Við festumst eilíflega í umræðum um aukaatriði. Til dæmis; öll stefna Pírata í höfundaréttarmálum er nú rædd út  frá ranti frá Einari Kárasyni um deilingarsíðu sem kemur Pírötum ekkert við.

Margir  Píratar hafa svarað Einari – en málið er að það er verið að spyrja vitlausra spurninga. Gamla kerfið virkar ekki á internetinu (það virkar að einhverju leyti utan þess, fólk er enn að kaupa bækur og fara í bíó og tónleika og leikhús), það ætti að vera öllum ljóst, hvort sem mönnum finnst það sanngjarnt eða ósanngjarnt. Sem stendur erum við oftast að vinna eftir reglum úr fornöldinni frá því fyrir internet – eða í besta falli reglum sem eru byggðar á þeim.

Eftir stendur hins vegar að sumum listamönnum finnst að verið sé að taka bjargir af þeim – og þar eru Píratar auðvelt skotmark. En hvorugur virðist hlusta á hinn – það er verið að rífast út frá gömlum og nýjum prinsippum um höfundarrétt, en iðullega skautað fram hjá lykilsspurningunni; hvernig er hægt að tryggja það að fólk fái eðlilega greitt fyrir sín hugverk? Sú spurning brennur á listamönnum, blaðamönnum og mörgum fleirum en kafnar iðullega í annað hvort útópíu hins frjálsa internets eða guðspjalli löngu úreltra höfundarlaga.

Það má alveg hafa í huga að þessi hugverk eru að skapa stórfé – allur peningurinn sem fer í tölvukaup, snjallsímakaup og lesbrettakaup, allur peningurinn sem Google, Facebook og Twitter græða, hann er tilkominn að stórum hluta vegna hugverka – þótt peningarnir sem fara í vasa höfunda þeirra séu aðeins smáaurar samanborið við billjónirnar sem tölvufyrirtækin og netfyrirtækin eru að græða.

Spurning ætti því einfaldlega að vera; hvernig er hægt að leiðrétta þetta fjárstreymi einhvern veginn, gera það sanngjarnara – og þetta er spurningin sem listamenn ættu að krefja Pírata svara við – og aðra flokka líka, vissulega.

 

E.S.:

Hér eru vel að merkja tvær hugmyndir þessu tengdar sem pólitíkusum er velkomið að stela:

Launasjóður okkar allra

Girðingar