður að láta sér nægja 2 Guns þegar hún kemur loksins í staðarbíóið. Nema auðvitað Djúpið sé á internetinu, það er nefnilega komið í flestalla smábæi hins vestræna heims.
Nýjasta tækni
En þrátt fyrir allt þetta þras grunar mig að við Guðmundur Andri séum í raun sammála um aðalatriðin. Aðalatriðið er að listamenn fái borguð sanngjörn laun fyrir sína vinnu rétt eins og aðrir og að almenningur hafi sem best aðgengi að list á sanngjörnum kjörum. Nákvæmlega sama lögmál gildir um lakkrísgerðamenn og nammigrísina sem versla við þá. En vandamálið er hins vegar bölvuð tæknin. Ný tækni er venjulega hönnuð með það í huga að annað hvort gera okkur eitthvað kleyft sem okkur var áður ómögulegt að gera – eða gera okkur eitthvað auðvelt sem áður var erfitt og jafnvel nánast ómögulegt.
Það er hins vegar þriðja lögmál tækninnar sem býr endalaust til ný vandamál: það vilja allir græða á henni. Sem gæti gengið ágætlega ef við myndum vinna sameiginlega að því markmiði. En vandamálið er að flestir vilja græða mest, eins mikið og mögulegt er. Apple, Microsoft og hin tækjafyrirtækin vilja græða sem mest á græjunum sem við notum til að horfa á Djúpið, kvikmyndafyrirtækin vilja fá sem mestan pening fyrir hvern einasta dvd-disk og áhorfendur vilja geta horft á sem mest fyrir sem minnstan pening (meðal annars af því þeir eru svo blankir eftir að hafa eytt einum eða tveimur hundraðþúsundköllum í nýjustu tölvuna).
Þetta er klípa, svo sannarlega. Ég held við viljum flest leysa hana – en því miður er viðbragðið alltof oft að reisa bara nýja girðingu. Sem fólk klifrar svo einfaldlega yfir. Einhverjir munu alltaf klifra yfir girðinguna, en ég held að ansi stór meirihluti sé alveg til í að kaupa bara lykil á sanngjörnu verði. Eða einfaldlega borga sanngjarnt verð til að losna við helvítis girðinguna.
Það eru til lausnir á þessum vanda, sumar eru þegar komnar á netið og aðrar hafa verið viðraðar þótt þær hafi ekki verið prófaðar. Sjálfsagt eru þær fæstar fullkomnar, ekki frekar en núverandi kerfi, en við þurfum að ræða kosti og galla mismunandi lausna án þess að þjófkenna fólk.
Ég man raunar eftir einni slíkri á Akureyri bernskunnar. Sú lausn hét bókasafn. Hún hjálpaði sáralítið þegar kom að bíómyndum (framan af æskuárum mínum voru fáar eða engar vídjóspólur á Amtsbókasafninu) en Amtsbókasafnið var nógu vandað bókasafn til þess að ég lenti miklu sjaldnar í því að bókin sem mig dreymdi um að lesa væri ekki til í landsfjórðungnum heldur en að bíómyndin finndist ekki. Að því sögðu var bernskuheimilið líka stútfullt af bókum, bækur seldust áfram þótt fólk fengi þær líka lánaðar hægri vinstri. Það sama hefur verið raunin með bíómyndir á netinu hingað til.
Eitt annað sem hefur ekki breyst er það að þótt bækur fylli bæði heimili og bókasöfn þá mega flestir rithöfundar sætta sig við það að rétt skrimta, að minnsta kosti fyrsta áratuginn eða svo af rithöfundaferlinum, ef ekki lengur. Það er raunveruleikinn sem ég væri til í að breyta. Það mætti gera með öflugri listamannalaunum. Það mætti gera með því að auka fjárframlög til bókasafna og láta þau borga alvöru pening fyrir útlán. En ekki síst mætti gera það með því að notfæra sér þá möguleika sem ný tækni bíður upp á til þess að koma listinni til fólksins og tryggja um leið sem allra best að þeir sem bjuggu listina til fái sem mest í sinn hlut. Það verður alls ekki auðvelt verkefni – en til þess að það takist þá þarf fyrst og fremst mikið og gott samstarf á milli listamannana og fólksins sem nýtur listarinnar. En það samstarf verður seint vel heppnað ef allur peningurinn fer í að reisa fleiri girðingar.
Ásgeir H Ingólfsson
Góðar hugmyndir!
Ég skil þig vel og ég er sammála því að koma þessu bara öllu á netið og ruka fólk bara óbeint með styrkjum, DL teljurum og kannski stef nefskatti á nettenginar og fleirra.
En Deildu.net er ekkert að gera þetta, Píratar virðast ekkert vera að vinna í þessu og almenningi er sléttsama um þessi mál á meðan þeir geta bara DL-að frítt.
Svo þegar að einhver reynir að stoppa þá frá DL-i þá byrja lætin og þessa hugmyndir koma á loft sem að engin ætlar að fylgja eftir.
Væri ekki meiri hvati í samfélaginu til að koma þessu kerfi á ef að það væri bara nóg af girðingum, lagahótunum og leiðinlegheitum frekar en að hvað?…
Bíða eftir að fólk verði þreitt á því að “stela” og ákveður fara að koma á kerfi svo að það fái að borga!?
Ég er í sjálfu sér ekkert sérstaklega að verja deildu.net – og satt best að segja grunar mig að flestir notendur þess bölvi því að þeir hafi verið að taka íslenskt efni inn – einfaldlega út af því þetta var síða sem fékk að vera í friði – og núna verða örugglega margir ragir við að nota hana.
En pælum aðeins í þeirri meingölluðu auglýsingu “you wouldn’t steal a car …”. Prófum aðeins að setja okkur í þau spor þar sem við áttum okkur á að við gætum mjög auðveldlega stolið einhverju. Og þótt samviska fæstra sé tandurhrein í þeim efnum þá stöndumst við þessa freistingu þó langoftast. Ástæðan er hugsa ég einhvers konar blanda af heiðarleika, vanafestu og áhættufælni.
Þegar kemur að heiðarleikanum þá blandast hann saman við einhverja sanngirniskröfu – það er miklu meira freistandi að stela einhverju sem er okrað svívirðalega á, flest okkar gætu örugglega réttlætt það með sjálfum okkur.
En aðallega viljum við lágmarka vesen – og því tökum við varla áhættu í stuldi okkar nema mikið liggi við (sem er sjaldnast). En svo kemur fyrir að það er einfaldlega miklu erfiðara að borga en að stela, einhvern tímann stal ég til dæmis bjór á skemmtistað af þeirri einföldu ástæðu að barþjónninn steingleymdi mér eftir að hann rétti mér barinn og ég fékk nóg af því að bíða eftir að honum þóknaðist að koma aftur mín megin barsins. Ég var meira en tilbúinn til að borga, ég var hins vegar ekki tilbúinn til þess að eyða öllu kvöldinu í að standa þarna.
Og vandamálið er að oftast þurfa neitendur að standa og bíða – bíða eftir að netflix og iTunes komi til landsins, bíða eftir að íslenskar bækur fari á amazon og svo framvegis og svo framvegis. Það er vel að merkja ekki endilega íslensku framleiðendunum að kenna, þeir vilja veit ég margir komast að þarna – en þetta er engu að síður staðan – og á meðan gefst kúnninn upp á að standa við afgreiðsluborðið og bíða.
Samt er biðtíminn mögulega nauðsynlegur – þetta er jú nýr og síbreytilegur veruleiki og við þurfum einfaldlega að átta okkur á hvað virkar – en eitt er þó á hreinu: nákvæmlega sömu lögmál og virkuðu í gamla kerfinu eiga aldrei eftir að virka nákvæmlega eins í því nýja, þótt sumt verði áfram líkt. Þannig mun nýja kerfið aldrei virka eins og viljum ef við reynum alltaf að þröngva lögmálum gamla kerfisins uppá það.