Tékkneska sveitin Flaskinet tók á móti mér á aðalgötu Karlovy Vary með þessum gamla slagara. Þeir félagar eru að slá í gegn hérna úti þar sem þeir böska á tékkneskum götum, annar með gítar og hinn með flöskur sem hann slær taktinn úr gömlum sjónvarpsseríum með. Verandi í Tékklandi ruglaði ég svo þessum ragtæm-slagara Scott Joplin við einkennislag tékknesku Klaufabárðanna sem mín kynslóð ólst upp við, enda vissulega um margt líkt.
En ég var vitaskuld á leiðinni á Hótel Thermal – bækistöðvar stærstu kvikmyndahátíðar Austur-Evrópu sem var að hefjast. Hótel Thermal er brútal hótel – og það meina ég í bókstaflegum skilningi, byggingarlistin hefur verið kölluð brútalismi og utan frá lítur byggingin ekkert sérstaklega vel út. En hins vegar gerir hún nokkuð enn mikilvægara – hún dregur að sér líf. Fyrir framan eru pylsusalar, bagettusalar og fólk að þvælast, bíða eftir stjörnunum eða láta fara vel um sig í grasinu fyrir framan. Fyrir innan eru svo ótal barir, kaffihús og veitingastaðir fyrir utan hótelherbergi – og ótal bíósalir, þar á meðal glæsilegur aðalsalurinn sem er sagður taka 1200 manns í sæti en virkar raunar stærri en svo.
Við hliðina á hótelinu er svo bíótjald þar sem ég sá mína fyrstu mynd þetta árið – breska símatryllinn Locke með Tom Hardy sem hefur fengið nánast einróma lof ytra. Líklega oflof, myndin er ágæt en varla frábær. Hún fjallar um fjölskylduföðurinn Ivan Locke og myndavélin fylgir honum allan tímann þar sem hann situr í bíl á leiðinni á sjúkrahús í annarri borg. Myndin gerist öll í þessum bíl – aðrar persónur koma aðeins við sögu í gegnum handfrjálsa símtækið sem Locke talar í nánast alla leiðina. Eftir fjórtán ára hjónaband þá er hans eina hliðarspor um það bil að fara að skila sér í barni og um leið og hann reynir til skiptis að róa æsta eiginkonu sem og verðandi barnsmóður þá hringja brjálaðir vinnufélagar í hann út af byggingarframkvæmdunum sem hann átti að vera að sjá um – en Locke hefur yfirumsjón með því að steypa grunna í rándýrum háhýsum. Þannig snýst líf hans um fólk og steinsteypu í sömu mund – en við fáum þó aldrei að sjá neitt annað en hann í bílnum. Þessi bíll verður eins konar handanheimur – þótt áreytið sé stöðugt þá nær samt engin til hans þarna, þarna gæti hann þess vegna sitið og keyrt áfram þangað til bensínið þrýtur.
Í fyrstu veit maður þó ekki almennilega hvað er á seyði og það er bæði styrkur og veikleiki myndarinnar hve hversdagsleg vandamál Locke eru. Hér eru engir glæpir og engin eiginleg lífshætta – bara frekar venjulegur maður sem upplifir alvarlega krísu í bæði einkalífi og vinnu samtímis. En líklega segja þessar fáu mínútur þegar síminn þagnar kannski mest um Locke. Þá á hann nefnilega í einræðu við látinn föður sinn. Og allar þær ákvarðanir sem hann hefur tekið – að taka ábyrgð á lausaleikskróganum og jafnvel allar tilraunir hans í lífinu til þess að vera ábyggilegur einstaklingur – virðast helgast af því að hann vill alls ekki verða eins og pabbi sinn. Eða yfir höfuð nokkur úr þeirri fjölskyldu. Fjölskyldunafn Ivans er táknrænt, Locke þýðir jú lás – en þessi meðlimur Locke-ættarinnar vill finna lykilinn af þessari fjölskyldubölvun.
Seinni myndin þetta fyrsta kvöld var svo Sixteen. Hún fjallar um Jumah, sextán ára strák í London sem sker sig nokkuð frá jafnöldrum sínum sökum áhuga síns á hárgreiðslu. Já, en þó kannski enn frekar út af því hann var áður fyrr barnahermaður í Kongó. En vandræðin elta hann uppi og eftir að hann verður óvænt vitni að því að bekkjarfélagi hans fremur morð þá lendir hann í klípu. Rétt eins og aðrir sextán ára krakkar verður hann logandi hræddur og veit ekki hvernig hann á að haga sér – en fljótlega áttum við okkur þó á því að ástæður hans fyrir að kjafta ekki frá snúast um allt annað en óttann. Þetta er fantavel leikið drama og konurnar tvær í lífi Jumah eru sérstaklega eftirminnilegar. Bæði Laura, félagsráðgjafinn sem ættleiddi hann, og Chloe, kærastan sem reynist svo sannarlega hafa bein í nefinu þegar hún áttar sig á því hversu erfiðan kærasta hún hefur valið sér. Útjaskaðar ljóðlínur Tómasar Guðmundssonar um að hjörtun slái eins í Súdan og Grímsnesinu eiga ágætlega við myndina – en kannski á nokkuð öfugum forsendum. Grimmdin er nefnilega söm við sig á báðum stöðum, að ógleymdum Kongó og London.
Bolti og bíó
Á HM sumri sem þessu renna bíómyndirnar óneitanlega oft saman við rauntímadramað á sjónvarpsskjáum næsta kaffihúss. Þannig renna örlög Ivan Locke og barnahermannsins Jumah saman við harm Kólumbíumanna í fjórðungsúrslitunum eftir blóðugt tap gegn gestgjöfum Brasilíu. En daginn eftir sá ég hins vegar fótboltamynd mitt á milli leikja – serbneska dramað Barbararnir eða Varvari. Umræddir villimenn eru fótboltabullur sem fylgja serbnesku annarar deildar liði að málum. Aðalpersónan Luka kastar pening í blökkumann í eigin liði þegar hann er að taka innkast og í staðinn fyrir að fletta ofan af honum þá ákveða stjórnendur liðsins að skikka hann til þess að keyra umræddan leikmann á æfingar það sem eftir lifir tímabils. En þótt þeim semji furðuvel, þrátt fyrir tungumálaerfiðleika, er lítið unnið með samband þeirra – á sama tíma halda Luka og Flash félagi hans áfram að verða til vandræða. Myndin hefur sannarlega á sér raunsæisblæ enda hefur leikstjórinn Ivan Ikic bakgrunn í heimildarmyndum. Ikic segir í hátíðarbæklingnum vera að fjalla um ungmenni sem alast upp í þjóðfélagi sem hefur glatað gildum sínum, þar sem spilling, siðleysi, glæpir og misnotkun grassera. En Ivan og Flash eru alltof leiðinlegar og ömurlegar fótboltabullur til þess að maður geti notið félagsskapar þeirra í einn og hálfan tíma, þótt stöku sinnum geti þeir verið fyndnir. Það má alveg færa rök fyrir því að svona séu fótboltabullur bara – að þær séu leiðinlegur og óforbetranlegur óþjóðalýður. En mig grunar að málið sé aðeins flóknara en svo og það vantar nokkuð upp á að leikstjórinn bregði upp nógu margbrotinni mynd af þeim bullunum til þess að halda athygli manns til lengdar.
Laugardagurinn reyndist raunar versti dagur hátíðarinnar. Þá sá ég nefnilega líka verstu myndina af þeim tuttugu sem ég komst á – Árátturyþma eða Cadences obstinées. Þetta er önnur mynd Fanny Ardant sem leikstýru – en hún er þekktust fyrir aðalhlutverk í myndum leikstjóra á borð við Truffaut og Antonioni. Í fyrra mætti einmitt önnur gömul leikkona á hátíðina sem leikstjóri – Valeria Golino með hina undurfögru Hunang eða Miele, sem sýnd var bæði í Bíó Paradís og í Ríkissjónvarpinu á liðnum vetri. En á meðan Golino skapaði einstaka kvenpersónu fyrir unga aðalleikkonu sína þá er aðalpersónan sem Ardant skapar afskaplega klisjukennd dramadrottning sem virðist hafa fórnað ferlinum í synfóníuhljómsveitinni fyrir ástina. Asia Argento gerir sitt besta í hlutverkinu en myndin er einfaldlega tilgerðarleg – þótt hún nái að halda manni við efnið á nokkuð sápuóperukenndan hátt eftir því sem á líður. Þá á eiginmaðurinn það sameiginlegt með áðurnefndum Locke að vera heltekinn af steinsteypu – myndin hverfist að mestu í kringum gamla villu sem reynt er að breyta í glæsihótel og þar er hann innsti koppur í búri. Sú umgjörð er um margt forvitnileg – en því miður eru persónurnar sem fylla húsið eiginlega óáhugaverðari en húsið sjálft.
En ég þurfti hins vegar bara að fara á hótelbarinn til þess að finna áhugaverða karaktera. Þar sem ég finn mér sæti nálægt skjánum yfir dauflegum leik Hollendinga og spútniksliðs Kosta Ríka þá sest ég við hliðina á eldri konu frá Úkraínu. Hún heitir Áa og flúði land fyrir 27 árum – hún er glöð að vera farin en hefur áhyggjur af heimalandinu. Landi sem ætti að geta boðið upp á öll lífsins gæði ef að rétt væri haldið á spöðunum. Hún rifjar upp gamla Sovétið og segir mér að stærsti kosturinn hafi verið menntakerfið: þótt það hafi ekki skilað sér í betri lífskjörum í Sovétinu sjálfu þar sem allir skyldu vera jafnir þá þýddi menntunin að bæði hún og eiginmaðurinn voru fljót að finna vel launuð störf við hæfi í Bandaríkjunum, þótt að hún kynni þá litla ensku og hann enga. Hún er sátt við lífið þótt hún hafi áhyggjur af heimalandinu og dæsir af feginleika eftir að hafa sýnt mér myndir af börnum og barnabörnum með orðunum „I‘m an old babushka but I‘m a happy babushka!“ En þegar hún heyrir hvaðan ég kem þá lifnar aldeilis yfir henni. „Ísland. Þið framleiðið besta saltfiskinn og langbestu kuldaskóna! Þegar maður bjó í Sovétríkjunum kunni maður sko svo sannarlega að meta góða kuldaskó.“
En því miður var úkraínska myndin um byltinguna alls ekki jafn skemmtileg og babúskan Áa. Maidan er rúmlega tveggja tíma mynd um byltinguna í Kænugarði síðasta vetur og er gerð af leikstjóranum Sergei Losnitza, sem áður gerði hina mögnuðu Blokada, þar sem hann vinnur úr mögnuðum myndskeiðum sem hafa fundist um umsátrið um Leníngrad. En þetta er fyrsta myndin sem hann gerir um samtímaatburði og hann virðist vera flinkari í að púsla saman fundnu myndefni en að búa til sitt eigið. Myndin er langdregin og samanstendur af löngum skotum þar sem myndavélin hreyfist aldrei. Við kynnumst aldrei neinum persónum byltingarinnar og það er allur gangur á því hvort nokkur skapaður hlutur sé að gerast í rammanum á meðan filman rúllar. Eini díalógurinn sem er til staðar er úr ræðum sem fluttar voru á aðaltorginu og því miður reynast þær flestar vera andlaus þjóðrembingur – jafnvel slökustu ræðurnar á Austvelli Búsáhaldabyltingarinnar slá þeim auðveldlega við. En ég las fréttir af byltingunni síðasta vetur – bæði ég og babúskan Áa vitum vel að miklu merkilegri og forvitnilegri hlutir gerðust í Kænugarði en þessi mynd nær að sýna.
En látum þetta duga í bili – þótt laugardagsmyndirnar hafi ekki verið merkilegar átti sunnudagurinn eftir að verða besti dagur hátíðarinnar. Ég segi ykkur frá þeim á morgun.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í Víðsjá á Rás 1 mánudaginn 22. júlí 2014.
Sýnishorn úr myndunum:
Locke – stikla
Sixteen – stikla
Varvari – stikla
Cadences obstinées – stikla
Maidan – stikla