Það hafa liðið rúm tvö ár frá því stærsta kvikmyndahátíð heims var haldin síðast – sem endaði með sigri kóreska Sníkjudýrsins, sem varð svo tæpu ári síðar aðeins þriðja myndin í sögunni til að vinna bæði Gullpálmann og Óskarinn.

Smyglið er ekki með fulltrúa á Cannes þetta árið – þangað kom smyglari síðast 2009 og náði spurningum á Eric Cantona, Tarantino, Terry Gilliam, Lars von Trier, Willem Defoe og Charlotte Gainsbourg. Ég er svo auðvitað alltaf að vonast til þess að vasarnir verði nógu djúpir aftur fyrir jafn rándýrt sport og það er að redda gistingu við frönsku rivíeruna.

En þessi hátíð lofar óvenju góðu; það er nefnilega nóg af kunnuglegum leikstjóranöfnum, sem er ekki alltaf jákvætt – en í þetta skiptið eru þetta oftast leikstjórar sem hafa gert magnaða hluti nýlega, ekki bara svokallaðir „vinir Cannes,“ sem komast þangað bara út á vináttuna og það að hafa gert góða mynd fyrir mörgum áratugum síðan, sem hefur verið alltof algengt stef á hátíðinni í gegnum árin.

En hvað væri efst á gláplistanum ef maður væri í Cannes? Hér birtum við lista yfir það sem Menningarsmyglið er spenntast fyrir á hátíðinni – og fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur sjálf/ir má finna hér samansafn af stiklum mynda hátíðarinnar sem smyglari tók saman (í röðinni aðalkeppni, Un certain regard og svo rest) – þarna vantar þó enn margt, enda algengt að stiklan komi ekki fyrr en nær dregur almennum sýningum. En, sumsé, hér kemur topp 31 listi – í réttri röð, það mest spennandi er fyrst.

Hin saklausu (De uskyldige) – Eskil Vogt

Hin saklausu fjalla um unga krakka að uppgötva ofurhæfileika sína á björtum sumarnóttum norðursins. Sem hljómar helvíti vel – en ástæðan fyrir því að myndin er efst á þessum lista er einfaldlega frumraun Vogts sem leikstjóra; Blind – sem er á topp fimm listanum mínum yfir bestu myndir síðusta áratugs, mynd sem ég ráfaði dasaðar út af eftir sýningu. Og jú, Vogt kemur líka við sögu þessarar hátíðar sem handritshöfundur.

Dýrið – Valdimar Jóhannesson

Frumraun íslensks leikstjóra sem fer beint á Cannes? Auðvitað er maður spenntur. En aðallega er maður spenntur fyrir handriti eftir Sjón og að fá loksins að sjá Noomi Rapace tala íslensku í bíómynd.

Klefi númer sex (Hytti nro 6) – Juho Kuosmanen

Fáar myndir hafa verið fallegri, fyndnari og manneskjulegri undanfarin ár en Besti dagurinn í lífi Olli Mäki eftir Juho Kuosmanen, sem vann Un certain regard keppnina í Cannes ári á eftir Hrútum. Núna er hann að leikstýra aðlögun á samnefndri skáldsögu Rosu Liksom, sem kom út á íslensku fyrir átta árum í þýðingu Sigurðar Karlssonar, um ferð ungrar finnskrar stúlku með Síberíuhraðlestinni, þar sem rússneskur harðjaxl deilir með henni sögum úr lífi sínu.

Versta manneskja í heimi (Verdens verste menneske) – Joachim Trier

Frábær titill – og Joachim Trier og Eskil Vogt eru magnað leikstjóra- og handritshöfunda-teymi. Anders Danielsen Lie er svo þeirra De Niro og er mættur aftur í aðalhlutverkið – og er einmitt einnig í stóru hlutverki í fleiri myndum hátíðarinnar.

Vegurinn – eða Hné Ahed (Hadereḵ) – Nadav Lapid

Lapid vann Gullbjörninn á Berlinale virkilega verðskuldað fyrir Samheitin (Synonymes) fyrir tveimur árum síðan, mögnuð mynd um landlausan mann og órætt óþol hans gagnvart föðurlandinu. Þá var Lapid í litlu aukahlutverki í Hatara-myndinni A Song Called Hate. Rétt eins og fleiri ísraelskir leikstjórar hefur hann staðið í stappi við þarlenda menningarmálaráðherra, sem hafa verið þjóðernissinnaðir frekar en menningarsinnaðir sumir, og því athyglisvert að sjá að myndin fjallar um leikstjóra sem á í samskiptum við starfsmann menningarmálaráðuneytisins.

Annette – Leos Carax

Söngleikur með Adam Driver og Marion Cottillard eftir sérvitrasta leikstjóra Frakka? Þetta hljómar stórkostlega – og þar sem það er útlit fyrir að ég geti séð hana bráðum ætla ég að sitja á mér með að skrifa meira í bili.

Sagan um eiginkonu mína / The Story of My Wife (A feleségem története) – Ildikó Enyedi

Enyedi vann Berlinale með hinni gullfallegu Af líkama og sál / On Body and Soul (Testről éslélekről) fyrir fáeinum árum, mynd sem vann mikið á og maður man ennþá vel staka ramma – en í kjölfarið fór maður líka að heyra magnaða hluti um fyrri myndir leikstýrunnar, sérstaklega frumraunina 20. öldin mín (Az én XX. századom).

Myndin nýja er byggð á samnefndri ungverskri skáldsögu Milán Füst frá 1946 og er frumraun Enyedi á ensku – ástæðan fyrir því er þó ekki að hún sé að reyna að meika það í Hollywood, heldur sú að upprunaleg sagan gerist að mestu í heimi sjómanna á þriðja áratugnum – fjölþjóðlegum heimi þar sem enska var aðalmálið.

The French Dispatch – Wes Anderson

Erlendu fréttirnar og Wes Anderson? Hvað gæti klikkað? Tja, ansi margt – en þetta gæti líka verið algjör snilld. Verandi mikill aðdáandi Andersons þá var Isle of Dogs alveg problematísk þegar kom að samskiptum á milli þjóða, en að því sögðu var hún samt frekar frábær. Innan um hefðbundin stjörnufans Anderson-mynda er ég svo spenntastur fyrir því að heimurinn kynnist almennilega einhverri frábærustu leikkonu Arabaheimsins, hinni alsírsku Lyna Khoudri sem leikur stúdenta og aktívista.

Benedetta – Paul Verhoeven

Evrópskir leikstjórar sem fara til Hollywood falla oftast í þrjá mismunandi flokka; þá sem meika það og koma aldrei aftur, þá sem koma aftur með skottið á milli lappanna og þá sem tekst einhvern veginn að flakka á milli. Já, og svo Paul Verhoeven, sem var ungur og efnilegur leikstjóri í Evrópu þegar Hollywood kallaði – og þar var hann í hálfan annan áratug, farsæll hasarmyndaleikstjóri sem reyndist iðullega lúmskt djúpur – flestar hasarmyndirnar hans voru enduruppgötvaðar mörgum árum seinna sem eitthvað miklu merkilegra en poppkornsskemmtunin sem þær voru stimplaðar sem fyrst.

En svo fór hann aftur til Evrópu og er núna að leikstýra sinni þriðju mynd í röð með sterka kvenpersónu í aðalhlutverki. Þetta er um ástarsamband tveggja nunna á átjándu öld – og einhvern veginn eru ekkert margir karl-leikstjórar betur fallnir til að kvikmynda slíkt og Verhoeven.

Where is Anne Frank? – Ari Folman

Ari Folman sló fyrst í gegn með magnaðri teiknaðri heimildamynd, Waltz With Bashir. Jafn góð og hún var þá var sú næsta enn betri, eitthvað súrealískasta og fallegasta sem ég hef séð teiknað í bíó undanfarin ár – The Congress með Robin Wright. Það verður vafalaust erfitt að finna réttu leiðina til að gera teiknimynd um Önnu Frank, en ef einhver getur það er það Ari Folman.

Bergman Island – Mia Hansen-Løve

Ég frétti fyrst af þessari mynd á RIFF fyrir nokkrum árum þegar við vorum að rökræða um gæða mynda Oliver Assayas og heimildakona mín sagði mér að þessi mynd væri í vinnslu – og væri einfaldlega skilnaðarsaga leikstýrunnar, sem var lengi gift Assayas. Passlega dulbúin auðvitað. Og það er eitthvað svo stórkostlegt að kvikmyndaleikstjórar fari í skrifbúðir til eyju Ingmars Bergmans, bara til að skilja. Það er eitthvað notalegt við stemmninguna sem Hansen-Løve hefur skapað í þeim myndum sem ég hef séð eftir hana – en stundum hefur einmitt vantað aðeins upp á dramað, en skilnaðátökin redda því vonandi.

Svo leikur Vicky Krieps aðalhlutverkið líka, lúxemborgska leikkonan sem stal Phantom Thread svona líka rækilega frá Daniel Day-Lewis sjálfum. Tim Roth, Mia Wasikowska og Anders Danielsen Lie eru í öðrum aðalhlutverkum.

Red Rocket – Sean Baker

Mynd um uppgjafar-klámstjörnu sem snýr aftur í heimabæinn, við takmarkaðar undirtektir. En aðalmálið er að Sean Baker hefur stimplað sig inn sem einhver forvitnilegasti leikstjóri Bandaríkjanna með bæði Tangerines og The Florida Project, þetta virkar akkúrat eins og saga sem hann á eftir að tengja við og forðast klisjurnar sem annars gætu fylgt efninu.

Val – Leo Scott & Ting Poo

Val Kilmer þótti mér löngum vanmetinn leikari – en að því sögðu fannst mér tilurð þessarar myndar fyndin en varla líkleg til að verða góð – þangað til ég sá stikluna. Það er ómur að einhverjum galdri hérna, sem vonandi endist lengur en í 2 mínútur. Kilmer ku hafa safnað efni í gegnum ferilinn, verið óþreytandi við að filma ólíklegustu hluti – og kannski verður þetta bara skólabókardæmi um að það sé hægt að gera forvitnilega heimildamynd ef myndabankinn er bara nógu stór og fjölbreytilegur.

Jane par Charlotte – Charlotte Gainsbourg

Charlotte Gainsbourg að gera mynd um mömmu sína, Jane Birkin? Auðvitað mætir maður.

The Year of the Everlasting Storm

Covid-mynd hátíðarinnar er eftir sjö leikstjóra – og þegar allavega þrír þeirra eru jafngóðir og Jafar Panahi, Laura Poitras og David Lowery þá er ástæða til að vera ágætlega bjartsýnn á niðurstöðuna, þótt svona hópverkefni endi ekki alltaf vel.

Babi Yar. Context – Sergei Losnitsa

Ég hata og elska myndir Losnitsa til skiptis (elskaði Blokada og Donbass, hataði Maidan og Victory Day) – en hef hingað til góða reynslu af því hann geri sögulegar myndir úr arkívu-efni. Og þetta er hrikaleg saga – um einhverjar mestu hörmungar heimstyrjaldarinnar, þegar 33,771 gyðing var slátrað á aðeins tveimur dögum í Babi Yar í útjaðri Kænugarðs. Losnitsa byggir þetta alfarið á efni sem hann hefur fundið í fórum kvikmyndasafna – og það verður forvitnilegt að sjá hvernig hann púslar þessu saman, enda lítið sem ekkert myndefni til um atburðina sjálfa, þótt margt sé til frá átökunum um Kænugarð á þessum árum.

Evolution – Kornél Mundruczó

Hvíti guðinn eftir Mundruczó var frábær, Pieces of a Woman frábær fyrsta hálftímann. Evolution er byggð á leikriti eftir leikstjórann, sem er svo byggt á bók, og fjallar um endurtekninguna, hvernig sagan endurtekur sig og hvernig tráma erfist á milli kynslóða.

París, 13 hverfi (Les Olympiades) – Jacques Audiard

Audiard er helvíti magnaður leikstjóri frönsku götunnar, gamall hundur sem maður ímyndar sér helst sem kaupmanninn á horninu í gettóinu sem þekkir sögur allra í hverfinu. Un Propheté er algjört meistaraverk og þá hefur hann verið óhræddur við að sækja í lítt þekkt amerísk verk; The Beat My Heart Skipped var byggð á löngu gleymdri mynd með Harvey Keitel, Fingers, og þessi er byggð á myndasögum Adrian Tomine – en það er Celine Sciamma, ein heitasta leikstýra Evrópu, sem semur handritið.

Hetja (Ghahreman) – Asghar Fahradi

Persarnir kunna flestum betur að gera bíó og á meðan flestir þeirra vinna mest með ljóðrænuna þá eru seigfljótandi átök sérgrein Fahradi, sem gerði það betur en flestir í A Seperation. Sölumaðurinn var hins vegar ekki nærri jafn öflug – allavega ekki þessi hálftími sem ég sá á sínum tíma áður en textavélin fór í skrall, en vonandi kemst hann aftur í sitt besta form hér.

Onoda, 10 þúsund nætur í frumskóginum (Onoda, 10 000 nuits dans la jungle) – Arthur Harrari

Mögulega forvitnilegasta konsept hátíðarinnar, svona á pappír: japanskur hermaður neitar að gefast upp, áratugum eftir að seinni heimstyrjöldinni líkur. Gæti orðið forvitnileg pæling um hvernig hægt er að breyta mönnum í algjöra stríðsvél, hvað sem tautar og raular.

JFK Revisited: Through the Looking Glass – Oliver Stone

Oliver Stone hefur mest megnis verið í ruglinu síðustu áratugi – en þegar hann var ennþá góður þá var JFK klárlega besta myndin hans. Verður forvitnilegt að sjá hvort hann hefur meira forvitnilegt að segja um það mál í þessari heimildamynd.

Cow – Andrea Arnold

Andrea Arnold er alltaf forvitnilegur leikstjóri, Fish Tank og American Honey stórfenglegar (sú seinni meira að segja þrátt fyrir Shia LaBeouf) og Wuthering Heights aðlögunin hennar merkileg tilraun sem mistókst. En hennar helsti styrkleiki er að leyfa leikurum virkilega að glansa, finna kvikmyndastjörnuna í þeim – þannig að þessar tvær kýr sem þessi heimildamynd fjallar um verða vafalaust stórstjörnur á einni nóttu bráðum. Rétt eins og hesturinn í Fish Tank, sem var auðvitað ógleymanlegur.

Allt fór vel (Tout s’est bien passé) – François Ozon

Ozon dælir út myndum og maður veit sjaldnast almennilega hvar maður hefur hann – gæðin spanna líka allan skalann og ég veit ennþá lítið um þessa, en fjandakornið, Hanna Schygulla er í henni og það er nóg fyrir mig. Já, og Sophieu Marceu og Charlotte Rampling líka.

The Story of Film: A New Generation – Mark Cousins

Mark Cousins fer mikið í taugarnar á sumum – en það er bara lið sem meikar ekki alvöru írskan hreim! Hann er þrælskemmtilegur, ástríðufullur og fróður kvikmyndanjörður – og fer algjörlega sínar eigin leiðir, sem vissulega geta verið sjálfhverfar – enda veit hann manna best að útstrokun sjálfsins í kvikmyndarýni eru aldrei annað en leiktjöld.

