Það þótti bulli og þvaður
að ætla verða listamaður
“Það er ekki hægt að verða,
bara vera, þannig er þa’”
sagði fólk sem ekkert vissi,
en gat huggað sig við missi.
„Og svo þarftu að vera þjáður,
frekar illa fjáður
og aldrei, helst, alsgáður.
Já og bera þunga byrði
það er inntökuskilyrði.
Vera óhræddur við mistök
en gera þau samt ekki
og mála svo á mannorð sitt
myndarlega flekki.
Hafa alltaf af sjálfum sér
marga sögu að segja
og vita að lífið það er tilgangslaust
ef þú ert ekki að deyja.
Svo fátt eitt hér sé nefnt,
ef loforðið um listamann
í þér skal vera efnt.
Því þó þeir séu aumingjar
sem veigra sér við vinnu
og skortir alla sinnu,
þá endast ósköp fáir þar til lengdar
í að finna alltaf til svengdar
og á endanum þá er það kannski
bara þessi sterki
sem meikar þessa fokking listaverki.“
Texti: Vilhjálmur B. Bragason
Vilhjálmur mun lesa upp ljóð á morgun, sunnudaginn 2. september kl. 14, á Listasafni Akureyrar. Upplesturinn er hluti af upplestrarröðinni Til málamynda, sem verður í Listasafni Akureyrar alla sunnudaga í september klukkan 14, þar sem ljóðskáldin munu eiga í samtali við valin verk og reyna að búa til nýja tilfinningu, nýja upplifun, nýtt pláss í huga þeirra sem vilja ljá augu og eyru. Hér má lesa nánar um upplestrarröðina.