Þú ert sex ára í aftursæti bíls og veist ekkert hvert förinni er heitið. Enda heimurinn að mestu óuppgötvaður þegar þú ert sex ára og hinir fullorðnu ráða ferðinni. Aðalmálið er að þú, sem áhorfandi, ert þarna í bílnum. Manst eigin sex ára barnæsku – þótt þitt bernskueitís hafi verið órafjarri ameríska Biblíubeltinu sem kóreska fjölskyldan í Minari er að flytja til.

Tónskáldið Emile Mosseri á hér ansi stóran hluta heiðursins – tónlistin við Minari er með bestu tónsmíðum sem ég hef heyrt í bíó nýlega og á það sameiginlegt með tónlist Mosseri við The Last Black Man in San Fransisco að aðalerindi tónlistarinnar er ekki að leiða þig í gegnum söguna eða að vera áhersluaukning á ákveðnar tilfinningar, eins og algengast er með kvikmyndatónlist, heldur snýst hún fyrst og fremst um að koma þér úr sófanum eða bíósætinu inní veruleika myndarinnar. Hún er sándtrakk fyrir ákveðin tíma og ása.

Minari er innflytjendasaga. Saga um hjón og tvö ung börn þeirra – og svo bætist amman við þegar á líður. Foreldrarnir Jacob og Monica hafa eytt árunum eftir að þau komu til Ameríku við kyngreiningu kjúklinga, örlög sem reynast karl-kjúllunum töluvert grimmari en kvenfuglunum. Jacob hefur fengið nóg af þessu lífi og vill gerast eigin herra – þau komast aftur í sambærilega vinnu á nýja staðnum, en núna eyðir Jacob öllum frístundum sem og öllu sparifénu í að byggja upp landbúnað frá grunni á landarskika í Arkansas – og rækta kóreska ávexti fyrir ört stækkandi innflytjendasamfélag.

Börnin eru í upphafi leiðsögumenn okkar um þessa veröld – enda sagan lauslega byggð á bernskuminningum leikstjórans Lee Isaac Chung. En hægt og rólega færist fókusinn á þá fullorðnu – og maður getur vel ímyndað sér að í ferlinu hafi forvitni hins fullorðna Chung kviknað fyrir alvöru um hvað foreldrar hans voru að bardúsa þegar þeir voru á hans reki. Það er eins og krakkarnir séu að uppgötva strögl foreldranna, fórnirnar sem þau þurftu að færa.

Rasismi sem slíkur kemur merkilega lítið við sögu í myndinni. Sá rasismi sem hér birtist er miklu frekar klaufalegur en illgjarn; ókunnugur strákur segir vissulega eitthvað passlega rasískt um augun á David litla – en biður hann svo bara að koma að leika strax á eftir.

En rasisminn er hins vegar miklu frekar stofnanavæddur og myndin sýnir ágætlega erfiðleikana við það að skapa sér nýtt líf í nýju landi. Hún fjallar um skortinn á tækifærum þegar þú hefur ekki eytt áratugum í að búa þig undir fullorðna framtíð í Ameríku, um einangrunina sem þú skynjar þegar þú ert öðruvísi en allir hinir; það þarf enginn að minna þig á það.

Hún fjallar líka um stoltið. Hvorki Jacob né Monica elska að kyngreina kjúklinga – en hún saknar félagslífs stórborgarinnar sem þau yfirgáfu, það skiptir Jacob hins vegar meira máli að vera eigin herra. Nýja stritið er seint að fara að verða auðveldara en gamla stritið, en þetta er hans strit með hans markmið.

Steven Yeun leikur pabbann Jacob og það er forvitnilegt að velta fyrir sér Jacob í samhengi við frægasta hlutverk Yeun fyrir Minari; hinn dularfulla Ben í Burning. Þar var hann veraldarvani „vestræni“ Kóreubúinn, eitthvað sem er merkilega algengur karakter í asísku bíói. Það er raunar sjaldnast orðað beint, en það er Ameríkulykt af þessum persónum – eitthvað órætt, hversdagslegt og oft létt-ógnandi sjálfsöruggt vestrænt fas sem ákveðnar persónur bera með sér.

En ef þú sendir þessa sömu persónu til Ameríku hverfur sjálfsörugga fasið og skyndilega verðurðu fyrst og fremst Kóreubúi í útlöndum. Sérstaða þín verður önnur, ekki sú sem þú valdir þér heldur sú sem er þér ásköpuð.

Persónurnar eru allar forvitnilegar, en best af öllum er sannarlega amman sem kemur og hristir upp í hlutunum. Amma Grallari eða Amma Rebel hefði hún Amma Soon-ja verið kölluð í íslenskum barnabókum, hún er ekki þjökuð af áhyggjum eins og restin af fjölskyldunni – eða kannski skynjar hún einmitt áhyggjurnar þrúgandi og hvernig þær eru að fara með fjölskylduna og einsetur sér því að létta á stemmningunni og plata David og Önnu til að leika sér meira og hafa minni áhyggjur af gamla settinu.

Youn Yuh-jung er hreint stórkostleg sem amman, vann verðskuldaðan Óskar þar, og það sést langar leiðir að þarna er kvikmyndastjarna á ferð – sem hún er auðvitað í Kóreu þótt restin af heiminum sé í flestum tilfellum að uppgötva hana í þessari mynd. Hún hætti raunar að leika ung, aðeins 27 ára gömul, þegar hún flutti til Ameríku með eiginmanninum. En svo skildu þau og áratug seinna byrjaði hún að leika aftur – og endurkoman gekk vonum framar, þrátt fyrir umdeildan skilnað.

Togstreita Jacobs um að fylgja ástríðunni eða setja fjölskylduna í forgang speglast svo í því hvernig Minari varð til. Chung hafði leikstýrt fjórum myndum og þótt þær hefðu fengið ágæta dóma höfðu þær ekki slegið í gegn. Hann rekur það í pistli í LA Times hvernig hann var um það bil að fara að fastráða sig í traust kennslustarf til að tryggja hag fjölskyldunnar – en hafði örfáa mánuði til að skrifa eitt handrit í viðbót. En hugmyndirnar komu ekki fyrr en hann lokaði augunum og skyndilega hugsaði hann: „Willa Cather.“

Hann þekkti merkilegt nokk lítið sem ekkert til skáldkonunnar – en áhuginn glæddist þegar hann komst að því að hún hafði látist fyrir rúmum 70 árum og verk hennar voru þar með nýfallinn úr höfundarrétti. Public domain er enda eina von fátækra handritshöfunda sem þurfa að leita fanga annað til að fá hugmyndir. Hann fór því á bókasafnið og fann My Ántonia, frægustu bók Willu. Hann heillaðist af þessari innflytjendasögu – Ántonia er bæheimskur innflytjandi í Virginíu 19. aldar – og var staðráðinn í að skrifa upp úr henni handrit. Þangað til að hann komst að því að Cather vildi alls ekki að bækurnar hennar yrðu kvikmyndaðar – enda voru þær tvær bíómyndir sem voru gerðar eftir verkum hennar á meðan hún lifði báðar afleitar. Tæknilega séð gat Chung vissulega gert það sem honum sýndist með bókina, en hugboðið hafði leitt hann þetta langt og hann var ekki að fara að ganga gegn óskum látinnar konu.

Þess í stað varð sagan honum innblástur til þess að skrifa sína eigin innflytjendasögu, um aðra öld og aðra fjölskyldu, sem hann þekkti öllu betur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson