Tvöfaldar tjónabætur / Double Indemnity

Þýðing: Þórdís Bachmann

Höfundur: James M. Cain

Og ekki leið á löngu þar til það rann uppfyrir mér, að þessari konu var kengsama um Bílaklúbbinn. Eiginmanninum var það kannski ekki, en henni var það. Það var eitthvað annað í gangi hérna og þetta hjal var ekkert annað en fyrirsláttur. Ég bjóst við að það yrði einhvers konar tillaga um að skipta umboðslaununum á milli okkar, svo hún gæti kannski fengið tíu dali út úr því án þess að maður hennar vissi. Það er mikið um slíkt. Og ég var farinn að velta fyrir mér hvað ég ætti að segja við hana.

Heiðvirðir tryggingasalar láta ekki flækja sér í slíkt, en hún var að ganga fram og til baka um stofuna og ég sá eitt sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Undir þessu bláa heimadressi var vaxtarlag til að gera mann brjálaðan og ég vissi ekki hversu sannfærandi ég myndi hljóma, þegar ég færi að útskýra hinar ströngu siðareglur tryggingabransans fyrir henni.

Skyndilega leit hún þó framan í mig og ég fann hroll skríða eftir bakinu og alveg upp í hársrætur. „Ertu líka með slysatryggingar?“

Kannski leggið þið ekki sama skilning í þessa spurningu og ég geri. Sjáðu til, í fyrsta lagi eru slysatryggingar seldar, en ekki keyptar. Maður er spurður um aðrar tegundir trygginga, bruna, innbrota, jafnvel líftryggingar, en aldrei um slysatryggingar.

Þær eru einungis seldar þegar tryggingasalinn selur þær og það er mjög undarlegt að vera spurður um þær. Í öðru lagi er það þannig, að þegar einhver myrkraverk eru í gangi, er slysatrygging það fyrsta sem þeim dettur í hug. Fyrir hvern greiddan dollara, þá er tryggingarhámarkið hærra á slysatryggingum en nokkrum öðrum tryggingum. Og það er eina tryggingin sem hægt er að fá án þess að sá tryggði viti nokkurn skapaðan hlut um það. Slysatrygging krefst engrar læknisskoðunar. Þegar um slysatryggingu er að ræða vill tryggingafyrirtækið bara fá peningana og margur maðurinn gengur um í dag, sem er ástvinum sínum meira virði dauður en lifandi, nema hann veit það ekki sjálfur.

Svo, eftir drykklanga stund, féll sprengjan.

„Hr. Huff, gæti ég tryggt hann, án þess að trufla hann með því? Ég á peninga og gæti borgað þér fyrir það og hann myndi ekki vita það, en þá væri ég að minnsta kosti laus við þessar áhyggjur.“

Það var ekki hægt að misskilja hvað hún átti við, ekki eftir fimmtán ár í tryggingabransanum. Ég drap í sígarettunni, svo ég gæti staðið upp og farið. Ég ætlaði að koma mér út og sleppa þessari endurnýjun og öllu öðru sem þessa manneskju snerti. En ég gerði það ekki. Hún leit á mig, svolítið hissa og andlit hennar var um handarbreidd frá mínu. Það sem ég gerði, var að taka utan um hana, lyfta undir hökuna á henni og kyssa hana fast á munninn. Ég titraði eins og hrísla. Hún leit fyrst kuldalega á mig og lokaði svo augunum, dró mig að sér og kyssti á móti.

Það rigndi þetta kvöld, svo ég fór ekki út. Ég kveikti upp í arninum og sat þarna, að reyna að reikna út hvar ég stæði. Vitanlega vissi ég hvar ég stóð. Ég stóð á barmi hyldýpis og horfði yfir brúnina og sagði sjálfum mér aftur og aftur að koma mér í burtu og það í einum logandi hvelli og koma aldrei aftur. Þetta var þó það sem ég sagði við sjálfan mig. Það sem ég gerði, var að halda áfram að kíkja yfir þessa brún og allan þann tíma sem ég var að reyna að hörfa frá henni, var eitthvað í mér sem mjakaði sér nær og nær, eins og til að reyna að sjá betur niður.

Rétt fyrir níu var dyrabjöllunni hringt. Ég vissi hver það var um leið og ég heyrði hringinguna. Hún stóð þarna í regnkápu og með gúmmíhettu, með regndropana glansandi á freknunum. Þegar ég náði að skræla af henni regnkápuna, var hún í peysu og buxum, bara asnalegum Hollywoodfatnaði, en hann var öðruvísi á henni. Ég fór með hana að arninum og hún settist. Ég settist við hliðina á henni.

„Hvernig fékkstu heimilisfangið mitt?“ Það sló mig, jafnvel þá, að ég kærði mig ekki um að hún hringdi á skrifstofuna til að spyrja um mig.

„Í símaskránni.“

„Nú.“

„Ertu hissa?“

„Nei.“

„Ja hérna. Hvílík sjálfumgleði.“

„Er maðurinn þinn ekki heima?“

„Long Beach. Þeir eru að bora nýja holu. Þrjár vaktir. Hann varð að fara þangað. Svo ég skellti mér í strætó. Þú gætir nú alveg sagt að það væri gaman að sjá mig.“

Svo ég hljóp frá brúninni, ekki satt og dúndraði þessu framan í hana, svo hún vissi hvað mér fyndist og skildi þannigv ið málin að við gætum ekki tekið þau upp á ný? Ónei. Það var það sem ég reyndi að gera. Ég stóð ekki einu sinni upp þegar hún fór, hjálpaði henni ekki í kápuna, keyrði hana ekki heim – ég kom fram við hana eins og ég myndi koma fram við hreysikött. Allan tímann vissi ég þó að það yrði líka rigning annað kvöld,að þeir væru enn að bora á Long Beach, að ég myndi kveikja upp í arninum og sitja við eldinn og að dyrabjallan myndi hringja rétt fyrir klukkan níu.

Eftirfarandi texti er úr væntanlegri þýðingu Þórdísar Bachmann á Tvöfaldar tjónabætur (e. Double Indemnity) frá árinu 1943. Efri myndin sýnir þau Kathleen Turner og William Hurt í Body Heat (1981) eftir Lawrence Kasdan, kvikmynd sem var innblásin af sögunni sem og aðlögun Billy Wilder frá 1944, en á neðri myndinni má sjá Barböru Stanwyck og Fred MacMurray í hlutverkum sínum í mynd Wilders.