Við erum stödd á kvikmyndahátíð en við skulum muna eftir þessu hversdagslega. Hversdagurinn getur verið bæði fallegur og skelfilegur – og hann er hvoru tveggja í bandarískri iðnaðaborg og tékknesku sveitaþorpi.

Paterson2

Byrjum í iðnaðarborginni Paterson í New Jersey. Þar bjó ljóðskáldið William Carlos Williams eitt sinn og samdi ljóðabálkinn Paterson um borgina. Svona lýsir Williams því af hverju hann skrifaði bálkinn: „Sérhver maður er heil borg og fyrir ljóðskáld felast allar hugmyndirnar í hlutunum í kringum hann.“

Núna hefur kvikmyndaskáldið Jim Jarmusch kvikmyndað Paterson – og þótt þetta sé sannarlega ekki bein aðlögun svífur andi Williams yfir vötnum og það er vísað ítrekað í hann. Myndin fjallar um strætóbílstjórann Paterson sem keyrir Paterson-strætóinn – hann er maðurinn sem er heil borg.

Myndin er óður til hversdagsins – hún sýnir okkur viku í lífi Patersons, hver vikudagur fær sinn kafla – en þetta er þó alls ekki einhver niðurdrepandi sósíal-realismi. Þvert á móti reynir  Jarmusch að sýna okkur hápunkta vikunnar hjá Paterson, þessi augnablik sem hann myndi líklega muna ef hann myndi rifja vikuna sjálfur upp eftirá. Sumt að því gæti jafnvel ratað í ljóð einn daginn.

Paterson
Bolabíturinn Marvin á stórleik

Við sjáum hann vakna við hlið eiginkonunnar – hann byrjar svo daginn á að krota ljóð í stílabókina sína í vagninum, ekur svo af stað og heyrir alls kyns samtöl farþeganna og yrkir meira í matartímanum. Kemur svo heim og gengur með hundinn á barinn, fær sér eina kollu og fer aftur heim. En þetta er Jim Jarmusch mynd og þær eru fullar af óborganlegum karakterum. Samstarfsmaður Paterson sem deilir með honum ótal sorgarsögum í hvert skipti sem hann spyr hvernig hann hefur það, ástjúki leikarinn á barnum, eiginkonan sem dreymir um frama í kökubakstri og kántrísöng – en stjarna myndarinn er þó vitaskuld bolabíturinn Marvin sem er stórkostlegur gamanleikari og átti langfyndnasta atriði sem ég hef séð í bíó í langan tíma. Svo má ekki gleyma dularfulla japanska ljóðskáldinu sem á fallegt móment með Paterson. Stjörnustríðsskúrkurinn Adam Driver fer svo létt með að halda athygli manns allan tímann í titilhlutverkinu.

Bæheimskar nornir og íþróttasumarið mikla

NoondayWitch
Ana Geislerova í Hádegisnorninni

En nú er nóg komið af þessari hversdagshamingju – drífum okkur í tékkneskt smáþorp þar hryllingurinn er við hvert fótmál. Hryllingsmyndir á kvikmyndahátíðum eru oftast sýndar um miðnætti – og fá jafnvel sinn sérflokk, miðnæturmyndir. En hryllingurinn er ekkert síðri á daginn – sérstaklega í steikjandi hita hádegissólarinnar á miðju þurrkatímabili. Hádegisnornin (Polednice) er tékknesk mynd sem fjallar um konu sem flytur í smábæ eiginmannsins, rétt eftir að eiginmaðurinn fremur sjálfsmorð, og hún á ennþá eftir að segja ungri dóttur sinni sannleikann. Þessi litli smábær virðist fullur af alls kyns leyndarmálum – og hegðun sumra nágrannana verður sífellt furðulegri. Þetta er þó ekki mynd um neina yfirnáttúru, þótt hún láti mann stundum halda það, heldur um skrímslin sem búa innra með okkur og geta sloppið út ef við pössum okkur ekki.

Þetta er líka um þann hrylling sem Íslendingar eru ekki mjög vanir – brennheit þurrkasumur þar sem allir eru með stanslausan sólsting og vatnið kemur ekki nema stopult úr krönunum, þar sem heilt þorp virðist smitast af sótthita hádegissólarinnar.

Núna er íþróttasumar, fótboltinn er að klárast og Ólympíuleikarnir eru á næsta leyti. Það er líka íþróttasumar í bíó – ég er búinn að sjá ameríska dansmynd, tékkneska parkúrmynd og finnska boxmynd á þessum fyrstu dögum hátíðarinnar hér í Bæheimi.

TheFitsThe Fits, eða Köstin, er í grunninn ekki svo ólík þeim glansandi dansmyndum sem Hollywood dælir út; unglingsstúlka elskar að dansa og herðir upp hugann til að fá að taka þátt í danshópi framhaldsskólans síns. En hér er ekkert þægilegt sykurhúðað plott til að hengja dansinn í, það er enginn strákur sem hún er skotin í – og þótt það sé keppni á næsta leyti þá er það algjört aukaatriði. Þetta er hrá og groddaleg mynd um dans í Bandarísku fátækrahverfi þar sem nánast allir nemendurnir eru svartir, þar sem dansinn verður hljóðlaus útrás fyrir öll orðin sem þau geta ekki sagt en líka bara lífskraftinn sem býr í þeim. Þetta er ekki endilega áferðarfallegur dans, miklu frekar hryglukenndur bardagi við lífið – og þegar stúlkurnar fara ein af öðrum að fá einkennileg stjarfaköst þá tekur að reyna á hópinn. En lausnin reynist ekki vera einhver verðlaun fyrir  dansinn eða lausn á ráðgátunni – heldur felst hún í dansinum sjálfum, þar ná þessar stelpur á endanum að sameina hug og líkama í mögnuðu lokaatriði. Þetta er á löngum köflum erfið mynd  að horfa á, það er lítið um samtöl eða söguþráð, en reynist alveg þess virði í lokin.

Það er ekki minna orka í tékknesku parkúr-myndinni Í draumum þínum (Ani ve snu!). Parkúr er jaðaríþrótt sem snýst einfaldlega um að komast frá A til B í beinni línu – og til þess getur þurft að stökkva, klifra eða hlaupa yfir byggingar, sporvagna og aðrar hindranir sem eru í veginum. Þetta er leið fyrir unglinga í ljótum blokkarhverfum til að sjá umhverfi sitt upp á nýtt, uppgötva þá fegurð sem felst í jafnvel í ljótum steypuklumpum. En þetta er vissulega að mestu strákasport – og það reynist Láru erfitt að brjótast inní þennan strákaheim. Hindranirnar eru samt kannski helst í hausnum á henni sjálfri, strákarnir eru tilbúnir til þess að leyfa henni að vera með – en hún gugnar, frýs, treystir sér ekki alla leið þótt hún sé síklifrandi og hlaupandi þegar þeir sjá ekki til.

Hún er líka óhóflega berdreymin, á það til að sofna í lyftu og dreyma súrealíska drauma um draumaprinsinn og eigin komplexa. En svo hverfur draumaprinsinn eftir einn drauminn og hana grunar að hann sé fastur í draumnum. Draumsenurnar eru skemmtilegar en unglingsástirnar eru þó veikleiki þessar annars skemmtilegu myndar – manni er satt best að segja alveg sama hvort þau endi saman eða ekki, maður vill bara sjá hana Láru hlaupa og stökkva í gegnum borgina.

Ástin grípur boxarann

Ástin er hins vegar mun öflugri kraftur en íþróttirnar í finnsku box-myndinni Besti dagurinn í lífi Olli Mäki (Hymyilevä mies). Myndin var arftaki Hrúta á Cannes, vann Un Certain Regard keppnisflokkinn sem Grímur og félagar unnu í fyrra. Olli Mäki er finnsk boxhetja sem árið 1962 keppti um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt við Bandaríska boxarann Davey Moore. Olli er sveitastrákur frá Kokkola, kommúnisti og rólegheitapiltur sem er nýbyrjaður í atvinnumennsku.

OlliMakiÞegar hann kemur úr smábænum til stórborgarinnar Helsinki  kemur hins vegar í ljós  að boxið er orðið aukaatriði. Þjálfarinn hans virðist uppteknari af því að láta Olla stilla sér upp á myndum með heldra fólki borgarinnar heldur en að gefa honum frið til þess að æfa sig fyrir stóra daginn. Hann þarf líka að missa rúm þrjú kíló á stuttum tíma til þess að vera löglegur – eitthvað sem er meira en að segja það fyrir smávaxinn og horaðan mann sem er ekki nema rúm 60 kíló til að byrja með.

Myndin sýnir ágætlega hvernig umstangið sem fylgir fjármagninu á það til að kæfa það sem peningunum var ætlað að styrkja – þótt mögulega séu þetta vaxtaverkir atvinnumennskunnar fyrir hálfri öld – núorðið er kannski frekar vandamál að bestu íþróttamennirnir lifa í hálfgerðri sápukúlu þar sem þeir eru verndaðir fyrir umheiminum svo þeir geti einbeitt sér af því að vera í sem bestu standi á keppnisdag.

Það er þó annað sem truflar Olla meira, öllu ánægjulegri truflun. Það er Raija, stelpan sem hann varð ástfanginn af rétt áður en hann fer til Helsinki. Þjálfarinn lítur hins vegar þessa smábæjarstelpu hornauga – hún passar illa inní glansmyndina sem hann er að reyna að búa til úr þessu heimsmeistaraefni Finna. Spennan snýst þannig minnst um hvort Olli vinni þetta heimsmeistaraeinvígi – heldur miklu frekar það hvort allt þetta utanaðkomandi áreiti verði til þess að hann glati ástinni.

Þetta er líka mynd um finnskar sumarnætur löngu gleymdra daga og það er einhver áreynslulaus léttleiki yfir myndinni sem gerir hana unun á að horfa. Myndin er í svart-hvítu og er skotin á sérstaka filmu sem var notuð í sjónvarpsfréttir á sjöunda áratugnum frekar en bíómyndir, filma sem reyndist svo erfitt að fá að þeir þurftu að biðja Kodak um að búa til meira, þar sem þessi tiltekna filma hafði akkúrat þá áferð sem leikstjórinn Juho Kuosmanen var að leita eftir, áferð sem lét allt líta út eins og það væri frá árinu 1962.

Þegar maður horfir á myndina fer maður svo óneitanlega að velta fyrir sér hvort það sé ekki löngu kominn tími á ævisögulega mynd um einhverja hetju íslenska íþróttavorsins, ólympíuhetjur braggahverfanna á borð við Vilhjálm Einars eða Gunnar Huseby?

Pabbi kapteinn og Sigur Rós

Talandi um Ísland,  þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað og það er engin íslensk mynd á hátíðinni. Filip Šebek skrifar raunar heilan dálk um þetta í daglegt fréttabréf hátíðarinnar. Šebek hefur unnið við fréttabréfið í fimmtán ár og harmar fjarveru íslenskra mynda mjög, enda hafi þær aldrei ollið honum vonbrigðum, og telur svo upp myndir á borð við FúsaHrúta, Mávahlátur, Backyard, París norðursins og Á annan veg. Kenning hans er svo að Íslendingar séu of uppteknir við að styðja fótboltalandsliðið í Frakklandi til að gera bíómyndir akkúrat núna – velgengni sem hann fagnar um leið og hann sýtir hrakfarir tékkneska liðsins.

CFday25-580.jpg
Captain Fantastic og fjölskylda

Íslendingar eiga þó stóran þátt í einni mynd hér á hátíðinni, en heiðurs-Íslendingurinn Alex Somers, kærasti Jónsa í Sigur Rós, sér um tónlistina í myndinni Captain Fantastic og Jónsi og Sigur Rós koma þar töluvert við sögu.

Myndin fjallar um ansi óvenjulega bandaríska fjölskyldu, en Viggo Mortensen leikur pabba sem heldur til með börnin sín sex í skóglendi þar sem þau læra að veiða sér til matar, rata eftir stjörnunum og klifra kletta. Hann er líka kennarinn þeirra, setur þeim fyrir bækur og spyr þau reglulega um lærdóminn. Hann virðist vera að ala upp sprenglærða litla kommúnista og í staðinn fyrir að halda upp á jólin halda þau Noam Chomsky daginn hátíðlegan.

Móðirin er þó ekki lengur til staðar – hún hafði dvalið á geðsjúkrahúsi um nokkurt skeið og snemma í myndinni kemur í ljós að hún hefur loksins látið að því að taka sitt eigið líf. Og þrátt fyrir hótanir tengdaforeldrana, sem kenna Ben um dauða dóttur sinnar, ákveða þau að halda í jarðarförina í gamalli rútu – og þegar við erum komin á þjóðveginn fer virkilega að lifna yfir myndinni. Árekstrar þessarar villtu fjölskyldu og hinnar meintu siðmenningar eru til skiptis bráðfyndnir, tragískir og umhugsunarverðir. Ben velur þennan lífsstíl í uppreisn gegn rotnu Bandarísku samfélagi gervimennsku og neyslubrjálæðis – hann vill ekki spilla barnshugunum með sjúkum nútímanum. Þegar kemur að formlegri menntun virðist þetta vera að virka, börnin eru mun betur lesin og klárari en til dæmis frændur þeirra sem hafa velkst um í skólakerfinu. En þau kunna lítið á lífið handan skógarins ennþá – og þótt veröldin sé um margt gölluð þá skilur myndin mann eftir með þá spurningu hvort hægt sé að hafna gallaðri veröld eða hvort maður neyðist til þess að taka þátt í henni.

Mann grunar óneitanlega að þetta sé ansi persónuleg mynd fyrir aðalleikarann Viggo Mortensen. Hann hafnaði jú Hollywood þegar hann var sjálfur Aragorn, mesti sjarmörinn í gervöllum Miðgarði, og í viðtölum virðist hann ósjaldan nýkomin úr flakki um Patagóníu eða álíka fjarlæga staði með syni sínum. Það er þannig margt líkt með honum og Kapteininum Ben, þeir eru báðir Endurreisnarmenn á tímum sem manni finnst stundum hafa hafnað Endurreisninni – og myndin er mögulega leið Mortensens til þess að rannsaka hvað myndi gerast ef hann tæki þessar hugmyndir alla leið og segði sig ekki bara úr lögum við Hollywood, heldur samfélagið allt. Við fáum vissulega ekki að vita öll svörin – en við fáum að sjá tónelska fjölskylduna taka Guns‘n‘Roses slagarann Sweet Child O Mine í jarðarför – og kannski eru svörin þar?

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Pistillinn var upphaflega fluttur í Skuggsjá á Rás 1 þann 5 júlí. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 32.20 mínútur).