„Smygl er varningur af hvaða tagi sem vera skal sem fluttur er á milli landa með ólöglegum hætti. Algengt er að fíkniefnum sé smyglað og jafnvel fólki. Sá sem stundar smygl kallast smyglari.“ – Wikipedia.

Þessum stubbi fylgja engar heimildir, þessi grein er smygl – ólögleg á þessari síðu sem venjulega elskar heimildir.

Orðabækur segja okkur oftast bara hvað orðin þýða, eða jafnvel hvað flestum finnst þau þýða. Þær segja okkur ekki hvað orðin geta orðið þegar þau verða stór. Ef við leyfum þeim að vaxa og dafna og eignast alls konar nýjar og flóknar og mótsagnakenndar merkingar.

Ef við leyfum orðunum að vera jafn flóknum og heiminum sem þau lýsa.

Við þurfum að smygla orðum, hugsunum og menningu yfir landamæri, á milli sálna, á milli okkar. Á milli okkar og hinna, hverjir sem hinir kunna að vera. Við þurfum að tala saman og skrifast á og hvíslast á.

Annars fer þetta allt til andskotans. Kannski fer þetta allt til andskotans hvort eð er, en það er óþarfi að þegja á meðan.

Þessi síða hefur verið til lengi, en samt ekki til í alvörunni. Hún hefur verið smá hellisskúti til að geyma gamlar greinar eða heimilislausar hugsanir. En hún átti alltaf að verða eitthvað meira einn daginn, að verða fullorðin. Mögulega er sá dagur núna. Þetta er tilraun, ökupróf fyrir menningarblogg á internetinu. Æfingakennsla fer fram í sumar og haust – ef vel gengur útskrifast hún í vetur og heldur áfram að sigla um hraðbrautir internetsins og rugla saman samgönguhugtökum farartækja heimsins.

Þetta verður geimbíll fyrir ferðasögur, seglflugvél fyrir bíódóma, ratstjá fyir myndlist. Sjórnæningjaskúta sem þið þurfið að hjálpa mér að halda á floti.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson