Þessi saga hefst í lok ágúst ágúst og eftir gott upphitunarljóðakvöld í Punctum (myndir hér) kvöldið áður var tímabært að pakka og taka ljóðalestina til Kraká. Þetta var stutt helgarferð og ég reiknaði ekki með neinum tíma til lesturs – en af rælni labbaði ég fram hjá ljóðabókahillunni og sá þar Útópíu á áberandi stað, bók sem ég hafði ekki lesið síðan í menntaskóla, en ég hafði verið á leiðinni að lesa þessa mögnuðu ljóðabók Wisłöwu Szymborska aftur – svo ég ákvað að grípa hana með, enda alltaf nauðsynlegt að taka eitthvað pólskt til Póllands. Með Perluna á forsíðunni, þegar Perlan var ennþá ný. Ætli Wisława hafi náð að komast í Perluna?

Kom svo við og fékk mér bita á nálægum skyndibitastað og rak þar augun í ævaforna bók eftir Karolinu Svetlá, nítjándu aldar tékkneskt skáld sem ég þekki fyrst og fremst úr landslagi – uppáhaldspöbbagatan mín í miðbænum er skýrð eftir henni, þar sem maður getur fundið Duende og Standard og fleiri góðar knæpur (já, og líka Hemingway Bar, sem skuldar höfundinum afsökunarbeiðni fyrir að sökka svona mikið og okra svona mikið).

Svo kem ég í ljóðalestina þar sem allra þjóða kvikinda eru samankomin og eiga það helst sameiginlegt að fremja ljóðlist eða tengjast henni á einhvern hátt og búa í eða tengjast einhverju Visegrád-landanna. Sumsé kokteill af Tékkum, Slóvökum, Ungverjum, Pólverjum og okkur expötunum (sjá nokkrar epískar myndir hér og hér).

Við höfðum bókað heilan vagn undir okkur og á leiðinni í lestina fékk ég þá flugu í hausinn að fremja þann ljóðagjörning að kvelja saklaust fólk í lestinni með því að lesa upp ljóð eftir Wisłöwu fyrir þau – á íslensku.

Ég nýsestur þegar ég opna bókina og hvað haldiði – þetta var engin tilviljun. Wisława varð hundrað ára í ár og fæddist og bjó vitaskuld alla sína tíð í Kraká. Og fyrsta ljóðið?

Í innsigluðum lestarvögnum

aka nöfnin yfir landið.

Það byrjar svona. Þetta er öðruvísi lest en okkar, miklu slavneskari til að byrja með – áður en allir útlendingarnir flæddu yfir gamla austrið:

Gefðu syninum slavneskt nafn

því hér eru höfuðhárin líka talin

því hér er skilið milli góðs og ills

eftir nöfnum og lögun augnloksins.

Þetta er safnfrit, ég veit ekki ártalið, bara að þetta er ort á milli 1952, þegar hún byrjaði að yrkja, og 1989, þegar sænska safnritið sem Þóra Jónsdóttir snaraði úr var gefið út. Hvernig var útlendingaumræðan í Póllandi þegar þetta ljóð var ort? Ég hef ekki hugmynd, en kannski sá Wisława það fyrir, fann undiröldu sem myndi skapa það landamærahelvíti sem Lúkasjenkó bjó til og Agnieszka Holland fær nú að finna til tevatnsins ú af, því þessi virtasti nútímaleikstjóri Póllands dirfðist að fegra ekki hlut pólskra yfirvalda í málinu.

En þetta er fyrst og fremst ljóð um nöfn, nöfn sem eru ásköpuð örlög – „Þú ert nafn dæmt til ósigurs“ segir um Davíð og „nafnið Ísak syngur utan við sig.“

Bíddu, lestin er innsigluð. Hvaða lest er þetta? Lest frá 1940? Lest á leiðinni í næsta gúlag? Það er einhver ógn og hversdagsleiki í þessari lest, hún er venjuleg en samt ekki, kannski grunar engan neitt ennþá.

Svo heldur ljóðskáldið áfram, talar við steina og finnur ástina og gleðina:

Gleði skáldsins.

Tæki til að stöðva tímann.

Hefnd dauðlegrar handar.

Það er einhver leikur í þessum ljóðum, en alvarlegur leikur – bernsk og djúp ljóð í senn – og þarna kemur annað lestarljóð! Járnbrautarstöðin heitir það og byrjar á komu ljóðskálds til borgarinnar N. og ég man ekki eftir neinni borg sem byrjar á N í nágreninniu, kannski eitthvað í Sovétinu, kannski Narva eða Novgorod?

Brautarstöðin í borginni N.

stóðst með prýði

próf í hlutlaustri nærveru.

Nei, þetta eru ekki Narva og Novgorod – þar stoppar fólk stundum. Þetta er ein af þessum lestarstöðum sem engin fer út hjá, ein af þessum lestarstöðum sem er bara nafn á skilti sem maður sér út um glugga. Hugsaði ég ómeðvitaður um að seinna um helgina átti ég eftir að stoppa á einmitt einni slíkri lestarstöð.

Og hér líkur prósahluta þessarar ferðasögu. Við Wisława ákváðum að skrifa bara ljóð um ferðina – og þið getið reynt að nota myndirnar til að ráða í ljóðið ef þið eruð mjög forvitinn … (hér koma myndirnar frá Kraká (dagur / kvöld) og hér koma myndirnar frá heimferðinni).

Wisłöwuborg

i

Ljóðalestin mætir tímanlega

þrátt fyrir endalaus mótmæli

smyglaða drykki og

morðið á hinum dularfulla

ökumanni veitingavagnsins

Hún rennir aftur inn í bæinn

með ástarsorgir og

timburmenn

og mánudaginn vofandi yfir

Wisława hringir sig inn veika

við erum föst í ljóðinu hennar

ii

Beljakinn gefur okkur rauðvín

í beljakaflöskum

og fer út í smók

þótt lestin sé á ferð

því hann veit að þetta ljóð

er ekki

í réttri tímaröð

þótt það þykist stundum vera það

draugur ódauðrar kærustu vofir yfir honum

öll okkar bestu ljóð

enda sem pappírsskutlur

sem ljóðahatandi ríkisstjórnir

skjóta niður

Hvað myndi Wisława gera?

Nú,

búa til pappírsskutlu líka

hvíslar hún

að handan

iii

Bros hennar slekkur ljósin

liðamótalausa stelpan kveikir á sígarettu

með tánum

á meðan ljóshraðastelpan

stelur öllum okkar leyndarmálum

og Egyptinn heldur áfram

að hverfa

inn í mismunandi grafhýsi

einhver helti bjór á tarot-spilin

og setti örlög okkar allra

í uppnám

iv

Það reykir enginn

eins og hún

Hún starir á mig,

manar mig:

skrifaðu um þetta

Hvað myndi Wisława skrifa?

v

Pirraðar pólskar kerlur

vekja mig

segja mér að skrifa þessi ljóð

í næsta hipstera-kaffi

og láta heiðarlegt

vinnandi fólk

í friði

Í borginni

verð ég ástfanginn

af löngu dauðum

kvikmyndastjörnum

spila körfubolta með gíraffa

stel hundrað ára hjóli

finn lítinn fugl

sem er hræddur við rigninguna

mann sem er hræddur

við myndavélar

útrignt brúðkaup

útljósmyndað brúðkaup

Dádýr mælir líkamshitann hjá mér

langafi hennar og langamma

stara á mig

af veggnum

Hún pantar sér

hjólaskauta

með háum hælum

vi

Ég held í nýtt þorskastríð

á meðan öldungar gera uppreisn

og moldarmenn rísa úr jörðu

á meðan Fu Manchu

mundar myndavélina

Segið nei við lestum!

Segið já við einkaþotum

og álverum

og því að selja alla

fótboltamennina

til Sádí-Arabíu

Hún endurskapar

femínisma

með fimmtu bylgju ritvél

Við pöntum 500 ára gamlar pizzur

og bjór hjá sporvagninum frá Kyiv

Sporvagninn slapp úr stríðinu

stríð eru ekki staður fyrir sporvagna

segir hann mér

Wisława kinkar kolli og skenkir mér meiri bjór

segir mér að tala við hana

áður en hún stelur sálinni á mér

og fer með hana yfir næstu landamæri

Pólitískir andstæðingar verða ástfangnir

og mynda ríkisstjórn

vitandi að vínkjallararnir þeirra

munu endast lengur en hugsjónirnar

Ég mynda þig

að mynda hann

og Wisława skrifar

um hvernig fólk er fallegast

þegar það horfir á aðra

vii

Segir mér það of seint

segir mér það of snemma

segir mér það alls ekki

Hættu að segja mér

Ég segi ekkert

hef ekkert að segja

Allt þetta mikilvægasta

er ritskoðað

eða rækilega dulkóðað

til þess að vernda

þá seku

Bandið splundrast

bikararnir eru allir tæmdir

kreditkortin örmagna

og enn höfum við ekki fundið líkið

En við munum allavega alltaf

eiga okkar Bohumín

Viltu meira Menningarsmygl?
Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund
og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Myndaalbúm sem koma við sögu: Punctum / Ljóðalestin 1 og 2 / Kraká – dagur / Kraká – kvöld / Heimferð

Texti: Ásgeir H Ingólfsson