Berlinale

Mannúlfurinn Logan og innflytjendurnir hans Kaurismäkis

Þegar tökum lauk á Logan, þriðju og síðustu myndinni um mannúlfinn Wolverine (og alls tíundu X-Men myndinni) leit allt út fyrir að Hillary Clinton yrði næsti Bandaríkjaforseti. Það voru alls konar vandamál í heiminum – en bann við handvöldum innflytjendum og múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó var ekki þar á meðal. En góðir listamenn skynja tímann öðruvísi og handritshöfundar Logan virðast hafa verið furðu forspáir. Myndin gerist í nálægri fortíð, árið 2029 nánar tiltekið, en ártalið skiptir ekki öllu máli – frekar það að einmitt svona gæti maður ímyndað sér að framtíðin muni líta út eftir nokkur ár af Trumpisma (nema auðvitað maður sé sérlega svartsýnn og búist við heimstyrjöld, en það er önnur saga – sem vafalaust verður sögð í einhverri bíómynd fljótlega).

Logan2
Miðaldra ofurhetja Logan er máski 200 ára gamall – en núna er hann orðinn miðaldra og ekki alveg jafn ósæranlegur og áður.

Logan reynir að forðast forna frægð, vinnur við að keyra limúsínu fyrir Uber og við sjáum skjannahvíta pabbastráka standa upp úr topplúgunni og öskra „Ameríka, Ameríka!“ Það er enginn efi eða spéhræðsla í þessari upphrópun þeirra, þetta er heimur þar sem fölskvalaus þjóðernishyggja hefur unnið fullnaðarsigur. Við erum stödd í El Paso, rétt við mexíkönsku landamærin. Handan þeirra felur Logan Prófessor X, sem nú er kominn á tíræðisaldur og er með óútskýrða heilabilun. Sem væri bara persónulegur harmleikur gamals manns ef þessi heilabilun ætti sér ekki stað í öflugasta heila jarðkringlunnar, heila manns sem les hugsanir og færir hluti úr stað með hugarorkunni einni. Slíkur heili verður hættulegur þegar hann hefur ekki fulla stjórn á honum og Logan þarf reglulega að sprauta hann niður með aðstoð þriðja x-mannsins – ljósfælna albínóans Calibans. Þeir eru síðustu x-mennirnir – börn hafa ekki fæðst stökkbreytt í aldarfjórðung og Logan veltir fyrir sér hvort þau hafi verið mistök almættisins, frekar en næsta skref í þróunarsögunni.

Gamlir menn sem mistókst að bjarga heiminum

Þetta er í raun á margan hátt mynd um ellina – Logan sjálfur er orðinn miðaldra og þótt hann sé enn tæknilega ósæranlegur og vinni flesta bardaga þá er þetta allt erfiðara. Kúlurnar hrökkva ekki af honum heldur þarf hann að týna þær út eftir bardaga – og deyfa sársaukann með ómældu magni af áfengi. Hann er alkóhólisti sem hreinlega getur ekki drukkið sjálfan sig í hel þótt hann glaður vildi – en samt virðist ýmislegt benda til þess að þegar aldurinn færist yfir verði x-mennirnir dauðlegir eins og við hin. Þetta á ekki síður við um Prófessor X. Hann hefur í gegnum tíðina sjaldnast verið mest spennandi persóna sagnabálksins í meðförum Patrick Stewart, til þess var hann alltaf of vitur, sjálfsöruggur og ákveðinn.

ProfessorX
Heilabilun hugsanalesara Charles Xavier er kominn á tíræðisaldur – og heilinn er farinn að bila. Sem er vandamál þar sem þetta er ennþá öflugasti og hættulegasti heili í heimi.

En þegar aldurinn færist yfir og hann fer að missa tökin á eigin kröftum þá birtist okkur allt önnur og forvitnilegri persóna, maður sem hefur reynt allt til að breyta heiminum til betri vegar en veit að honum hefur mistekist. Stewart skilar þessum harmi ellinnar hreint meistaralega, sem og gleðinni yfir einföldum hlutum eins og að fá að gista næturlangt hjá almúgafjölskyldu sem lifir lífinu sem hann hefur barist fyrir en þó aldrei átt sjálfur. Rám rödd Johnny Cash heyrist á einum eða tveimur stöðum í myndinni og ef Cash hefði gert ofurhetjumynd hefði það getað verið þessi (enda leikstýrir James Mangold myndinni, en hann leikstýrði áður Walk the Line um ævi Cash) – hér syngja allir sinn ráma söng um missi og þyrnum stráða ævi sem brátt mun ljúka. Harmur prófessorsins snýr þó ekki að honum sjálfum – heldur að því að hafa ekki getað skilið eftir sig betri heim.

Við vitum ekki nákvæmlega hvað hefur gerst á þessum tólf árum sem hafa liðið frá okkar dögum. Við sjáum einfaldlega heim þar sem venjulegar manneskjur virðast almennt undir hælnum á stórfyrirtækjum eða ríkinu, stofnanavæddur fantaskapur og ægivald stórfyrirtækja mynda eitraðan kokteil dystópísk samfélags sem er ekki endilega svo ólíkt okkar eigin, bara töluvert verra. Það rímar ágætlega við samtímann að útskýra ófarirnar ekki um of; við vitum ekki hvert Trump-stjórnin mun leiða okkur – en við höfum mörg illan grun um að það verði alltaf miklu verri heimur.

Glasabarn Úlfsdóttir

Ég minntist áðan á að engin stökkbreytt börn hefðu fæðst í aldarfjórðung. En það var misskilningur þeirra félaga – þau hafa vissulega ekki fæðst eðlilega, en á mexíkönskum spítala höfðu Bandaríkjamenn gert tilraunir með erfðavísa x-mannana – og látið konur sem enginn myndi sakna ganga með þessi börn. Það eru hins vegar mexíkanskar hjúkrunarkonurnar sem reynast hvunndagshetjur myndarinnar – og ná að forða börnunum frá sköpurum sínum.

Eitt þessara barna, Laura, lendir í forsjá Logans og Prófessorsins og verður þriðja aðalpersóna myndarinnar. Þegar hún lendir í sínum fyrsta bardaga sýnir hún svo klærnar, bókstaflega, og það er augljóst hverra manna hún er. Þetta glasabarn Logans, ellefu ára leikkona að nafni Dafne Keen, sem stelur senunni rækilega af gömlu mönnunum Logan og Prófessor X – og gæti vel orðið vísir af framtíðarsagnabálk. Hún mælir vart orð af munni framan af mynd – en augnatillitið segir oftast allt sem segja þarf og þessi ylfingur er ennþá fimari bardagaúlfur en Logan, enda fædd með klær.

Hún og jafnaldrar hennar, sem birtast einnig stuttlega, eru framleidd af óvininum, rétt eins og Logan sjálfur var – en hann brýnir fyrir henni að verða ekki það drápstól sem þeir ætluðu henni að verða: „Don‘t be what they made you.“ Þannig eru þau x-mennirnir sem Trump skapaði (hún er ellefu ára og mun því fæðast á þessu kjörtímabili) – en þau geta líka verið börnin sem bjarga okkur frá Trump og þeirri stefnu sem hann og hans líkir hafa markað.

X-Mennirnir hafa alltaf verið Trójuhestur hinna undirokuðu inn í myndasöguheiminn – ofurmennishugmyndir Nietzsche og um margt ómakleg tengsl hennar við fasismann hafa ósjaldan þvælst fyrir öðrum ofurhetjumyndum – og raunar lentu ofurhetjumyndirnar sjálfar í hálfgerðri krísu í fyrra. Batman vs. Superman var vond, Suicide Squad ennþá verri og þótt Captain America væri ágæt þá var fátt nýtt þar. Það mátti þó finna ferskleika í Deadpool og Doctor Strange, nýjum persónum fylgdi ný nálgun. Loks var X-Men: Apocalypse afspyrnuvond og tími mannúlfsins Logan virtist brátt á enda – og það var raunar margyfirlýst að þetta yrði síðasta skiptið sem Hugh Jackman myndi leika hann. En myndin gæti þó bjargað seríunni – enda virðast Laura og jafnaldrar hennar fullfær um að halda uppi eigin seríu.

Hún og jafnaldrar hennar eiga sér einfaldan draum – að komast til fyrirheitna landsins. Sem er auðvitað Kanada. Einangrunarstefna hefst oft með því að úthýsa „óæskilegu“ fólki – eins og við höfum haft fregnir af frá flugvöllum Ameríku og víðar undanfarnar vikur – en endar oft á því að fólk sem er svo óheppið að vera innan landamæranna þráir ekkert heitar en að flýja. Þangað sem þau eru örugg, þangað sem þau eru frjáls. Enda land hinna frjálsu löngu hætt að standa undir nafni.

Handan landamæranna, handan vonar

En hvað gerist svo handan landamæranna? Flóttamenn heimsins geta vitnað um að þá er baráttan oft rétt að hefjast. Í myndinni Handan vonar (Toivon tuolla puolen) sjáum við einn slíkan, kolsvartan í framan, um borð í finnskum bát. Khaled er flóttamaður frá Sýrlandi og ástæðan fyrir því að hann er kolsvartur í framan er sú að hann faldi sig í kolabing. Í einu skoti súmmerar finnski leikstjórinn Aki Kaurismäki kynþáttasögu síðustu aldar; flóttamanninn í felum, blackface-ið (þegar hvítir menn léku öll helstu hlutverk, líka aðra kynþætti) og tilraun Khaled til að þvo af sér fortíðina.

Khaled er hrekklaus og bjartsýnn og fer beint til lögreglunnar að sækja um hæli. Þar kynnist hann öðrum innflytjendum, þar á meðal Mazdak frá Írak sem gefur honum góð ráð: „Reyndu að vera glaðlegur. Þeir þunglyndu eru alltaf sendir fyrst í burtu.“ Sem eru slæmar fréttir fyrir flestallar aðalpersónur Aki Kaurismäki.

KhaledWikstörm
Tveir heimar mætast Flóttamaðurinn Khaled mætir hvítum miðaldra Finna.

Stuttu síðar heyrum við svo fréttaþul finnska sjónvarpsins útlista hörmungarnar í Sýrlandi og sú rödd hljómar ennþá á meðan finnskur bjúrókrati útlistar fyrir Khaled að í Sýrlandi sé ekkert að óttast og því sé honum óhætt að fara heim, hann þurfi því ekki hæli í Finnlandi. Kafka hefði verið stoltur af þessari senu – en Khaled flýr einfaldlega eins og fætur toga og endar fyrir  tilviljun á veitingastaðnum hans Waldemar Wikström. Wikström er hinn erkitýpíski hvíti miðaldra Norðurlandabúi, fámáll smákaupmaður sem við höfum fylgst með samhliða Khaled. Hann yfirgefur eiginkonu sína í kostulegri orðlausri senu, hættir starfi sínu sem sölumaður og vinnur fúlgur fjár í pókerspili sem gæti verið hin erkitýpíska sena Kaurismäki-myndanna allra, enda virðist hann helst velja leikara eftir því hversu góð pókerandlit þeir geta sett upp.

En Wikström – sem og starfsmenn hans á veitingastaðnum – gera allt til að hjálpa Khaled. Þau eru engar hetjur, af því í heimi Kaurismäki er það að hjálpa náunganum einfaldlega eitthvað sem er sjálfsagt. Í Helsinki eru vissulega skúrkar – eins og ný-nasistarnir sem berja Khaled – en fyrir langflesta virðist fyrsta boðorðið einfaldlega vera að hjálpa náunganum.

OtherSideofHope
Starfsliðið Khaled sést hér ásamt starfsliði veitingastaðarins sem hann fær vinnu hjá.

Það kannast flestir alvöru kvikmyndanördar við þann heim sem Kaurismäki hefur skapað; staðleysa sem er einhvers konar blanda af sjötta og níunda áratugnum, brilljantín í hárinu og pönkhljómsveitir í bland við fiftís-rokkabillí, en líka gamaldags Finnar í ódýrum jakkafötum sem þess vegna gætu verið frá því fyrir stríð. Þetta er stílíseraður og heillandi heimur fortíðar sem aldrei var nákvæmlega svona, en fortíðar engu að síður – og sú fortíð er sannarlega hvít.

Þessi fortíðarheimur hefur lengstum verið hlýlegur spéspegill um það Finnland sem ól hann – en það er alveg pínulítið óþægileg þversögn sem fylgir árekstri þessara tveggja heima. Einföld og sjálfsögð góðmennska er (nánast) lögmál í þessum heimi – en þótt af honum megi margt læra er líka rétt að muna að úr þessum jarðvegi eru líka allar fasistahreyfingar Evrópu nútímans sprottnar. Þannig mætti líka spyrja hvort þessi heimur – og þær góðmennskugoðsagnir sem hann samdi um sjálfan sig – hafi brugðist?

KhaledSystir
Systkyni Khaled verður snemma viðskila við systur sína, sem er síðasti eftirlifandi ættinginn. Tekst honum að finna hana á ný?

En það er samt engin spurning um það að Kaurismäki er með hjartað á réttum stað. Þetta er önnur myndin hans í hafnarborgatrilógíunni á eftir Le Havre, sem einnig var afskaplega manneskjuleg sýn á innflytjendamál. Það hefur ekki verið gefið út í hvaða hafnarborg hann muni ljúka þríleiknum – en maður veltir þó óneitanlega fyrir sér hvort það væri ekki eðlilegast að semja lokaóðinn til frægustu innflytjendahafnarborgar veraldar og færa okkur New York að hætti Kaurismäki. Ef það verður þá ennþá hægt að smygla múslímskum leikurum þangað þegar þar að kemur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 17. mars 2017.