Flag Day – Sean Penn

Valdís Óskarsdóttir klippir nýjustu mynd Sean Penn, þar sem hann leikur aðalhutverkið ásamt dóttur sinni, Dylan Penn, sem er með leiklistargen úr móðurættinni líka frá Robin Wright. En mér fannst einhvern veginn eins og ferill Penns sem leikstjóra væri farinn í hundana – en þegar ég skoðaði málið var síðasta mynd í raun hans eiga stóra flopp – en hún var bara svo mikið lestarslys að flestir virtust afskrifa Penn sem leikstjóra. Þótt næsta mynd á undan væri hin magnaða Into the Wild, sem ómaði ósjaldan í hausnum á manni þegar maður horfði á Nomadland núna í vetur.

After Yang – Kogonada

Kogonada er ekki fyrsti kvikmyndarýnirinn sem hasslar sér völl sem kvikmyndaleikstjóri – en hann er held ég örugglega sá fyrsti sem gerði það eftir að hafa hlotið mikið lof fyrir vídjó-ritgerðir á Youtube, vandlega klipptar fagurfræðilegar hugleiðingar um verk leikstjóra á borð við Terence Malick, Wes Anderson, Tarantino, Aranofsky, Ozu, Kore-eda, Richard Linklater, Bresson, Bergman, Hitchcock og Kubrick. Fortíð hans er svo að mestu á huldu – hann er kóreskættaður ameríkani og nafnið er vísun í handritshöfund Ozu, Kogo Noda, en hans raunverulega nafn er á huldu.

En hann fékk mikið lof fyrir sína fyrstu mynd, Columbus, og mætir á Cannes með sína aðra mynd, vísindaskáldskap þar sem Colin Farrell lifir í heimi þar sem róbótabörn eru ráðin sem barnapíur.

Flensa Petrovs (Petrov’s Flu / Петровы в гриппе) – Kiril Serebrennikov

Sumar (Leto) er mynd sem er búin að vera lengi ofarlega á gláplista hjá mér og þessi er víst vísindaskáldskapur um myndasöguhöfund. Sem hljómar helvíti vel.

Titane – Julia Ducournau

Þetta er sama sagan – leikstjóri sem ég er á leiðinni með að kynna mér, Raw virkaði helvíti forvitnileg og þessi virðist á svipuðum slóðum líkamlegra óþæginda, hryllings og almenns blóðþorsta, með femínísku tvisti.

Blue Bayou – Justin Chon

Justin Chon varð frægur fyrir leik sinn í Twilight annars vegar og hins vegar fyrir að vera í K-Pop bandinu Boys Generally Asian – sem var að vísu paródíuband og mögulega vísbending um að ferill Chon færi bráðum í allt aðra átt, nánar tiltekið að leikstýra listrænum myndum um hlutskipti kóresk-ættaðra Ameríkana. Hinar tvær fengu ágætis dóma en hann á enn eftir að slá í gegn – en er kominn með alvöru stjörnu til að leika á móti sér núna, sænsku óskarsverðlaunaleikkonuna Aliciu Vikander.

Stillwater – Tom McCarthy

Tom McCarthy hefur átt þversagnakenndan feril og fylgdi hinni mögnuðu og óskarsverðlaunuðu Spotlight eftir með barnamyndinni Timmy Failure: Mistakes Were Made. En núna er hann aftur kominn á kaf í spillingardrama – og eftir Spotlight hlýtur maður að vera smá spenntur, þótt stemmningin hjá Matt Damon og félögum í stiklunni sé eitthvað einkennilega ósannfærandi.

Konur gráta líka (Zhenite plachat) – Vesela Kazakova & Mina Mileva

Ókei, ég veit sáralítið um þessa búlgörsku mynd – annað en það að sjálf Maria Bakalova er í aðalhlutverki. Já, sjálf dóttir Borats. Hér er hún hluti af stórri kvennafjölskyldu í miklu feðraveldi. Svo er bara spurning hvort þeir séu verri en Borat og Rudy Guiliani.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson