Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að besta leiðin til að kenna mannkynssöguna sé að kenna hana aftur á bak. En þar sem ég er ekki sögukennari þá verður þessi litli dálkur að duga í bili, þar sem brot úr kvikmyndasögunni munu birtast í öfugri röð. Ég vildi samt sleppa strax frá nútímanum – hann verður til staðar í flestum öðrum bíóskrifum á þessari síðu – og ákvað því að byrja árið 1984, árið sem ég byrjaði sjálfur að fara sæmilega reglulega í bíó. Í kjölfarið munum við rekja okkur aftur kvikmyndasöguna, eina mynd og eitt ár í einu. Þær verða örugglega af öllum toga, frá öllum mögulegum löndum, blockbösterar og indímyndir, óskarsmyndir og gleymdar myndir.
En byrjum árið 1984, á lítilli mynd sem fór kannski ekki svo víða, eftir lítt þekktan írskan leikstjóra að nafni Neil Jordan, sem var að leikstýra aðeins sinni annarri mynd. The Company of Wolves skrifaði hann ásamt Angelu Carter, upp úr sögum eftir Carter sem ég skrifaði um hér.
Neil Jordan er einn magnaðasti leikstjóri samtímans, en um leið einn sá vanmetnasti. Hann sló í gegn með Mona Lisa tveimur árum á eftir þessari mynd, leikstýrði svo meistaraverkinu The Crying Game nokkru síðar og þá var hann með eftirsóttustu leikstjórum Hollywood. Gerði ágæta útgáfu af Interview With the Vampire – sem er um sumt skyld myndinni sem hér um ræðir – en hægt og rólega var eins og hann dytti úr tísku, þótt myndirnar væru áfram góðar. The Butcher Boy og Ondine eru dæmi um magnaðar myndir sem því miður fóru ekki víða.
En The Company of Wolves er bernskuverk – myndrænt er hann strax þarna orðinn frábær en leikurinn er ansi köflóttur. Seinna átti Jordan hins vegar eftir að verða frábær við að vinna með leikurum – til dæmis er einfaldlega erfitt að finna betri leik í nokkurri mynd en Stephen Rea í The Crying Game, tja, nema vera skyldi Forest Whitaker og Jaye Davidson í sömu mynd.
Rea er einn tryggasti samverkamaður Jordans, hefur verið í flestum hans myndum – og á stutta en stórkostlega senu hér, þar sem hann umbreytist í varúlf á sannarlega skelfilegan hátt. Þessi og aðrar umbreytingasenur eru raunar bestu senur myndarinnar, Jordan er afskaplega hugmyndaríkur þegar kemur að því að breyta mönnum í úlfa (og öfugt). Í annarri senu kaupir til dæmis ungur maður sér einkennilegan áburð til þess að fá smá hár á hárlausa bringuna, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Myndin er sem fyrr segir byggð á síðustu sögum í smásagnasafni Angelu Carter, The Bloody Chamber, og í raun er myndin á vissan hátt byggð upp sem nokkrar smásögur sem smitast svo yfir í aðalsöguna. Enda eru smásögurnar iðullega sögur sem amma nokkur segir dótturdóttur sinni – og hægt og rólega flækjast þær sjálfar í þennan sagnaheim, og færa stoðum undir þá fullyrðingu ömmunnar að allar þessar ævintýralegu sögur séu sannar. Hún varar barnabarnið líka við og segir henni að sumir úlfar séu loðnir að utan, en þeir hættulegustu séu loðnir að innan. Og þið megið geta nú hver þessi amma er og hver þessi litla stelpa er.
Jordan skapar torræðan og tímalausan ævintýraheim hér – það er einn bíll til staðar en flest annað bendir til myrkra miðalda. Hér lifa menn í nánu sambandi við úlfa, það nánu að það er ekki endilega rétt að tala um varúlfa í hinni hefðbundnu merkingu – það er einfaldlega mjög óljóst hvar heimur mannana endar og hvar heimur úlfanna byrjar, allir menn virðast hafa einhvern úlf í sér og það má finna mennsku í öllum þessum úlfsaugum.
Galdraskógurinn sem persónurnar flækjast um er svo heillandi og kunnuglegur á sinn hátt, með sögum sem sannarlega eru kunnuglegar – en hann og Carter snúa passlega mikið upp á þær svo við vitum aldrei hvað gerist næst – þótt oft höldum við að við vitum það.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson