Blaðið sem ég skrifaði fyrir fór á hausinn í fyrra. Það voru skrifaðir ófáir dálksentimetrar um það – en ég man samt að Viðskiptablaðið var eitt um það að leyfa mér að vera með í gjaldþrotinu – mér og ótal öðrum, sem vorum að ég best veit bara nefnd í þessari litlu klausu:

„Heimildir Viðskiptablaðsins herma að verktakar hafi ekki fengið greitt um nokkurra mánaða skeið.“

Þetta var nefnilega í eina skiptið í fréttum af þessu Fréttatíma-máli öllu sem ég sá minnst á okkur frílansarana, þótt í framhjáhlaupi væri.

Við erum vön því að þurfa stundum að bíða eftir greiðslum vikum og mánuðum saman, og ekki bara hjá Fréttatímanum – og í ofanálag höfum við enga tryggingu á borð við Tryggingasjóð launa. Ég veit ekki til þess að nokkur frílansari hafi fengið borgað eftir að blaðið fór í gjaldþrotaskipti. Á meðan er það frétt einn, tveir og bingó ef launagreiðslur launamanna dragast um fáeina daga.

Við frílansararnir erum nefnilega í flestum lagalegum skilningi endalaust skilgreindir sem annars flokks borgarar – og hér kem ég að aðalatriðinu: okkur skortir verkalýðsfélag. Jú, jú, ég gæti gengið í Blaðamannafélagið eða einhver þýðendasamtök – en flest verkalýðsfélög eyða, skiljanlega kannski, mestallri sinni orku í hagsmuni almenns launafólks. Auk þess sem frílansarar eru ekkert endilega alltaf að vinna við það sama, mörg okkar þyrftum okkar hálfa tylft verkalýðsfélaga til að dekka öll smáverkefnin sem við tökum að okkur.

Þannig deili ég hagsmunum miklu frekar með frílönsurum í öðrum stéttum heldur en öðrum blaðamönnum eða þýðendum sem eru í hefðbundinni launavinnu og líkast til er eina lausnin að standa saman í baráttunni.

Þetta getur verið flókið – verktaki er til dæmis ekki það sama og verktaki – byggingaverktakar sem velta milljónum eiga lítið sameiginlegt með einyrkjum sem eru oft að harka til að reyna að ná lágmarkslaunum.

En við þurfum að fara að verja hagsmuni okkar – og það verður örugglega sífellt brýnna þegar nauðsyn skrifstofunnar minnkar sífellt minna og húsnæði verður dýrara og dýrara, frílönsurum á bara eftir að fjölga en ekki fækka á næstu árum og áratugum.

Þess vegna geta þetta líka verið hagsmunir launafólks – þið vitið aldrei nema vinnuveitandinn hætti þessi skrifstofustússi fljótlega.

Enda er frílans í grunninn um margt sniðug hugmynd, það er fornaldarhugsun að þurfa að binda alla vinnu við skrifstofu og bæjarfélag – en lagaumhverfið í kringum þetta er meingallað og það þarf að laga það sem fyrst. Áður en við verðum öll orðin frílansarar.

Um leið þurfum við að glíma við ansi þröngar og gamaldags skilgreining á láglaunastörfum – þar sem menntafólk í hugvísinda- og félagsvísindastétt er jafnvel kölluð elíta, og stéttvitund okkar er svo veik að við kunnum ekki við að mótmæla.

Núna er ég með háskólagráður í þremur mismunandi hug- og félagsvísindum, hef starfað sem blaðamaður, kennari, þýðandi, rithöfundur og textasmiður víða – og svo þegar ég þurfti smá pásu frá því harki fékk ég mér næturvinnu-skúringadjobb í ferðamannabransanum í fyrrasumar. Ég hef aldrei nokkurn tímann á ævinni verið með nærri því há laun. Hataði djobbið, vissulega – en djöfull var næs tilfinning að þurfa ekki að hafa áhyggjur af reikningum um hver einustu mánaðarmót.

Og þessi hópur – listamenn, hug- og félagsvísindamenntað fólk – og sérstaklega frílansararar í þeirra hópi, þetta verður mjög líklega sá láglaunahópur sem stækkar mest á 21 öldinni. Nú þegar búum sum okkar í útlöndum út af því (meðal annars) að það er eina leiðin til að lifa af íslensku frílansi. Nema auðvitað ef við gerum eitthvað í hlutunum.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson