Þau syngja saman, mest þó til skiptis -en þau sjást þau aldrei saman. Altént ekki í myndbandinu, þau eru filmuð til skiptis – en undir lokin þá virðist sem þau séu samt sitt hvorum megin við sömu fjölförnu götuna. Mögulega eru þá bara sjö sekúndur á milli þeirra?

Þetta eru Youssou N‘Dour og Neneh Cherry, Senegalskur söngvari og sænsk söngkona, ættuð frá Sierra Leone. N‘Dour syngur einmitt í byrjun að einhver sjái hann ekki úr fjarlægð, sjái hann ekki brosa.

Þessu þurfti ég vissulega að fletta upp með hjálp þýðenda internetsins – N‘Dour syngur nefnilega til skiptis á frönsku, ensku og wolof, vestur-afrískt mál sem gaf heiminum orðið yfir banana. Cherry syngur svo eingöngu á ensku, það er smá synd að sænskunni hafi ekki verið bætt við þennan skemmtilega tungumálausla, sem nær eiginlega hápunkti sínum þegar N‘Dour syngur orðin „million voices“ með það framandlegum áherslum að það tekur mann smá tíma að átta sig á að þetta er enska.

Titillinn ku merkja þessar sjö sekúndur eftir að börn fæðast og þau eru ómeðvituð um flónsku heimsins. Eftir að ég heyrði skýringuna varð ég samt mest forvitinn um hvernig þetta er mælt – og hvað gerist á áttundu sekúndunni. Er það þá sem þau opna augun? Sjá ljósmóðurina eða foreldrana? Ég veit það ekki.

Við vitum hins vegar flest að N‘Dour tryllti gesti Hörpu í síðustu viku – en ég er samt aðallega að skrifa þetta sem afsökun til að rifja upp hvað Cherry er frábær leikkona, já, eða sögumaður. Hún var aðalpersóna og sögumaður myndarinnar Stockholm, My Love – og er göldróttur sögumaður, mögulega akkúrat rétta hlutverkið fyrir söngvara – að nota röddina, fara með dáleiðandi texta um leið og hún leiðir mann um götur Stokkhólms.

Ég skrifaði aðeins um myndina hér – en svo getiði líka bara horft – og ekki síður hlustað – á stikluna til þess að skilja hvað ég er að fara.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson