ÞórdísBradburyÞað var nautn að kveikja í og sérstök ánægja að sjá hluti étna, að sjá þá sortna og breytast. Með látúnsstútinn í greipunum, með þessa miklu kyrkislöngu að spýta sínu eitraða bensíni yfir heiminn, dundi blóðið í höfði hans og hendur hans voru hendur einhvers æðislegs hljómsveitarstjóra að stjórna öllum blússandi og brennandi sinfóníunum sem gleyptu í sig mannkynssöguna og breyttu minjum hennar í sótsvartar rústir.

Með táknræna hjálminn með töluna 451 á sinnulausu höfðinu og augun sem gula loga við tilhugsunina um hvað kæmi næst, smellti hann kveikjaranum og húsið hoppaði upp í ætandi eldi sem sveið kvöldhimininn gulan og rauðan og svartan. Hann stikaði í eldflugnasveimi. Eins og í gamla brandaranum langaði hann mest að stinga sykurpúða á teini inn í ofninn, meðan flögrandi bækur með dúfnavængi dóu á veröndinni og í garði hússins. Á meðan bækurnar hurfu í neistaflugi og vindurinn, svartur af bruna, feykti þeim á brott.

Montag glotti hörkulegu glotti allra manna sem sviðna af eldinum og hörfa undan logunum.

Hann vissi að þegar hann kæmi aftur á stöðina, gæti hann blikkað sig í speglinum, þennan sótsvarta, sviðna skopleikara. Síðar, þegar hann færi að sofa, myndi hann í myrkrinu enn finna fyrir þessu glóandi glotti í stífum andlitsvöðvunum. Það fór aldrei neitt, þetta glott og hafði aldrei farið neitt, það hann mundi.

Hann hengdi upp járnsmiðslitan hjálminn og fægði hann, hengdi eldfasta jakkann vandlega upp, fór í stórkostlega sturtu og gekk svo flautandi eftir efri hæð stöðvarinnar með hendur í vösum og lét sig falla niður um mannopið. Á síðustu stundu, þegar slys virtist óumflýjanlegt, tók hann hendurnar úr vösunum og stöðvaði fallið með því að grípa um súluna. Hann rann það sem eftir var með miklu ískri og staðnæmdist einungis þumlungi frá steinsteypta gólfinu niðri.

 

Eftirfarandi texti er úr væntanlegri þýðingu Þórdísar Bachmann á Fahrenheit 451. Þetta er upphafstexti bókarinnar, úr fyrsta kaflanum sem nefnist Arininn og Salamandran. Myndin er úr kvikmyndaaðlögun François Truffaut á bókinni.