„Godard hefði verið stoltur af því að gera þessa mynd, Orson Welles hefði verið stoltur ef hann hefði gert þessa mynd,“ sagði Mark Cousins í kynningu á myndinni sem fékk verðlaun sem besta myndin í aðalkeppninni á Karlovy Vary – og bætti svo við að það væri synd að Claude Lanzmann, leikstjóri Shoa, sem lést aðeins degi fyrir verðlaunaafhendinguna, fengi aldrei að sjá myndina.

Sigurmyndin var rúmenska myndin með langa nafnið, I Do Not Care if We Go Down in History as Barbarians upp á ensku, Mér er sama þótt mannkynssagan afgreiði okkur sem villimenn. Titillinn er vísun í orð sem féllu á rúmenska þinginu í seinni heimsstyrjöldinni og um þátt Rúmena í helförinni, sögulegar staðreyndir sem er oft skautað ansi auðveldlega fram hjá í rúmenskum sögubókum. Af því afkomendum þeirra er nefnilega ekki sama, það vill enginn að forfeður þeirra séu villimenn.

Myndin gerist þó í nútímanum og fjallar um rúmenska leikstýru, Mariönu Marin, sem er falið það verkefni að endurskapa atburði úr seinni heimsstyrjöldinni í tilefni hátíðarhalda. Hefðin er að svona endurskapanir séu átakalitlar útfærslur af þjóðernismýtum – en Maríana áttar sig á að slíkar endurskapanir eru alls ekki jafn meinlausar og flestar vilja láta og ákveður að takast frekar á við svartan blett í sögu Rúmeníu, morðin í Ódessa árið 1941 þegar rúmenski herinn myrti tugi þúsunda Gyðinga og Sígauna. Rúmenar voru nefnilega bandamenn Hitlers þangað til þeir skiptu um lið árið 1944, undir lok stríðsins – og það er ekki vinsælt umræðuefni í Rúmeníu.

Þetta er löng mynd, um 140 mínútur, og hún hefði að ósekju mátt vera styttri – framan af er nefnilega dálítið mikið um óþarfa, sérstaklega kaflar þar sem Maríana les langa kafla úr sagnfræðiritum með takmörkuðum tilþrifum. En myndin grípur mann sannarlega þegar líður á og sagnfræðin sem Maríana vill koma til skila hættir að vera í forgrunni og þess í stað snúast átökin um deilur á milli Maríönu og ýmissa aukaleikara, sem og embættismanna og stjórmálamanna um hvernig rétt sé að matreiða söguna – og undirliggjandi er spurningin um erindi þessarar sögu við nútímann.

Sérstaklega er gaman að rimmum Maríönu við erindreka borgarinnar, Movila, sem þrátt fyrir að vera í vissum skilningi illmenni sögunnar reynist víðlesinn og skilningsríkur um leið. Þá er lokasenan mögnuð á ansi óvæntan hátt. Niðurstaðan kannski að ansi mörgum sé enn sama þótt sagan dæmi þá sem villimenn.

En þótt Rúmenar megi skammast sín fyrir ýmislegt í sögu sinni þá geta þeir verið ágætlega montnir af kvikmyndagerðarmönnum sínum þessi misserin. Rúmenska nýbylgjan hefur nú á þessu ári skilað af sér sigurmyndum bæði í Karlovy Vary og á síðustu Berlinale, Touch Me Not með Tómasi Lemarquis í einu aðalhlutverkanna, en báðar myndirnar deila tilraunagleðinni og eiga á sinn hátt í óvenjulega beinu samtali við áhorfandann. Svo er bara að sjá hvernig það samtal gengur utan kvikmyndahátíða.

Átakalítið kalt stríð

Pólskir kvikmyndagerðarmenn eru einnig ágætlega sigursælir þessi misserin og unnu loksins sinn fyrsta Óskar fyrir fimm árum fyrir Idu. Leikstjóri Idu, Pawel Pawlikowski, er nú mættur með aðra svart-hvíta mynd frá dögum kalda stríðsins sem heitir einfaldlega Kalda stríðiðZimna wojna.

Hún er mun hefðbundnari og formfegurri en tilraunakenndar og hráar myndir rúmensku nýbylgjunnar – og það er rétt að segja það strax; Kalda stríðið hans Pawlikowskis er ægifögur mynd. Það er fínt að njóta hennar sem slíkrar, bara djassinn, bæði í myndmálinu og tónlistinni, gerir myndina alveg þess virði að sjá.

Myndin fjallar um stormasamt ástarsamband pólsks píanista og pólskrar söngkonu frá ofanerðum fimmta áratugnum fram á þann sjöunda, í sveitum Póllands og París með smá útúrdúrum í Júgóslavíu og Varsjá – en þótt sagan bjóði upp á heilmikið drama er vandinn hins vegar sá að það gerist allt of auðveldlega. Þá er ég ekki að segja að aðalpersónurnar lendi ekki í átökum – en myndin er það átakafælin að hún sýnir sjaldnast átökin, rétt minnist á þau. Þannig fær maður eiginlega frekar svipmynd af fallegu hæfileikaríku fólki í svart-hvítu sem þarf sjaldnast að hafa fyrir neinu í lífinu, jafnvel þótt hin eiginlega saga gefi allt annað í skyn. Þetta er dálítið eins og áferðarfagurt myndaalbúm þar sem ljósmyndarinn var oftast fjarverandi þegar erfiðleikarnir bönkuðu upp á, harmurinn er handan tjaldsins.

Kóreskur Gatsby

Harmurinn er hins vegar auðfundnari í Bruna (Beoning), suður-kóreskri mynd sem byggð er á smásögu Haruki Murakami og fékk betri dóma en nokkur mynd hefur fengið í aðalkeppninni á Cannes, í þar til gerðum gagnrýnendapanel sem birtur er í kringum keppnina. Rétt eins og rúmenska myndin sem rætt var um í byrjun innslags myndi hún líklega standa undir því ef hún væri svona hálftíma styttri – það eru drjúgir kaflar þar sem hún týnir manni aðeins. En þess á milli er hún sannarlega mögnuð.

Við fyrstu sýn virðist þetta frekar hefðbundinn ástarþríhyrningur þriggja ungmenna, en þegar á líður verður hann allt annað en hefðbundinn. Hae-mi og Jong-su, gamlir skólafélagar, hittast á fullorðinsárum og eiga stutt samband þangað til Hae-mi yfirgefur land og fær Jong-su til þess að sjá um köttinn sinn á meðan. Kötturinn er ansi dularfullur – sést aldrei en tæmir samt dallinn sinn og léttir af sér í kattasandinn. En þegar Hae-mi snýr aftur er hún með Ben í för, nýja kærastann sem er ríkari og sjálfsöruggari en Jong-su, sem verður skyndilega þriðja hjól undir vagni.

Sagan reynist svo um sumt ekki síður endurgerð á The Great Gatsby en sögu Murakami, Ben lifir í allt öðrum heimi en Jong-su, peningarnir koma til hans áreynslulaust, rétt eins og lífið sjálft – en það er samt ekki allt með feldu. Það eru einhver vafasöm leyndarmál sem krauma undir niðri og það er bara spurning hvert þeirra er að fela eitthvað, kannski þau öll? Hae-mi segir sögur sem þar sem sannleiksgildið virðist oft fljótandi, Ben segist hafa gaman af að brenna ónotuð gróðurhús en er mögulega að brenna eitthvað annað og þótt við fylgjum Jong-su mestallan tímann er ómögulegt að segja hvort hann sé búinn að missa vitið eða ekki. Dramatískur endirinn gerir svo lítið til þess að minnka dulúðina, við erum skilin eftir með spurningar frekar en svör. Áður höfðum við hins vegar fengið góðan skammt af ægifögru og hráslagalegu landslaginu rétt við norður-kóresku landanmærin þar sem Jong-su býr – sem skerpir enn á pælingum myndarinnar um stéttaskiptingu.

Svarti Klansmaðurinn

Þrátt fyrir ótal misvelheppnuð hliðarspor þá grunar mig að sagan muni á endanum dæma Spike Lee sem einn merkilegasta leikstjóra samtíma okkar – og BlacKkKlansman er myndin sem kemur honum aftur á kortið eftir nokkra lægð. Titillinn er í einu orði og lítið k á milli stóru k-anna, það hefur löngum verið ákveðin uppreisn gegn tungumálinu innifalin í uppreisn Spike Lee gegn næpurhvítum kvikmyndaiðnaðinum.

Hér er hann að segja okkur 40 ára gamla sögu með ótal tengslum við samtímann, hér er hellingur af heilagri reiði og húmor og myndin passlega villt – sumsé Spike Lee upp á sitt besta. Aðalpersónan er hins vegar á mörkunum – blökkumaður sem er miklu hófsamari í sinni pólitík en Lee sem um leið opnar honum leið til þess að verða ekki síðri byltingarmaður. Ron Stallworth var fyrsti svarti lögreglumaðurinn sem starfaði í Colarado Springs og er leikinn af John David Washington, sem jú, er sonur Denzel, sem fyrir rúmum tuttugu árum lék sjálfan Malcolm X fyrir Spike.

Það sem gerist svo er að fljótlega eftir að hann kemst að í rannsóknardeild lögreglunnar svarar hann auglýsingu frá Ku Klux Klan, sem vilja að vísu bara láta kalla sig „Samtökin“ núna, og leikur hvítan rasista nógu sannfærandi í símann til þess að vera boðaður á fund samtakana. Vandinn er auðvitað að hann getur ekki farið sjálfur og í stað hans er samstarfsfélagi hans Flip Zimmermann sendur. Myndin væri raunar hreinlega óraunsæ ef sagan væri ekki sönn – væri ekki einfaldara að láta Flip einfaldlega sjá um þetta allt saman, bæði símtölin og fundinn?

En lögreglan er ekki alltaf rökrétt frekar en aðrar stofnanir og fyrirtæki. Yfirmenn Stallworth höfðu skömmu áður látið hann rannsaka fund róttækra stúdenta þar sem talsmaður Black Panthers var á mælendaskrá – eitthvað sem hvítum yfirmönnum hans finnst stafa möguleg hætta af en Stallworth sjálfum ekki. Hins vegar skynjar hann undirliggjandi hættuna hjá Ku Klux Klan og tekur upp á því upp á sitt einsdæmi að hefja þá rannsókn og fær svo hina í lið með sér þegar hann er kominn aðeins áleiðis. Vissulega hefði verið rökréttara að einhver annar hefði einfaldlega séð um rannsóknina – en vandamálið er að það hefði líklega aldrei gerst, enginn annar hefði verið líklegur til að hafa það frumkvæði sem þurfti.

En þótt Ku Klux Klan sé illa við blökkumenn þá eru þeir ekkert of hrifnir af Gyðingum heldur – og eins og nafnið sem og andlitsfallið gefur til kynna er Flip Zimmermann Gyðingur – og lendir í alls konar klandri gagnvart Ku Klux Klan-liðum vegna þess, þótt hann afneiti eigin gyðingdómi. Sem hann gerir raunar líka að stórum hluta í raunveruleikanum, hann er fæddur Gyðingur en praktíserar ekki og játar fyrir Stallworth að hafa sáralítið hugsað um gyðingdóm sinn fyrr en núna, „en núna hugsa ég stanslaust um þetta,“ bætir hann við. Enda ofsóknir og stanslaus krafa um afneitun ágætis áminning um upprunann.

Rasistarnir eru svo auðvitað óttalega kjánalegir – en um leið óhugnanlegir. Ef myndin hefði verið gerð fimm árum fyrr hefði hún mögulega verið meiri gamanmynd, en núna munum við öll að við hlógum líka að Trump. Myndin dregur ansi skýra línu frá David Duke, smeðjulegum talsmanni klansins, til Trumps – og í magnaðri senu seint í myndinni þá fáum við mannkynssöguna og ekki síður bíósöguna beint í æð frá báðum áttum, á meðan David Duke messar yfir hvítum messar sjálfur Harry Belafonte yfir svörtum – og á meðan rifjar myndin upp tvær vinsælustu myndir kvikmyndasögunnar; The Birth of a Nation og Gone With the Wind, sem eiga rasismann sameiginlegan sem og vinsældirnar.

Sænskt tröllakynlíf

En ef það er erfitt að vera blökkumaður í Bandaríkjunum, hvernig er þá að vera tröll í Svíþjóð? Hún Tina hefur ekki velt því mikið fyrir sér – hún einbeitir sér einfaldlega af vinnu sinni við landamæraeftirlit á sænskri flugstöð þar sem ofurnæmt lyktarskyn hennar gerir hana að dýrmætasta starfsmanninum, hún finnur bókstaflega lyktina af hræðslu og óöryggi mannfólksins sem fer í gegnum öryggishliðið. Hún Tina er aðalpersóna sænsku myndarinnar Gräns, sem vann Un certain regard verðlaunin á Cannes, sömu verðlaun og Grímur Hákonar vann fyrir þremur árum. Það er snúið að þýða titilinn – „Landamæri“ virðist augljós þýðing en myndin fjallar einnig um Mæri, og því mögulega rétt að sleppa land- úr titlinum.

En einkalíf Tinu er hins vegar öllu litlausara en dramað í vinnunni, hún er einfari og á í ríkulegri samskiptum við dýrin nálægt heimili sínu en manneskjur, en hún er afskaplega stórskorin kona með brotna sjálfsmynd eftir einelti í æsku og ástleysi fullorðinsáranna.

En með tilkomu hins dularfulla Vore fer Tinu loks að gruna hið augljósa, að hún sé alls ekki mennsk. Myndin verður þó áfram að mestu á raunsæju nótunum – svona fyrir utan ansi óvenjulegt tröllakynlíf – og til þess að átta sig á tóninum í myndinni er ágætt að muna að hún er gerð eftir smásögu höfundarins John Ajvide Lindqvist, sem skrifaði líka Let the Right One In. Lindqvist er augljóslega áhugasamari um að prófa einfaldlega að máta þjóðsagnaverur við raunveruleikann, frekar en endilega að gera hefðbundar hrollvekjur.

Myndin kallast líka á við X-Mennina bandarísku, stökkbreyttu ofurhetjurnar sem sífellt deila um hvort þeir eigi að vera bandamenn mannfólks eða hvort þeir eigi að líta á mennina sem óvini og óæðri skepnur sköpunarverksins.

En undir niðri kraumar svo einhver óræð hugleiðing um fegurð og ljótleika, því þrátt fyrir að leikararnir sem leika Tinu og Vore hafi þurft að eyða ófáum klukkutímum í förðunarherberginu þá eru þau eftir sem áður jafn trúverðug sem smágerð tröll og sem stórskornar manneskjur, og hverju skiptir tegundin þegar við dæmum þau eftir mennskum fegurðar- og hegðunarstöðlum?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn birtist upphaflega í Tengivagninum á Rás 1 þann 11. ágúst 2018.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson