Ég sat uppi á kletti á Grænlandi, tíu alveg að verða ellefu, og hugsaði um Ísfólkið. Hvað nákvæmlega man ég ekki – en þessi minning situr alltaf í mér, mögulega af því ég var kominn ennþá norðar en ég er vanur – Ísfólkið virtist alltaf sækja norðar og norðar, lengra inní kuldann.

Eða kannski var ég bara nýbúinn að klára bók númer 40 – og hugsaði með mér: hvað á ég eiginlega að gera núna? Ég var sumsé búinn að lesa allar 40 Ísfólksbækurnar áður en ég varð ellefu – búinn að ná í skottið á útgáfunni og þurfti núna að bíða í nokkra mánuði eftir 41. Og 42 og 43 og 44 og 45 og 46 og 47.

Þetta er auðvitað ekkert merkilegt, Margit Sandemo, konan sem skrifaði bækurnar, hafði klárað allar bækur Shakespeare þegar hún var átta ára. Það var eitthvað göldrótt við þessar kápur, sem ég skoðaði í hvert skipti sem ég komst í tæri við þær – og káputextarnir lýstu einhverjum heillandi háska. Virkaði samt aðeins of fullorðins – þannig að það var ekki fyrr en systir mín byrjaði að lesa bækurnar – og tala um þær við hvert tækifæri auðvitað, sem ég féll.

Sögurnar gerast mest í Noregi og nágrannalöndum, eitthvað á Íslandi – og besta persónan er fjarverandi mestallan bókaflokkinn. Þengill hinn illi er vitaskuld eitt magnaðasta illmenni bókmenntasögunnar – en er búinn að liggja í dvala einhvers staðar í fjarskanum í nokkrar aldir þegar bókaflokkurinn byrjar. En við heyrum nóg af honum, sögur sem leyfðu manni að dreyma martraðardrauma um þetta stórkostlega illmenni. Margra alda gamall, sonur mongólskrar seiðkonu og japansks seiðkarls. Tan-ghil. Fjarskinn í nafninu, hann var svo vondur að hann drap föður sinn tveggja ára og drakk af lindum illskunnar til að öðlast eilíft líf og taka yfir heiminn. Lindirnar gera hann voldugan en ljótan, samanrekinn með fuglsgogg í nefs stað og  klær fyrir hendur.

Erfðasyndin og afdalakynlíf

En sögurnar fjalla þó fyrst og fremst um afkomendurna, Ísfólkið. Þeim er áskapað að vera ill, eða öllu heldur – ein/n í hverri kynslóð erfir illskuna og yfirnáttúruna. Já, og gulu augun. Þær fjalla um erfðasyndina – en kannski ennþá frekar erfðasynd einstakra þjóða eða fjölskyldna, sem alltaf þurfa að draga sína aldagömlu djöfla.

En þær fjalla ekki síður um frjálsan vilja – því það er hægt að yfirvinna bölvunina, það er hægt að finna það góða í sér þótt maður hafi fæðst merktur illskunni. Það reynist svo helsta spennan í flestum bókunum – er hægt að bjarga þessum guleygðu börnum? Eins og nafnið gefur til kynna þá var Þengill hinn góði frumkvöðull í þessum efnum, hann sigraðist meira að segja á nafninu líka. Þessi bannfærðu guleygðu börn verða svo í flestum tilfellum hetjur sagnanna – og það er eitthvað hollt fyrir barnsálina að lesa bækur þar sem sumir eru fæddir vondir og þurfa að yfirvinna illskuna, frekar en að illskan sé alltaf eitthvað sem maður sleppur við ef maður passar sig bara á henni.

Margit smyglaði nefnilega ýmsu inní barnsálina. Í gegnum drauga, nornir og forynjur tókst henni til dæmis að segja ýmislegt forvitnilegt um trúmál, sem hentaði ágætlega krakka sem hneygðist til trúleysis en heillaðist samt af yfirnáttúru. Í heimi Margit Sandemo voru allir guðir til en enginn þeirra var yfirnáttúrulegur, þeir voru breyskir og voru til af því við bjuggum þá til – ef ég man rétt. Þetta var einhvern veginn svona allavega – og svo man ég þegar ég las þá arfavondu bók Söguna af Pí, þar sem sami boðskapur er gerður ódýr og sjoppulegur.

Svo var hún auðvitað frábærlega myndrænn höfundur – þessi gulu augu glöddu mig og köttinn minn, enda þótt kettir séu auðvitað aldrei vondir þá er frjáls vilji þeim enn áskapaðri en flestar aðrar skepnur heimsins.

Ég var svo minntur á Ísfólkið þegar ég sat í flugvél og fletti í tímaritinu sem ég hafði keypt í fríhöfninni og las pallborðsumræður þar sem George Clooney, Charlize Theron, Viola Davis, Christopher Plummer, Michael Fassbender og Tilda Swinton voru öll fengin til að svara spurningunni „hver var fyrsta kynlífsupplifun ykkar í bíó?“ Og ég hugsaði með mér að auðvitað þyrfti ég að vera tilbúinn með svar ef Newsweek myndi nú hringja í mig líka – en auðvitað datt mér bara Ísfólkið fyrst í hug. Og ég vil þakka starfsfólki Amtsbókasafnsins fyrir að vera ekki að gera neinar athugasemdir við að tíu ára gamalt barn væri ítrekað að fá lánaðar bækur stútfullar af kynlífslýsingum úr afdölum Noregs.

Ég rétt náði líka að lesa bækurnar í tíma – þegar ég var orðinn þrettán ára voru jafnaldrarnir byrjaðir að lesa þær – eða öllu heldur jafnöldrurnar, fyrst og fremst stelpurnar, Ísfólkið varð um tíma rækilega stimplað sem stelpubækur – en auðvitað kom í ljós á trúnóum fullorðinsáranna í bókmenntafræðinni að við strákarnir höfðum flestir lesið þetta líka.

Margit var auðvitað ekki fullkominn höfundur. Ég veit ekki hvað mitt fullorðna sjálf myndi finnast um bækurnar ef ég læsi þær aftur – en ég man að einn helsti kosturinn varð iðullega að veikleika undir lok hverrar seríu – og það ágerðist bara í Galdrameistaranum seinna meir og varð svo til þess að ég og að ég held flestir gáfust upp á Ríki ljóssins.

MargitSandemo
Síðasta bókin – með Margit sjálfri á kápunni.

Ímyndunaraflið tók völdin – og hún missti söguna úr höndunum, offlæði af persónum og yfirnáttúru varð til þess að öll náttúrulögmál voru tekin úr sambandi. Og núna er Margit handan þessara náttúrulögmála, sem hún tók hvort eð er aldrei of alvarlega – og rétt að kveðja og segja einfaldlega: takk fyrir bækurnar. Og galdrana.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson