Um James Bond og HHhH
Það vita flestir hver James Bond er – en eftir hálfa öld af Bond-myndum þá mætti þó spyrja sig: hvað eru James Bond-myndirnar eiginlega um?
Það er vissulega einhvers konar plott í öllum þessum myndum – en það er eingöngu eltingarleikur við nýjan og nýjan McGuffin * – myndirnar eru ekki um það.
Eru þær um njósnara? Varla, enda er Bond álíka trúverðugur njósnari og Tinni er blaðamaður – og menn eru hættir að kalla hann njósnara í nýjustu myndunum og farnir að kalla hann sínu rétta nafni, launmorðingja.
Eru þær um kalda stríðið? Þær voru það örugglega einu sinni, en það stríð er löngu liðið og Bond hefur lítið verið upptekinn af Rússum undanfarið.
Eru þær um karlmennsku, karlrembu jafnvel? Mögulega, Bond hefur vissulega þróast heilmikið á þessari hálfu öld – hann er alltaf rétt mátulega mikil karlremba, jafn mikil karlremba og hann kemst upp með – sem þýðir að hann er alltaf aðeins að skána, er kannski að meðaltali einni kynslóð á eftir samtíðinni í kynjafræðunum.
Eru þær um James Bond sjálfan? Ekki endilega – næstsíðasta myndin í seríunni, Skyfall, er með þeim betri – einmitt út af því hún er eiginlega ekki Bond-mynd, M (Judi Dench) og skúrkurinn Raoul Silva (Javier Bardem) eru hinar raunverulegu aðalpersónur, tveir safaríkir karakterar leiknir af tveimur óskarsverðlaunuðum stórleikurum í essinu sínu.
Bond. James Bond. Þetta er einföld kveðja, engar óþarfa málalengingar. Þær sjá skúrkarnir um, skúrkarnir sem væru löngu búnir að drepa Bond ef þeir þyrftu ekki alltaf að halda nokkrar eldræður til að sanna illsku sína. Bond er bara vikapiltur sem við sjáum söguna í gegnum – og raunar var Skyfall frekar lengi í gang – einfaldlega út af því hún byrjaði ekki fyrir alvöru fyrr en skúrkurinn mætir á svæðið.
Veikleiki nýjustu myndarinnar, Spectre, er hins vegar sá að hún er of mikil Bond-mynd. Við sjáum miklu minna af skúrknum Blofeld (Christoph Waltz) og hann er ekki heldur jafn litríkur og næsti skúrkur á undan. Það áhugaverða við myndina er þó hvernig hún tengir þræði allra myndanna fjögurra sem Daniel Craig hefur leikið í saman – og þegar ég fattaði hvernig allir skúrkarnir tengdust þá fattaði ég líka hvað Bond nútímans er raunverulega um.
Þessar myndir er um fallandi heimsveldi, um eyríki sem vill einangra sig – og afskaplega afturhaldssama baráttu góðs og ills.
Þetta eru vel að merkja almennt furðu góðar myndir, þessar fjórar síðustu, þrátt fyrir að skarta einhverjum leiðinlegasta Bond kvikmyndasögunnar. Daniel Craig er þurrpumpulegur og sjarmalaus Bond, minnir helst á fótboltabullu með Tinna-hárgreiðslu. Á sama tíma eiga skúrkarnir það sameiginlegt að vera frá meginlandi Evrópu (Danmörku, Frakklandi, Spáni og Austurríki nánar tiltekið) og vera tífalt meira sjarmerandi en Bond. Þeir eru ósjaldan skemmtilega heimspekilegir í hugsun, en þessi heimspekilega hugsun leiðir þá hins vegar iðullega í eitthvert öngstræti illskunnar, sem þýðir að þeir hreinlega neyðast til þess að tortíma heiminum.
Þetta er einkennileg sjálfsmynd þjóðar; þurr, fáorð, einföld, ofbeldisfull og frekar leiðinleg – en samt góðu kallarnir. Þessa sjálfsmynd spegla þeir svo í meginlandi Evrópu, þaðan koma stórleikararnir, fullir sjálfstrausts – en líka hugsandi. Hugsuðurinn í Bond-mynd er aldrei Bond sjálfur, en einhvern veginn hefur hyggjuvit hans alltaf betur en meginlandsheimspekin.
Við erum þannig skilyrt til þess að halda með grámenninu í jakkafötunum – án hans mun heimurinn hrynja. Ekki hugsa of mikið um hlutina, ekki flækja þá – það endar bara með brjálæði, hryðjuverkum og botnslausri illsku.
Gráir skuggar
Breska heimsveldið átti sína hinstu sigurstund í Seinni heimstyrjöldinni – og skáldsaga um það stríð var einmitt í bakpokanum mínum þegar ég fór á Bond í bíó. HHhH fékk nær einróma lof þegar hún kom út á íslensku fyrir tveimur árum síðan – en það verður að segjast að það lof er að mestu óverðskuldað.
Bókin fjallar í grunninn um þátt Reinhard Heydrich í helförinni sem og örlög Tékkóslóvakíu í stríðinu. Nafnið er skammstöfun fyrir „Heilinn í Himmler heitir Heydrich,“ en Himmler – næstráðandi Hitlers, var næsti yfirmaður Heydrich, sem fékk þó að mestu að leika lausum hala sem landsstjóri Bæheims, sem og sem hugmyndasmiður helfararinnar. Bókin segir líka sögu tilræðismanna hans, Slóvakans Gabčík og Tékkans Kubiš.
Sagan vakti þó fyrst og fremst athygli fyrir frásagnarmátann – þar sem hugleiðingar höfundarins, Laurent Binet, fléttast inn í söguna og kannski helst barátta hans við að skrifa sögulega skáldsögu eins og honum finnst eiga að skrifa slíka sögu, án þess nokkurn tímann að skálda í eyðurnar.
Sú dýnamík er nokkuð forvitnileg rétt til að byrja með – sérstaklega fyrir gamlan Pragbúa eins og mig, enda bókin óður til tékknesku höfuðborgarinnar sem við Binet erum sammála um að sé ein fallegasta borg veraldar.
En eftir því sem á líður verða þessir útúrdúrar þreytandi – enda eru átökin við frásögnina hreinlega ekki nógu áhugaverð og Binet gefur ekki nóg af sjálfum sér, sem eru lykilmistök þegar hann er búinn að gera sjálfan sig að einni aðalpersónunni. Hér eru engin alvöru átök, bara þrástef um það hve sagan er orðin honum mikil árátta og endurtekið rifrildi um sviðsetningar og staðreyndir sem ná sjaldnast alvöru dýpt. Fyrir utan að hann er fjarri því að vera jafn heilagur sögumaður og hann læst vera.
Bókin hefur verið borin saman við bæði Sláturhús 5 eftir Kurt Vonnegut og Illsku Eiríks Arnar Norðdahls. Það er auðvelt að sjá af hverju, allar flétta þær heimstyrjaldarsögu saman við nútímasögu og fjalla þar að auki ekkert síður um sögumannssjálfið sem skiptir sér endalaust að viðburðum sögunnar. Hins vegar er Binet öllu flinkari í að segja sögulega skáldsögu en bæði Eiríkur og Vonnegut – þegar hann gefur sagnfræðinördinum í sér lausan tauminn er bókin oft afskaplega forvitnileg. Hins vegar eru Vonnegut og Eiríkur miklu flinkari að flétta nútímann saman við fortíðina og eins þá eru sögumannssjálf þeirra mun forvitnilegri. Illska og Sláturhús 5 snúast nefnilega um að sjá grátónana í lífinu og hafna einfaldri stórsögu um heimstyrjöld þar sem aðeins voru góðir menn og vondir.
Þarna bregst Binet hins vegar algerlega. Andspyrnumennirnir eru ósviknar hetjur og nasistarnir afgerandi skúrkar – en þó ber að geta þess að Binet hálfpartinn dáist af ósvikinni illsku þeirra. Honum virðist hins vegar langmest í nöp við alla sem falla ekki að þessari einföldu tvíhyggju hans; svikarar sögunnar sem og þeir sem á einhvern hátt bökkuðu, lúffuðu eða hikuðu, jafnvel þótt það væri í nafni friðar – þessir einstaklingar fá útreið í bókinni og Binet virðist ekki getað minnst á þá án þess að kalla þá öllum illum nöfnum. Það er mögulega skiljanlegt þegar kemur að svikurunum – en úteiðin sem varfærnir diplómatar fá er hins vegar öllu vafasamari.
Það versta er þó einn áhugaverðasti kafli bókarinnar – um það hvernig Þjóðverjar námu land í Bæheimi upphaflega. Það var fyrir tilstilli bæheimska konungsins Premysl Otakars II, hann bauð þeim að koma, hann vantaði vinnuafl með aðra hæfileika en Tékkar höfðu – en þegar Binet rifjar þá sögu upp síðar, í tengslum við hernám sjö öldum seinna, þá gerir hann það með þessum orðum; „[…]“ meinsemdin sem Premysl Otakar II smitaði þjóðina af fyrir mörgum öldum hefur breiðst um landið þvert og endilangt […]“
Þetta eru nöturleg orð að hafa um þýskumælandi íbúa Bæheims, sem höfðu búið þar í sjö aldir, þjóðarbrotinu sem færði okkur til dæmis Kafka – enda voru ófáir gyðingar Tékkóslóvakíu þýskumælandi, svona til að flækja málin. Það að kalla ákveðið þjóðarbrot, ákveðna díaspóru, meinsemd – það minnir óþægilega mikið á orðræðu nasista sjálfra um gyðinga og aðra sem þeir töldu vera untermensch. Það kemur heldur ekki á óvart að á þessum 376 síðum minnist Binet ekki einu orði á þjóðernishreinsanir Tékka sjálfra eftir stríð – þegar tvær og hálf milljón Þjóðverja voru hraktir úr landi – og tugþúsundir létu lífið.
Slíkt passar nefnilega ekki sérstaklega vel í svart-hvíta sögu um gott og vont, sögu sem ber ásýnd hins flókna en forðast þó á endanum allar alvöru flækjur – ekki ósvipað njósnara hennar hátignar.
Ásgeir H Ingólfsson
* McGuffin er hugtak sem Hitchcock bjó til um hlutinn sem allir þrá – þótt hann skipti í raun engu máli og sé bara til staðar til þess að keyra plottið áfram. McGuffin getur verið bankahólf, minniskubbur eða Möltufálki – það skiptir engu máli og við erum oftast búin að gleyma því þegar við göngum út, þá munum við bara dramað og eltingarleikina – ekki upphaflegar ástæður þeirra.