ComputerSaysNo

Ég man að það var stundum erfitt að fylgjast með jólabókaflóðinu úr fjarlægð í gamla daga, þegar næsta íslenska bókabúð var í meira en þúsund kílómetra fjarlægð. En þeir dagar eru auðvitað liðnir, enda minnsta mál í heimi að kaupa bara rafbókina með einum smelli þótt maður sé staddur í útlöndum.

Hefði maður haldið. En þegar maður leitar af rafbókum hjá eBaekur.is, Eymundsson.is eða Forlagid.is þá finn ég ekki Englaryk, ég finn ekki Kötu, ég finn ekki  Segulskekkju, ég finn ekki Kvíðasnillingana, ég finn ekki Manninn sem hataði börn, ég finn ekki Stundarfró – ég finn engar af þeim íslensku bókum sem ég þó veit að eru komnar út á pappír.

Og þar sem nýjar harðspjaldabækur eru alveg nógu dýrar þótt maður bæti ekki rándýrri póstkröfu við hugsa ég að ég verði þá bara að halda áfram að lesa bækur á útlensku.

(Sem er auðvitað hugulsamt af bókaútgefendum – enda er meira en nóg að lesa í náminu og ég hef auðvitað ekkert tíma til að lesa einhverjar íslenskar bækur líka, hvað þá að ég hafi efni á þeim. En maður hefði samt haldið að þeir væru í þeim bisness að reyna að ná til sem flestra mögulegra kaupenda …)

Ásgeir H Ingólfsson