No Time to Die. Nafnið á svanasöng Daniels Craigs sem Bond er sannarlega öfugmæli, það er meira en nægur tími til að deyja í þessari alltof löngu mynd, sem er heilar 163 mínútur – og það hefði auðveldlega mátt stytta hana um svona 130 mínútur.
Byrjunin er frábær. Spennandi, nöturleg og ljóðræn, allt í senn. Hún gerist í fjarlægri fortíð – en svo hefst nútími myndarinnar, þar sem við hittum fyrst fyrir James Bond og Madeleine Swann, sem áðurnefndur Craig og Léa Seydoux leika. Nú hafa sumir talað um nýjan og mýkri Bond, sem er með sömu konunni tvær myndir í röð – sem hefur mögulega virkað ágætlega á pappír, en strax þarna í byrjun birtist okkur stærsta vandamál myndarinnar; Craig gæti ekki leiðst meira og kemestrían á milli þeirra tveggja er langt fyrir neðan frostmark. Það var alvöru bylting í samskiptum kynjanna í Bond-myndum þegar dauði Vesper Lynd (Evu Green, sem verður seint toppuð sem langbesta Bond-gellan) kallaði fram alvöru tilfinningar hjá okkar manni, það er ekkert síkt að finna hér.
Bæði tvö lifna þó örlítið við seinna; það er miklu meiri kemestría á milli annars vegar Madeleine og höfuðskúrksins og Bond sjálfur sýnir aðeins einu sinni tilfinningar í myndinni, í lokin á harmrænum brómans sem hann á með Felix Leiter (Jeffrey Wright), sem er afskaplega falleg sena. Enda Wright einn af fáum ljósum punktum myndarinnar.
Og sú sena er raunar lokapunkturinn á langbesta kafla myndarinnar, örlitlu Kúbuævintýri þar sem allir helstu njósnarar heims virðast saman komnir, þar á meðal hún Paloma sem aðstoðar Bond í því verkefni. Og kúbverska leikkonan Ana de Armas er einfaldlega það langbesta við myndina, svöl, hress og skemmtileg. Hún er eiginlega eina manneskjan sem leiðist ekki og nær að smita út frá sér, þannig að allir hinir leikararnir lifa sig ágætlega inní Kúbusöguna. En svo hverfur hún bara, stærsta tromp myndarinnar er ekki notað nema í um 20 mínútna senu og hverfur svo af sviðinu og skilur okkur eftir í leiðindunum. Þetta var bara stuttur útúrdúr frá drepleiðinlegri aðalsögunni.

Aukaleikararnir bjarga vissulega ýmsu. Ben Whishaw fær loksins eitthvað að gera sem Q og þær Lashana Lynch sem Nomi, 007 myndarinnar, og Naomie Harris sem Moneypenny, eru báðar nokkuð skemmtilegar, án þess að neitt virkilega spennandi sé gert við persónurnar. Og þetta kennitöluflakk 007 auðkenningarinnar þróast fljótt út í ódýra aulabrandara, þótt það hafi verið lúmskt markaðstrikk áður en myndin kom út.
Meira að segja Ralph Fiennes, einn besti leikari samtímans, smitast af leiðindunum og á þann langslappasta leik sem ég hef séð frá honum – þótt hann fari samt vel með ljóðalesturinn, en seint í myndinni er vel valið brot úr ljóði Jack London. Rami Malek er að vísu prýðilegur sem skúrkurinn Lyutsifer Safin, en sem fyrr þekkir myndin ekki trompin sín og hann fær alltof lítinn tíma, birtist varla fyrr en í lokin að neinu ráði.

Það er að vísu annað tromp sem myndin nýtir betur – dóttir Madeleine þvælist inní hasarinn og vera hennar í aftursætinu gerir generískan bílaeltingarleik vissulega mun dramatískari en ella, en því miður nær hún rétt svo að kolefnisjafna tilfinningalega andlega ládeyðu foreldranna.
Þetta mun vera síðasta Bond-mynd Daniel Craig (þótt ávallt beri að taka öllum fregnum um að menn séu að hætta með fyrirvara) og því ekki úr vegi að skoða bálkinn allan í heild sinni, enda í raun enn sjálfstæðari bálkur innan seríunnar en arkir annarra Bond-leikara.
Og þá er bara rétt að byrja á bombu; Sean Connery var magnaður leikari – en Bond-myndirnar hans líklega lágpunktur ferilsins. Fyrstu Bond-myndirnar eru einfaldlega flestar óttalega kjánalegar, flakka frá því að vera amatörlegur kjánaskapur yfir í sæmilega innblásinn og skemmtilegan kjánaskap. Þetta á við um það sem ég hef séð af bæði Connery og Roger Moore – en kannski er ástæðan einfaldlega sú að ég var of ungur til að sjá þær myndir í bíó, enda eldist fátt verr en Bond, alltaf allavega hálfri kynslóð á eftir tíðarandanum þegar myndirnar koma í bíó.
Timothy Dalton var hins vegar fantafínn og vanmetinn Bond og Pierce Brosnan mögulega besti Bondinn, þótt myndirnar hans hafi leyst upp í algjöra steypu þegar leið á. Og sömu örlög biðu svo Daniel Craig.
Allt tal um að hér birtist mýkri Bond og nútímalegri bendir til að þar mæli helst fólk sem var að sjá sína fyrstu Daniel Craig Bond-mynd, fyrstu þrjár voru nefnilega prýðilegar, hver á sinn hátt (já, Quantum of Solace er rækilega vanmetin og miklu betri en síðustu tvær). En það er eins og orkan í þeirri endursköpun hafi einfaldlega klárast, það sé búið að þurrausa alla dýpt sem er að finna í þessum vissulega flata karakter. Svo hefur maður jafnvel á tilfinningunni að leikstjórinn Cary Joji Fukunaga og Phoebe Waller-Bridge, sem hann fékk með sér í handritateymið, hefðu aldrei átt að segja já við verkefninu, af því þótt þau hafi gert frábæra hluti í fortíðinni þá er eins og það vanti ástina á Bond sem þarf til, jafnvel þegar þú ætlar að afbyggja hann. Ef hún er hvergi þá má alveg eins sleppa þessu.
Þessu til sönnunar ætla ég einfaldlega að birta þá greiningu á Bond sem ég skrifaði eftir Spectre og Skyfall – það er einfaldlega ekkert nýtt komið fram síðan, ég hef engu við þetta að bæta. Þetta á bara ennþá betur við núna.
Sjarmerandi skúrkar og fallandi heimsveldi
Það vita flestir hver James Bond er – en eftir hálfa öld af Bond-myndum þá mætti þó spyrja sig: hvað eru James Bond-myndirnar eiginlega um?
Það er vissulega einhvers konar plott í öllum þessum myndum – en það er eingöngu eltingarleikur við nýjan og nýjan McGuffin * – myndirnar eru ekki um það.
Eru þær um njósnara? Varla, enda er Bond álíka trúverðugur njósnari og Tinni er blaðamaður – og menn eru hættir að kalla hann njósnara í nýjustu myndunum og farnir að kalla hann sínu rétta nafni, launmorðingja.
Eru þær um kalda stríðið? Þær voru það örugglega einu sinni, en það stríð er löngu liðið og Bond hefur lítið verið upptekinn af Rússum undanfarið.
Eru þær um karlmennsku, karlrembu jafnvel? Mögulega, Bond hefur vissulega þróast heilmikið á þessari hálfu öld – hann er alltaf rétt mátulega mikil karlremba, jafn mikil karlremba og hann kemst upp með – sem þýðir að hann er alltaf aðeins að skána, er kannski að meðaltali einni kynslóð á eftir samtíðinni í kynjafræðunum.
Eru þær um James Bond sjálfan? Ekki endilega – næstsíðasta myndin í seríunni, Skyfall, er með þeim betri – einmitt út af því hún er eiginlega ekki Bond-mynd, M (Judi Dench) og skúrkurinn Raoul Silva (Javier Bardem) eru hinar raunverulegu aðalpersónur, tveir safaríkir karakterar leiknir af tveimur óskarsverðlaunuðum stórleikurum í essinu sínu.
Bond. James Bond. Þetta er einföld kveðja, engar óþarfa málalengingar. Þær sjá skúrkarnir um, skúrkarnir sem væru löngu búnir að drepa Bond ef þeir þyrftu ekki alltaf að halda nokkrar eldræður til að sanna illsku sína. Bond er bara vikapiltur sem við sjáum söguna í gegnum – og raunar var Skyfall frekar lengi í gang – einfaldlega út af því hún byrjaði ekki fyrir alvöru fyrr en skúrkurinn mætir á svæðið.
Veikleiki nýjustu myndarinnar, Spectre, er hins vegar sá að hún er of mikil Bond-mynd. Við sjáum miklu minna af skúrknum Blofeld (Christoph Waltz) og hann er ekki heldur jafn litríkur og næsti skúrkur á undan. Það áhugaverða við myndina er þó hvernig hún tengir þræði allra myndanna fjögurra sem Daniel Craig hefur leikið í saman – og þegar ég fattaði hvernig allir skúrkarnir tengdust þá fattaði ég líka hvað Bond nútímans er raunverulega um.
Þessar myndir er um fallandi heimsveldi, um eyríki sem vill einangra sig – og afskaplega afturhaldssama baráttu góðs og ills.
Þetta eru vel að merkja almennt furðu góðar myndir, þessar fjórar síðustu, þrátt fyrir að skarta einhverjum leiðinlegasta Bond kvikmyndasögunnar. Daniel Craig er þurrpumpulegur og sjarmalaus Bond, minnir helst á fótboltabullu með Tinna-hárgreiðslu. Á sama tíma eiga skúrkarnir það sameiginlegt að vera frá meginlandi Evrópu (Danmörku, Frakklandi, Spáni og Austurríki nánar tiltekið – og núna Egyptalandi) og vera tífalt meira sjarmerandi en Bond. Þeir eru ósjaldan skemmtilega heimspekilegir í hugsun, en þessi heimspekilega hugsun leiðir þá hins vegar iðullega í eitthvert öngstræti illskunnar, sem þýðir að þeir hreinlega neyðast til þess að tortíma heiminum.
Þetta er einkennileg sjálfsmynd þjóðar; þurr, fáorð, einföld, ofbeldisfull og frekar leiðinleg – en samt góðu kallarnir. Þessa sjálfsmynd spegla þeir svo í meginlandi Evrópu, þaðan koma stórleikararnir, fullir sjálfstrausts – en líka hugsandi. Hugsuðurinn í Bond-mynd er aldrei Bond sjálfur, en einhvern veginn hefur hyggjuvit hans alltaf betur en meginlandsheimspekin.
Við erum þannig skilyrt til þess að halda með grámenninu í jakkafötunum – án hans mun heimurinn hrynja. Ekki hugsa of mikið um hlutina, ekki flækja þá – það endar bara með brjálæði, hryðjuverkum og botnslausri illsku.
* McGuffin er hugtak sem Hitchcock bjó til um hlutinn sem allir þrá – þótt hann skipti í raun engu máli og sé bara til staðar til þess að keyra plottið áfram. McGuffin getur verið bankahólf, minniskubbur eða Möltufálki – það skiptir engu máli og við erum oftast búin að gleyma því þegar við göngum út, þá munum við bara dramað og eltingarleikina – ekki upphaflegar ástæður þeirra.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson