Helena Kadecková hefur áratugum saman þýtt á tékknesku fjölda íslenskra höfunda. Laxness, sem hún telur besta rithöfund Norðurlanda á 20. öld, var erfiðastur en einnig var næstum ómögulegt að þýða Guðberg. Hún ræðir um Þórberg, Laxness og árin á Íslandi um miðja síðustu öld en hún hefur einnig fært tékkneskum lesendum þýðingar á yngri höfundum, Jóni Kalman, Auði Övu, Gyrði og Sjón.

„Ég var voða hrifinn af Íslandi, ferðaðist mikið og vann, í frystihúsi og á sveitabæjum. Mér fannst mjög gaman að kynnast fólkinu. Þetta var bara draumalandið, þegar ég fór heim fór ég alltaf að gráta. Heim til Prag, sem ég elska líka,“ segir Helena Kadecková um meira en hálfrar aldar gömul Íslandsævintýri.

Haustið er á næstu grösum en það er enn steikjandi sumarhiti þegar ég geng upp að fjölbýlishúsi í Prag og finn „Kadecková“ á dyrabjöllunni. Helena hefur búið þarna frá 1965. „Ég hef bara aldrei haft tíma til að flytja.“

Það er tvöfalt tímaferðalag að koma til Helenu, ekki bara að koma í íbúð sem hefur hýst sama íbúann í meira en 50 ár, heldur geng ég líka inn í gamla Ísland; þar sem manni er boðið sæti og kaffi og rukkaður um ítarlega kynningu, áður en lengra er haldið, allt á gullaldaríslensku. „Hverra manna ertu?“ fylgir vitaskuld. En nútíminn tekur samt líka á móti manni, fyrsta bókin sem ég rek augun í er Planina eftir Steinar Braga. Hálendið. Nemandi Helenu, Lucie Korecká, þýddi bókina, en Helena hefur alið upp heila kynslóð af íslenskuþýðendum.

HelenaSjóferð
Helena var dugleg við að kynna sér sem fjölbreyttastar hliðar íslensks samfélags, eins og sést ágætlega á þessari úrklippu úr Tímanum frá maí 1958.

Aðventa Gunnars Gunnarssonar liggur á borðinu undir kaffibolla og það er viðeigandi, því þetta byrjaði allt með Aðventu. Það var bókin sem kom Helenu á sporið, síðan las hún allt sem hún gat eftir Laxness og Þórberg og um leið og námsstyrkur til Íslands bauðst tékkneskum námsmönnum haustið 1957 varð hún fyrir valinu. „Þetta var fyrsti háskólastyrkurinn til Vestur-Evrópu, því Ísland þótti meinlaust, engin ídeólógísk hætta,“ segir hún mér. Hún átti eftir að eyða drjúgum hluta næstu átta ára á Íslandi, stundum veturlangt, stundum yfir sumar – og einum jólunum eyddi hún á litlum sveitabæ. „Það voru systkini sem bjuggu þar og ég upplifði þar fyrstu jólin, það var eins og í Aðventu. Snjókoma og stormur. Voðalega spennandi.“

Svo fór hún aftur heim og fór að þýða, beint úr íslensku, ólíkt flestum þeim bókum Laxness og Gunnars sem höfðu komið út á tékknesku áður en hún hélt til Íslands. Og eftir að hafa þýtt í hálfa öld hefur hún svo loks verið beðin um að þýða Aðventu á nýjan leik.

Þorláksdropar og grásleppa

„Ég kynntist mörgu fólki í Reykjavík – bæði leikhúsfólki og rithöfundum, ég þekkti flesta lifandi höfunda þá, sem var ekki erfitt,“ segir hún og ég kinka kolli, það hefur greinilega fátt breyst. „Aðalvinur minn var Þórbergur Þórðarson sem bjó skammt frá Gamla garði á Hringbraut. Hann gaf mér Þorláksdropa, heimabruggaða vínið hans. Svo komu oft margir aðrir gestir, mjög merkilegt fólk sem ég kynntist eiginlega hjá honum. Svo fór Þórbergur að kenna mér og ég kom til hans reglulega, einu sinni þegar Margrét, konan hans, var á sjúkrahúsi. Þá fór ég að elda fyrir hann. Þórberg langaði í grásleppu og ég fór og keypti hana. Svo fór ég, með hans hjálp, á Hala í Suðursveit, fólkið á Hala var alveg sérstakt,“ segir hún með dreymandi röddu.

En lá þá ekki beinast við að þýða Þórberg þegar hún kom til baka til Tékklands? Já og nei, hún reyndi; „en hann er svo rammíslenskur að það er næstum því ekki hægt að þýða hann, ég byrjaði á að þýða smásögur eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. En svo þýddi ég Steinarnir tala.“ Sú bók gerði mikla lukku, þótt aldrei hafi þau vitað hvað upplagið var stórt – þeim upplýsingum hélt ríkisrekna bókaforlagið fyrir sjálft sig. „En svo var kona sem las bókina, Zuzana Kocová, leikkona og rithöfundur, og var svo hrifin að hún ætlaði líka að fara til Íslands og tala við steinana, sem hún og gerði, áttatíu og eitthvað, löngu seinna. Hún skrifaði bók um sjálfa sig á Íslandi, sem var bland af fantasíu og raunveruleika, Chvála putování – sem þýðir Lofgjörð um flakk.“

Þessi Íslandsáhugi gekk í ættir. „Sonur hennar, Jan Burian, sem var frægur poppsöngvari, rithöfundur og þulur í sjónvarpi, erfði áhugann á Íslandi frá mömmu sinni og eftir byltinguna 1989 stofnaði hann félag tékkneskra Íslandsvina, sem kallaðist „Íslenskir ofsamenn.“ Þeir gerðu Steinarnir tala að sinni biblíu og gáfu bókina út aftur,“ segir Helena og biðst afsökunar á tímaflakkinu: „Nú kem ég aftur til baka, má ég hoppa svona á milli?“

Hanastél og Kundera í felum

Helena hefur þýtt fjölda íslenskra höfunda í gegnum árin. En hvað var erfiðast? „Auðvitað er Laxness erfiðastur. Það er svo margt á milli línanna og málið er svo skrítið. Það er svo mikill munur á málskilningi Tékka og Íslendinga. Ég tel Laxness vera besta Norðurlandahöfundinn á 20. öld. Það er svo margt skemmtilegt hjá honum sem er ekki hægt að skilja þegar maður er bara að lesa, en þegar þú þýðir þá færðu svo miklu meira. Til dæmis var setning þar sem orðið hanastél var í skrítnu samhengi og ég bara …“ segir hún og fórnar höndum. „Þrátt fyrir að ég viti hvað cocktail er á ensku þá datt mér aldrei þetta í hug.“

Hún þekkti Halldór Laxness ágætlega. „Mér fannst alltaf pínulítið leiðinlegt hvernig Íslendingar töluðu um hann. Einu sinni fór ég heim með skipi, með Gullfossi, hann var samferða, sem ég vissi ekki. Hann fór að leita að mér á skipinu og fann mig og kom með bók handa mér sem mér fannst voðalega elskulegt. Við sátum þarna, svo kom fólk, Íslendingar, spásséraði í kring og allir heilsuðu Halldóri, en mér fannst hann samt einmana. Hann var eiginlega þakklátur að við værum tvö saman – þetta var svo sterk tilfinning.“

HelenaGyrðir
Helena hittir hér Gyrði Elísson, en hún þýddi Sandárbókina árið 2013.

Sú þýðing Helenu sem fór víðast, þótt óbeint væri, var líklega þýðing hennar á Svaninum. „Guðbergur var góður vinur minn, en það var næstum ómögulegt að þýða hann. Ég reyndi einu sinni að þýða Tómas Jónsson – Metsölubók, en það var alveg ómögulegt. En svo loksins þegar Svanurinn kom, þá þýddi ég hana – og hún kom á tékknesku fyrst. Þetta var á þeim tíma sem Kundera kom oft til Íslands. Hann vildi ekki tala við blaðamenn og kom því til Íslands til að fela sig. Þýðandi Kundera á Íslandi gaf honum Svaninn á tékknesku og hann lét alltaf konuna sína lesa það sem hann nennti ekki að lesa sjálfur. Konan var mjög hrifin, þannig að Kundera las Svaninn líka. Hann var líka hrifinn og útvegaði þýðingu á frönsku, hjá Galimard, svo Svanurinn kom út á frönsku – og svo fleiri og fleiri málum. Þetta getur gerst svona, bara einn lesandi …“

Vorið og Brekkukotsannáll

Eftir Íslandsárin fór Helena að vinna sem kennari í norrænudeild Karlsháskóla, elsta háskóla Mið-Evrópu. Þetta var í aðdraganda vorsins í Prag, en svo rúlluðu skriðdrekarnir inn í borgina og allt breyttist.

Þýðingarnar hjálpuðu henni að lifa af, segir hún. „Ég mátti ekki ferðast, ég mátti ekki neitt, bara kenna og svo þýða.“ En þá kom Laxness til bjargar á ný eins og hún greindi frá í grein í Ritmennt árið 2002:

„Hinir nýju stjórnarherrar hertu tökin á öllum sviðum mannlífsins, og ástandið í háskólanum þar sem ég kenndi Norðurlandabókmenntir varð óbærilegt. Nýir yfirmenn, strangt eftirlit. Aldrei hafa vonbrigði þjóðarinnar orðið sárari og siðleysið meira í þjóðfélaginu. Nú var ekki til umræðu að fara til Íslands né neitt annað.

Hálendið
Hálendið er fyrsta bókin sem mætir blaðamanni – þýdd af fyrrum nemanda Helenu.

Um þetta leyti hóf ég að þýða Brekkukotsannál. Efni bókarinnar var eins og smyrsl á opin sárin, og þýðingarstarfið stóð eins og bjarg upp úr gráum veruleikanum. Sambúð mín við þessa skáldsögu var hjákátleg samkvæmt þeim kenningum sem þá voru í tísku hjá bókmenntafræðingum í hinum svokallaða frjálsa heimi. Þeir héldu því fram að ekkert nema textinn sjálfur hefði gildi við faglegan lestur bókmenntaverka, en hérumbil allt sem ég las í skáldsögunni vakti hins vegar með mér hugmyndir, ótengdar bókmenntunum, og þær voru fullkomlega persónulegar.“

Eftir flauelsbyltinguna 1989 fóru hlutirnir þó að glæðast. „Þá var gaman, þá gat ég ferðast og ég fór til Íslands á hverju ári og fékk styrki og var í lengri tíma þar og gat lesið.“ En hvernig finnst Helenu þróunin hafa orðið síðan? „Allir verða fyrir vonbrigðum. Nú sér maður gallana á því sem stjórnin gerði. Auðvitað er frelsi, en maður veit ekki hvað á að gera með frelsi, engin skilur það, hvað frelsi er. Það er tilfinningin sem margir hafa, ekki bara í Tékklandi, alls staðar í heiminum.“

Börn og sendinefndir

Árið 1964 kom tékknesk sendinefnd til Íslands og Helena var með í för sem túlkur. Það voru ótal fréttir skrifaðar um þetta en þegar ég spyr Helenu út í þetta segist hún muna lítið eftir þessu. „Þarna komu saman íslenskir pólitíkusar, sem ég þekkti bara úr dagblöðum, ég fékk Þjóðviljann öll árin, sem var eiginlega and-kommúnískt blað í mínum augum, hér í Tékklandi. Þeir skömmuðu hver annan í blöðunum en komu svo saman og voru vinsamlegir við hvor annan.“

Hún man hins vegar miklu betur eftir börnunum. „Af því ég gat ekki ferðast var ég næstum því á hverju sumri túlkur hjá hópum íslenskra skólabarna sem komu hingað í alþjóðlegar æskubúðir. Það var mjög gaman. Íslensku krakkarnir voru allt öðruvísi en tékkneskir. Svo komu fararstjórar, að mestu leyti konur. Við urðum miklar vinkonur, Vilborg Dagbjartsdóttir, Solla Jónsdóttir, merkilegar konur … en það var agi þarna, sem íslenskir krakkar þoldu illa. Svo voru fánar reistir og haldnar ræður, ríkisstjórnin stóð fyrir þessu. En í staðinn fyrir að þýða ræðurnar sagði ég bara skrítlur í staðinn.“

Vilborg Dagbjartsdóttir ljóðskáld bjó um skeið í Prag og þær Helena urðu góðar vinkonur. Í borginni bjó þá líka verðandi eiginmaður Vilborgar, Þorgeir Þorgeirson, skáld og kvikmyndagerðarmaður, sem er einn af fáum sem hefur gefið sig að því að þýða úr tékknesku á íslensku. „Þau urðu ástfangin í Prag, í mínum skugga,“ segir Helena kímin. „Við Vilborg, tvær kellingarnar, vorum á National Cafe, Národní kavárna, spjölluðum saman á íslensku þar. Þá kemur maður á móti okkur, sem var Þorgeir, hann var við nám þá í kvikmyndafræði. Svo mæltu þau sér mót um kvöldið og þar byrjaði þetta.“

Dálkar:

Bréf frá Þórbergi

Þórbergur Þórðarson ritaði Helenu nokkur bréf sem geymd eru á Landsbókasafni. Hér eru nokkur brot úr einu þeirra, skrifuðu 1962.

Kæra Helena! Nú sezt ég niður að pára þér línur, eins og íslenzkt sveitafólk komst að orði í ungdæmi mínu. Margrét mun hafa hripað þér seðil einhverntíma í vetur.

***

Lífið í landi voru gengur svipaðan gang og þegar þú fórst héðan og þó með sífellt nýjum tilbrigðum, enda kemur díalektík Guðs almáttugs og díalektík Karls Marx saman um það, að lífið sé rennandi straumur, ýmist sem hjalandi lækur í brekkukorni, ýmist sem drynjandi Skeiðará í hlaupunum miklu. Guð verndi oss fyrir lífsfölsun statismans.

***

Ánægjulegt er að heyra fréttirnar frá Rússlandi. Þar hafa vísindamenn séð tvö skrímsli í tveimur fjallavötnum í Austur-Asíu, og annað át hund.

***

Rússneskum vísindamanni, Semyon Kirlian og konu hans Valentinu hefur tekist með hjálp hátíðnigeisla að ná myndum af hinum ósýnilega geislabaug, sem umlykur allar lifandi verur og alla „dauða“ hluti. Þarna opnaðist þeim furðulegt útsýni, sem þau segja, að enginn vísindamaður hefði haft hugmynd um að væri til allt til þessa. Þau eru í nokkuri óvissu um, hvað þau eigi að kalla þetta undur, en kalla það til bráðabirgða „lifandi rafmagn“. Fleiri vísindamenn í Ráðstjórnarríkjunum hafa sannprófað þetta. Þarna er með öðrum orðum fundin „áran“, það er ósýnilegt geisla- útstreymi frá mönnum, dýrum, jurtum og einnig „dauðum“ hlutum, sem dulskyggnir menn hafa sagt frá og lýst greinilega. Nú eiga þessir rússnesku vísindamenn aðeins eftir eitt stutt skref til að geta ljósmyndað framliðið fólk. Sagði ég þetta ekki fyrir í Kompaníinu? Það er hægur vandi að segja fyrir óorðna hluti, ef manni er gefin sú gáfa, af heiminum fyrirlitin, að geta hugsað eins og nýfæddur kálfur.

***

Laugardaginn 3. marz var hingað boðinn slatti af útlendum háskólastúdentum: Japani, tveir Kínverjar, sænsk stúlka, færeyskur piltur og stúlka og finnsk stúlka (sú sem fór með þér á andatrúaróperuna til Hafsteins). Þar að auki voru þrír íslenzkir gestir: Tómas nokkur óperumaður og kona hans og Bidda systir. Allir sungu lög frá sínum löndum og óperumaðurinn spilaði undir á gítar. Ég stjórnaði músikinni. Tólf þriggjapelaflöskur af Þorláksdropum drukknar upp.

***

Fjórtán flöskur drukknar í botn. Samt enginn fullur. Þýzka stúlkan sagði við mig, þegar hún kvaddi mig í stiganum: „Hafðu sona aftur næsta vetur.“

***

Nú er 5. maí. Enni Petro kom hér í gær og sat í sófanum þínum góða stund.

***

Gráskinna er ekki ennþá komin út, en kemur væntanlega í haust. Flaskan bíður. Svo bið ég þennan miða að flytja þér kveðju mína. Þess hins sama biður Margrét.

Bréfið má í heild sinni lesa í 4. hefti Tímarits máls og menningar frá árinu 2000.

Fyrsti Tékkinn á Íslandi?

FljótaskrímsliSkálholt
Nálægt Skálholti sjást oft fljótaskrímsli sem eru svo stór að hafskip geta siglt undir kryppur þeirra, eða svo segja altént tékkneskar miðaldaheimildir

Tékkar voru vissulega sjaldgæf sjón á Íslandi árið 1957 – en þeir voru enn sjaldgæfari á miðöldum. Fyrsta ferðasaga Tékka til Íslands er frá ferðalagi Daniels Feterus árið 1613 til landsins og þegar Helena hélt fyrirlestur um hann í Árnagarði árið 1981 tók Inga Huld Hákonardóttir viðtal við hana um efnið fyrir Dagblaðið.

Daniel rómaði gestrisni Íslendinga i mat og drykk, en einnig eru ýmsar kynjasögur í ritinu – enda skrifað sem skemmtisaga. Meðal annars segir hann að konur geti ekki fætt börn í Vestmannaeyjum og þurfi að flytja þær upp á land til þess og að nálægt Skálholti sjáist oft fljótaskrímsli sem séu svo stór að hafskip geti siglt undir kryppur þeirra. Það boði jafnan tíðindi, mögulega andlát höfðingja úti í heimi.

Daniel skrifaði ferðasöguna til þess að fjármagna tékkneska útlaga, sem þá börðust upp á líf og dauða til að vernda menningu sína fyrir austurrískum áhrifum Habsborgara. Ferðasagan varð feikivinsæl og fjármagnaði útgáfu pólitískra verka.

Þau rit höfðu svo óvænt áhrif á íslenskar bókmenntir. Martein Möller var undir miklum áhrifum frá skrifum þessara tékknesku andspyrnumanna þegar hann skrifaði guðfræðiritið Eintal sálarinnar – sem átti svo eftir að hafa mikil áhrif á Hallgrím Pétursson þegar hann ritaði Passíusálmana.

Helstu þýðingar Helenu af íslensku:

Steinarnir tala eftir Þórberg Þórðarson

Brekkukotsannáll, Paradísarheimt og Kristnihald undir jökli eftir Halldór Laxness

Litbrigði jarðarinnar og Mýrin heima, þjóðarskútan og tunglið eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson

Draumur til kaups eftir Halldór Stefánsson

Svanurinn eftir Guðberg Bergsson

Á meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur

Dagur vonar eftir Birgi Sigurðsson

Snorra-Edda, Ynglingasaga, Íslendingaþættir, Völsungasaga og fleiri fornaldarsögur

Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson

Afleggjarinn eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Sandárbókin eftir Gyrði Elísson

Mánasteinn
Mánasteinn eftir Sjón
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 8. október 2016.