Angela Carter dó fyrir rúmum aldarfjórðungi. Ég fékk smá sjokk þegar ég komst að því, hún er nefnilega svo nútímalegur höfundur að það er erfitt að ímynda sér annað en að hún sé sprelllifandi. Enda virtust flestir viðmælendur í nýlegri heimildamynd um hana sammála um það að hún hefði verið það rækilega á undan sinni samtíð að núna loksins væri nútíminn að ná í skottið á henni.
Hún gerði líka sitt til þess að ýta þessum nútíma úr vör. Salman Rushdie segir að hans kynslóð rithöfunda hafi elskað Carter og hún hafi verið valdeflandi fyrir þá: „Hún gaf okkur leyfi til þess að vera villtari og uppátækjasamari.“
Umfjöllunarefnin í hennar frægustu bók, smásagnasafninu The Bloody Chamber, eru þó vissulega afskaplega forn; gömlu Evrópsku ævintýrin sem Grimms-bræður og fleiri söfnuðu. En úrvinnslan er framúrstefnuleg en um leið sækir hún í eldri og háskalegri útgáfur ævintýranna. Titilsagan, The Bloody Chamber, segir Rushdie raunar að tali beint inní samtíma okkar, Carter hafi alltaf skynjað rándýrseðlið í okkur og titilsagan væri „eins góð lýsing á Harvey Weinstein og þú munt finna nokkurs staðar.“
Sagan sú er byggð á ævintýrunum drungalegu um Bláskegg en ég ætla að skoða betur Rauðhettu, úlfana og Lísu í Undralandi.
Spegill, spegill, hvaða blóð er þetta hér?
Carter endursegir ævintýrin með sínu eigin nefi, blandar þeim saman og að sumu leyti er þetta vísir að gagnvirku smásagnasafni, þar sem lesandinn getur að einhverju leyti valið sér útkomu. Gott dæmi eru sögurnar tvær sem byggðar eru á Fríðu og dýrinu, tvær sögur með gjörólíkan móral og allt aðra niðurstöðu. En passa samt einhvern veginn fullkomlega saman í einu safni, enda snúast jú bestu bókmenntirnar oft um mótsagnir lífsins.
Undir lok smásagnasafnsins eru þrjár sögur sem allar eru að einhverju leyti stef við söguna af Rauðhettu; The Warewolf, The Company of Wolves (sem er mögulega næst hefðbundnu Rauðhettu-sögunni en samt óralangt frá henni) og Wolf-Alice, sem er líklega lengst frá upphaflegu sögunni. Ég hef heyrt að hún sæki töluvert í löngu gleymda útgáfu (eða afbrigði) af Rauðhettu, „Um stúlkuna sem var bjargað af ylfingum,“ en ég finn ósköp lítið meira um þessa sögu.
En Úlfa-Lísa sækir í fleiri sögur, margt minnir líka á Fríðu og dýrið, Lísu í Undralandi eins og nafnið gefur til kynna og nútímaævintýri sem komu út löngu eftir daga Grimms-bræðra eins og Móglí og Tarzan. Heiminum sem persónurnar byggja er ágætlega lýst í The Company of Wolves: „Börn eru ekki lengi ung í þessu ótamda landi. Hér eru engin leikföng fyrir þau þannig að þau vinna baki brotnu og öðlast fljótt dýrkeypta visku […]
Lísa þessi er úlfabarn sem kemur aftur til mannheima þegar úlfamóðir hennar er skotin. (kannski ætti maður að bæta Bamba við í listann yfir áhrifavalda?) Hún er fyrst tekin í fóstur hjá nunnum en eftir að þær gefast upp á henni endar hún hjá Hertoganum – einkennilegum varúlfi sem erfitt er að átta sig á. Hann lætur hana að mestu í friði og megnið af sögunni snýst einfaldlega um það hvernig Lísa lærir á þennan nýja heim.
Fljótlega eftir að hún flytur inn til varúlfsins gerist tvennt; hún uppgötvar spegil og hún finnur blóð í skauti sér. Þannig er hún að uppgötva sjálfa sig sem konu um leið og hún er að uppgötva sjálfa sig sem manneskju. Hægt og rólega áttar hún sig svo á að spegilmyndin er ekki eftirherma og vinur, heldur hún sjálf, en það hjálpar henni enn frekar – að sjá sjálfa sig, að öðlast þá sjálfsvitund sem er manneskju nauðsynleg.
Áður var hún nefnilega aðeins dýr. „Líkt og villtar skepnur lifði hún án framtíðar. Hún lifði aðeins í nútíðinni, fúga hins óslitna, heimur stanslausra líkamlegra upplifana sem er jafn laus við von og hann er laus við örvæntingu.“
Það eru hins vegar fæstir sem þeir sýnast í þessum sögum Carter. Mörkin á milli persóna eru oft óljós, veiðimaðurinn og úlfurinn í „The Company of Wolves“ renna til dæmis saman, hér eru ekki bara varúlfar heldur alls konar var-kvikindi, manneskjurnar og dýrin byggja saman heim þar sem allir geta bókstaflega orðið hvað sem er. Sögurnar eru draumkenndar og heillandi, kitla eitthvað djúpt í undirmeðvitundinni, sem er auðvitað gegnsósa í ævintýrum.
Loks er svo rétt að mæla sérstaklega með heimildamyndinni sem ég minntist á, Angela Carter: Of Wolves & Women, sem hægt er að horfa á á BBC ef þið eruð í Bretlandi (eða getið þóst vera í Bretlandi). Í þættinum er rætt við samtíðarfólk hennar eins og vinkonu hennar Margaret Atwood, sem og þau Jeanette Winterson (sem kom einmitt nýlega við sögu hér á smyglinu) og Anne Enright, sem lærði ritlist hjá Carter. En einnig eru fengnar breskar afbragðsleikkonur á borð við Kelly Macdonald, Lauru Fraser og Maureen Lipman til að lesa texta Angelu og frábærar klippimyndir notaðar til að endurskapa heim skáldkonunnar á meðan Hattie Morahan leikur Angelu sjálfa – auk þess sem hún birtist stöku sinnum sjálf í gömlum klippum. Þetta er hreinlega skólabókardæmi um hvernig á að gera góða heimildamynd um rithöfund – og rétt að hvetja Ríkissjónvarpið bæði til þess að sýna myndina og reyna að gera jafnvel álíka hugmyndaríkar og snjallar heimildamyndir um íslenska listamenn.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson